Málefni Landhelgisgæslunnar

Föstudaginn 19. apríl 1996, kl. 15:17:32 (5049)

1996-04-19 15:17:32# 120. lþ. 123.91 fundur 257#B málefni Landhelgisgæslunnar# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[15:17]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég ætla að halda mig við það mál sem ég hafði skilið að ætti að aðallega að vera tilefni umræðunnar, þ.e. töku eða öllu heldur ekki töku rússneska landhelgisbrjótsins við lögsögumörkin á Reykjanesi. Það sem mér er efst í huga við það mál er útreiðin á Landhelgisgæslunni sem stofnun og ég vísa til þess sem kom fram í máli málshefjanda um að allar forsendur voru til staðar að lögum til að taka togarann. Um skýlaust landhelgisbrot var að ræða og sú málsmeðferð hafði verið valið að láta ekki áminningu duga strax þegar togarinn var staðinn að brotinu. Það er ljóst að stundum lætur Gæslan sér nægja að stugga við mönnum, eins og sagt er, áminna þá eða gera þeim ljóst að þeir séu á mörkum o.s.frv. En úr því að það var valið að hefja eftirför og út fyrir landhelgina og klukkutímum saman hafði verið látið að því liggja eða það leit út fyrir að ætlunin væri að taka togarann, þá er mjög slæmt og í raun og veru fyrir neðan allar hellur að gefast upp úr því að svo var komið.

Landhelgisgæsla má ekki og á aldrei að vera neitt annað en landhelgisgæsla. Henni má ekki blanda saman við viðskipti, sjávarútvegsmál eða deilumál annars staðar vegna þess að henni bera að fara að lögum. Og séu menn staðnir að brotum þá á það ekki að vera val manna hvort sökudólgurinn er tekinn og honum refsað. Það má ekki vera svo. Það má aldrei verða geðþóttaákvörðun hvort lögum sé framfylgt að þessu leyti. Það er enn verra, herra forseti, að því miður lendir svo þessi atburður ofan í framgöngu Rússa á Reykjaneshrygg sem hunsa þar siglingalög og eyðileggja veiðarfæri íslenskra skipa og þverbrjóta þar allra góðra manna siði. Það liggur líka það orð á að landhelgismörkin á Reykjaneshryggnum séu ekki virt að fullu, því miður. Þess vegna er fordæmisgildi þessa máls mjög slæmt og að þessu leyti til er framganga hæstv. ráðherra hrakleg.

Þetta er í raun og veru rýtingur í bakið á Landhelgisgæslunni í tilraunum hennar til þess að halda uppi gæslu (Forseti hringir.) við afar erfiðar aðstæður og lítinn skipakost og þetta eru röng skilaboð. Þetta eru röng skilaboð um þær aðferðir sem við Íslendingar eigum að nota við að gæta okkar landhelgi.