Stjórn fiskveiða

13. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 13:13:56 (400)


[13:13]
     Siv Friðleifsdóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði hér áðan að mér heyrðist að þingmenn Framsfl. hefðu hótað mér sérstaklega. Það er ekki rétt. Þingmenn Framsfl. hafa aldrei hótað mér í þessu máli. Hins vegar hafa flokksmenn haft samband við mig, það er rétt að þeir hafa haft samband, og lýst því yfir að þeir væru ekkert sérstaklega ánægðir með áherslur okkar framsóknarmanna í Reykjanesi, enda erum við með nýjan lista, nýtt fólk. Og þó það nú væri að nýtt fólk kæmi með nýjar hugmyndir.

    Þó að maður hafi fengið ákveðin skilaboð um það að aðrir flokksmenn væru ekki ánægðir með þetta þá létum við það ekki aftra okkur. Við héldum samt áfram og ræddum um okkar skoðanir sem þið öll vitið hvernig voru.
    Hins vegar vil ég líka segja það að okkar framganga í þessu máli varð þó þess valdandi að það er ekki sett þorskaflahámark á alla. Það er þó val og það er m.a. okkur framsóknarmönnum í Reykjanesi að þakka.