Háskóli Íslands

Mánudaginn 29. apríl 1996, kl. 17:31:00 (5325)

1996-04-29 17:31:00# 120. lþ. 127.6 fundur 217. mál: #A háskóli Íslands# (skrásetningargjald) frv. 29/1996, 218. mál: #A háskólinn á Akureyri# (skrásetningargjald) frv. 30/1996, SJS
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[17:31]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég beið með að kveðja mér hljóðs því ég vildi gefa hv. þm., málsvara Framsfl. í umræðunni, kost á því að komast aftur inn í hana ef hann hefði hug á eða kjark til. Það varð fátt um svör í andsvörum áðan hjá hv. þm. en nú lítur ekki út fyrir að hér verði flutt frekari málsvörn af hálfu Framsóknar. Þá er nú ekki eftir neinu að bíða með að gera aðeins betur upp sakirnar við hv. þingmenn Framsfl.

Satt best að segja er langt síðan ég held að maður hafi heyrt jafnkostulega málsvörn og hér fór fram áðan. Það var satt best að segja harla dapurlegt. Það eina sem jákvætt er um þá ræðu að segja er þó það að hv. þm. hafði kjark og manndóm í sér til þess að hlaupa ekki úr þingsalnum eins og aðrir hv. þm. og hæstv. ráðherrar Framsfl. nánast undantekningalaust hafa gert þegar þessi mál hefur borið á góma, nema þeir sem eru bundnir á forsetastóli sem náttúrlega taka þær skyldur sínar fram yfir af skiljanlegum ástæðum.

Eru hv. þm. Framsfl. eitthvað hissa á því þó að menn veiti þessum sinnaskiptum athygli? Er það eitthvað skrýtið þó farið sé hér yfir kosningaloforð Framsfl. í þessum efnum? Eru menn að biðjast vægðar? Eru menn komnir svo gjörsamlega á hnén að það megi ekki ræða við þá um pólitík eina dagstund? Þá held ég að menn eigi að fá sér eitthvað annað að gera. Þeir menn sem ekki þola einu sinni smágolu á sín verk þegar þeir standa jafnberskjaldaðir og raun ber vitni ættu að vera í einhverju öðru en pólitík. Auðvitað er það hneyksli að hæstv. utanrrh. skuli ekki manna sig upp í að koma hér og vera í umræðunni, að hann skuli láta flokk sinn liggja undir stanslausum áföllum hér, flatreka undan þessari umræðu dag eftir dag og viku eftir viku og hafa ekki uppi minnstu tilburði til að verja sig og sinn flokk. Þeir skilja það eftir hinum minni spámönnum, þ.e. þeim sem á annað borð hafa kjark til að vera viðstaddir umræðuna.

Auðvitað er það fjarri öllu lagi að framsóknarmenn geti réttlætt hér hvaða óhæfuverk sem er með því að þeir hafi uppgötvað halla á ríkissjóði sem vandamál. Ég veit ekki betur en talsmenn Framsfl. hafi einmitt á síðasta kjörtímabili gagnrýnt mjög harðlega ástandið í ríkisfjármálum. Það átti ekki að koma þeim neitt á óvart í þeim efnum. Þetta er aumleg málsvörn til að reyna að hafa eitthvað fram að færa gagnvart því að hafa kokgleypt stefnumál af því tagi sem Framsfl. þóttist standa fyrir á síðasta kjörtímabili og einkum og sér í lagi í síðustu kosningum. Vandinn hjá ríkissjóði er bara mál sem lýtur þeim almennu lögmálum sem þar heyra undir. Það er spurning um tekjur og gjöld. Það er spurning um aðferðir í þeim efnum en það er engin réttlæting fyrir stefnubreytingu í grundvallarmálaflokki af þessu tagi. Eða er það niðurstaða þingflokks Framsfl. þess hins nýja sem er kominn úr selskinnsjakkanum yfir í sauðargæruna að það sé engin önnur leið til? Að allar leiðir séu þrautkannaðar og tæmdar til þess að afla tekna í ríkissjóð og loka fjárlagagatinu nema þessi? Verður nákvæmlega að taka þarna um 20 þús. kr. af öllum háskólanemum við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri? Eru engin önnur úrræði til til að stoppa eitthvað upp í gatið? Auðvitað er þetta fjarstæða. Þótt þessar upphæðir skipti miklu máli í afkomu hvers og eins sem í hlut á og fyrir þeim verður, þá eru þær auðvitað ekki stórar þegar komið er út í hið stóra samhengi tekjuöflunar ríkissjóðs upp á rúmlega 100 milljarða kr. Þær eru ekki mjög stórar í samhenginu t.d. tekjur af öllum virðisaukaskatti í landinu sem hleypur á tugum milljarða. Ef við setjum þetta í sitt rétta samhengi, vandann í ríkisfjármálunum, hina almennu tekjuöflun ríkissjóðs og útgjöld, erum við að tala um allt aðra hluti. Þetta er engin málsvörn.

