Stjórn fiskveiða

23. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 20:29:48 (879)

[20:29]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Ég ætla hér annars vegar að mæla fyrir brtt. frá sjútvn. á þskj. 89. Sjútvn. hafði til skoðunar nokkur erindi sem nefndinni höfðu borist frá ýmsum aðilum í sjávarútvegi og vörðuðu lagfæringar á atriðum í löggjöf sem viðkomandi aðilar búa við. Varð samkomulag um að taka eina slíka ósk til meðferðar og flytja brtt. Hún er um það að setja inn sambærileg ákvæði varðandi heimildir til að fara fram yfir í úthlutuðu aflamarki úthafsrækju og reyndar einnig innfjarðarrækju. Ákvæðin í gildandi lögum eru þannig að það er heimilt að geyma veiðiheimildir eða aflamark í úthafsrækju en ekki að taka fram fyrir sig eitthvað af væntanlegum veiðiheimildum næsta árs. Þarna er ekki fullt samræmi á milli meðhöndlunar þessarar greinar og annarra kvótabundinna tegunda. Þannig mega menn til að mynda bæði geyma og fara fram yfir í flestum öðrum tegundum sem bundnar eru aflamarki.
    Þegar þetta hafði verið skoðað sáu menn ekki rök til annars en að það mætti með sambærilegum hætti fara eitthvað fram yfir ef þannig stæði á svo menn gætu lokið veiðiferð og þyrftu ekki að stemma þetta af upp á kíló.
    Við leggjum til með brtt. á þskj. 89 að 4. mgr. 10. gr. laganna orðist svo:
    ,,Þá er heimilt að veiða allt að 5% umfram aflamark hverrar botnfisktegundar`` --- það er óbreytt en síðan bætist við --- ,,og úthafsrækju og 3% umfram aflamark innfjarðarrækju, enda dregst sá umframafli frá við úthlutun aflamarks næsta fiskveiðiárs á eftir.``
    Ástæðan fyrir því að hér er farið vægar í sakirnar gagnvart innfjarðarrækjunni er sú að af líffræðilegum ástæðum er talið nauðsynlegt að fara þar varlega, þar séu sveiflur meiri og stofnar náttúrlega staðbundnir og rétt að vekja athygli á því að í því tilviki er ekki um heimild að ræða til að geyma ónýttan kvóta milli ára.
    Um þetta varð sem sagt fullt samkomulag. Það kom reyndar einnig fram síðbúin ósk um að sambærileg breyting yrði gerð hvað varðaði hörpudisk en nefndin hafði ekki aðstöðu til að fara ofan í það mál og verður það að bíða betri tíma, haustsins eða síðar, að athuga það mál.
    Ýmis önnur erindi bárust nefndinni og var gerð grein fyrir því við 2. umr. málsins. Af ýmsum ástæðum náðist ekki samkomulag um eða var ekki aðstaða til að taka fleiri til greina en þetta sem ég geri hér grein fyrir og er mál með öllu óskylt því sem hér hefur aðallega verið til umræðu og ég ætla nú að koma að en það varðar þetta frv. um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða og þær takmarkanir sem þar er verið að gera á sóknarheimildum smábáta eða krókaleyfisbáta.
    Ég verð að segja það, herra forseti, að ég harma það auðvitað að sú vel útfærða brtt. sem við í minni hlutanum lögðum fram um róðrardagakerfi, sem ég held að hafi í öllum aðalatriðum verið í samræmi við þær hugmyndir sem njóta yfirgnæfandi stuðnings varðandi þá tilhögun, skyldi ekki ná fram að ganga. Ég vísa til þeirrar útfærslu sem þar var lögð til. Þar voru lagðir til 100 róðrardagar hið minnsta miðað við núverandi aflahámark í þorski í landinu, þ.e. þessi u.þ.b. 150.000 tonn, og að þeir róðrardagar byggðu á frjálsu vali innan fiskveiðiársins þannig að mönnum væri í sjálfsvald sett hvernig þeir spiluðu úr þeim möguleikum sem þessi dagafjöldi gæfi mönnum. Stjórnvöld hefðu á hinn bóginn heimildir til að draga úr afköstum ef svo bæri undir og nauðsynlegt þætti til að mynda með því að takmarka möguleika manna til að gera út á línu og beina þá sókninni meira á krókaveiðarnar einar saman.
