Viðskiptabann á Írak

Mánudaginn 26. febrúar 1996, kl. 15:11:48 (3236)

1996-02-26 15:11:48# 120. lþ. 95.1 fundur 199#B viðskiptabann á Írak# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[15:11]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og fagna þeim svo langt sem þau ná. Ég skil það svo að Íslendingar muni tvímælalaust verða í hópi þjóða sem styðja það að opnað verði fyrir viðskipti á nýjan leik þó það verði skilyrt eins og rætt er um.

Vegna orða hæstv. ráðherra um harðstjórn Saddams Husseins í Írak, er einmitt ekki síður ástæða að mínu mati til að endurskoða meðferð þessara mála í ljósi þess að viðskiptabann sem var ætlað að knýja hann til afsagnar eða að koma á betra stjórnarfari í Írak hefur nú staðið um langt árabil og engu breytt í því efnum. Fúlmennið Saddam Hussein ríkir sem aldrei fyrr í Írak en neyðin er á kostnað almennings og ekki síst barna sem falla þarna umvörpum. Þess vegna verða menn að horfast í augu við það að þetta tæki hefur a.m.k. við þessar aðstæður og í þessu tilviki ekki náð tilgangi sínum. Það bitnar á þeim sem síst skyldi en virðist ekki hafa áhrif á stöðu þess aðila sem það átti að beinast gegn. Ég hvet því til þess að Ísland framfylgi afstöðu sinni en jafnframt að menn taki þessi mál til endurskoðunar í víðara samhengi, þ.e. beitingu þess tækis sem viðskiptaþvinganir eru og enginn deilir um að getur skilað góðum árangri. En dæmin sýna að þær gera það ekki endilega.