Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Miðvikudaginn 14. febrúar 1996, kl. 15:52:38 (3032)

1996-02-14 15:52:38# 120. lþ. 90.2 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur


[15:52]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þetta minnihlutaráðuneyti er að fara einhverja hroðalegustu hrakför sem ég hef lengi heyrt og séð í samanlagðri þingsögunni. Staðreyndin er auðvitað sú að nú eru að koma auðsveipir menn sem hæstv. forsrh. er búinn að berja til hlýðni og eru að reyna að bjarga sér með einhverjum hætti frá þeim afglöpum sem flutningur þessa frv. var auðvitað. Þetta er ekki formsatriði. Málið snýst ekki um einhver tækniatriði eins og hér var látið að liggja. Það er ekki tæknilegt mál að bera fram þingmál sem gengur þvert á stjfrv. og ég skal sanna það fyrir hv. þm. í eitt skipti fyrir öll þannig að hann ætti að trúa því. Ef einhver hv. þm. tekur upp efnislega frv. fjórmenninganna og flytur það sem brtt. við stjfrv. er það ekki lengur tæknilegt mál. Það er alveg harkalega efnislegt eða hvernig ætlar hv. þm. að greiða atkvæði? Hvernig ætlar hv. þm. Kristján Pálsson að greiða atkvæði ef einhver þingmaður vekur upp efni frv. hans og fytur það sem brtt. við stjfrv.? Ætlar hann að fella eigið frv. og standa þar með við stóru orðin um að styðja stjfrv. og hvað er þá orðið eftir af hans sannfæringu? Hver var þá tilgangurinn með frumvarpsflutningnum? Þetta er ekki leikfimi sem hér fer fram. Þetta eru löggjafarstörf.