Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 10:05:06 (4362)

1996-03-22 10:05:06# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[10:05]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Virðulegi forseti. Ég hygg að á síðari árum sé það einsdæmi hvernig þessi ríkisstjórn fer aftur og aftur með offorsi gegn launafólki og hvernig hún ítrekað beitir gerræðislegum vinnubrögðum til að knýja í gegn umdeildar breytingar í fullkominni andstöðu við launþegahreyfinguna. Ekki síst á þetta við þegar við erum að fjalla um umfangsmiklar breytingar á samskiptareglum á vinnumarkaði eins og þetta frv. fjallar um og reyndar einnig frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna sem hér var fjallað um fyrir skömmu. Hér er um að ræða vinnubrögð sem maður að óreyndu hefði ekki trúað að Framsfl. stæði fyrir þó að sjálfstæðismönnum sé vissulega trúandi til að beita slíkum vinnubrögðum þegar launþegar og verkalýðshreyfingin á í hlut. Ég held að hæstv. félmrh. og ríkisstjórn hafi ekki sést fyrir í þeim ásetningi sínum að knýja þetta mál í gegn með góðu eða illu, jafnvel í fullkominni andstöðu við verkalýðshreyfinguna.

Ég tel að ríkisstjórnin sé hér að ganga gegn ýmsum grundvallaratriðum í alþjóðasamþykktum sem snúa að launafólki og koma í því sambandi til álita mannréttindasáttmáli Evrópu, félagsmálasáttmáli Evrópu og samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 87, um félagafrelsi og verndun þess, en þar segir að félög verkamanna og atvinnurekendur skuli eiga rétt á því að setja sér lög og reglur og vera algjörlega óháð í vali á fyrirsvarsmönnum sínum og við að skipuleggja stjórn sína og starfsemi og setja sér stefnuskrá. Þar er kveðið á um það að opinber stjórnvöld skuli forðast alla íhlutun er skerða mundi þann rétt eða hindra löglega beiðingu hans. Í þessari samþykkt ILO er einnig sagt að landslögum megi ekki vera þannig háttað að þau skerði ákvæði samþykktarinnar en þetta er einmitt það sem ríkisstjórnin er hér að gera, hún er að beita óeðlilegri íhlutun í starfsemi verkalýðshreyfingarinnar.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar nú ganga þvert á þessar samþykktir sem Ísland hefur undirgengist og ég trúi ekki öðru en að ASÍ íhugi að kæra þessi vinnubrögð ríkisstjórnarinnar til Alþjóðavinnumálastofnunarinnar því hér er gengið þvert á grundvallaratriði í samþykktum ILO um mjög óeðlilega íhlutun af hálfu ríkisvaldsins í samskiptareglur aðila vinnumarkaðarins þar sem verið er að rýra sjálfstæði stéttarfélaga þvert gegn afstöðu annars aðila vinnumarkaðarins, verkalýðshreyfingarinnar, en greinilega í þökk vinnuveitenda.

Það liggur fyrir og kemur fram í greinargerð sem tveir hæstaréttarlögmenn, þeir Atli Gíslason og Arnmundur Backman hafa gert um málið að sérfræðinganefnd Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem skipuð er 12 fræðimönnum á sviði vinnuréttar víðs vegar að úr heiminum, hefur komist að þeirri niðurstöðu að afskipti ríkisvaldisins af málefnum og starfsemi aðila vinnumarkaðarins sé brot á grundvallarreglum ILO, einkum samþykktum 87 og 98 sem Ísland hefur staðfest. Þannig er það grundvallaratriði að samið sé um breytingar í frjálsum samningum félaga launafólks og atvinnurekenda og að samkomulag sé gert um málið áður en til lagasetningar er gengið. Að samkomulag sé gert um málið áður en til lagasetningar er gengið. Þetta er grundvallaratriði í samþykktum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.

Í greinargerð þessara tveggja hæstaréttarlögmanna kemur að þessa meginreglu hafi Norðurlandaþjóðirnar virt og flestar Evrópuþjóðir. Og þeir bæta við að heimildir til einhliða lagasetningar um réttindi og skyldur stéttarfélaga verði að túlka einkar þröngt og allan vafa félögum í hag. Jafnframt kemur fram að það sé andstætt nefndum ákvæðum að jafnstór atvinnurekandi og ríkið takmarki félaga-, samnings- og verkfallsrétt stéttarfélaga með lagaboði og hafi frumkvæði að slíkum breytingum. Það er sem sagt andstætt ákvæðum hjá ILO að ríkið takmarki með lagaboði eða hafi frumkvæði að þeim breytingum sem snerta verkfallsrétt stéttarfélaga. Í því felst afskipti af samningsrétti. Það stríðir jafnframt gegn nefndum ákvæðum um að flytja vald frá stéttarfélögum, grunneiningum, án samþykkis þeirra til stéttarfélagasambanda.

