Stjórn fiskveiða

13. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 18:05:47 (440)


[18:05]
     Guðmundur Hallvarðsson :
    Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið hér áður þá fer þessi umræða fram í skugga verkfalls og snýr málið einkum og sér í lagi að verðmyndun í sjávarútvegi. Það snertir vissulega þann málaflokk sem hefur verið svo mjög til umræðu í dag og snertir auðvitað hagsmuni sjómanna mjög. Rætt hefur verið um að taka aftur upp það sem kallað var og er verðlagsráð sjávarútvegsins en vona ég að svo verði ekki í ljósi þess að á árum áður þegar Verðlagsráð var og hét var það oftar en ekki að ríkisstjórnir áttu oft í miklum erfiðleikum og munaði oftar en ekki minnstu að hreinlega yrði þingrof vegna þeirra mála svo hatrammar voru þessar deilur oft. Nú var tekin upp önnur ákvörðun, verðmyndun í sjávarútvegi með þeim hætti sem nú er, þ.e. hluti af þeim afla sem á land kemur er settur á markað þó ekki hafi gengið þar fram um eins og sjómenn almennt áttu von á. Kemur þar margt til, einkum og sér í lagi hin dreifða byggð og

að mörg smærri sjávarpláss hafa ekki haft tök á að koma upp markaði með öðrum hætti kannski en að fáein hafa tengst svokölluðum fjarskiptamarkaði.
    Því kem ég nú inn á þetta og byrja mál mitt á því að í döprum málum stöndum við nú hvað sjávarútveginn snertir svo mjög er mikil nauðsyn á að koma flotanum úr höfn til að afla þjóðarbúinu tekna. Ég tel það tvímælalaust vera mikið mál að standa svo að verðmyndun í sjávarútvegi að sú þróun fái að eiga sér stað eins og hún hefur verið hingað til, þ.e. að fleiri og fleiri sjávarútvegsfyrirtæki hafa verið að setja afla sinn á markað og er það vel. Hitt hefur hins vegar brugðið mjög skugga á og það eru þeir einstakir útgerðarmenn sem hafa tekið þann hátt upp, eins og hefur komið fram í ræðum manna fyrr í dag, að fá leiguliða til þess að afla sjávarfangs. Þeir hafa átt kvótann og menn hafa farið í svokallaða veiði tonn á móti tonni hvar sjómenn hafa þá jafnvel fengið 20--30 kr. fyrir kílóið á sama tíma og kollegar þeirra hafa verið að landa í sömu höfn afla sem á markað hefur farið og þar hefur verið greitt 130--140 kr. fyrir kílóið.
    Það er ekkert launungarmál að mat okkar þingmanna Sjálfstfl., hvort sem þeir eru þingmenn Reykjavíkur eða hinnar dreifðu byggðar, er að mikilvægi smábáta í hinni dreifðu byggð er mikið og stórt og við gerum okkur fulla grein fyrir þörfinni þar á, einkum og sér í lagi þegar litið er til atvinnumála.
    Við stöndum hins vegar frammi fyrir því nú að skiptin um þá of fáu fiska sem í sjónum eru eru mjög umdeilanleg. Þar hafa stjórnvöld reynt að halda svo á málum að nokkurs jafnræðis gætti milli þeirra aðila sem stunda sjó á opnum litlum bátum og þeirra sem á dýpra vatn hafa sótt en sitt sýnist hverjum þar um hvernig til hefur tekist. Það sem einkum hefur verið deilt um hér er hvernig eigi að halda á í sambandi við hina smærri báta, þ.e. róðrardagar eða sóknardagar með banndögum, og kemur þá aflamark þar inn í.
    Hv. 9. þm. Reykv. kom áðan inn á öryggisþáttinn varðandi smábátana og það gerði hv. 4. þm. Vestf. líka. Ég er þeim báðum sammála um það að öryggisþátturinn er ekki svo lítill þegar menn hafa horft til þess að ákveðnir sóknardagar hafa verið fyrir smærri báta sem hefur leitt til þess að þeir hafa róið í mjög vafasömum veðrum og hafa þeir sem í landi eru haft verulegar áhyggjur.
    Það sem hins vegar mundi gjörbreyta þessu máli er auðvitað ef menn hefðu rétt á að velja sér róðrardaga og mundi það vissulega gjörbreyta því áhyggjuefni sem menn hafa haft hvað varðar öryggismál. Engu að síður mundi um leið vissulega skapast aukin sókn, þ.e. menn gætu þá frekar verið að þegar þeir geta valið góðviðrisdaga til sóknar.
    Hér hefur nokkuð verið rætt um að það væri tilbúin aðferð til þess að fylgjast með bátum ef upp yrði tekið róðrardagakerfi og veit ég það að það mundi vissulega auðvelda allt eftirlit með smærri bátum og jafnvel með fiskiskipum almennt. Ég tel fullvíst að það verði ekki eingöngu hinir smærri bátar sem munu þá setja þessi tæki upp heldur enn fremur stærri fiskiskip þannig að hægt verði að fylgjast með þeim vegna fiskveiða og ekki hvað síst ef samtengt yrði sjálfvirkri tilkynningu vegna öryggismála.
    Hv. 9. þm. Reykv. kom inn á það áðan að einn af öryggisþáttunum sem þyrfti að skoða væri lögskráning sjómanna og gerði það að nokkru umtalsefni og tengdi það tryggingamálum, einkum sjómanna á smærri bátum. En nú er það svo að með fjarskiptakerfi sem verið er að tala um er einnig hægt að taka inn lögskráningu sjómanna þannig að jafnhliða því sem fylgst væri með bátnum eða viðkomandi skipi væri hægt að fylgjast með því líka hvernig lögskráð væri á viðkomandi skip. Það hefur verið rætt um það að tölvutengja og samtengja lögskráningu sjómanna um allt land og væri þá sjálfsagt létt verk að tengja þetta kerfi allt saman, bæði eftirlit með þeim bátum þegar að róðrardögum kæmi, sjálfvirku tilkynningarkerfi og svo líka lögskráninguna.
    Ég veit að hér hefur verið ákveðin atkvæðagreiðsla klukkan hálfsjö þannig að ég ætla mjög að stytta mál mitt. En ég vildi þó aðeins koma inn á það sem 2. þm. Vesturl. nefndi varðandi skiptingu aflans, þ.e. að deila 5.000 tonnum á aflamarksskip önnur en frystitogara. Það er rétt eins og hann gat um áðan að það er ákveðið vandamál sem snýr að ferskfisktogurunum eða ísfisktogurunum, sem svo eru kallaðir, vegna þess að þessi hlutdeildarskipting sem á að miða við, að ekki verði deilt meira en 10 tonnum að hámarki á hvert skip, kemur auðvitað minni skipunum til góða en hinum stærri ekki að sama skapi. Enn stöndum við þá frammi fyrir þeim vanda sem er kannski rauði þráðurinn í gegnum sjávarútvegsstefnuna, það eru of fáir fiskar í sjónum til skiptanna og þótt reynt sé að skipta réttilega niður á milli veiðigreina verður aldrei svo gert að öllum líki.
    Landssamband smábátaeigenda hefur sent alþingismönnum bréf sem dagsett er í gær. Það er allrar athygli vert og vil ég, með leyfi forseta, vitna aðeins til niðurlags bréfsins. Þar segir:
    ,,Landssamband smábátaeigenda mótmælir harðlega framkomnu frumvarpi. Landssamband smábátaeigenda hefur í langan tíma barist fyrir því að sett verði á svokallað leyfisdagakerfi þar sem eigendur bátanna gætu sjálfir valið sína sóknardaga. Hingað til hefur því verið haldið fram að með slíku kerfi sé ekki hægt að hafa eftirlit. Nýjustu upplýsingar hnekkja þessum viðbárum. Þá hafa smábátaeigendur sjálfir boðið alls kyns sóknartakmarkanir og þá sérstaklega bent á, eða allt frá árinu 1987, að raunverulegar úreldingarreglur verði settar fyrir smábátana. Stjórnvöld hafa ekki allan þennan tíma séð ástæðu til að verða við þessu og því með þögninni hleypt látlaust inn nýrri afkastagetu í smábátaflotann. Sú er ástæða aflaaukningar krókaflotans og því stjórnvalda að axla ábyrgð.``
    Þegar litið er til þessa frv. um breytingu á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari

