Stjórn fiskveiða

16. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 22:55:39 (561)


[22:55]
     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Herra forseti. Þetta verður alltaf skrautlegra hjá okkur í kvöld. Hv. þm. Kristján Pálsson lýsir því yfir alveg blákalt að hann styðji það frv. sem hæstv. sjútvrh. hefur lagt til. En hann hefur haldið fleiri ræður í kvöld og þá vill hann allt aðra hluti. Hann er sem sagt enn einn af hv. þm. Sjálfstfl. sem hefur allt aðra sannfæringu en þeir ætla að fylgja í atkvæðagreiðslu á morgun og það þykir mér miður. Það eru líka staðleysur hjá hv. þm. Kristjáni Pálssyni að það hafi verið bestu menn hæstv. sjútvrh. sem segja honum það að sé af tæknilegum forsendum ekki hægt að setja upp þetta eftirlitskerfi, það er einfaldlega rangt. Hans bestu menn eru staddir hér í salnum í kvöld þó að þessi ræðumaður sé ekki hér í hópi þeirra. Hans bestu menn eru hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson og Kristján Pálsson og fleiri góðir slíkir. Allir hinna bestu manna hæstv. sjútvrh. hafa lýst því yfir að þeir telji gerlegt að koma þessu kerfi á, ef ekki fyrir upphaf næsta fiskveiðiárs þá fyrir lok ársins. En það er af einhverjum allt öðrum orsökum sem hæstv. sjútvrh. kýs að fara ekki að þeirra innblásnu sannfæringu. Hann vill miklu fremur fá lagalega stoð til að að meta sjálfur hvenær róðrardagakerfið á að koma á, hvenær honum þykir það fjárhagslega kleift og tæknilega kleift. Af einhverjum ástæðum sem hæstv. sjútvrh. hefur forðast eins og köttur graut, sem er sjóðandi heitur, þá hefur hann ekki enn þá skýrt fyrir okkur hvers vegna er ekki hægt að taka upp þetta handvirka kerfi. Auðvitað er það svo að hæstv. sjútvrh. er búinn að berja niður sitt lið. Hann er búinn að beygja sannfæringu fjölda góðra manna í salnum og hann bíður þess eins að þessari umræðu ljúki og hann geti farið heim að sofa og komið svo hingað á morgun og séð þessa menn greiða atkvæði með frv. sem þeir eru í hjarta sínu langt frá því sammála.