Stjórn fiskveiða

16. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 22:59:37 (563)


[22:59]
     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Herra forseti. Nú er ég ekki svo kunnugur þeim reikistjörnum og mánum sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson gat um hérna og ég veit lítið um hvar austurtunglið eða vesturtunglið varpa sínum skuggum. Hitt veit ég að sú afstaða sem hann er að boða varpar löngum og varanlegum skugga á hv. þm. Einar Odd Kristjánsson því að ég get ekki skilið annað en svo að þrátt fyrir allt sem hann er búinn að segja um sína eigin sannfæringu ætli hann samt að fylgja því frv. sem hæstv. ráðherra hefur lagt fram og það þótt hv. þm. sé nánast búinn að segja það berum orðum að hann sé á móti því. Látum það vera. Annað kom fram í máli hv. þm. og það er þetta: Hann er ekki fremur en ég búinn að gera sér grein fyrir því hvernig róðrardagakerfið muni koma út en honum býður í grun að það komi betur út en viðbótarbanndagakerfið. Þetta felur það í sér, herra forseti, að hv. þm. er ekki viss. Hann er með öðrum orðum ekki viss hvort sú niðurstaða, sem hann er að leiða fram, sé hin farsælasta fyrir umbjóðendur hans. Öðruvísi gat ég ekki skilið mál hv. þm. Það þykir mér auðvitað slæmt og það eru ekki góð vinnubrögð. Ég er ekki að ásaka hann um það frekar en sjálfan mig en ég vek athygli á því, herra forseti, að ég gat þess fyrr í kvöld að sökum skorts á tíma tókst okkur ekki að fara svo glöggt yfir málið. Herra forseti. Gerir þetta ekki það að verkum að það er í rauninni nauðsynlegt að taka því góða boði sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon J. Sigfússon, formaður sjútvn., setti fram áðan að menn reyni í sameiningu að skoða þetta milli 2. og 3. umr. í því augnamiði að ná farsælli sátt sem við getum öll verið sátt við?