breytingum, verð ég að segja að niðurlag þessa bréfs smábátaeigenda kemur mér nokkuð á óvart. Einkum og sér í lagi þegar litið er til þess texta sem ég var hér að lesa í niðurlagi bréfs Landssambands smábátaeigenda.
    Í því frv. sem hér liggur fyrir er einmitt að því stefnt að taka upp það kerfi sem þeir óska sér helst, þ.e. að það verði róðrardagar og þeir gætu þá ráðið sjálfir hvenær á sjó væri farið.
    Í annan stað tala þeir um að hér hafi orðið mikil aukning í smábátaflotanum og það sé stjórnvalda að axla ábyrgð. Það held ég að dyljist engum að í þessu frv. er verið að gera það. Auðvitað má deila um það hvort ekki hefði átt að taka fyrr til ráða varðandi fjölgun smábáta en kannski má segja að seint sé betra en aldrei.
    Virðulegi forseti. Það er fjölmargt sem hefur komið hér fram og er allrar athygli vert varðandi það frv. sem er til umræðu. Þar sem ég sit í sjútvn. hef ég hlustað af athygli á ýmsar ábendingar sem fram hafa komið og er ekki í nokkrum vafa um að í sjútvn. eigi eftir að fara miklar umræður um frv. og einkum um 2. gr.
    Að síðustu er það svo að það sem mestu skiptir er að hinu háa Alþingi takist að halda svo á málum og leggja þau þannig fyrir þá sem eftir eiga að starfa, sjávarútveginn, að hann megi vera í sátt við sjálfan sig hvort sem litið er til sjós eða lands.