Fyrirvari í nefndaráliti

20. fundur
Mánudaginn 12. júní 1995, kl. 15:01:53 (659)

[15:01]
     Ólafur Ragnar Grímsson :

    Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að þau þingskjöl sem við höfum við höndina við afgreiðslu mála séu rétt. Það kemur stundum fyrir að mistök verða við prentun og gerð þingskjala og þá eru þau venjulega leiðrétt með því að prenta upp þingskjalið. Þegar við fengum í hendur nefndarálit meiri hluta sjútvn. á þskj. 56 höfðu allir fulltrúar stjórnarflokkanna í sjútvn. skrifað undir nefndarálitið án þess að hafa fyrirvara: Árni R. Árnason, Stefán Guðmundsson, Vilhjálmur Egilsson, Einar Oddur Kristjánsson, Hjálmar Árnason og Guðmundur Hallvarðsson.
    Nú hefur mér verið tjáð það af a.m.k. tveimur fulltrúum smábátaútgerðar á Suðurnesjum, þeim Ingimari Sumarliðasyni í Sandgerði og Haraldi Hinrikssyni í Keflavík, að hv. þm. Hjálmar Árnason hafi tjáð þeim það fyrir helgina að við nafn hans á þessu nefndaráliti hafi átt að standa ,,með fyrirvara``. Við þekkjum það hér í þingsalnum að þegar þingmenn skrifa undir með fyrirvara, hvað þá heldur stjórnarþingmenn, þá er nauðsynlegt að gerð sé grein fyrir þeim fyrirvara þannig að efnisþættir þess máls komi fram. Ég vildi þess vegna spyrjast fyrir um það hér áður en við göngum til atkvæða, hvort þetta þingskjal sem við erum hér með, þskj. 56, sé rétt eða hvort eigi að standa ,,með fyrirvara`` við nafn hv. þm. Hjálmars Árnasonar.