Stjórn fiskveiða

13. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 12:14:01 (386)


[12:14]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði að það væri ábyrgðarhluti fyrir okkur að fara í óbreytt banndagakerfi smábáta eins og málin standa í dag. Þess vegna er verið að flytja þessi frv. vegna þess að menn eru að leggja til leiðir, umdeilanlegar leiðir vissulega, sem gera það að verkum að ekki er verið að pína þennan flota inn í banndagakerfið óbreytt. Vegna þess að við sáum það einfaldlega ekki fyrir í lagasetningunni fyrir rúmu ári síðan að það stefndi í þennan mikla fjölda banndaga. Ef við hefðum séð það fyrir þá hefðum við að sjálfsögðu reynt að útfæra kerfið með þeim hætti fyrir rúmu ári síðan að til þess hefði ekki þurft að koma.
    Aðalatriði þessa máls er í mínum huga það að hér er sett í frv. ákvæði til bráðabirgða III þar sem gert er ráð fyrir því að hægt sé að hverfa frá banndagakerfi og til róðrardagakerfis, sóknardagakerfis, alveg eins og Landsamband smábátaeigenda lagði til fyrir rúmu ári síðan. Þá komust menn að þeirri niðurstöðu að það kerfi væri ekki framkvæmanlegt. Ég er á margan hátt sammála hv. 4. þm. Norðurl. e. um það að ég held að í þessu tali um að þetta sé svo erfitt vegna eftirlitsins séu menn að fara með miklum ýkjum. Ég er sannfærður um það og hef sannfærst um það á undanförnum dögum að sú tækni sem þarf til til að eyða þeirri tortryggni, ekki til að sannfæra mig heldur til að eyða þeirri tortryggni sem hefur ríkt í garð þessa kerfis er til staðar. Þess vegna finnst mér að við eigum ekki hér og nú að deila um það eða reyna að gera tortryggilegar einhverjar tæknilegar lausnir sem til staðar eru. Það hefur verið bent á fjölmargt í þessu sambandi, það hefur verið bent á strandstöðvalausnina, það hefur verið bent á þessa gervihnattalausn sem að sjálfsögðu er engin ný lausn, þetta er allt saman til staðar eða beitt með öðrum hætti. Og það hefur verið bent á að það mætti hugsanlega gera þetta í gegnum lóðsinn. Það er ekki okkar viðfangsefni við 1. umr. að ákveða það. Aðalatriðið er það að við tökum jákvætt á því sjónarmiði og því markmiði sem fram kemur í frv. um að færa okkur frá banndögunum að róðrardögunum. Það finnst mér vera stærsta málið sem við erum að ræða um í dag.