Stjórn fiskveiða

16. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 21:17:26 (542)


[21:17]
     Hjálmar Árnason :
    Herra forseti. Mig langar í upphafi að víkja að þeim orðum sem fallið hafa frá nokkrum hv. þingmönnum um aukna fiskigengd á yfirstandandi veiðiári. Ég vil vara mjög við kæruleysislegu tali um aukna fiskigengd. Hér hafa komið fram ýmsar skýringar á því, m.a. frá hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni, þar sem hann gefur þá skýringu að aukna fiskigengd þorsks megi rekja til minnkandi togveiða. Við höfum líka heyrt þær skýringar frá öðrum að aukna fiskigengd þorsks á landgrunn megi rekja til kalds sjávar fyrir Norður- og Austurlandi. Við höfum líka heyrt þá skýringu að í reiknilíkönum fiskifræðinga við spár um stærð fiskstofna sé gert ráð fyrir ákveðnu hlutfalli af náttúrulegum dauðdaga þorsksins. Sé þetta hlutfall of hátt og fært niður þó ekki sé nema um örfá prósentustig þá geti þorskurinn í sjónum verið nokkur hundruð þúsundum tonnum meiri en gert er ráð fyrir í dag.
    Ég nefni þetta til að undirstrika það að óvissan um stærð fiskstofna er mikil. Það væri óskandi að menn hefðu rétt fyrir sér þegar þeir tala um að fiskurinn í sjónum sé mun meiri nú en áður. En ég held að með tilliti til framtíðarhagsmuna þjóðarinnar verðum við að láta þorskinn njóta vafans því að ofveiði verður aldrei tekin aftur.
    Þá langar mig aðeins til þess að víkja að orðum hv. þm. Gísla Einarssonar þar sem hann lagði til, að vísu óformlega, að frv. um breytingar á lögum um fiskveiðistjórnun yrði frestað til haustsins. Ég er dálítið undrandi á þeim hugmyndum vegna þess að vandinn er mikill og standi lögin óbreytt þá vegna blessunarlega mikillar veiði á síðustu árum og yfirstandandi ári blasir í rauninni gjaldþrot við öllum krókabátum verði ekkert að gert og það er það sem menn reyna að gera núna, að ná lendingu.
    Ég tek undir vonbrigði hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um að ekki skuli hafa náðst samstaða um þetta viðkvæma en mikilvæga mál og tek jafnframt undir með hv. þm. um að líklega megi kenna um tímaskorti.
    Hér hafa komið fram skiptar skoðanir og kemur í sjálfum sér engum á óvart. Mikið hefur verið rætt um það hvað hver sagði við hvern og hverju var lofað fyrir kosningar. Ég tel þá hv. þm. sem hafa gert það að aðalatriði vera á villigötum. Það er ekki meginatriði málsins í dag. Meginatriði málsins er að ná samstöðu þannig að hagur sem flestra verði tryggður. En það þýðir ekki og er ábyrgðarleysi að ganga margar vikur aftur í tímann og velta sér upp úr því hvað hver einstakur maður sagði. Við vitum það að þegar stjórn hefur verið mynduð, þegar menn hafa skipað sér í fylkingar, þá koma menn úr ólíkum áttum og hver reynir að berjast fyrir sínum sjónarmiðum og menn ná einhvers staðar saman. Um það snýst málið núna.
    Málið snýst e.t.v. fyrst og fremst um það hvaða afstöðu þeir taka til krókabáta og þeirra atriða frv. sem þar koma fram. Ég skal fúslega lýsa því yfir að um sumt er ég ánægður með frv. en um aðra þætti lýsi ég mikilli óánægju með. Það er einkum það sem snýr að krókabátum.
    Í umræðunni hefur komið fram að menn óttast að þeir um það bil 1.000 krókabátar sem til eru hér í landi kunni að koma af fullum sóknarþunga inn á miðin og þar liggi ákveðin hætta. Og til þess að verjast þeirri hættu eru margir leiðir og það er þar sem hnífur stendur í kúnni.
    Menn hafa m.a. rætt um það, bæði í sjútvn. og hér í þingsölum, að skoða sérstaklega þá sem hafa beina atvinnu af krókaveiðum. Það hefur gengið heldur illa að finna hverjir eru hinir eiginlegu atvinnumenn. Sumir giska á að um það bil þriðjungur og ríflega það af hinum 1.000 bátum séu bátar sem stunda þetta sem fasta atvinnu eða eru í eigu slíkra manna.
