Friðlýsing Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum

Föstudaginn 19. apríl 1996, kl. 13:50:14 (5034)

1996-04-19 13:50:14# 120. lþ. 123.16 fundur 410. mál: #A friðlýsing Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum# frv., Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[13:50]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja. Hér er um endurflutning að ræða á frv. nánast óbreyttu frá því á 115. löggjafarþingi og þar áður reyndar á tveimur fyrri þingum. Flutningsmenn ásamt með mér eru sumir hinir sömu og fluttu frv. á 115. þingi svo sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson og Kristín Ástgeirsdóttir en auk þeirra flytja frv. hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, Guðmundur Árni Stefánsson, Ásta R. Jóhannesdóttir, Bryndís Guðmundsdóttir og Margrét Frímannsdóttir, sem sagt þingmenn fjögurra þingflokka af sex sem hér eiga sæti á Alþingi. Síðast voru reyndar einnig meðflutningsmenn að frv. tveir hv. þm. Framsfl., þáv. formaður flokksins, hv. þm. Steingrímur Hermannsson og þáv. formaður þingflokksins, Páll Pétursson.

Það er rétt að fara fáeinum orðum um þær breytingar sem orðið hafa bæði á efni frv., þær litlu sem eru, en þó kannski einkum og sér í lagi þær breytingar sem orðið hafa á aðstæðum í alþjóðastjórnmálum og hvað friðarmál og afvopnunar- eða vígbúnaðarmál snertir. Ég hyggst verja nokkru af tíma mínum í það, enda get ég hvað innihald frv. og rökstuðning fyrir því að miklu leyti vísað til fyrri framsöguræðna.

Það er skoðun mín að aðstæður hafi síður en svo dregið úr gildi þess að við Íslendingar tökum af skarið og friðlýsum okkar land fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum og setjum jafnframt í lög bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja á okkar yfirráðasvæði eftir því sem við getum að þjóðarétti. Þó að sem betur fer horfi að sumu leyti friðvænlegar í heiminum, í okkar heimshluta a.m.k., nú en var til að mynda á síðasta áratug þegar þetta frv. var fyrst unnið og flutt, þá dregur það ekkert úr gildi þess og mikilvægi að einstök lönd leggi sín lóð á vogarskálar þeirrar þróunar og reynt verði að tryggja að hún haldi áfram í átt til algerrar kjarnorkuafvopnunar því að það hlýtur að vera takmark og draumur allra réttsýnna manna í heiminum að þessi skelfilegu vopn, kjarnorkuvopn og eiturefnavopn, hverfi af jörðinni. Sem betur fer hefur að sumu leyti einnig hvað samningsbundin ákvæði og alþjóðasamninga snertir orðið framþróun á þessu sviði og ber þar auðvitað hæst niðurstöðu í viðræðum um framlengingu samningsins um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna, NPT-samningsins sem svo er kallaður, skammstafað upp á ensku, en um það hefur náðst samkomulag að framlengja þann samning en í honum var frá fyrri tíð gert ráð fyrir endurskoðun og endurákvörðun um framhaldsgildi samningsins. Þar liggur nú fyrir niðurstaða og er það afar mikilvægt þó að auðvitað verði að viðurkenna að sá samningur hefur þau takmörk sem raun ber vitni að hann gengur út frá þeirri staðreynd að tiltekin kjarnorkuveldi séu eftir sem áður við lýði í heiminum.

