Stjórn fiskveiða

23. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 21:02:50 (881)


[21:02]
     Frsm. minni hluta sjútvn. (Svanfríður Jónasdóttir) :
    Virðulegi forseti. Mín skoðun er sú að lögin um stjórn fiskveiða snúist um svo grafalvarlega hluti, hvorki meira né minna en afkomu ekki bara einstakra krókakarla og fjölskyldna þeirra eða heilla byggðarlaga heldur heillar þjóðar, að allar breytingar á þeim lögum þurfi að ígrunda vel og þær þurfi að byggjast bæði á öruggri þekkingu og heildarsýn. En ég óttast að það sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson gat um hér áðan, að málið væri e.t.v. óhugsað, sé rétt. Hér liggja nú fyrir brtt. við lögin um stjórn fiskveiða frá stjórnarliðum og þær snúa alfarið að 2. gr. þess frv. sem ríkisstjórnin lagði fram eða 6. gr. laganna sjálfra. Hér liggur einnig fyrir tillaga að nýju ákvæði til bráðabirgða sem þeirri grein tengist.
    Við 1. umr. og í umfjöllun hv. sjútvn. kom fram hjá flestum sem tjáðu sig um 2. gr. frv. eindreginn vilji til að taka upp róðrardagakerfið sem stjórnkerfi fyrir krókabáta. Sá sami vilji kom skýrt fram einnig við 2. umr. og atkvæðagreiðslu um þær brtt. sem þá komu til atkvæða, svo sem tillögu minni hlutans um að róðrardagakerfi yrði tekið upp strax í upphafi næsta fiskveiðiárs. En sú tillaga var felld, ekki hvað síst á þeim forsendum að ekki væri mögulegt að taka upp róðrardagakerfi þar sem ekki yrðu á þeim tíma forsendur til að halda uppi nægjanlega öflugu eftirliti með sjósókn bátanna. En samkvæmt þeim brtt. sem nú liggja fyrir af hálfu meiri hlutans er það hins vegar ekki lengur forsenda fyrir því að kerfið verði tekið upp, því að eins og segir í brtt. meiri hlutans varðandi upptöku kerfisins, með leyfi forseta:
    ,,Skal að því stefnt að kerfi er hafi virkt eftirlit með nýtingu sóknardaga báta sem krókaveiðar stunda verði komið á fyrir 1. febr. 1996. Takist það ekki skal ráðherra með reglugerð kveða á um tilkynningarskyldu og eftirlit með þessum veiðum með öðrum hætti sem hann telur fullnægjandi.``
    Hér er sem sagt vikið frá þeirri forsendu sem menn höfðu fyrir því að ekki væri hægt að koma róðrardagakerfi á strax í upphafi næsta fiskveiðiárs. Þetta þýðir með öðrum orðum að meiri hlutinn er búinn að ákveða að taka róðrardagakerfið upp 1. febr. án tillits til þess hvort eftirlitstæknin leyfir eftirlit eða ekki. Þá hlýt ég að spyrja: Af hverju er það þá ekki tekið upp strax við upphaf fiskveiðiársins eins og minni hlutinn lagði til ef menn eru hvort eð er horfnir frá því sem grundvallaratriði að fjareftirlit þurfi til?
    Samkvæmt þeim tillögum, sem nú liggja fyrir er mönnum gert að byrja í banndagakerfi og flytjast síðan yfir í róðrardagakerfið 1. febr. nema þeim sem velja aflahámarkið og mega endurvelja næsta sumar. Einfaldara og viðurhlutaminna væri að menn veldu bara róðrardaga strax í upphafi næsta fiskveiðiárs. Og í ljósi þeirra nýju viðhorfa meiri hlutans að fjareftirlitið sé ekki lengur grunnforsendan hefði það auðvitað verið rökréttara.
    Sömuleiðis er í brtt. meiri hlutans reynt að mæta þeim vilja sem fram hefur komið og almennt var gengið út frá í upphafi umræðunnar um róðrardaga og fram kom í brtt. minni hlutans sem felld var við 2. umr., að menn gætu sjálfir valið sína róðrardaga. Þar er þó gengið afskaplega skammt því að einungis er gert ráð fyrir því að menn geti flutt frá 1. og 2. tímabili yfir á 3. og 4. tímabil, þ.e. frá hausti og vetri yfir á vor og sumar. Þýðir það þá jafnframt 50% skerðingu á dagafjölda og menn verða að flytja alla dagana. Reyndar er jafnframt lagt til að ráðherra geti með reglugerð leyft flutning milli annarra veiðitímabila en varðandi það er allt afskaplega óljóst. Það er ekki á hreinu hver hugsunin er varðandi það hvort þeir dagar sem fluttir verða frá sumri og yfir á vetur, ef einhver kýs svo, verða gengisfelldir eða hvort þeir verða margfaldaðir. Það er ekki ljóst hvort það verða allir dagarnir sem menn verða þá að flytja eða einungis einhverjir þeirra þannig að ýmsum spurningum er ósvarað.
    En það verður ekki séð að það breyti miklu fyrir fiskvernd eða veiðistjórnun þó að menn ættu þess einnig kost að flytja daga frá vori og sumri til hausts og veturs ef þeir eru þannig í sveit settir að það hentaði betur eða að þeir flyttu hluta af dögum sínum. En eins og kunnugt er var það talinn hvað síst tilgangur róðrardagakerfisins og talinn til sérstaks gildis að menn gætu lagað sóknina að því sem passaði með tilliti til aðstæðna.
    Hér virðist þess viðhorfs gæta í allt of ríkum mæli, virðulegi forseti: Af hverju að hafa hlutina einfalda ef hægt er að hafa þá flókna? Það er vond löggjöf sem þannig er saman sett. Eigi að síður er það svo að flest af því sem lagt er til er þó til bóta í málinu eins og það stóð eftir 2. umr. og hefur meiri hlutinn þannig nálgast viðhorf minni hluta sem því nemur og er það vel svo langt sem það nær. Þó vakir enn sá ótti minn að ýmis þau ákvæði sem hér þyrftu betri skoðunar við muni reynast þess háttar viðbót við lögin um stjórn fiskveiða að þau verði aftur komin inn á borð hv. sjútvn. í haust. Þrátt fyrir góðan vilja hæstv. sjútvrh. varðandi framkvæmd þessara ákvæða ef þau verða að lögum.
    Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon rifjaði áðan upp þær tillögur minni hlutans sem sú sem hér stendur var aðili að og voru fluttar við 2. umr. og allar felldar. Hér liggja enn fyrir tillögur mikið til í sömu veru frá þingmönnum sem eru í stjórnarandstöðu. Um þær er ýmislegt ágætt að segja og til þeirra mun verða tekin afstaða við atkvæðagreiðslu. Þær eru að sumu leyti mjög í anda þeirra tillagna sem hér voru felldar við 2. umr. og ég óttast að þeirra bíði sömu örlög, en það verður að segjast eins og er að hv. þm. er þó með þeim tillöguflutningi gefinn kostur á að endurskoða hug sinn til þeirra atriða sem þar koma fram og það mun sjást, virðulegi forseti, við atkvæðagreiðslu um þær tillögur sem hér liggja fyrir.