    Ég er alveg sannfærður um að með þeim ströngu reglum sem hér er verið að leiða í lög og varða endurnýjun á smábátum og stýritækjum af þessu tagi væri hægur vandi að ná fullnægjandi jafnvægi hvað varðar sóknargetu þessa hluta flotans. Og það mundi ekki færa neitt úr lagi á Íslandsmiðum þó að sókn þessa hluta flotans, sem þá er búið að loka og takmarka, bátafjöldinn getur ekki aukist þvert á móti mun hann væntanlega minnka á næstu árum vegna uppkaupa Þróunarsjóðs og afkastagetan minnka í gegnum endurnýjun með þeim ströngu reglum sem þar er búið að setja inn, hvað sem um þær má svo segja að öðru leyti, þá væri með svona róðrardagakerfi og heimild til að takmarka afköstin í línuveiðunum enginn vandi að hafa þessa hluti í sæmilegu jafnvægi. Ég held að það sé langheppilegasta kerfið að vera ekki að hengja sig í einhvern tonnafjölda upp á kíló eða grömm og láta það einfaldlega ráðast af aflabrögðum og gæftum í bland við þessi stjórntæki hvar á bilinu kannski 18.000--30.000 tonn þessi afli lægi að meðaltali á hverju ári.
    Það er eðlilegast og í samræmi við þá stýringu sem menn eru að burðast við að hafa á þessum hluta flotans og það er að mörgu leyti ósættanlegar andstæður að byggja á sóknartakmörkunum annars vegar og einhverju föstu aflaþaki hins vegar. Það mun alltaf rekast á með miklum vandræðum eins og reynslan sýnir. Ég held líka að ef menn kæmu þessu þaki út úr myndinni mundi það hafa einn mjög stóran kost í för með sér: Að menn mundu hætta að rífast um það aftur á bak og áfram hvort einhver tonn hefðu verið tekin af einum og færð til annars. Það er ákaflega leiðinlegur sá hugsunarháttur sem hefur fylgt því að taka svona þak inn í stjórnun á sókn þessa hluta flotans sem á þó að nafninu til að geta róið á grundvelli sóknartakmarkana.
    En því miður reyndist ekki samstaða um það hér á Alþingi eða af einhverjum öðrum ástæðum sem best er að láta liggja milli hluta þá birtist ekki í atkvæðagreiðslum sá meiri hluti sem ætla mátti af yfirlýsingum manna og ræðuhöldum að væri fyrir hendi til að leiða í lög nákvæmlega svona kerfi. En það er jú þetta sem menn hafa talið sig vilja, menn hafa lýst því yfir að þeir vilji beita sér fyrir og ekki síst var á þessu geysilega mikill áhugi rétt fyrir kosningarnar eins og kunnugt er víða.