Þá er einnig rétt að geta um framvindu Genfarviðræðna um algert bann við tilraunum með kjarnorkuvopn sem er kannski sá hluti kjarnorkuvígbúnaðarins sem ekki hvað síst hefur farið fyrir brjóstið á almenningi og heimsbyggðinni á undanförnum missirum. Þar er því miður e.t.v. ekki jafnljóst um framvindu eða niðurstöðu málsins þó að mörg ríki, og þar á meðal Bandaríkin, beiti nú þrýstingi um að samningurinn verði undirritaður og frá honum gengið á þessu ári. Það er hins vegar ekki ljóst jafnvel þó að samstaða takist með helstu kjarnorkuveldum um að þrýsta á um tilraunabann, eins og Bandaríkjamönnum og Frökkum sem löngum hafa verið svartir sauðir í þessu efni, að það dugi til því að nýtilkomin eða talin kjarnorkuveldi af sumum hafa enn fyrirvara á um sína afstöðu og má þar nefna lönd eins og Pakistan og Indland. Kínverjar hafa einnig farið sér hægt og liggur kannski ekki alveg ljóst fyrir hver verður endanleg afstaða þeirra þó að þeir hafi í orði kveðnu sagst mundu standa að undirritun samningsins ef um það tækist algjör samstaða. En mestu skiptir kannski að Frakkar hafa látið undan þrýstingi heimsbyggðarinnar og lofað því að þeir muni standa að undirritun samningsins næsta haust.

Þessir tveir meginsamningar sem varða vígbúnaðarþætti sem tengjast beint efni þessa frv., þ.e. útbreiðslu kjarnorkuvopnanna sjálfra og framvindu Genfarviðræðna um bann við tilraunum með kjarnorkuvopn, eru vissulega mjög mikilvægir. En þeir breyta ekki þeirri staðreynd að víða í heiminum er unnið að þróun kjarnorkufriðlýsingar einstakra ríkja eða svæða og ber þar hæst það svæði sem þetta frv. tekur sérstaklega mið af, þ.e. Nýja-Sjáland, en ég vann frv. á sínum tíma á sama tíma og fyrir nýsjálenska þinginu lá frumvarp til laga um friðlýsingu Nýja-Sjálands, flutt af þáverandi forsætisráðherra Nýja-Sjálands, David Lange, og það tekur um mjög margt mið af því frv. Það var síðan samþykkt eins og kunnugt er og frægt og gildir enn þann dag í dag og kostaði það Nýsjálendinga þó nokkur átök við stórveldin, ekki síst Bandaríkin, að knýja fram viðurkenningu þeirra á eða öllu heldur að stórveldin virtu þeirra kjarnorkufriðlýsingu. En það hafa þau gert og það sem meira er, nú er jafnframt að hilla undir meiri viðurkenningu á kjarnorkufriðlýsingu alls Suður-Kyrrahafsins sem lengi hefur verið baráttumál ríkjanna á þeim slóðum. Og þar munar aftur um að Frakkar kúventu í afstöðu sinni til þess samnings vegna þrýstings frá heimsbyggðinni á síðustu mánuðum og hafa nú lofað því jafnframt að taka til við að virða og viðurkenna Rarotonga-samninginn um kjarnorkufriðlýsingu Suður-Kyrrahafs. Tlatelolco-samningurinn um kjarnorkufriðlýsingu Suður-Ameríku hefur svipaða stöðu og hann hefur haft um nokkurt árabil. En það nýjasta af þessu tagi er svo viljayfirlýsing um að unnið verði að kjarnorkufriðlýsingu heillar heimsálfu, þ.e. Afríku, og það hljóta auðvitað að teljast allmikil tíðindi ef svo stór heimssvæði komast undir þessa skipan.

Ég held, herra forseti, að ég þurfi því ekki að hafa um það fleiri orð að þróunin í alþjóðamálum, jákvæð sem hún er að sumu leyti en ekki öðru, mælir sterklega með því að einstök ríki og svæði vinni áfram að því fyrir sitt leyti að leggja lóð á vogarskálar afvopnunar og friðar með því að friðlýsa sín lönd og yfirráðasvæði.

