Stjórn fiskveiða

16. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 21:56:07 (551)


[21:56]
     Einar Oddur Kristjánsson (andsvar) :
    Herra forseti. Ég lýsti því áðan að í kosningabaráttunni hefðum við lagt áherslu á að berjast fyrir breyttri skipan róðra hjá smábátum. Taka upp róðrardaga í staðinn fyrir hið hörmulega banndagakerfi sem var endurnýjað hér fyrir rúmu ári fyrir tilstilli einhverra ónefndra manna. Ég lýsti því líka að það væri sannfæring mín að með því að flytja þessa tillögu í sæmilegri sátt við hæstv. sjútvrh. þá værum við í raun að vinna að þessu máli eins hratt og mögulegt væri. Ég sagðist líka vera um það sannfærður að okkur tækist að ná þessu núna í haust eða í síðasta lagi fyrir veturnætur eða um áramót. Ég geri það í fullkomnu trausti þess af því að ég þykist þekkja um hvaða atriði er að ræða og við höfum kynnt okkur það vel. Það er tillitssemi við þá umbjóðendur sem hagsmuna hafa að gæta. Það er líka af tillitssemi við þá umbjóðendur sem eiga allt sitt undir því hve margir dagar koma til skipta þeirra sem ég gerði það að skora á hv. 15. þm. Reykv. ef hann brysti ekki kjark að standa með mér við 3. umr. og rýmka hag þessa fólks.