    Síðan bárust þær fréttir, herra forseti, í gær og gærkvöldi að nú væri meiri hlutinn að ná saman um enn eina brtt. og þar ætti að leiða í lög róðrardagakerfi frá 1. febr. nk. Ónefndir fjölmiðlafulltrúar meiri hlutans hér á Alþingi eins og hv. þm. Kristján Pálsson tóku það að sér óbeðnir að koma því á framfæri við fjölmiðla að nú væru tímamót að verða í málinu og róðrardagakerfið yrði lögleitt 1. febr. og þar með væri bara sigur unninn í málinu. E.t.v. hefur hv. upplýsingafulltrúi meiri hlutans verið orðinn leiður á því að framsóknarmenn á Suðurnesjum væru að eigna sér eitt og annað í þessu máli og hugsanlega farið að fara í taugarnar á hv. þm. blaðaútgáfa og annað því um líkt sem þar hefur verði á ferðinni. Auðvitað biðum við spennt eftir því að fá upplýsingar um það hvað þetta fæli nú í sér. Hvað ætti að lögfesta frá og með 1. febr. Og vel að merkja er það auðvitað fagnaðarefni í sjálfu sér ef menn eru þó að manna sig upp í það að setja einhverja fasta punkta í þetta mál en hafa það ekki allt saman hangandi í óvissu. En hrifningin minnkaði mjög þegar maður áttaði sig á því hvað það er sem samkvæmt þessum tillögum á að taka gildi 1. febr. því það er róðrardagakerfi í skötulíki. Það er algerlega búið að gelda það fyrirkomulag í raun og veru með þeim þröskuldum og takmörkunum sem inni í því eru samkvæmt tillögum meiri hlutans. Og það læðist að manni sá grunur að höfundarnir eða einhverjir sem hafa komist í það að véla um þetta hafi þetta viljandi eins klúðurslega úr garði gert og nokkur kostur er þannig að þetta verði allt saman meira og minna í skötulíki og halaklippt.
    Það var stundum farið í orðaleiki í minni sveit, herra forseti, ég veit ekki hvað flokkast undir leyfilega orðanotkun hér að segja að eitthvað sé eins og halaklipptur hundur. Það er náttúrlega orðaleikur því eins og kunnugt er eru hundar ekki með hala. En mér datt það í hug þegar ég fór að skoða útfærsluna á þessu fyrirkomulagi, því miður.
    Þar kemur náttúrlega til í fyrsta lagi að róðrardagafjöldinn er svo takmarkaður frá byrjun vegna þess hvernig viðmiðunin er útfærð að þetta geta aldrei orðið annað en harmkvæli. Róðrardagarnir byggja á svo mikilli gengisfellingu frá þeim veiðidögum innan banndagakerfisins sem miðað er við að þeir eru frá byrjun stórlega niðurskornir. Og hefur þó meiri hlutinn í dag tekið þeim sönsum að lækka þá viðmiðun eða draga úr gengisfellingunni sem nemur 6%. Upphaflega tillagan og brtt. við 2. umr. gerðu ráð fyrir að róðrardagafjöldinn yrði 60% af veiðidögum sem hefði orðið í óbreyttu banndagakerfi, hvaða vísindi sem lágu nú svo sem á bak við það að þeir væru þetta miklu verðmætari til sóknar en veiðidagar í banndagakerfi. Nú hefur þessu verið breytt í 66%, þ.e. fjöldi róðrardaga verður 66% af því sem veiðidagafjöldinn hefði verið á hverju tímabili í banndagakerfinu.
    En það er ekki búið með gengisfellingarnar samt því að síðan er róðrardögunum deilt niður á fjögur tímabil sem náttúrlega dregur sjálfkrafa strax í byrjun stórlega úr hagkvæmninni og skynseminni í því að vera yfirleitt með róðrardagakerfið. Ef menn hins vegar ætla að flytja róðrardaga af vetrartímabilunum yfir á sumarið þá eru þeir dagar gengisfelldir um helming. Það hefði þótt þokkalega merkileg gengisfelling þegar verðbólgan var upp á sitt besta. Þetta þýðir til að mynda að trillukarl sem ákveður nú að reyna að gera sér sem mest úr þessum róðrardögum með því að stunda sjó af kappi á sumartímabilunum, 3. og 4. tímabili fiskveiðiársins, og ákveður að leggja sínum bát yfir veturinn og reyna hugsanlega að skapa sér tekjur af einhverju öðru, við skulum segja að hann vinni í loðnubræðslu ef hún er til staðar á hans heimastað yfir vetrartímann og rói svo á sínum bát yfir sumartímann, verður að sæta helmings gengisfellingu á öllum róðrardögum vetrarmánaðanna og fer niður í eða niður fyrir 60 róðrardaga. Og það er ekki orðið merkilegt að nýta sitt atvinnutækifæri, stunda sína vinnu í 60 daga á ári.