Þá er rétt að nefna þann þátt sem snýr að öðru efni frv., þ.e. banni við eiturefnavopnum og umferð kjarnorkuknúinna farartækja, banni við losun kjarnorkuúrgangs og geislavirkra efna, en þetta allt er að finna í frv., í mismunandi greinum þess og hefur reyndar tekið nokkrum breytingum frá fyrstu gerð því að þá var gildissvið frv. ekki jafnvítt og nú er orðið. Þar er svo sannarlega ástæða til þess að Íslendingar haldi vöku sinni og þó að ekkert kæmi annað til en sú umferð kjarnorkuknúinna farartækja sem við vitum af í okkar heimshluta og deilur við kjarnorkuiðnaðinn og ekki síst meðferð kjarnorkuúrgangs frá kjarnorkuiðnaði, orkuiðnaði, þá væri það ærið nóg til þess að Íslendingar reyndu að vera í fararbroddi þeirra þjóða sem krefjast aðgerða á því sviði.

[14:00]

Af og til koma í fjölmiðlum fréttir af skelfilegum kjarnorkuslysum og óhöppum sem orðið gætu í sjávarauðlindinni í Norður-Atlantshafinu ef svo illa færi að sokknir kjarnorkukafbátar leystust sundur og tækju að leka geislavirku eldsneyti af kjarnaofnum sínum þótt ekki tækist svo illa til að kjarnorkusprengjur sem sumir þeirra báru opnuðust einnig. Það hlýtur að vera okkur þörf áminning þegar slíkar fréttir berast um að við eigum að beita okkar ýtrustu þjóðaréttindum til þess að friðlýsa okkar lögsögu fyrir slíku og það er gert með þeirri framsetningu málsins sem hér er flutt að markmið frv. er beinlínis að banna umferð kjarnorkuknúinna farartækja að því marki sem okkur er ýtrast mögulegt á grundvelli þjóðaréttar. Það á reyndar við um mörg ákvæði frv., sbr. 12. gr. þess, að auðvitað verður að hafa þann fyrirvara á algjörri friðlýsingu íslensku efnahagslögsögunnar og landgrunnsins og lofthelginnar, þ.e. alls íslensks yfirráðasvæðis samkvæmt ýtrasta þjóðarétti, að í vissum tilvikum eru sjálfsagt alþjóðlegar skuldbindingar þannig að okkur er ekki stætt á því að banna með öllu slíka umferð.

Í nýsjálensku lögunum er valin sú leið að heimilaðar eru undanþágur fyrir því sem kallað er ,,friðsamleg gegnumferð án dvalar eða viðkomu``. En þá ber að geta að alþjóðlegar siglingaleiðir liggja um nýsjálenska lögsögu svo sem eins og sundin milli Norður- og Suðureyjar og Stewart-eyjar og Suðureyjar og þess vegna var að þjóðarétti ekki talið að Nýsjálendingum væri stætt á því að alfriða sína 12 mílna lögsögu eða landhelgi. Það getum við hins vegar gert. Það getur engin þjóð haldið því fram að leið hennar verði að leggja um íslensku landhelgina þó í friðsamlegum tilgangi sé. Hitt er augljóst að við getum ekki lokað til að mynda Grænlandssundi fyrir friðsamlegri gegnumferð farartækja sem byggir á þjóðarétti. Því held ég að 12. gr., eins og hún er nú frágengin, og það er annað af tveimur efnisatriðum sem tekið hefur breytingum í frv., gangi þannig frá þessu máli sem skynsamlegast sé og tryggi okkur Íslendingum ýtrastan rétt í þessu efni.

