Skaðabótalög

Mánudaginn 18. mars 1996, kl. 16:31:18 (4001)

1996-03-18 16:31:18# 120. lþ. 109.8 fundur 399. mál: #A skaðabótalög# (margföldunarstuðull o.fl.) frv. 42/1996, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[16:31]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað er meginmarkmiðið að tjónþolar fái sanngjarnar og eðlilegar bætur. En við verðum að horfa til þess hvort svo geti farið að þessi breyting hafi þær afleiðingar að tryggingafélögin hækki iðgjöld sín. Ég leiddi að því rök í máli mínu að tryggingafélögin ættu ekki að þurfa að hækka iðgjöld sín og vitnaði þar til Vátryggingareftirlitsins og skoðunar þess á því og til hvaða úrræða Tryggingaeftirlitið getur gripið ef til þess kemur. Það var innihaldið í máli mínu þegar ég sagðist treysta því að ekki þyrfti að koma til hækkunar iðgjalda vegna þessa, þ.e. að Vátryggingareftirlitið mundi þá grípa inn í. En ef hv. þm. hefur einhverja leið til þess í gegnum löggjafarvaldið með einhverju ákvæði sem tryggir að tryggingafélögin hækki ekki iðgjöld sín vegna þessa, er ég sannarlega tilbúin til að skoða það. Eitt þyrfti líka að skoða sem mér láðist að geta um og ekki hefur komið fram hér. Tryggingafélögin hafa bent á að með breytingum og hækkun á skaðabótunum muni lögmannsþóknanir margfaldast vegna þess að hér á landi reiknast lögmannsþóknun sem hlutfall af bótum en ekki, eins og gerist t.d. í Danmörku, að þóknun er gerð upp á grundvelli vinnutímaframlags. Það þyrfti því jafnframt að skoða það hvort ekki væri ástæða til að koma í veg fyrir að lögmannsþóknanir hækkuðu gífurlega vegna þessa ákvæðis.