Það má líka spyrja hvort þessi málsmeðferð ríkisstjórnarinnar gangi ekki þvert gegn 3. gr. sjálfrar vinnulöggjafarinnar og geri hana í raun marklausa þar sem kveðið er á um forræði stéttarfélaga á málefnum sínum og að einstakir meðlimir félaganna séu bundnir við löglega gerðar samþykktir og samninga félagsins og stéttarsambanda þess.

Virðulegi forseti. Miðað við aðdraganda þessa máls og þau gögn sem fyrir liggja má draga þá ályktun að ASÍ hafi sýnt fullan vilja til að gera breytingar á samskiptareglum aðila vinnumarkaðarins. Formið yrði með þeim hætti að aðilar vinnumarkaðarins næðu samkomulagi um málið án afskipta ríkisvaldsins og aðilar vinnumarkaðarins voru komnir vel á veg með það að ná því samkomulagi þegar hæstv. félmrh. með flumbrugangi tók málið úr þeirra höndum. Þetta gengur þvert á þau vinnubrögð og samskipti sem hæstv. félmrh. vill t.d. hafa við sveitarfélögin í landinu. Frjálsa samninga en enga lögþvingun, segir hæstv. félmrh. um sveitarfélögin og sameiningu sveitarfélaga. Á ekki það sama að gilda varðandi verkalýðshreyfinguna eða telur ráðherrann allt í himnalagi að breyta einhliða grundvallarréttindum launafólks sem er þeirra nauðvörn og haldreipi til að berjast fyrir bættum kjörum og réttindum?

Það fer ekki fram hjá neinum að það er að verða grundvallarstefnubreyting í Stjórnarráðinu gagnvart launafólki nú þegar Framsfl. og Sjálfstfl. hafa tekið við stjórnartaumunum. Úrræði ríkisstjórnarinnar er að þjóna atvinnurekendavaldinu í Garðastræti á kostnað launafólks í landinu. Tillaga eftir tillögu er flutt af ríkisstjórninni sem gengur undir einhverju sem kallast hreyfanleiki á vinnumarkaði, sveigjanleiki í launakerfi, bótakerfi atvinnulausra, sem er ekkert annað en skerðing á kjörum og réttindum launafólks. Og nú er verið að skerða athafnafrelsi verkalýðshreyfingarinnar og ráðast með offorsi að sjálfum rótum og grundvelli verkalýðshreyfingarinnar sem allt miðar að því að takmarka svigrúm hennar til að berjast fyrir bættum kjörum launafólks.

Virðulegi forseti. Af hverju liggur hæstv. ríkisstjórn og félmrh. svona lífið á að lögfesta í fullkominni andstöðu við verkalýðshreyfinguna breyttar samskiptareglur á vinnumarkaði? Þetta óðagot vekur því meiri furðu að viðræður voru í góðum gangi milli þeirra sem eiga að ná samkomulagi í þessu máli, aðila vinnumarkaðarins. Það hafði ekki slitnað upp úr þeim viðræðum. Það var hæstv. félmrh. sem kastaði sprengju inn í þær viðræður og sleit þeim með valdboði og tekur upp á Alþingi málstað atvinnurekenda. Samt er ljóst að umræðugrundvöllur milli aðila vinnumarkaðarins lá fyrir og kannski tímaspursmál, dagar eða örfáar vikur, að vinnuveitendur og verkalýðshreyfingin næðu saman í þessu máli. Þetta eru vinnubrögðin.

Það er von að menn tali um umskiptinga þegar framsóknarmenn eiga í hlut vegna þess að það má rekja söguna langt aftur, langt aftur þegar þeir eru í stjórnarandstöðu. Þá er boðorð þeirra í öllum málum sem á einhvern hátt snerta launafólk eða verkalýðshreyfinguna að það gangi ekki að lögfesta mál í andstöðu við verkalýðshreyfinguna.