    Ég reyni að horfa á þann hluta frv. jákvæðum augum þegar ég segi að í því ágæta plaggi sem Guðjón A. Kristjánsson hélt hér á lofti, þ.e. útfærsla Sambands smábátaeigenda á frv. eins og það lítur út núna, tel ég að sé komið nokkuð til móts við þá sem eru atvinnumenn og hafa það að aðalatvinnu að vera krókamenn, að vera krókakarlar og eru stoltir af og eiga að vera. Samkvæmt þessari útfærslu verður erfitt fyrir þá sem hafa aðra atvinnu en stunda krókaveiðar að sumri til að sækja af jafnmiklum krafti inn í þennan takmarkaða krókakvóta sem um er að ræða, þessi 21.500 tonn. Þetta segi ég til þess að reyna að velta upp jákvæðri hlið á þessu viðkvæma máli.
    Þetta snýst líka um það að skapa öryggi og vissulega munu sumir krókakarlar velja aflamarkið og telja sig hafa fengið meira rekstrarlegt öryggi en þeir hafa í dag, en um það verða ekki allir sáttir. Ætla má að þeir sem velja aflamarkið séu svo lánsamir að hafa verið í hópi hinna aflahæstu. En ég lýsi ótta um þá þróun sem kann að verða í framhaldinu ef --- og ég undirstrika --- ef margir velja aflamarkið sem þó er ekki víst. Ég tel þó vera til bóta það ákvæði þar sem tekið er skýrt fram að aflaheimildir eru ekki framseljanlegar. En það segi ég og tek undir með hv. þm. Guðjóni Guðmundssyni að mesta trú hef ég á róðrardögum og ég hygg að flestir hv. þingmenn séu þeirrar skoðunar einfaldlega vegna þess að í því felst mest öryggi.
    Það hefur komið fram hjá hæstv. sjútvrh. að hann muni hraða útfærslu á eftirlitskerfi sem er í rauninni ágreiningsatriðið um það hvort róðrardögum verði komið á strax eða ekki. Ég vil brýna hæstv. sjútvrh. til þess að flýta þessu og lýsi því yfir að að sjálfsögðu treysti ég hæstv. sjútvrh. til þess.
    Ég vil að auki lýsa yfir áhyggjum mínum. Fari margir krókabátar yfir á aflamark mun það auka smáfiskadráp. Þá munu þeir bátar frá og með þeim degi að þeir hefja sókn á aflamarki hætta að veiða smáfisk. Við vitum að smáfiski er hent í dag hjá þeim bátum sem eru á aflamarki og er ekki á bætandi.
    Ég lýsi líka óánægju minni með það ákvæði 1. gr. frv. þess efnis að þegar bátur er endurnýjaður skuli hann vera helmingi minni en sá sem fargað er. Ég hef talið eðlilegt að setja gólf eins og fram hefur komið fyrr í kvöld hjá nokkrum hv. þm., gólf miðað við t.d. þrjár smálestir eða svo. Að öðrum kosti kunni menn að sitja uppi með litlar skektur sem lítið duga til róðra. En ég vil líka lýsa yfir ánægju minni með fyrsta bráðabirgðaákvæðið um útdeilingu 5.000 lesta til aflamarksbáta, þeirra sem hafa orðið fyrir mestri skerðingu og með þeirri framsetningu sem fram kemur í frv. er einmitt komið til móts við þarfir minni báta. Þeir munu njóta best af enda hygg ég að almenn samstaða sé um þetta ákvæði.
    Ég tel það líka vera veigamikið atriði að verja um það bil 500 smálestum til þess að verja þær byggðir sem háðar eru krókabátum eingöngu og ég tel það vera bitamun en ekki fjár hvort sú úthlutun fer fram á vegum sjútvrn. eða Byggðastofnunar. Meginatriðið, herra forseti, er það að menn greinir á um eftirlitskerfið til að koma á róðrardögum. Um leið og ég árétta að ég er ánægður um sumt með frv. en hef lýst óánægju minni með aðra þætti ítreka ég þá brýningu mína til hæstv. sjútvrh. að koma á eftirlitskerfi, flýta því með öllum mögulegum hætti þannig að sátt megi nást í þessu viðkvæma máli.