Þróunarsjóður sjávarútvegsins

18. fundur
Föstudaginn 09. júní 1995, kl. 14:57:07 (583)


[14:57]
     Össur Skarphéðinsson :
    Herra forseti. Ég verð að byrja á því að segja að mér þótti ekki gæta nægilega mikillar sanngirni hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni í garð þess frv. sem hér liggur fyrir frá hæstv. sjútvrh. Enn fremur tel ég, herra forseti, að hv. þm. hafi kannski ekki alveg gert sér grein fyrir mikilvægi Þróunarsjóðsins. Það er ekki alveg svo að í honum felist einhver miðstýringarárátta. Staðreyndin er sú að margir telja, og þar á meðal ýmsir í flokki hv. þm., að það sé í því fólgin talsverð hagræðing ef hægt er að sameina aflaheimildir á færri skip. Það muni hafa í för með sér ákveðið hagræði fyrir sjávarútveginn og fyrir útgerðina og þar með auka arðsemi hennar. Það meginmarkmið var lagt til grundvallar Þróunarsjóðnum þegar frv. um hann var samþykkt fyrir tveimur árum að auðvelda mönnum að gera þetta. Mönnum er í sjálfsvald sett

hvort þeir nýti sér þann styrk sem felst í gildandi lögum til þess að aðstoða við það að færa aflaheimildir saman á færri skip.
    Vegna þess að hv. þm. gat þess að hann sæi ekki alveg tilganginn með þessu þá verður að rifja það upp fyrir hv. þm. að hann á að baki glæstan feril sem landbúnaðar- og samgönguráðherra í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar sem einu sinni var hér á meðal vor í þessum sölum. Sú ríkisstjórn, herra forseti, fékk samþykkt lög um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins og það er sjálfsagt að rifja það upp fyrir þingmanninum, sem ber engin merki þess að hann sé farinn að reskjast og tapa minni af þeim sökum, að þau ákvæði Þróunarsjóðsins um úreldingu sem hann var að deila á hér áðan voru tekin nánast orðrétt upp úr Hagræðingarsjóðnum sem hv. þm. á sínum tíma samþykkti, að mig minnir, sem sitjandi ráðherra þá. Þetta vildi ég bara nefna til þess að hafa söguna í lagi.
    Ég vil segja það, herra forseti, að ég tel að Þróunarsjóðurinn og hinn öflugi stuðningur hæstv. sjútvrh. við hann allt frá fyrstu dögum þeirrar umræðu beri gott vitni um framsýni hæstv. sjútvrh. á þessu sviði. Því miður verð ég að segja það að mér þykir þeirrar framsýni gæta í allt of dauflegum mæli í ýmsum öðrum greinum sjávarútvegsins. Til að mynda hefur mér jafnan þótt sem hann sýni ekki nægan skilning á högum krókaveiðiflotans sem við höfum einmitt verið að ræða á síðustu dögum. Þetta frv. tengist því í raun og veru. Meginefni þessa frv. er að það er verið að gefa bátum sem stunda veiðar með línu og handfærum kost á því að greiða þróunarsjóðsgjald og komast inn í úreldingu. Eins og högum krókaflotans er háttað núna þá tel ég að í dag sé ekki efni til að vænta mikillar eftirspurnar eftir þessum styrkjum. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar að þegar búið er að samþykkja, ef þingið samþykkir þau vondu lög sem hæstv. sjútvrh. hefur beygt sína menn undir og munu gera það að verkum að krókaflotinn mun kannski ekki gjöreyðast en burðarstöður hans munu veikjast verulega, þá aftur á móti mun að mínu viti stóraukast eftirspurnin eftir þeim styrkjum sem hér er verið að bjóða upp á.
    Við vitum það, herra forseti, að það lagafrv. sem við höfðum til umræðu í gær og lýtur að stjórn fiskveiða felur það í sér að krókabátum verður heimilt að velja á milli annars herts viðbótarbanndagakerfis og hins vegar að veiða þorsk með aflahámarki á sérstöku banndagakerfi. Það er líklegt talið af forustumönnum Landssambands smábátaeigenda að þeir sjómenn á krókaleyfi sem líklegt er að fái kvóta yfir 30 tonn af óslægðum þorski, sem er ígildi 24 tonna af slægðum þorski, muni velja sér þetta. Hvað eru þetta margir krókakarlar, herra forseti? Þeir eru í kringum 250. Þeir munu taka u.þ.b. 56% af þeim 21.500 tonna potti sem er fyrir krókaflotann allan. Eftir eru þá 10.000 tonn sem 825 bátar munu slást um. Það er alveg ljóst að lífsmöguleikar þeirra báta munu minnka mjög. Þegar lögin fara að verka þá er alveg ljóst að stoðum verður kippt undan afkomu þeirra. Þá munu þeir sækja sterklega í þá úreldingarstyrki sem hér er boðið upp á.
    Á sínum tíma tókst að koma inn í lögin, ekki við mikinn fögnuð sjútvrh., ef ég man rétt, að smábátar á aflamarki ættu líka kost á úreldingarstyrkjum. Það hafa þeir nýtt sér afskaplega vel enda var þá sjávarútvegsstefna hæstv. ráðherra búin að koma niður á þeim af sama afli og líklegt er að hún komi niður á krókaveiðiflotanum á komandi missirum.
    Ég segi þess vegna að ég fagna því að þessi breyting er gerð á Þróunarsjóðnum. Ég tel reyndar, eins og áður hefur komið fram í umræðum um frv. hæstv. sjútvrh., að það mætti vel íhuga að reyna að beita markaðslögmálunum í gegnum þennan sjóð með sterkari hætti, jafnvel að beita einhverjum yfirstuðli á úreldingarstyrkina sem krókaflotinn á að eiga kost á. En það er ýmislegt sem má finna að þessu frv. Sá fyrirvari sem ég hef við frv. og kemur fram í nál., eins og reyndar annarra hv. þm. stjórnarandstöðunnar, er við 5. gr. þar sem segir með leyfi, herra forseta: ,,Ákvæði 4. gr. skulu þó eingöngu taka til styrkloforða sem gefin verða út eftir gildistöku laganna.``
    4. gr. snýst um það að ekki skuli í framtíðinni setja þær kvaðir á þá sem njóta úreldingarstyrkja að bátar þeirra og skip verði brotin í spón, brennd, fargað eða seld úr landi. Þess í stað verði hægt að nota skipin hér við landi til annarrar atvinnustarfsemi.
    Ég er þeirrar skoðunar að með þessu séu menn að reyna að bjarga verðmætum. Nú er það alveg ljóst að það eru tugir manna sem hafa fengið styrkloforð eftir síðustu áramót sem munu þess vegna ekki njóta þess að geta haft sína báta til annarrar starfsemi heldur en fiskveiða. Ég tel, herra forseti, að við eigum líka að bjarga þeim verðmætum og þess vegna tek ég undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni um að þetta þurfi að skoða betur. Ég held að við ættum að íhuga hvort ekki sé rétt að flytja um þetta brtt. milli 2. og 3. umr. í þá veru að setja dagsetninguna við síðustu áramót þannig að allir þeir sem hafa fengið styrkloforð eftir áramótin njóti líka 4. gr. --- Herra forseti. Mér þætti vænt um ef hægt væri að fá hæstv. sjútvrh. í sal. Að vísu er það svo að mér eru samvistir við hann ekkert afskaplega kærar en ég get . . .  
    ( Forseti (GÁS) : Forseti vill upplýsa það að hæstv. sjútvrh. er hér á næstu grösum, raunar á fundi utanrmn. í myndaherbergi, en það er að sjálfsögðu hægt að kalla hann þaðan ef brýn nauðsyn ber til.)
    Nú er það svo, herra forseti, að ég á líka sæti í utanrmn. og þar er afskaplega viðkvæmt milliríkjamál til umræðu og ég held að það verði þá að gefa hlé í nokkrar mínútur á meðan ég get sinni þeim fundi með sjútvrh. en ég þarf að spyrja hann einnar spurningar.
    ( Forseti (GÁS) : Forseti verður við þessum tilmælum hv. þm. og gerir hlé á fundinum í 10 mínútur.)
[Fundarhlé. --- 15:34]