Ég vil í þessu samhengi, herra forseti, líka nefna að ég hef nýlega fengið frá Bretlandi gögn um óhöpp eða atvik sem nánast voru orðin að stórkostlegum slysum í t.d. endurvinnslustöðinni í Sellafield. Það hafa komið fram í breskum blöðum nú á síðustu vikum hrollvekjandi upplýsingar, að vísu ekki staðfestar af yfirvöldum en hafðar eftir mjög áreiðanlegum heimildum, m.a. fyrrverandi yfirmönnum í breskum kjarnorkuiðnaði, að a.m.k. einu sinni ef ekki í tvígang á undanförnum árum hafi legið við stórkostlegum kjarnorkuóhöppum í endurvinnslustöðinni í Sellafield sem hugsanlega hefðu getað haft áhrif af stærðargráðu Tsjernóbíl-slyssins hér í okkar heimshluta.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að Íslendingar hafa á undanförnum árum reynt að mótmæla bæði endurvinnslustöðinni í Sellafield og Dounreay. Ég held að það hversu nærri okkur í heiminum jafnvel slíkir hlutir eru staðsettir og sú hrikalega staða sem uppi er í kjarnorkuiðnaðinum varðandi meðhöndlun kjarnorkuúrgangs almennt sem til fellur við orkuvinnslu, eigi að vera okkur áminning um að menn þurfa að halda vöku sinni í þessum efnum. Staðreyndin er sú að allur kjarnorkuiðnaðurinn í heiminum er meira og minna í upplausn og vandræðum út af meðferð kjarnorkuúrgangs. Þau mál eru meira og minna í ólestri og þarf ekki Sovétríkin sálugu eða Rússland til og er mönnum þó tamt að tala mest um hættuna sem þar er. Vissulega er þar hrikalegt ástand, á Kólaskaganum og víðar, en þarf ekki til vegna þess að jafnvel á Vesturlöndum og í þróuðum ríkjum eins og Svíþjóð, Bretlandi, Japan og víðar eru þessi mál í miklu uppnámi og víðast hvar er því haldið leyndu hvernig ástandið er. Hugmyndir hafa verið uppi um það að bæði fljúga og sigla með stórhættulegan kjarnorkuúrgang, jafnvel milli heimsálfa, og í því sambandi tel ég alveg hiklaust rétt að við Íslendingar látum það liggja fyrir að slík umferð yrði algjörlega óheimil um allt íslenkst yfirráðasvæði.

Hin efnisbreytingin, herra forseti, er svo sú að í 16. gr. er nú gert ráð fyrir því að framkvæmd laganna heyri undir og sé á ábyrgð utanrrh. Í eldri útgáfu frv. var að fordæmi Nýsjálendinga valin sú leið að láta þetta vera á forræði forsrh. og þá með þeim rökum að framkvæmdin gæti kallað á samráð margra ráðherra, ríkisstjórnar og þings um málin, en við nánari athugun höfum við flutningsmenn orðið þeirrar skoðunar að það falli betur að íslenskri stjórnskipun að láta málið heyra undir og vera á ábyrgð utanrrh., enda mun hann að sjálfsögðu hafa samband við Alþingi og utanrmn. um framkvæmd og meiri háttar ákvarðanir sem þessu tengjast. Hitt er ljóst að það gæti verið praktískt fyrirkomulag að utanrrh. mundi fela öðrum ráðherrum eftir atvikum vissa þætti framkvæmdar málsins og þar gætu fyrst og fremst komið til ráðherrar eins og samgrh. eða umhvrh. sem í krafti stofnana sem undir þau ráðuneyti heyra gætu verið heppilegir aðilar til þess að annast einstaka þætti framkvæmdar málsins, að hafa eftirlit með vissum þáttum og nægir þar að nefna umhverfismálin, losun efna og annað því um líkt, mengunarmálin, umferð skipa og annað sem undir samgrn. gæti fallið.

Þetta eru þá tvær meginefnisbreytingar frv. Ég fagna því að hæstv. utanrrh. er viðstaddur umræðuna, m.a. af þessum sökum því að málið fellur að sjálfsögðu að verksviði hans þar sem eru utanríkismál, samningar við erlend ríki og annað því um líkt, en líka að því leyti að gert er ráð fyrir því að lögin heyri undir þann hæstv. ráðherra. Það liggur í hlutarins eðli að það kæmi í hlut utanrrh. hvers tíma að afla svæðinu viðurkenningar og stuðnings á alþjóðavettvangi. Hér eru að sjálfsögðu engar spár hafðar uppi um það hversu létt slíkt mundi reynast og hve langan tíma það tæki. Reynslan sýnir að ekki er við því að búast að neinar stökkbreytingar verði í þessum efnum og má þar taka bæði reynsluna af hinu kjarnorkufriðlýsta svæði á Suður-Kyrrahafi og Rarotonga-samningnum, reynslu Nýsjálendinga og fleira.