    Ég býst við því að ef róðrardagakerfið hefði verið sæmilega úr garði gert þá hefðu til að mynda margir smábátasjómenn norðan lands valið það að nýta sína róðrardaga fyrst og fremst yfir sumartímann. Sjósókn er mjög erfið frá stöðum um norðan og norðaustanvert landið yfir háveturinn, það þekkja menn. Grímseyingar komust niður í 4 eða 5 daga á sjó á öðru tímabilinu í vetur. Það var öll sóknin sem þeir gátu stundað. Miðað við slíkar ógæftir væri augljóslega hagstætt að leggja bátunum yfir þann tíma og nota róðrardagana á sumrin en þá er mönnum boðið upp á þessa kosti.
    Þetta eru slumpureikningar. Það liggja engin vísindi, engin sanngirnisrök á bak við það að byrja á því að gengisfella róðrardagana borið saman við veiðidagana í banndagakerfinu um 36% og gengisfella svo þá daga sem fluttir eru af vetrartímabilinu yfir á sumarið um helming. Hver eru rökin? Hvaða mælingar liggja á bak við það til að mynda að þetta komi svipað út varðandi afkastagetu í flotanum eins og banndagakerfið hefði gert? Er þetta byggt á talningu um að menn hafi að meðaltali komist tvo daga af hverjum þremur á sjó eða eitthvað því um líkt? Mér er ekki kunnugt um það. Og það er afar slæmt að vera með ákvörðunaratriði í viðkvæmum hagsmunamálum af þessu tagi sem byggja ekki á betri efnislegum grundvelli en þetta. Það verður ekki annað séð en þarna hafi menn bara skotið algerlega út í loftið og giskað á eitthvað. Þetta væri svona um það bil mátulegt. Eigum við ekki bara að gengisfella þetta um 40% og þetta um 50% o.s.frv. Þetta er ekki mjög trúverðugt, satt best að segja.
    Auðvitað geta menn sagt að það komi svo í ljós í fyllingu tímans hvort menn hafa hitt á þetta eða ekki og hægt sé að fjölga eða fækka róðrardögum á komandi árum en það tekur þá meira en ár að leiðrétta það aftur. Það gerir það vegna þess hvernig þetta viðmiðunarapparat er úr garði gert. Þetta, herra forseti, held ég að sé afar slæmt og ég trúi ekki öðru en menn séu tilbúnir til þess þó að það verði að gerast síðar, úr því sem komið er að við erum komin að lokaafgreiðslu þessa máls, að skoða þetta eitthvað og velta því fyrir sér: Er ekki hægt að búa þetta betur úr garði? Þarf að leggja svona áþján á menn ofan á allt annað? Er það til að mynda nauðsynlegt að nánast neyða menn til þess að vera við þetta allt árið og reyna þannig að nýta þessa fáu róðrardaga vetrartímabilanna vegna þess að annars séu þeir gengisfelldir um helming? Jafnvel þó að það væri miklu þægilegra og einfaldara fyrir menn að færa þessa róðrardaga saman á tvö tímabil og geta þá verið við þetta af fullum krafti og reynt að sinna einhverju frekar þar fyrir utan.
    Þetta held ég að sé afar vanhugsað svo að ekki sé meira sagt. Ég skil ekki heldur rökin fyrir því að vera yfir höfuð að stjórna því eða skipta sér af því á hvaða tíma innan fiskveiðaársins menn nýta sína róðrardaga. Hvers vegna má það ekki vera frjálst? Hver eru rökin? Ég bið talsmenn meiri hlutans eða hæstv. sjútvrh. að reyna að útskýra það hér. Ég hef ekki heyrt þau enn þá. Einustu rökin gætu verið þau að menn segðu sem svo að með því að menn gætu hvar á landinu sem er valið sér hagstæðasta tímann til róðra miðað við aflabrögð og möguleika þá verða afköstin eitthvað meiri, segjum 5% eða 10% meiri, og þá breyta menn ósköp einfaldlega því með því að fækka róðrardögunum á næsta ári. Það er ekki nokkurt vandamál en sóknin væri í því munstri sem hagkvæmast væri fyrir alla aðila. Ég sé ekki hvaða tilgangi þetta þjónar og held að það sé slæmt að byrja með þetta reyrt niður í þetta tímabilafar.
