Málefni Brunamálastofnunar

25. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 10:46:40 (933)


[10:46]

     Ágúst Einarsson :
    Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Margréti Frímannsdóttur fyrir að vekja máls á þessum atburðum. Það er alvarlegt mál þegar öll stjórnin og skólanefnd segja af sér í svona mikilvægri stofnun vegna samstarfsörðugleika. Það er augljóst að það er meira í þessu máli heldur en kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Ég vil vitna til orða brunamálastjóra í Tímanum, með leyfi hæstv. forseta, þar sem hann fagnar því að stjórnarformaður og fulltrúi Landssambands slökkviliðsmanna ætli að segja af sér, enda til óþurftar í stjórninni:
    ,,Ég fagna því þegar slíkar manneskjur fara,`` segir brunamálastjóri.
    Það er eitthvað mikið að í stofnun þegar allir stjórnarmenn segja af sér. Þetta er mál sem verður að skoðast í víðara samhengi og ég held að það sem hæstv. ráðherra sagði hér, að hann ætli að óska eftir nýjum tilnefningum, séu ekki góð vinnubrögð, hæstv. ráðherra. Það þarf að taka á þessu máli í víðara samhengi og ég vil biðja hæstv. félmrh. að íhuga það að hann beiti sér fyrir að hv. félmn. fari formlega vel yfir þetta mál og að brunamálastjóri fari í leyfi á fullum launum meðan þessi mál verði könnuð ítarlega. Það verður ekki við það búið að þessi stofnun sé óstarfhæf vegna slíkra samstarfsörðugleika sem hér blasa við. Það verður að gera hér bragarbót á.