Tímareikningur á Íslandi

Mánudaginn 05. febrúar 1996, kl. 16:44:34 (2721)

1996-02-05 16:44:34# 120. lþ. 83.13 fundur 197. mál: #A tímareikningur á Íslandi# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur


[16:44]

Steingrímur J. Sigfússon(andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað óumdeilanlegt að málið mun lenda í afar góðum höndum í efh.- og viðskn. Ég treysti því að þar verði þetta vandlega skoðað. Þetta er mál sem varðar mörg svið þjóðlífsins, ef út í breytingu af þessu tagi er farið. Ég held að það sé augljóst að í meðferð Alþingis á máli af þessu tagi þarf að kappkosta að gefa öllum kost á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Ég leyfi mér að vænta þess, herra forseti, að um þetta mál verði býsna skiptar skoðanir. Ég dreg ekki í efa að margir sem sinna viðskiptum og þá sérstaklega við Evrópu geta verið sama sinnis og hv. flm. um að þetta væri til hægðarauka. Aðrir munu hins vegar sjá á þessu ýmis tormerki. Ég leyfi mér t.d. að efast um að skólastjórnendur og ýmsir aðrir slíkir verði hrifnir af þessari breytingu um miðjan vetur, ef svo færi að við tækjum upp sumartíma og breyttum klukkunni á sama tíma og tilskipun Evrópusambandsins gerir ráð fyrir.

Það er líka athyglisvert og skemmtilegt að hér eru meðmælendur og andmælendur úr sama flokki. Það sýnir okkur að þetta er ekki mál sem þarf endilega að leggjast í flokkspólitíska farvegi. Ég vænti þess að um þetta geti áfram orðið lífleg skoðanaskipti þar sem ýmis rök með og á móti eigi við og fái vonandi að koma fram og njóta sín. En málið er þess eðlis að það er fullkomlega eðlilegt að það sé tekið fyrir og skoðað og reynt að ganga úr skugga um það hvort meirihlutavilji eða nógu gild rök standi til þess að ráðast í breytingar af þessu tagi eða ekki. Ég kannast í sjálfu sér ekki við að okkur sé neinn stórkostlegur vandi á höndum að búa við óbreytt ástand eða það fyrirkomulag sem verið hefur nú um nokkurt árabil. En það er ekki þar með sagt að ekki megi kanna það að gera þessa breytingu.