Mér er kunnugt um að í fleiri löndum eru menn að ræða og skoða þessi mál. Það hefur til að mynda farið fram nokkur umræða í Grænlandi af skiljanlegum ástæðum eftir þá hroðalegu reynslu sem Grænlendingar hafa orðið fyrir, að fá upplýsingar um það áratugum seinna hvernig þeirra land var misnotað af kjarnorkuveldi og kjarnorkuóhöppum sem þar urðu leynt, lífi saklausra borgara stofnað í hættu þannig að nú hefur skapast bótaskylda sem viðurkennd er. Slíkir atburðir og það sem er að koma í ljós úr sögunni í þessum efnum ættu einnig að vera okkur hvatning til að sofna ekki á verðinum í þessum efnum þó sem betur fer megi segja að um ýmislegt horfi friðsamlegar í þessum efnum heldur en gerði kannski á verstu tímum kalda stríðsins. Hinu er því miður ekki að leyna, og það fellur undir umræður um aðra þætti utanríkismála sem væntanlega verða á dagskrá innan skamms, að það eru viðsjár uppi af ýmsu tagi í heiminum og því miður ótímabært að slá því föstu að sú þróun, sem hófst með afvopnunarsamningum á ofanverðum 9. áratugnum og ekki síst fór af stað í kjölfar hins fræga Reykjavíkurfundar sem nú á 10 ára afmæli, verði bein braut og áframhaldandi í átt til aukinnar afvopnunar. Það gengur meira að segja býsna illa að tryggja framkvæmd þeirra samninga sem þegar er búið að gera, m.a. vegna efnahagsástands í sumum samningslöndunum. Bæði Rússar og Úkraínumenn, Hvít-Rússar og fleiri telja sig tæpast hafa efni á því að greiða kostnaðinn af förgun vopna sem slíkum samningum fylgja og er það eftir öðru í sambandi við þá sóun sem öllum vígbúnaði hefur fylgt í gegnum tíðin að þegar loksins kemur að því að reyna að losna við hann, þá strandi það á kostnaðinum.

Herra forseti. Ég held að ég hafi gert eins og þörf er grein fyrir þeim breyttu aðstæðum og þeim efnisbreytingum sem á frv. eru. Að öðru leyti vísa ég til fyrri framsöguræðna um það. Ég tel reyndar að þetta frv. tali fyrir sig sjálft. Ég er sannfærður um að fyrir því er yfirgnæfandi hljómgrunnur á Íslandi að friðlýsa Ísland fyrir þessum vígbúnaði, vopnum og umferð kjarnorkuknúinna tækja og það liggur nokkuð í hlutarins eðli að vopnlaus smáþjóð eins og við erum hljótum að vera talsmenn slíkra hluta. Ég held að aðstæður í alþjóðastjórnmálum séu að mörgu leyti hagstæðar til þess að reyna að koma slíkri breytingu fram. Hún á að mínu mati ekki að þurfa að rekast á við neina þá þætti í utanríkispólitískum samskiptum Íslendinga sem séð verður að eigi að koma í veg fyrir það, enda er það þá annarra að breyta því en okkar.