En það skyldi nú ekki vera, virðulegi forseti, að þetta óðagot ríkisstjórnarinnar megi rekja til þess að kjarasamningar eru fram undan og ríkisstjórnin ætli að beita öllum þeim brögðum sem hún hefur til að koma í veg fyrir að t.d. hópar sem dregist hafa aftur úr og ætla að ná sínum rétti í næstu kjarasamningum geti það. Málið er að reisa þær girðingar sem hreinlega koma í veg fyrir að t.d. fólk í verkalýðshreyfingunni í röðum ófaglærðra nái fram sínum rétti í næstu kjarasamningum. En það er ljóst að ákvæði þessa frv. miða öll að því að styrkja stöðu stórra samflota og veikja stöðu sérkjarasamninga. Svona vinnubrögð hljóta að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir samskipti á vinnumarkaðnum og hljóta að leiða til mikils trúnaðarbrests milli ríkisstjórnarinnar og launþegahreyfingar sem getur haft alvarlegar afleiðingar við gerð næstu kjarasamninga þannig að markmið þessa frv. snúist upp í andhverfu sína.

Virðulegi forseti. Hæstv. félmrh. telur sig með þessu frv. vera að færa valdið til fólksins. En er það svo? Er það svo, virðulegi forseti? Nei, ég held að þegar grannt er skoðað sé verið að þrengja að rétti fólksins og reyndar verið að taka samningsréttinn af mörgum verkalýðsfélögum í landinu. Að auki geta þessar breytingar snúist upp í andhverfur sínar ef hugmyndin er sú með ákvæðum frv. að draga úr verkföllum. Framkvæmd verkfallsboðunar er á þá lund að ákvæðið t.d. um frestun vinnustöðvunar getur hæglega leitt til tíðari verkfalla eða a.m.k. lengri verkfalla en gerir samkvæmt núgildandi ákvæðum vinnulöggjafarinnar.

[10:15]

Hugmyndin, sem verkalýðshreyfingin hefur tekið undir og sem er eitt af því jákvæða sem út úr þessum umræðum milli aðila vinnumarkaðarins hefur komið, sem er að gera viðræðuáætlun þar sem skipulega og markvisst verði unnið að kjarasamningagerðinni, sem hefur verið mjög ábótavant, er í reynd gerð marklaus í frv. hæstv. ráðherra. Ákvæði frv. um þetta efni eyðileggja í raun þessi góðu áform. Þar er gert ráð fyrir að skyldan til að gera viðræðuáætlun sé lögð á einstök stéttarfélög sem þó geta falið heildarsamtökum gerð slíkra áætlana fyrir sína hönd. Öll framkvæmdin varðandi þessa viðræðuáætlun felur í sér þá augljósu og ólýðræðislegu leið að viðræðuáætlanirnar verða að stærstum hluta gefnar út af sáttasemjara.

Ferillinn sem viðræðuáætlunin á að ganga í gegnum felur líka í sér ákveðna hættu. Ég nefni dæmi. Ef hún á að liggja fyrir tíu vikum áður en samningar eru lausir þá spyr ég hæstv. félmrh.: Þýðir þetta, miðað við breyttar aðstæður eftir að viðræðuáætlunin hefur verið samþykkt og kröfur liggja þá fyrir fullmótaðar, að ekki sé hægt að koma að nýjum tillögum, kannski miðað við breyttar forsendur og áætlanir eftir að þessi viðræðuáætlun liggur fyrir? Við höfum búið við sveiflur í okkar efnahagslífi sem geta haft veruleg áhrif á forsendur kjarasamninga eftir að kröfur eru fullmótaðar nokkrum vikum áður en kjarasamningar renna út en það eiga þær að gera samkvæmt þessum ákvæðum. Við getum t.d. hugsað okkur að kjarasamningar séu lausir um áramót og viðræðuáætlun þarf þá að gefa út tíu vikum áður eða um miðjan október. Við þekkjum að á þeim tíma liggja yfirleitt ekki fyrir fullmótaðar tillögur ríkisstjórnarinnar um tekju- og gjaldahlið fjárlagafrumvarps og gera það yfirleitt ekki fyrr en í desembermánuði. Hér er þó oft um að ræða tillögur sem reynslan kennir okkur að hafa veruleg áhrif á kjarasamningagerðina. Spurningin er til hæstv. ráðherra: Komast nýjar kröfur að eftir að frestur samkvæmt viðræðuáætlun ríkissáttasemjara er liðinn? Verkalýðshreyfingin hefur einmitt oft knúið fram í tengslum við kjarasamninga réttarbætur fyrir launafólk og hnekkt fjandsamlegum tillögum í garð launafólks sem koma frá ríkisstjórn í tengslum við lokaafgreiðslu fjárlaga. Það skyldi þó ekki vera, virðulegi forseti, að þessi ferill sé mótaður með tilliti til þess að ekki sé hægt að koma við viðspyrnu af hálfu verkalýðshreyfingarinnar þegar sú staða er uppi.