    Ég ætla svo, herra forseti, að ræða aðeins um hið mikla eftirlitsvandamál sem hér var í fyrstu kynnt sem óyfirstíganlegur þröskuldur í sambandi við það að menn mættu sækja á grundvelli róðrardagakerfis og það yrði ekki unnt að taka upp það fyrirkomulag fyrr en gervihnattatæknin hefði náð þvílíkri fullkomnun að hægt væri að fylgjast með mönnum á nóttu sem degi, hvar þeir væru staddir á sínum bát árið um kring og setja upp sérstaka vaktstöð og skrá þetta allt saman jafnóðum og fylgjast með þessu eins og þetta væru herþotur í árásarleiðöngrum eða eitthvað því um líkt. Svo fóru menn að ræða þetta mál og velta því fyrir sér og spá í það hvort ekki væru til einhverjar aðeins auðveldari aðferðir og nú hafa þau stórtíðindi gerst að meiri hlutinn hefur komist að þeirri niðurstöðu og fengið meira að segja efasemdarmanninn mikla, sem þurfti að hlífa af sérstökum ástæðum eins og kunnugt er, hvers viðkvæmu tilfinningar þurfti að gæta, til að fallast á að það sé sennilega í lagi að ákveða bara að taka þetta upp 1. febr. og menn verði þá bara að leysa þetta eftirlitsmál einhvern veginn jafnvel þó svo illa takist til að gervihnattatæknin verði ekki komin í gang 1. febr.
    Þetta er stórkostleg framför í málinu og sérkennilegt að það skyldi taka menn allan þennan tíma að átta sig á þessu. Og nú er sagt í brtt. meiri hlutans að ráðherrar skuli í kjölfar þess að láta fram fram könnun á þeim kostum sem fyrir hendi eru til fjareftirlits, semja um þetta eftirlit með einhverjum öðrum fullnægjandi hætti þangað til það kemst í gang. Þetta var það sem lá á borðinu að gera strax í byrjun og ég fagna því að þarna hafa orðið sinnaskipti og tekið er undir okkar tillögur í þessum efnum.
    Síðan vil ég segja það, að ég held að ef menn vilja leita tæknilegra lausna í þessum efnum, þá séu til margar auðveldari og ódýrari aðferðir en þær sem menn hafa verið að hengja sig í í þessu gervihnattaþrugli öllu en það er alveg óskiljanlegt hvernig það komst inn í myndina að ekki væri nokkur leið að hafa

eftirlit með þessum þætti atvinnustarfsemi í landinu nema í gegnum gervihnetti af öllum sköpum hlutum. Mér hafa sagt rafeindavirkjar og sérfræðingar í bænum að það sé ekki nokkurt minnsta vandamál að leysa þennan eftirlitsþátt mun ódýrarar og einfaldar en menn hafa hingað til verið að tala um, þ.e. með sambærilegum hætti og ýmsar upplýsingar eru t.d. skráðar í flugvélum í lítinn svartan kassa sem geymdur er um borð í viðkomandi farartækjum. Það sé ekkert því til fyrirstöðu að setja lítinn tölvukubb í hvern bát með minni sem skráir tilteknar upplýsingar og geymir þær og af þeim geti eftirlitsmenn lesið á þriggja mánaða fresti eða eitthvað því um líkt, prentað út á strimil og þannig fái menn skráningu dag frá degi á því hvar viðkomandi bátur var. Þetta mundi einfaldlega byggja á litlum tölvuheila og einhvers konar skynjun um borð í bátnum sem annaðhvort mundi mæla hreyfingar eða mæla með einhverjum öðrum fullnægjandi hætti hvort báturinn væri bundinn í höfn eða á veiðum.
