Stjórn fiskveiða

16. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 19:50:59 (531)


[19:50]
     Magnús Stefánsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hér flutti hv. þm. Gísli Einarsson athyglisverða ræðu þar sem m.a. var ákveðin fræðsla um fiskveiðar, um beitingu veiðarfæra o.s.frv. Það er af hinu góða að fá upprifjun í því. En annað vakti athygli mína af því sem hv. þm. nefndi. Það var að sá sem hér stendur hafi lofað smábátamönnum ( GE: Gefið fyrirheit.) aukningu ef ég hef heyrt rétt. Ég sat í hliðarsal þegar hann flutti sína ræðu og nefndi þetta. Mig langar af þessu tilefni að rifja upp fyrir hv. þm. hvað ég sagði fyrir kosningar og er hér með ræðu sem ég flutti á einum framboðsfundi. Þar nefni ég að það þurfi að gera ákveðnar lagfæringar á fiskveiðistjórnunarlöggöfinni og nefni sem dæmi að það þurfi að finna leiðir til þess að smábátaútgerðin geti haft eðlilega afkomu og nefni þar að það eigi jafnt við um krókaleyfisbáta sem smábáta á aflamarki.
    Varðandi aflamarksbáta nefni ég það í ræðum mínum að aflamarksbátar, smábátar, hafi svo litlar veiðiheimildir að það þurfi að rétta þeirra hlut. Ég vil vekja athygli á því í frv. sem liggur fyrir að er gert ráð fyrir því að úthluta 5 þús. lestum af þorski til aflamarksbáta, einmitt til þessa bátaflokks. Í frv. er gert ráð fyrir því að smæstu bátar muni fá hlutfallslega mest í sinn hlut. Þarna er því orðið við þessu fyrirheiti sem hv. þm. nefnir.
    Ég talaði einnig um krókaleyfisbáta og nefndi að á banndagakerfinu sem er í gildi þurfi að gera lagfæringar og finna lausn á málum þessa bátaflokks. Ég vek athygli á að í frv. sem liggur fyrir er einmitt gert ráð fyrir að tekið verði upp róðrardagakerfi, reyndar ekki strax en um leið og því verður við komið og hæstv. sjútvrh. gefinn kostur á því með ákveðnum hætti.
    Ég vil einnig vekja athygli á því að í stefnuyfirlýsingu hæstv. ríkisstjórnar í kaflanum um sjávarútvegsmál stendur, með leyfi forseta ,,að mest verði byggt á aflahlutdeildarkerfi í sjávarútvegi, en banndagakerfi svonefndra krókabáta verði tekið til endurskoðunar, skapað verði svigrúm til að rétta hlut þeirra aflamarksbáta sem harðast hafa orðið úti vegna minnkandi þorskafla``. Ég tel að þarna sé akkúrat verið að tala sama máli og ég talaði fyrir kosningar þannig að fyrirheitin sem hv. þm. nefnir eru komin í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.