Ég trúi því ekki að menn reyni að færa fram þau rök gegn þessu frv. að Íslendingar eigi ekki rétt á því né hafi til þess fullt forræði að ákveða slíka friðlýsingu síns eigin lands, ef þeim býður svo við að horfa. Ég bind vissar vonir við það að slíkt gæti jafnvel orðið þróun að öðru meiru. Ég er sannfærður um það að í okkar næstu grannlöndum yrði litið til þess með miklum áhuga ef Íslendingar kæmu af stað þróun í þessa veru og vísa ég þar aftur til þess sem ég sagði um umræður sem ég hef lesið um og reyndar orðið að hluta til vitni að í Grænlandi í kjölfar þeirra atburða sem þar hafa orðið og tengjast kjarnorkuvígbúnaði og kjarnorkuóhöppum á fyrri árum en til umræðu hafa orðið nú upp á síðkastið í ljósi upplýsinga sem fram hafa komið. Sömuleiðis leyfi ég mér að hafa þá trú að frændur okkar Færeyingar gætu hugsað sér svipaða þróun og það hefur verið hreyfing í gangi á öllum Norðurlöndum reyndar á vegum til að mynda friðarhreyfinga, samtaka friðarhreyfinga á Norðurlöndum um að þróa áfram hugtak um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd. Ég er því ekki í neinum vafa um að slíkt framtak af okkar hálfu gæti orðið framlag til þróunar í þessum heimshluta sem yrði víðtækari.

Á undanförnum þingum hefur verið allvíðtækur stuðningur verið við efni þessa máls, ég minni á breiðan hóp flutningsmanna úr flestum þingflokkum sem yfirleitt hafa komið að framlagningu málsins. Hins vegar hefur málið því miður ekki náðst fram að ganga og reyndar er kannski að nokkru leyti við það að sakast að oft hefur verið langt liðið á þing þegar frv. hefur komist til umræðna og á dagskrá. (Gripið fram í: Og svo er einnig nú.) Og svo er reyndar einnig nú, en það dregur ekki úr mikilvægi málsins. Ég tel reyndar að mál af þessu tagi ætti án tillits til þess hverjir eru flutningsmenn eða hvenær árs það kemur fram að verðskulda þá virðingu að til að mynda hv. utanrmn. tæki það upp á arma sína og ynni í því á milli þinga ef svo bæri undir. Hér er að sjálfsögðu á ferðinni það stór ákvörðun og viðamikið mál að það getur kallað á vinnu yfir lengri tíma heldur en eitt þing eða á einu missiri.

Ég vil því að lokum, herra forseti, leyfa mér að lýsa þeirri von minni að á þessu kjörtímabili hefjist alvarleg tilraun til að þoka þessu máli áfram. Ég fyrir mitt leyti er mikill áhugamaður um að svo verði. Ég lagði á sínum tíma mikla vinnu í þetta mál og tel að það sé tvímælalaust þannig vaxið að það verðskuldi athygli og það verðskuldi vinnu af hálfu Alþingis og ríkisstjórnar. Ég bind því vonir við að bæði þingið og einnig að sjálfsögðu hæstv. ríkisstjórn og hæstv. utanrrh. verði því velviljuð að þetta mál verði skoðað rækilega þó að ég sé að sjálfsögðu ekki að gera um það neinar kröfur að það fái hér einhverja flýtimeðferð eða skjóta afgreiðslu á þessu þingi. Mér er alveg ljóst að það er vandasamt verk að ganga frá lögum af þessu tagi og væri sjálfur því ekki einu sinni meðmæltur að menn köstuðu til höndunum í þeim efnum eða flýttu sér um of.

Að síðustu tel ég að eftir vandaða vinnu og setningu slíkra laga bæri að hafa gildistökuna þannig að nokkur tími gæfist til undirbúnings lögunum áður en þau kæmu til framkvæmda, fyrst og fremst vegna þeirrar nauðsynlegu vinnu sem þá yrði að leggja í að kynna málið erlendis og afla því viðurkenningar. Því er í frv. gert ráð fyrir að gildistaka laganna yrði 1. júní 1997 ef að lögum yrði á þessu þingi og hana bæri þá að sjálfsögðu að skoða í ljósi þess hvenær endanleg afgreiðsla málsins færi fram.

Að lokinni þessari umræðu, herra forseti, legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. utanrmn.