    Með svona tækni þarf enga gervihnetti, engar landstöðvar, enga vakt, ekkert eftirlit annað en eftirlitsmenn sem færu um hafnir landsins og tækju af og til tékk á því út af heilum viðkomandi báta hvar þeir hefðu verið staddir t.d. undanfarna þrjá mánuði. Það mætti svo bera saman við skýrslu sem menn færðu um sína sókn, landlegur og róðrardaga og stemma það af og hafa með af því þannig eftirlit með því að allt væri með felldu er einfalt og ódýrt. Búnaðurinn þyrfti e.t.v. ekki að kosta nema 25--30 þús. í hvern bát og uppbygging kerfisins og starfræksla væri til muna ódýrari og einfaldari heldur en aðrar hugmyndir sem menn hafa verið að ræða um og allur sá kostnaður í formi búnaðar og starfrækslu félli til innan lands í staðinn fyrir að í hinu fína gervihnattaeftirlitskerfi þarf að flytja inn dýran búnað, það þarf að borga fyrir samskiptin við gervihnöttinn og það fylgir kerfinu umtalsverður rekstrarkostnaður.
    Þegar maður fær svona upplýsingar og reyndar fleiri sem við höfum fengið í sjútvn. eða einstakir nefndarmenn hafa aflað sér þá undrast maður það satt best að segja að allt þetta rugl um eftirlitið skyldi nokkurn tíma verða borið á borð fyrir menn. Eða var það þannig að menn vissu ekkert hvað þeir voru að tala um, kynntu sér ekki málin, gripu þetta hálmstrá að það væri hægt að fara út í þessa stýringu vegna þess að það skorti eftirlit? Var það bara af því að það hentaði mönnum að segja það? Ég leyfi mér að segja, herra forseti, að vonandi fyrirgefst manni þó að það læðist að manni sá grunur að allar þessar viðbátur, allir þessir óskaplegu erfiðleikar sem menn fundu í þessu sambandi og fundu þessu til foráttu hafi að einhverju leyti sprottið af því að menn voru einfaldlega á móti því að það yrði boðið upp á þetta sem valkost yfir höfuð og ætluðu sér að þvinga það fram meira og minna að þessi floti lenti á aflamarki vegna þess að valkosturinn á móti væri óaðlaðandi banndagakerfi með stórkostlegri fjölgun banndaga.
    Herra forseti. Ég hef eftir að hafa skoðað eftirlitsþáttinn og fengið um það mál meiri upplýsingar ekki nokkrar minnstu áhyggjur af því að það er bæði tæknilega og praktískt auðvelt verk að ganga þannig frá því máli að það verði ekki til fyrirstöðu upptöku róðrardagakerfis og þó fyrr hefði verið en 1. febr. nk. (Gripið fram í.) Nei, það þarf ekki að merkja sjómennina, hv. þm. (Gripið fram í.) Það er nú hugsanlegt að sjómennirnir fari af og til úr bátunum þannig að það er kannski rétt að hafa kassann í bátnum en ekki á sjómanninn því að við ætlum ekkert að fara að fylgjast með því hvort sjómaðurinn bregður sér hér og þar þegar hann er í höfn. Það er þeirra mál hvort þeir sofa alltaf í bátnum eða einhvers staðar annars staðar.
    Hins vegar er það svo sem þekkt að merkja lifandi fyrirbæri, samanber álftinar sem flugu yfir hafið með gervihnattasenditæki og menn fylgdust með því spenntir hvar þær voru staddar á miðunum. Það var svolítið spaugilegt þegar menn voru að tala um að það vantaði þetta eftirlit og tæknin væri ekki orðin nógu þróuð, þá höfðu menn alveg gleymt álftunum sem þeir fylgdust með og vissu á hvaða þúfu í álftaverinu þær sátu í það og það skiptið.