Það er líka önnur ástæða fyrir því, herra forseti, að mönnum verður eðlilega tíðrætt um Framsfl. í þessu samhengi og hún er sú að Sjálfstfl. kemur manni ekkert á óvart í þessu máli. Hann hefur ekki kúvent. Hann stóð fyrir að setja þessi gjöld á á síðasta kjörtímabili, við erum búin að fara í gegnum þá umræðu við Sjálfstfl. Þá reyndi hann að verja sig. Þá var Framsfl. með í að ráðast á Sjálfstfl. Það á því enn síður að koma Framsfl. á óvart þótt hugur manna nú sé bundinn við sinnaskipti Framsfl. Menn sjá í sjálfu sér ekki ástæðu til að endurtaka rökræður sínar við Sjálfstfl. frá fyrra kjörtímabili, hann er samur við sig. (Gripið fram í: Þú mátt ekki gleyma krötunum.) Hv. þm., ég hef ekki gleymt krötunum. Ég hef gjarnan látið þess getið að þeir hafi stigið ýmis ógæfuspor á síðasta kjörtímabili. Og það kemur auðvitað fram í ræðum hv. þm. Alþfl. núna að þeir iðrast beisklega og gráta, eins og segir í mikilli bók. Þeir vita upp á sig synd sína. En það eru auðvitað sinnaskipti Framsfl. sem eðlilega eru til umræðu hér og nú. Það er það sem er að gerast nú. Það er nýtt í málinu fyrir utan að það kemur svo sem engum á óvart að Sjálfstfl. reki stefnu af þessu tagi, það liggur í eðli máls. Það liggur alveg ljóst fyrir að Sjálfstfl. hefur almennt verið áhugasamur um að láta menn borga í miklu ríkari mæli hvern fyrir sig fyrir hinn sameiginlega rekstur og taka minna í gegnum almennar tekjuöflunarleiðir ríkissjóðs. Af hverju? Af því að Sjálfstfl. gefur ekkert fyrir þau markmið sem liggja á bak við jöfnunarhugsun tekjuöflunar til ríkissjóðs með almennum tekjuöflunarleiðum. Sjálfstfl. er alveg tilbúinn til að fórna þeim á altari sinnar frjálshyggju. Hægri flokkar út um allan heim vita vel að þeir sem betur mega sín verða enn frekar ofan á ef hægt er að koma málum þannig fyrir að menn geti keypt betri þjónustu og meiri menntun í krafti betri efnahags. Og kinkar nú ákaft kolli sá einn sem yfirleitt er nógu hreinskiptinn til að gangast við ómengaðri spekinni eins og hún kemur af kúnni.

Það er því ekki skrýtið þótt Sjálfstfl. beri fram svona mál. Þetta er bara sönnun þess sem við höldum gjarnan fram. Þegar til kastanna kemur og sjálfstæðismenn þurfa að velja á milli ólíkra markmiða hika þeir ekki við að fórna markmiðum af því tagi að jafnrétti og jöfnuður ríki gagnvart námi. Þetta mál er mjög lýsandi og dæmigert fyrir það sem þar er á ferðinni.

