Stjórn fiskveiða

13. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 12:16:17 (387)


[12:16]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég er ekkert að ræða þetta með kröfu um að við leysum þessi mál öll í umræðunni. Ég er hins vegar að reifa þau vandamál sem hér er við að fást og lýsa sjónarmiðum til þeirra og auðvitað læt ég það koma fram ef ég tel til að mynda að menn séu að ýkja eða gera sér nánast upp erfiðleika í sambandi við það að útfæra þetta róðrardagakerfi sem ég held að sé ekkert óskaplega flókið. Ég held að menn taki enga óskaplega áhættu með því að byggja þar á einhvers konar hefðbundnu eftirliti eða treysta því að menn hlýði lögum. Er það allt í einu þannig að það sé fundin ein stétt í landinu sem ekki sé hægt að setja tilteknar reglur gagnvart af því að það sé alveg öruggt mál að hún muni svindla svo ofboðslega nema fullkomið gervihnattaeftirlit sé í gangi? Ég skil ekki almennilega þennan málflutning að þetta skuli vera svona. Ég sé ekki að við hefðum yfirleitt miklar reglur hér í landi, boð eða bönn, ef eftirlitið þyrfti í öllum öðrum tilvikum að vera svona óskaplega skothelt. Við mundum ekki leggja á mikla skatta, er það, því við vitum að það er dálítið svikið undan skatti. Við yrðum náttúrlega að gefast upp við það með sömu rökum.
    Þetta er bara þannig að þetta stenst ekki. Ég teldi langheppilegast að við fengjum tíma til að útfæra þetta mál. Það sem ég teldi skynsamlegast að gera væri að fresta afgreiðslu þessa máls að öðru leyti en því að úthluta því sem stendur til að úthluta til jöfnunar gagnvart aflamarksbátunum og láta milliþinganefnd með einhverjum hætti vinna í því að útfæra þessi kerfi almennilega. Það er að sjálfsögðu hægt að skapa sér tíma í þessum efnum með bráðabirgðaráðstöfunum. Það væri hægt að framlengja núverandi ástand eitthvað lengra inn á haustið o.s.frv. Það eru ýmsir möguleikar til í því ef viljinn er fyrir hendi að leita að aðferðum sem ganga upp í þessu sambandi. En það að ætla að keyra þetta svona í ár á jafnóljósum forsendum og raun ber vitni og þegar þetta jákvæða í málinu, sem ég er sammála hv. þm. að er, þ.e. vonin um róðrardagakerfið, er skrifað í skýin. En þannig er staða málsins enn þá, því miður, þó eitthvert ágætt ákvæði til bráðabirgða III sé þarna fyrir hendi. Það lágmark hefði nú verið að snúa málinu við. Lögfesta ákvæðin um róðrardaga en hafa síðan bráðabirgðaákvæði um að gildistöku þess væri eitthvað frestað.