Ferill 22. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
119. löggjafarþing. – 22 . mál.


22. Frumvarp til laga



um bann við gerð og notkun myndlykla til þess að fá aðgang að læstum útvarpssendingum án greiðslu áskriftargjalds.

(Lagt fyrir Alþingi á 119. löggjafarþingi 1995.)


    

1. gr.


    Í lögum þessum merkir:
    Læst útsending: Hljóðvarps- eða sjónvarpsútsending ætluð almenningi þar sem hljóð- eða myndmerkjum hefur verið breytt í því skyni að veita einungis þeim aðgang að útsendingunni sem greitt hafa fyrir hana (áskrifendum).
     Myndlykill: Búnaður sem einum sér eða með öðrum búnaði er ætlað að veita aðgang að inntaki læstrar útsendingar.
    

2. gr.


    Óheimilt er að framleiða, afhenda, leigja, setja upp eða gera við myndlykla í því skyni að veita einhverjum utan hóps áskrifenda aðgang að innihaldi læstrar útsendingar.
    Óheimilt er að nota myndlykil til þess að taka á móti læstri útsendingu án þess að greiða áskriftargjaldið.
    

3. gr.


    Brot gegn ákvæðum 2. gr. varðar sektum eða varðhaldi allt að sex mánuðum. Tilraun til brots varðar sektum.
    

4. gr.


    Hluti og búnað, sem notaðir hafa verið við brot gegn ákvæðum 2. gr., skal gera upptæka, nema þeir séu eign aðila sem ekki er við brotið riðinn. Ávinning, sem aflað hefur verið með broti, skal gera upptækan.
    Hið upptæka skal vera eign ríkissjóðs. Hafi einhver beðið tjón við brotið skal sá eiga for gang til andvirðis hins upptæka ef bætur fást ekki á annan hátt.
    

5. gr.


    Um mál vegna brota á þessum lögum fer að hætti opinberra mála.

6. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með breytingu á útvarpslögum, sem gerð var árið 1985, var einkaréttur Ríkisútvarpsins til útvarpssendinga afnuminn og öðrum aðilum heimilað að reka sjónvarps- og hljóðvarpsstöðvar. Á grundvelli þessara laga eru nú reknar í landinu allmargar sjónvarps- og hljóðvarpsstöðvar í eigu annarra en ríkisins. Í lögunum er stöðvunum m.a. heimilað að afla tekna með afnotagjaldi.
    Útvarpslaganefnd, sem skipuð var af menntamálaráðherra 29. apríl 1992 til þess að endur skoða útvarpslög, nr. 68/1985, lagði m.a. til að tekin yrðu upp í útvarpslög ítarleg ákvæði um að læstar útsendingar sem boðnar séu gegn greiðslu njóti refsiverndar. Tillögur útvarpslaga nefndar voru að nokkru leyti sniðnar eftir sænskri löggjöf um sama efni sem tók gildi 1. janúar 1994. Efni þessa frumvarps er efnislega sambærilegt við framangreindar tillögur útvarpslaga nefndar.
    Dagskrárefni, sem einungis er ætlað áskrifendum, er sent út brenglað þannig að einungis þeir sem hafa sérstakan búnað, myndlykla, geti náð útsendingunum. Þeir sem greiða fyrir áskrift fá sérstakt númer, lykilnúmer, sem veitir þeim aðgang að útsendingunni gegn greiðslu áskriftargjaldsins.
    Í erindi sem menntamálaráðherra hefur borist frá Íslenska útvarpsfélaginu hf., sem annast rekstur Stöðvar 2, kemur fram að félagið hafi orðið fyrir tilfinnanlegu tekjutapi á undanförnum árum vegna þess að einstaklingar hafa komið sér upp búnaði til þess að ná læstum útsending um stöðvarinnar án greiðslu áskriftargjalds. Í erindi frá félaginu kemur fram að vissa sé fyrir því að í sumum tilvikum sé um skipulagða starfsemi að ræða, þar sem myndlyklum hefur verið breytt þannig að ótiltekinn fjöldi manna hefur aflað sér aðgangs að dagskránni gegn greiðslu eins áskriftargjalds. Félagið telur sig hafa fulla vitnesku um eina slíka keðju sem í séu um 300 „áskrifendur“. Tekjutap félagsins í þessu eina tilviki, miðað við að allur hópurinn greiddi ella tilskilið áskriftargjald gæti numið allt að 10 milljónum króna á ári, auk þess sem ríkissjóður tapar u.þ.b. 1,4 milljónum króna á ári vegna tapaðs virðisaukaskatts. Þá telur félagið sig hafa rökstuddan grun um fjölda annarra keðja þar sem fjöldi „áskrifenda“ sé sennilega á bilinu 5–6.000. Sé miðað við lægri töluna gæti tekjutap félagsins af þessum sökum numið u.þ.b. 170.000.000 kr. á ári og tap ríkissjóðs vegna virðisaukaskatts gæti numið 23–24 milljónum króna. Tilraunir félagsins til þess að fá umrædda starfsemi stöðvaða með aðstoð lögreglu og dómstóla hafa ekki skilað tilætluðum árangri. Ástæðan er sú að gildandi lög veita takmarkaðar heimildir til afskipta lögreglu og hinnar opinberru réttarvörslu af þessari starfsemi. Hafa rétt arvörsluaðilar talið útsendingarmerki sjónvarpsstöðva ekki geta verið andlag þjófnaðar eða nytjastuldar, sbr. ákvæði 244. gr. og 259. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Hafa til raunir Íslenska útvarpsfélagsins hf. til þess að gæta hagsmuna sinna með kærum á grundvelli þessara ákvæða hegningarlaganna ekki borið árangur.
    Vegna þessa kveðst Íslenska útvarpsfélagið hf. hafa lagt í verulegan kostnað við að endur nýja myndlyklakerfi félagsins. Með því móti hafi um sinn tekist að draga verulega úr því að aðilar nái aðgangi að læstum útsendingum án greiðslu tilskilins áskriftargjalds. Það sé hins vegar ljóst að þegar sé hafin skipuleg starfsemi við að reyna að afla aðilum utan hóps áskrif enda aðgangs að læstri dagskrá félagsins fram hjá nýja myndlyklakerfinu. Reynslan sýni að búast megi við því að þetta vandamál geti orðið viðvarandi.
    Telja verður að sú skylda hvíli á löggjafarvaldinu að það tryggi lögmætri atvinnustarfsemi sem mesta vernd gegn því að hún verði fyrir tjóni af ólögmætri starfsemi. Útvarpsstöðvum er heimilað að afla tekna með áskrift og því verður það að vera ótvírætt í lögum að móttaka slíks efnis án heimildar útvarpsstöðvarinnar og án greiðslu áskilins áskriftargjalds sé ólögmæt. Hafa ber í huga að hundruð manna hafa atvinnu og lífsframfæri sitt af þessari starfsemi. Óheimil móttaka felur jafnframt í sér brot gegn hagsmunum annarra en útvarpsstöðvarinnar, ekki síst þeirra aðila sem eiga höfundarétt að því efni sem sent er út. Gildandi löggjöf veitir ekki vernd í þessu efni. Af þeim ástæðum er frumvarp þetta flutt.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Nauðsynlegt þykir að skilgreina í lögunum hugtökin læst útsending og myndlykill. Um rædd hugtök eiga sér ekki fasta merkingu í íslenskri löggjöf.
    