En það er Framsókn sem hefur hins vegar tekið miklum stakkaskiptum, hefur skipt um yfirhöfn svo aftur sé farið í þá líkingu. Samt koma þeir hér, hv. þm. Framsfl. og fara enn með rulluna um að þeir vonist nú til þess að menntamál muni njóta forgangs og þeir vonist til þess að kosningaloforðin verði efnd, spurningin sé bara hvenær, það sé ekki sanngjarnt að vera að mæla það svona rétt í byrjun kjörtímabils. En ég verð að segja eins og er, herra forseti, og ég vænti þess að fleirum fari svipað, að ég verð tortrygginn þegar menn byrja að efna kosningaloforð með því að fara í öfuga átt, með því að svíkja þau. Þær eru alltaf dálítið sérkennilegar þessar röksemdafærslur sem ganga út á það að til þess að verja eitthvað þá verði maður að byrja á því að fórna því. Mér finnst það tortryggilegt þegar menn koma hér og ætla að reyna að sannfæra okkur um að einmitt aðferðin til að standa við kosningaloforðin um að lækka skólagjöld sé að hækka þau. Það er það sem verið er að reyna að segja okkur. Þau eru 22.275 kr. á þessu ári en eiga að fara í 24.000 kr. á því næsta. Það sem meira er: Það á að lögfesta varanlega að þannig skuli þau vera. Eigum við að trúa því? Er það merkileg röksemdafærsla hjá hv. þm. Hjálmari Árnasyni að það standi nú vonandi allt til bóta og það sé ætlunin að efna kosningaloforðin einnig í menntamálum og það sé þar með ætlunin að lækka skólagjöldin? En það verði bara því miður að byrja á að hækka þau. Dettur mönnum virkilega í hug að það sé líklegt að það ári svo vel að ári eða tveimur árum liðnum að þetta snúist við? Auðvitað ekki.

Það var alveg hárrétt sem hér var nefnt af einum þingmanni áðan. Framganga Framsfl. við síðustu kosningar var og er í ljósi reynslunnar alveg svívirðileg hvað varðar allt sem viðkemur ungu fólki. Framsfl. keyrði með lævísum áróðri alveg sérstaklega inn á þennan aldurshóp, beitti öllum nýjustu djúpsálarfræðiáróðursbrögðum, keyrði miklar sjónvarpsauglýsingar fyrir stórfé og lét rúlla hér um flettiskiltum fram og til baka um alla borgina. Það var alveg sérstaklega keyrt inn á þennan hóp og ungu fólki á Íslandi gefnar miklar væntingar um að þess hagur yrði alveg sérstaklega tryggður ef þessir snotru menn í selskinnsjökkunum og frökkunum þarna á skiltunum við Lækjartorg yrðu kosnir. Eða muna menn ekki eftir auglýsingunum? Allt unga fólkið sem kom í sjónvarpið og lýsti því yfir hvað það ætlaði að verða þegar það væri búið að mennta sig sem flugstjóra og hagfræðinga og hvað það nú var. Enginn ætlaði að verða atvinnulaus, það er alveg á hreinu. Og enginn ætlaði að hrökklast úr námi af því að hann gæti ekki borgað skólagjöld. Það var ekki neitt um það í auglýsingunum. (Gripið fram í: Ætlaði einhver að vera í Hanstholm?) Nei, enginn ætlaði að flytja til Hanstholm svo ég muni eftir. Það kom síðar. Það er því tilefni til þess, herra forseti, við þetta tækifæri, og reyndar önnur sem eiga eftir að koma hér upp á komandi vikum, mánuðum og missirum þangað til við losnum við þessa ólánsríkisstjórn, að halda Framsfl. pínulítið við efnið. Ég legg til að þeir menn sem ekki þola þá gagnrýni í þeim flokki fari og fái sér eitthvað annað að gera. Framsfl. skal ekki detta það í hug eitt einasta augnablik að honum verði hlíft við því að farið verði yfir hans framgöngu í þessum efnum. Það er langt síðan menn hafa séð ófyrirleitnari kosningaáróður, ekki síst hvað varðar aðkomuna að unga fólkinu og vandamálum þess á líðandi stundu sem lúta m.a. að skólagöngu, húsnæðismálum og öðru slíku og óöryggi með framtíðina, sem því miður hefur grafið um sig hér á Íslandi með allt öðrum og djúpstæðari hætti en var fyrir fáum árum. Það er því miður ekki þannig að ungt fólk fari hiklaust í nám eða útskrifist úr skólum í fullri vissu þess að þess bíði tækifæri, það sé úr nógri atvinnu að velja og að það geti hiklaust reiknað með að koma sér upp þaki yfir höfuðið án þess að lenda í erfiðleikum í því sambandi. Það er bara því miður ekki svo. Inn á þetta óöryggi með framtíðina spilaði Framsfl. alveg sérstaklega við síðustu kosningar. Framkoma hans er þeim mun ámælisverðari í því ljósi. (Gripið fram í: Og fékk stuðning frá ungu fólki.) Fékk örugglega og óumdeilanlega stuðning frá ungu fólki. Það er ekki vafi á því að þessi áróður og þessi ósvífni skilaði flokknum þó nokkrum ávinningi. Tímabundnum að vísu, skulum við trúa og treysta. Við höfum það álit á ungu fólki á Íslandi í dag að það muni ekki gleyma þessum trakteringum. Auðvitað er ljóst að þessi sigur Framsóknar á síðasta vori á eftir að reynast pýrrhosarsigur. Það er næsta víst að það verður lágt risið á gömlu Framsókn eftir næstu alþingiskosningar. Eins og sagt hefði verið í minni sveit: Þeir verða þá heldur halaklipptir. Svo vitnað sé í líkingu sem kemur úr myndmálinu og tengist frægri dýrategund á Íslandi.