    Herra forseti. Ég var í miðri ræðu um framsýni hæstv. sjútvrh. sem ég tel birtast með bestum hætti í öflugum stuðningi hans við Þróunarsjóðinn, bæði í árdögum sjóðsins og ekki síður núna þegar hann reynir enn að freista þess að treysta undirstöður þessa sjóðs. Það er ein sérstök spurning sem ég vildi varpa til hæstv. ráðherra.
    Í grg. er áður en kemur að athugasemdum við einstakar greinar frv. talað um að styrkurinn úr sjóðnum eigi að vera hvatning til að sameina aflaheimildir á færri skip og stuðla þannig að betri rekstrarafkomu þeirra skipa sem eftir verða. Þetta er að sjálfsögðu meginhugmyndin að baki Þróunarsjóðnum, sú hugmynd sem laðaði bæði mig og hæstv. sjútvrh. á sínum tíma til fylgis við þessa góðu hugmynd, sem mig minnir að hafi komið fram fyrst hjá formanni Alþfl. En í 4. gr. frv. er jafnframt talað um það að skilyrði fyrir veitingu loforðs um styrk vegna úreldingar sé eftirfarandi, herra forseti, með góðu leyfi: ,, . . .  að allar veiðiheimildir skipsins`` --- og bið ég hæstv. sjútvrh., ef hann getur látið af hvíslingum sínum við einn af leiðtogum stjórnarandstöðunnar, að hlýða á mál mitt. Það segir svo, herra forseti: ,, . . .  allar veiðiheimildir skipsins verði sameinaðar aflaheimildum annarra skipa.``
    Spurning mín er þessi: Þýðir þetta ekki ef eigendur krókabáta sem velja þorskaflahámark með viðbótarbanndögum æskja úreldingar fyrir slíka báta að þeir geti þá sameinað veiðiheimildirnar sem felast í þorskaflahámarkinu við annan bát?
    Þetta tel ég að sé afskaplega mikilvægt að komi fram. Ég veit að hæstv. sjútvrh. brennur í skinninu að fá að svara þessari mikilvægu spurningu.