Um 2. gr.


    Efni greinarinnar er nýmæli í íslenskri löggjöf. Í 1. mgr. er lýst ólögmæt starfsemi sem hef ur það að markmiði að gera aðilum utan hóps áskrifenda mögulegt að taka á móti læstum út sendingum án greiðslu áskriftargjaldsins. Upptalningunni er ekki ætlað að vera tæmandi held ur er áherslan á síðari hluta málsgreinarinnar. Í 2. mgr. er móttaka læstrar útsendingar, án greiðslu áskriftargjalds, lýst óheimil.
    

Um 3.–5. gr.


    Í þessum greinum er lýst viðurlögum gegn brotum á 2. gr. laganna. Tekin eru af tvímæli um að sú háttsemi sem lýst er í 2. gr. teljist brot sem hin opinbera réttarvarsla taki til. Við mat á refsihæð skv. 3. gr. yrði tekið mið af ákvæðum 259. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, um nytjastuld. Í 4. gr. er litið til ákvæðis 69. gr. almennra hegningarlaga um eigna upptöku.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um bann við notkun myndlykla til þess


að fá aðgang að læstum útvarpssendingum án greiðslu áskriftargjalds.


    Tilgangur frumvarpsins er að tryggja sjónvarps- og hljóðvarpsstöðvum, sem læsa útsend ingum sínum fyrir öðrum en þeim sem greiða þeim áskrift, vernd gegn því að þeir sem ekki greiða áskriftargjald taki á móti útsendingum stöðvanna.
    Samkvæmt upplýsingum frá Íslenska útvarpsfélaginu hf. telur félagið sig hafa orðið fyrir tilfinnanlegu tekjutapi á undanförnum árum vegna þess að einstaklingar hafi komið sér upp búnaði til að ná læstum útsendingum Stöðvar 2. Félagið telur sig hafa rökstuddan grun um að milli 5.000 og 6.000 aðilar nýti sér læstar útsendingar án þess að greiða áskrift. Miðað við að 5.000 þeirra keyptu áskrift gæti tekjutap félagsins verið u.þ.b. 170 milljónir króna á ári og tap ríkisins vegna virðisaukaskatts um 24 milljónir króna. Ekkert er þó hægt að fullyrða um hve stór hluti þessa hóps muni kaupa áskrift að útsendingum stöðvarinnar, en gera má ráð fyrir að verði frumvarpið að lögum leiði það til aukinna tekna stöðvarinnar og ríkisins vegna virðis aukaskatts. Þá má ætla að látið verði reyna á lögin og af því hljótist einhver kostnaður fyrir lögreglu og dómstóla.