Herra forseti. Þótt okkur hafi orðið hér tíðrætt um Framsfl. vil ég ekki fyrir mitt leyti láta það gleymast, láta það hverfa í umræðunni, að það er auðvitað þetta flagg hæstv. menntmrh. sem er hið efnislega mál til umræðu hér þótt aðkoma Framsóknar að því verði mönnum að umtalsefni og hin fullkomna niðurlæging Framsóknar sem í því birtist. Mér skilst að þetta sé fyrsta meiri háttar frv. á sviði menntamála sem hæstv. menntmrh. fær hér afgreitt og það er merkilegt flagg fyrir hans siglingu í þessum efnum. Hæstv. ráðherra hefur ætlað sér mikla hluti en hans verður sennilega minnst fyrir það að hans fyrsta verk og hans brautryðjendaverk var að lögfesta skólagjöld á Íslandi. Auðvitað mega menn ekki horfa fram hjá þeirri frjálshyggju sem þar er á ferðinni. Viðfangsefnið er að takast á við hana og fá fólkið í landinu til þess að snúa sér frá þeirri stefnu því að á meðan hún er uppi og er rekin af stórum flokki eins og Sjálfstfl. er þessi hætta fyrir hendi, að veikgeðja sálir í einhverjum hentistefnumiðjuflokkum glepjist til þess að láta nota sig til að styðja þessa stefnu fram og veita henni brautargengi eins og dæmin sanna. Skiptir þá ekki öllu máli hvað þeir heita í dag eða hvað þeir hétu í gær, Framsfl. í dag og Alþfl. í gær. Afleiðingarnar eru þær sömu. Með slíkum varadekkjum er Sjálfstfl. kjörtímabil eftir kjörtímabil að keyra fram ójafnaðarstefnu sína í þessum efnum og það er um það sem hin eiginlegu pólitísku átök eiga og þurfa að standa þegar og ef menn hafa gert upp sakirnar við kúvendingar af því tagi sem Framsfl. hefur gert sig beran að. En nú mun svo komið, herra forseti, að einn af virðulegu forsetum þingsins og flokksbundinn framsóknarmaður hafi beðið um orðið og ég get bara ekki beðið lengur með að fá heyra ræðu hans þannig að ég ætla að láta hér staðar numið að sinni.