Virðulegi forseti. Ræðumenn stjórnarandstöðunnar í umræðum í gær fóru yfir þá gjörbreytingu sem frv. hefur í för með sér varðandi atkvæðagreiðslur sem lúta t.d. að boðun verkfalls, hvernig gengið er frá samningum, atkvæðagreiðslum um miðlunartillögu og hvernig samningar eru afgreiddir. Það rugl, virðulegi forseti, sem í þessum fimm eða sex útgáfum af atkvæðagreiðslum felst er í raun og sanni yfirgengilegt. En svo virðist vera að minni hluti geti ráðið ferðinni og borið meiri hlutann ofurliði. Þetta er, virðulegi forseti, aðför bæði að verkalýðshreyfingunni og lýðræðinu í landinu og maður veltir fyrir sér hvar í fortíðinni hæstv. félmrh. og ríkisstjórn í raun eru.

Virðulegi forseti. Aukin völd sáttasemjara hafa verið til umræðu og er það að vonum. Ég tel að þessi leið sé mjög varhugaverð. Og ég get ekki betur séð en það sé verið að færa sáttasemjara nánast alræðisvald um grundvallarrétt og lýðræðislegan rétt verkalýðshreyfinganna og einstakra launþegasamtaka. Það er í raun verið að taka samningsréttinn af fjölda verkalýðsfélaga í landinu og færa hann til sáttasemjara. Ég skil hreinlega ekki, virðulegi forseti, á hvaða leið menn eru. Þannig getur sáttasemjari að vild ákveðið að miðlunartillaga taki til þeirra sem eru með lausa samninga og það án tillits til þess hvort viðkomandi hópar eiga í vinnudeilu eða ekki.

Ég vil benda á í þessu sambandi að Danir hafa einmitt lent í kæru frá Alþjóðavinnumálastofnuninni vegna svona fyrirkomulags. Samt á að taka það upp hér á landi. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann óttist ekki kæru frá Alþjóðavinnumálastofnuninni. Hvort hann verði kallaður þar á sakamannabekkinn vegna þess að Ísland er að ganga þvert gegn ýmsum mikilvægum grundvallarákvæðum samþykktar ILO. En ríkisstjórninni er greinilega alveg sama um það. Með góðu eða illu skal svo þrengja að réttindum fólks og verkalýðshreyfingarinnar að sáttasemjari fær alræðisvald og virðist geta ráðið því til hverra miðlunartillagan á að ná. Og hvað er þarna verið að gera annað en að rýra sjálfstæði stéttarfélaganna og þrengja að verkalýðshreyfingunni og stéttarfélögunum til þess að berjast fyrir rétti sínum?

Hér er vissulega, virðulegi forseti, vegið harkalega að rótum verkalýðshreyfingarinnar í landinu. Framsfl. er greinilega alveg sama. Hann ætlar að ráða ferðinni hvernig samskiptareglum aðila vinnumarkaðarins er háttað og taka upp málstað atvinnurekenda en ekki verkalýðshreyfingarinnar. Það er af sem áður var þegar hæstv. félmrh. hér áður fyrr í stjórnarandstöðu kom aftur og aftur í pontu til þess að taka upp málstað verkalýðshreyfingarinnar og tala fyrir því þegar hér voru ákvæði, sem hann taldi ganga gegn rétti launafólks og verkalýðshreyfingarinnar, að ekki væri hægt að knýja það fram á Alþingi í andstöðu við verkalýðshreyfinguna. En nú er það allt í lagi þegar hæstv. ráðherra hefur fengið völdin til þess að hafa eðlileg og jákvæð samskipti við verkalýðshreyfinguna. Þá á fyrsta árinu ræðst hann að grundvallarlöggjöf verkalýðshreyfingarinnar með þvílíkum hætti að það er raunverulega einsdæmi á síðari árum. Auðvitað er með slíkum aðferðum, þvert á það sem ráðherra segir, líka verið að draga úr lýðræðislegum rétti einstaklinga í verkalýðsfélögum.