    Öll þessi tækni er fyrir hendi og spurningin er fyrst og fremst um val, hvað er praktískast. Í framtíðinni er ekki nokkur vafi á því að best væri að þetta eftirlitskerfi, ef það á þá endilega að vera og þarf að vera, verði samræmt við sjálfvirka tilkynningarskyldu. Það er draumurinn að í framtíðinni verði fyrir hendi sjálfvirk tilkynningarskylda á öllum fiskiskipum sem sendi merki með nægjanlega reglulegri tíðni til þess að unnt sé að fylgjast með því hvar skipin eru af öryggisástæðum. Hvort sem menn nota svo þær upplýsingar til einhverra annarra hluta er annað mál og gæti reyndar orðið viðkvæmt mál hvort það öryggiseftirlitskerfi eigi nokkuð að blandast saman við stjórn fiskveiða og ég tala ekki um til að mynda störf Landhelgisgæslunnar en ekki ætla ég lengra út í þá sálma.
    En sem sagt, herra forseti, aðalvonbrigðin eru þau að þó að það sé í sjálfu sér gott að meiri hlutinn hefur mannað sig upp í að setja þarna inn fast gildistökuákvæði þá er því miður hið svokallaða róðrardagakerfi sem þá á að taka við allt í skötulíki, bæði hvað útfærsluna snertir og svo líka það að viðmiðunin er frá byrjun mjög óhagstæð. Róðrardagafjöldinn er svo lágur að það mun augljóslega þýða mikil harðindi fyrir þessa útgerð í landinu.
    Þá, herra forseti, fer nú ekki að verða mikið annað eftir en setja amen á eftir efninu. Ég held að þau sjónarmið sem uppi eru í þessu máli hafi flest komið til skila, a.m.k. af minni hálfu og ég hafi svo sem ekki ýkja mörgu við þetta að bæta fyrir utan einhver almenn orð. Það er auðvitað þannig að þegar maður fer aðeins yfir söguna í sambandi við hlutdeild smábátaútgerðarinnar í öllu þessu ferli, allt frá 1983 þegar kvótinn var tekinn upp og takmarkanir í því formi komu yfir í íslenskan sjávarútveg þá er það með miklum endemum og miklum ólíkindum hvernig það hefur allt saman gengið til og það er ekki nokkur leið fyrir okkur hv. alþingismenn og stjórnmálaflokkana í landinu annað en horfa í eigin barm og axla þá ábyrgð

sem menn bera af því hvernig þetta hefur tekist. Þessu hefur meira og minna öllu verið klúðrað. Það er staðreynd. Og ábyrgðin liggur mestmegnis hjá hinu pólitíska valdi og að hluta til á framkvæmdarvaldinu sem farið hefur með þetta á hverjum tíma.
