Stjórn fiskveiða

13. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 18:01:15 (438)

[18:01]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þær tillögur sem við frambjóðendur Sjálfstfl. á Vestfjörðum lögðum fram fyrir kosningar fólu í sjálfu sér ekki í sér breytingar á úthlutuðum heildarafla á einstökum tegundum. Þessar tillögur snerust ekkert um það. Þær snerust fyrst og fremst um tvennt: Annars vegar það sem við töldum vera forsendur fyrir sóknarstýringu sem var það að ná tökum á stærð flotans, draga úr sóknargetu hans, takmarka með öðrum orðum þannig aðganginn að auðlindinni. Við vorum að hafna hugmyndinni að aflamarkskerfi þar sem aflaheimildum er úthlutað á hvert skip með þremur aukastöfum. Við vorum að hafna því kerfi en við sögðum jafnframt: Ef við ætlum að fara að stjórna veiðunum með sóknarstýringu þá mun það mistakast hér eins og alls staðar annars staðar nema menn nái tökum á stærð flotans. Þetta er sú hugmynd sem býr að baki því sem við höfum verið að segja.
    Svo er það önnur saga að við höfum gert okkur grein fyrir því og við lögðum á það áherslu og sögðum það margoft að banndagakerfið, eins og það var hugsað í mjög góðri trú fyrir rúmu ári síðan, var að springa. Okkur tókst ekki að halda utan um sóknaraukninguna vegna þess að það vantaði ákveðin ákvæði í lögin sem gerðu það að verkum að hægt væri að draga úr þessari sóknaraukningu og þess vegna var kerfið að springa innan frá og það var að skaða þá menn sem höfðu hagsmuni af því að geta unnið innan þess.
    Þess vegna var það niðurstaða ríkisstjórnarflokkanna nú í vor að fara í þá vinnu á grundvelli málamiðlunar og samkomulags að reyna að útbúa kerfi sem gerði það að verkum að til þessarar miklu fjölgunar banndaga þyrfti ekki að koma. Hugmyndin að róðrardagakerfinu er grein af þessum meiði, er angi af þessu og ég hef lagt á það mikla áherslu í þessari umræðu að það sé það sem stóra breytingin felur í sér að við getum horfið frá banndagakerfi þar sem fyrir fram er ákveðið hvaða dag menn mega róa að róðrardagakerfi. En auðvitað mun róðrardagakerfið líka fela í sér takmörkun á aðganginum að miðunum, það fer ekki á milli mála.