Virðulegi forseti. Ég vil fara nokkrum orðum um efni 1. gr. þar sem segir að starfsmönnum fyrirtækis, þar sem starfa að jafnaði a.m.k. 250 starfsmenn, sé þó heimilt að stofna þar stéttarfélag, enda séu að lágmarki 3/4 þeirra félagsmenn. Fer þá eitt stéttarfélag með samningsumboð fyrir starfsmenn.

Um þetta mál má ýmislegt segja. Ég vil í þessu sambandi minna á að á þingum ASÍ 1956--1962 var samþykkt grundvallarbreyting á skipulagsmálum verkalýðshreyfingarinnar. Inntak þeirrar stefnuyfirlýsingar var að undirstaðan í uppbyggingu verkalýðssamtakanna skuli vera vinnustaðurinn. Samkvæmt þessu áttu verkalýðssamtökin eftir því sem framkvæmanlegt var að reyna að koma á því skipulagskerfi að í hverri starfsgrein sé aðeins eitt félag í hverjum bæ eða á sama stað og skuli allir á sama vinnustað vera í sama starfsgreinafélagi. Þannig mundi eitt félag semja fyrir alla á sama vinnustaðnum hvort sem um væri að ræða verkafólk, skrifstofufólk eða sérstaklega fagmenntað starfsfólk.

Miðstjórn ASÍ var falið á þeim tíma, þ.e. fyrir 40 árum síðan, að vinna að framgangi þessarar stefnu en að tilhlutan ASÍ var á árinu 1960 gefin út ítarleg greinargerð og tillögur um skipulagsmálin. Það má kannski segja að eitthvað hafi þokast í þá átt sem lagt var upp með fyrir 40 árum síðan. En því miður verður að segja að ASÍ hefur ekki fylgt þessu máli eftir sem skyldi því margt er athyglisvert í þessari hugmynd.

Á stærri vinnustöðum er fólk í mörgum stéttarfélögum sem bæði leiðir til óhagkvæmni fyrir fyrirtæki og getur ýtt undir tvöfalt launakerfi en ætla má að ef allir þeir sem vinna í sömu starfsgrein eða á sama vinnustað væru í einu og sama starfsgreinafélagi, sem yrði lögformlegur samningsaðili um kaup og kjör starfsmanna, þá gæti það hugsanlega stuðlað að auknu jafnrétti í tekjuskiptingunni. Þetta er alla vega kostur sem menn hljóta að skoða. Og það hlýtur að hafa vakað fyrir Alþýðusambandinu fyrir 40 árum síðan að þessi breyting á skipulagi verkalýðshreyfingarinnar gæti stuðlað að því að jafna kjörin.

Þessi hugmynd hefur ekki einasta verið sett fram af ASÍ heldur einnig á Alþingi af Vilmundi Gylfasyni árið 1980 en þá hlaut málið litla umfjöllun. Það má líka vissulega skoða það hvað réttlætir það að opinberir starfsmenn og starfsmenn á almenna vinnumarkaðnum séu í mismunandi stéttarfélögum. Það ætti því af hálfu verkalýðshreyfingarinnar sjálfrar að skoða kosti þess og galla hvort ekki sé tímabært að afnema þann mismun sem er á opinberum og almennum vinnumarkaði. Störf, menntun og ábyrgð eru svipuð hvort sem launamaðurinn starfar í opinberri þjónustu eða á almennum vinnumarkaði. Þessi tvískipting hefur skekkt launakerfið, það vitum við, og leitt til mismununar bæði í launum og réttindamálum. Þannig hefur ríkisvaldið í samkeppni um vinnuaflið við almenna vinnumarkaðinn tekið þátt í þessu tvöfalda launakerfi með alls konar duldum greiðslum sem m.a. hefur aukið launamismun kynjanna verulega. Einnig er ljóst að til að mynda lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna umfram réttindi á almenna vinnumarkaðnum hafa leitt til þess að launum hjá hinu opinbera hefur verið haldið niðri.

