Stjórn fiskveiða

13. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 17:55:05 (435)


[17:55]
     Einar Oddur Kristjánsson (andsvar) :
    Herra forseti. Lögin um samræmingu veiða og vinnslu, lög nr. 12/1975, voru einmitt til þess að tryggja að það væri jafnvægi í greininni. Því miður var það að menn hurfu frá því að fara eftir þessum lögum og fóru inn í þetta kvótakerfi því að hefðu menn haldið áfram að keyra þetta áfram eftir lögunum frá 1975 sem helgaði réttinn til þess að fá leyfi fyrir rækjuna og skelina þá væru engin vandræði á Barðaströnd. Því miður fóru menn frá lögunum frá 1975 sem þér þykir svo mikill voði í. Þetta eru ekki sérréttindi heldur réttindi aðeins til þriggja eða fjögurra ára til þess að tryggja það að menn geti gert tilraun. Þetta veist þú, hv. þm., og þarft ekki að vera að nota það til að gera mig tortryggilegan á nokkurn hátt. Þú veist það mætavel að þetta er gert til þess að tryggja það að tilraunin sé gerð, svo við getum gengið úr skugga um hvort þarna sé um auðlind að ræða, hvort þarna sé um nytjanlegan stofn að ræða. Og það er rétt af löggjöfinni að sjá til þess á hverjum tíma að menn geti fengið frið til að kanna slíkt. Ég veit að hv. þm. er mér alveg sammála um þetta.