    Það er alltaf auðvelt að vera vitur eftir á. Það getum við öll verið og sagt að við hefðum betur lokað þessu fyrr og við hefðum betur komið í veg fyrir stjórnlausa fjölgun smábáta og stjórnlausa afkastaaukningu í greininni sem núna leiðir miklar takmarkanir yfir þennan útgerðarflokk, þar með talið þá sem hafa stundað þessa atvinnugrein og haft hana að ævistarfi um árabil eða áratuga skeið sem og auðvitað aðra sem eru yngri í greininni. En við breytum ekki því sem liðið er. Við stöndum frammi fyrir tilteknum aðstæðum og við verðum að gera það besta úr þeim. Okkur ber kannski óvenjurík skylda til að finna færar leiðir í því sambandi vegna þess að stjórnvöld bera mikla ábyrgð á því hvernig komið er. Og hver á þá að vera vinnureglan, hver á að vera viðmiðunin? Hún hlýtur að vera sú að tryggja mönnum afkomu og starfsgrundvöll í þessari grein. Það getur ekki verið þannig að menn ætli að dæma yfir menn aðstæður sem eru ólífvænlegar þannig að menn geti ekki haft afkomu, tekjur, og rekið sína atvinnustarfsemi við þær aðstæður sem þeim eru skammtaðar. Ég held að það hljóti allir að sjá að þegar verið er að dæma menn til þess að nýta ekki sín atvinnutæki og sjálfa sig með nema í 60--80 daga á ári þá eru menn komnir í mikið óefni. Mér er sem ég sæi einhverja aðra grein í landinu una því að mega vinna í 60 daga, verksmiðjueiganda sem mundi sætta sig við að mega ekki starfrækja sína verksmiðju, hafa vélarnar í gangi, nema í 60 daga. Eða verslunareiganda, umboðsmenn hv. þm. Vilhjálms Egilssonar. Ég held að þeir yrðu kátir, kaupmennirnir, ef þeir mættu hafa opið í 60 daga á ári. Ég er hræddur um ekki. Eða bændurnir á Suðurlandi, umbjóðendur hv. þm. Guðna Ágústssonar, ef þeir mættu mjólka kýrnar 60 sinnum á ári. Ég er hræddur um að það þætti ekki gott. Það mundi að vísu skapa ýmis önnur vandamál sem eru ekki skyld þessu máli. ( GÁ: Kýrnar mundu gera uppreisn.) Kýrnar mundu gera uppreisn já, það er rétt.
    En þetta er auðvitað svona. Menn hljóta að sjá það að hér eru að koma upp aðstæður sem ekki ganga. Við verðum að reyna að komast út úr þessu ástandi og yfir í það fyrirkomulag að menn geti nýtt þessi tæki með eðlilegum hætti og haft af því afkomu að stunda þessa grein. Ég er alveg sannfærður um það að fyrir utan félagsleg og byggðaleg rök þá eru mikilvæg hagkvæmnisrök og líffræðileg rök fyrir því að smábátaútgerð og bátaútgerð eigi að vera drjúgur hluti af útgerðarmunstrinu í landinu. Ég held að það sé ákaflega mikilvægt og verðmætt að varðveita það munstur og þá breidd og fjölbreytni sem í gegnum það skapast í okkar sjávarútvegi. Og ég hef í raun og veru ekki heyrt nokkurn mann tala fyrir öðru en því að þessi hluti af sjósókninni eigi að geta varðveist og viðhaldist. En þá verðum við að gæta þess að aðstæðurnar séu þannig að það geti orðið. Ég óttast það mjög að það muni ganga stórlega á þennan hluta útgerðarinnar á næstu missirum ef mönnum verður gert að starfa við þessar aðstæður. E.t.v. mun á einhverju árabili í gegnum starfrækslu úreldingasjóðs og í gegnum hinar ströngu endurnýjunarreglur draga þannig úr afköstunum að eftir 3, 5 eða 8 ár yrði staða manna á nýjan leik orðin eitthvað skárri, róðrardagarnir komnir upp í 120, 150 eða því um líkt. En er þá víst að þeir sem ætla að þrauka geti lifað það af, beðið eftir því? Ég er ekki viss um það.
    Að lokum, herra forseti, segir mér svo hugur um að við séum ekki að sjá fyrir endann á þessu máli. Það skyldi ekki fara svo að strax á haustþinginu komi þetta mál upp á nýjan leik með einhverjum hætti ósköp einfaldlega vegna þess að þegar mönnum verður alvara málsins ljós, þegar menn til að mynda sjá hver aflinn verður endanlega á þessu fiskveiðiári og þar með liggur fyrir endanlegur útreikningur á því hvaða róðrardagar koma á hverju tímabili næsta fiskveiðiárs, þá renni á menn tvær grímur að dæma það yfir menn. Þá er rétt að muna eftir því og ágætt að vita af því að lögum er hægt að breyta og það er hægt að taka svona mál aftur til skoðunar og einhvern veginn segir mér svo hugur um að við séum ekki að ræða málefni smábátaútgerðarinnar í síðasta sinn á Alþingi núna.