Virðulegi forseti. Mér finnst það vel koma til skoðunar að kanna ítarlega kosti þess og galla að fara þessa leið og hvort slík sameining stéttarfélaga á opinberum markaði og almenna markaðnum gæti ekki styrkt verulega verkalýðshreyfinguna í landinu í heild sinni þannig að hún hefði meiri og öflugri viðspyrnu gagnvart sterku atvinnurekendavaldi í landinu. Hugsanlega væri einnig hægt að ná fram verulegri uppstokkun og einföldun á launakerfinu með því að sama stéttar- og verkalýðsfélag mundi ná til starfsmanna í opinberri þjónustu og á almenna vinnumarkaðnum.

Þessi leið ásamt því að ASÍ skoðaði af fullri alvöru þá stefnu sem mörkuð var á ASÍ-þingi fyrir nokkrum áratugum er miklu vænlegri og að það verði að tilhlutan verkalýðshreyfingarinnar sjálfrar sem er mjög mikilvægt og miklu árangursríkari leið en sú sem ríkisstjórnin ætlar nú að knýja fram í andstöðu við verkalýðshreyfinguna.

Þannig mætti hugsa sér að allir þeir sem vinna að sömu framleiðslu á vöru eða inna af hendi sömu þjónustu og selja vinnu sína til sama vinnukaupanda séu í sama starfsgreinafélagi hvort sem er á almenna vinnumarkaðnum eða hjá hinu opinbera og starfsgreinafélögin verði lögformlegur samningsaðili um kaup og kjör meðlima sinna. Þetta hygg ég að hafi verið hugmyndin sem hafi verið inni í myndinni þegar ASÍ fjallaði um þetta mál fyrir nokkrum áratugum síðan.

[10:30]

Verkalýðshreyfingin verður auðvitað að átta sig á því sjálf líka að það sem var styrkleiki hennar í gær getur verið veikleiki hennar í dag. Verkalýðshreyfingin verður að hafa styrk og kjark til þess að ganga í gegnum endurskipulagningu sjálf á sínu innra starfi sem geri hana öflugri til að mæta sterku atvinnurekendavaldi og til að styrkja innviði sína þannig að hún verði öflugri, skipulagðari og kraftmeiri til að vinna að því markmiði að bæta kjör fólksins í landinu.

En sú leið, sem hæstv. félmrh. hefur valið og fram kemur í 1. gr. frv., er ekki til þess fallin og virðist líka ganga gegn samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem kveður á um bann við því að tiltekinn fjöldi, eins og hér er gert ráð fyrir, geti starfað saman í stéttarfélagi. Ég vil, virðulegi forseti, í allri vinsemd spyrja hæstv. ráðherra hvort það hafi verið farið í gegnum það í félmrn. hversu margar alþjóðasamþykktir verið er að brjóta með þessu frv. Eða skipta kannski engu máli þessar alþjóðasamþykktir sem við erum að samþykkja hér á þinginu? Ég veit að sá sem unnið hefur mikið að samningu þessa frv. er mikill áhugamaður um það að Ísland standi sig í því að standa við alþjóðasamþykktir en sé ekki að ganga gegn þeim. Því hygg ég að það hljóti að hafa verið farið ítarlega í gegnum það í ráðuneytinu hvort verið sé að ganga gegn alþjóðasamþykktum. Ég nefni bæði samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, mannréttindasáttmálann og félagsmálasáttmála Evrópu. Þetta þarf að skoða ítarlega.

Það liggja fyrir álit sem Alþýðusambandið hefur látið gera hjá hæstaréttarlögmönnum, fróðum lögmönnum um þetta mál, að í ýmsum atriðum í frv. sé verið að ganga gegn alþjóðasamþykktum. Ég hygg að við ættum að fara varlega og skoða hvort hætta sé á að Ísland fái kæru á sig ef svo illa fer að þetta frv. verði samþykkt eins og það liggur fyrir. Því vil ég biðja hæstv. ráðherra að gera þinginu ítarlega grein fyrir því og fara lið fyrir lið yfir þau ákvæði í alþjóðasamningum sem á hefur verið bent að verið sé að ganga gegn og segi okkur hvort ráðuneytið hafi skoðað það mál. Hafi hæstv. ráðherra ekki haft fyrir því að skoða hvort við séum að ganga gegn alþjóðasamþykktum, hlýtur nefndin sem fær málið til umfjöllunar --- og ég treysti formanni nefndarinnar, hv. 14. þm. Reykv., til þess að fara rækilega í gegnum þennan þátt málsins. Kannski er líka verið að ganga gegn og brjóta ákvæði 3. gr. vinnulöggjafarinnar eins og ég benti á, þar sem segir að verkalýðshreyfingin eigi að ráða málefnum sínum sjálf.

