Stjórn fiskveiða

13. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 16:27:43 (418)


[16:27]
     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Herra forseti. Ég fagna því enn og aftur hversu mikla áherslu stjórnarliðar leggja á það að hægt verði að koma upp róðrardagakerfinu þegar fyrir upphaf næsta fiskveiðiárs. Ég er sannfærður um að það er tæknilega kleift og endurtek það sem ég sagði hér áðan að mér þykja nú veður hafa skipast í lofti.
    En mig langar að spyrja hv. þm. Einar Kristin Guðfinnsson út í eitt tæknilegt atriði. Þegar hann talar um róðrardagakerfi þá skil ég hann svo að hann eigi ekki við að það sé jafnframt einhvers konar aflaviðmiðun, einhvers konar aflahámark sem sá floti sem mundi sækja undir róðrardagakerfi þarf að sæta. Er það rétt skilið hjá mér?