Virðulegi forseti. Ég fer brátt að ljúka máli mínu. Ég vil þó aftur hreyfa þeirri hugmynd sem ég setti fram í gær um það að fram fari allsherjaratkvæðagreiðsla hjá hlutaðeigandi aðilum, félögum í ASÍ, BSRB og hjá vinnuveitendum um þetta mál sem svo hart er deilt um. Ég tel nauðsynlegt að það verði gert ef ríkisstjórnin ætlar hvergi að hvika í þessu máli eða koma til móts við sjónarmið verkalýðshreyfingarinnar.

Við þingmenn Þjóðvaka hljótum að íhuga að flytja slíkt þingmál, og stjórnarandstaðan þá í heild að skoða það, sem feli í sér að nái þetta frv. fram að ganga öðlist það ekki gildi fyrr en fram hefur farið allsherjaratkvæðagreiðsla hjá aðilum vinnumarkaðarins. Það má vissulega hugsa sér ýmis form á slíkri atkvæðagreiðslu, t.d. að á meðan málið er í meðferð þingsins fari fram slík atkvæðagreiðsla sem yrði ráðgefandi fyrir Alþingi eða fram kæmi í ákvæði til bráðabirgða með frv., ef að lögum verður, að þau taki ekki gildi nema þau yrðu samþykkt með slíkri allsherjaratkvæðagreiðslu.

Virðulegur forseti. Ríkisstjórnin og hæstv. ráðherrar segja að með frv. sé verið að auka lýðræðislegan rétt fólksins en við mörg hér inni og í verkalýðshreyfingunni drögum það í efa. En sé ríkisstjórninni svo umhugað um lýðræðislegan rétt fólksins, eins og hún lætur í veðri vaka, þá er sjálfsagt ekki til lýðræðislegri leið en sú að þeir sem þurfa að búa við þessa löggjöf fái að segja sitt álit í lýðræðislegri atkvæðagreiðslu um málið.

Virðulegi forseti. Ég tel að ríkisstjórnin fari með offorsi í þessu máli. Máli sem er svo mikilvægt að ríki sátt um í þjóðfélaginu. En eins og ég sagði er með frv., ef að lögum verður, verið að brjóta ýmsar alþjóðlegar samþykktir sem Ísland er aðili að og það gengur auðvitað ekki. Ef ríkisstjórnin vill í raun og sanni halda friðinn á vinnumarkaðnum þá ætti hún að leggja þetta mál til hliðar og lofa aðilum vinnumarkaðarins að ljúka því áður en beitt er lögþvingun í blóra við annan aðila vinnumarkaðarins, verkalýðshreyfinguna, en í þökk hins aðilans, atvinnurekenda.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki komi til greina til þess að lægja öldurnar í þessu máli og til þess að reyna að ná sátt um niðurstöðuna innan þings og utan að hæstv. ráðherra gefi aðilum vinnumarkaðarins tækifæri til að ljúka þeirri vinnu sem var vel á veg komin. Það er enn svigrúm til þess, virðulegi forseti, að málið verði lagt til hliðar hér í þingsölunum en að aðilar vinnumarkaðarins fái eins og tvær til fjórar vikur til þess að sjá hvort ekki náist sátt um það og sameiginleg niðurstaða þessara aðila. Ég hygg að það sé best fyrir alla aðila, ríkisstjórnina, aðila vinnumarkaðarins, Alþingi og þjóðina í heild að þeir sem eiga að búa við þessa löggjöf nái sameiginlegri niðurstöðu í málinu en að málið sé ekki keyrt hér í gegnum þingið með því offorsi sem virðist eiga að gera. Það er einsdæmi líka að komið sé með mál inn í þingsali, sem í felst svona mikil breyting --- við erum að fjalla hér um vinnulöggjöfina --- og það nokkrum vikum áður en þingi á að ljúka, og þinginu ætlað að ljúka því fyrir vorið og þá kannski í fullkominni andstöðu við verkalýðshreyfinguna. Það gengur ekki.

Virðulegi forseti. Það skulu verða mín lokaorð að þetta eru forkastanleg vinnubrögð sem eru í hróplegu ósamræmi við það lýðræði sem við viljum búa við í landinu.