Iðnþróunarsjóður

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 16:46:53 (5398)

1996-04-30 16:46:53# 120. lþ. 128.5 fundur 487. mál: #A Iðnþróunarsjóður# (gildistími o.fl.) frv. 63/1996, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[16:46]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Virðulegi forseti. Það er mjög mikilvægt að örva alla nýsköpun í atvinnulífinu eins og þetta frv. miðar að og stuðla að markaðsstarfi sem hjálpar okkur til að auka útflutning og að því leyti er það frv. sem hér er til umræðu mjög jákvætt. Ég vil líka taka undir það sem kom fram hjá síðasta ræðumanni að frv. sem þingmenn Alþb. hafa flutt um nýsköpunar- og áhættulánasjóð í atvinnulífinu er mjög mikilvægt og hefði verið æskilegt að skoða þessi mál samhliða á þinginu.

Eins og fram kom í máli síðasta ræðumanns er þetta nokkuð ítarleg grg. sem fylgir með frv. en engu að síður sakna ég ýmissa upplýsinga varðandi þetta mál. Ég vil beina því til hæstv. iðnrh., hafi hann ekki þær upplýsingar að þeim verði þá komið til hv. iðnn. við meðferð frv. í nefndinni. Það er auðvitað mikilvægt þegar við erum að fara út í áhættulánastarfsemi þar sem ábyrgð ríkissjóðs eða skattborgara stendur á bak við að þar sé vandað vel til allra verka. Sé fjármagn veitt til áhættustarfsemi, og ég tek undir að það er nauðsynlegt, verður að gæta þess að það raski ekki eðlilegri samkeppnisstöðu atvinnulífsins. Það er mjög mikilvægt í okkar einhæfa atvinnulífi að gera allt sem hægt er til þess að örva nýsköpun í atvinnulífinu og gera umhverfið aðgengilegt fyrir fyrirtækin í ört vaxandi alþjóðlegri samkeppni.

Þær fyrirspurnir sem ég hef fram að færa til hæstv. iðnrh. lúta að nokkru leyti að því sama og fram kom hjá síðasta ræðumanni. Samkvæmt lögum fer þriggja manna nefnd með stjórn þessa sjóðs en hún getur kallað til fimm manna ráðgjafarnefnd til að móta nýja stefnu sjóðsins. Ég hef fullan hug á að vita hverjir það eru sem skipa þessa ráðgjafarnefnd. Hún er greinilega stefnumótandi eins og kemur t.d. fram í athugasemdum varðandi erlendar fjárfestingar á Íslandi. Þar kemur fram að ,,stjórn sjóðsins hefur markað þá stefnu að sjóðurinn skuli leggja sitt af mörkum til að stuðla að erlendri fjárfestingu hér á landi.`` Ég tel það mjög mikilvægt en ég hefði viljað vita hvaða fulltrúar atvinnulífsins og launþega koma að þessu máli.

Það kemur fram varðandi kaflann sem snýr að vöruþróunarverkefnum að krafist er ásættanlegrar arðsemi og að þátttaka Iðnþróunarsjóðs valdi ekki röskun á samkeppnisstöðu. Það er spurning hvað ,,ásættanleg arðsemi`` felur í sér. Eins og fram kom í máli síðasta ræðumanns er gert ráð fyrir verulegum afskriftum í þessum lánveitingum. Þar sem lánskjörin eru með þeim hætti, eins og fram kemur í grg., að þar er miðað við meðalvexti og einnig lagt á sérstakt áhættuálag vil ég spyrja hvernig þessu áhættuálagi er varið. Er miðað við að það sé samræmi á milli áhættuálagsins og þess sem fer í afskriftir? Eða hvaða áætlanir liggja á bak við þetta áhættuálag og hvaða mat er þar á bak við? Við sjáum að varðandi vöruþróunarverkefnin eru áhættulánin mjög stór hluti af lánveitingunni, af 75 millj. kr. fara um 60 millj. kr. í áhættulán. Mig fýsir að vita hve áhættuálagið er hátt og hvað það á að geta staðið undir miklu af afskriftunum.

Það sem ég sakna líka, virðulegi forseti, í þessu frv. er að ekki skuli hafa verið lagt fram fskj. þar sem þingið fær yfirlit yfir hverjir það eru sem hafa fengið þessa styrki. Það væri mjög mikilvægt að fá það fram og til hvaða verkefna þessir styrkir hafa runnið. Það er varla mikið mál að gefa Alþingi eða a.m.k. nefndinni yfirlit yfir verkefnin og eins það hverjir það eru sem hafa fengið þessa styrki. Hér er t.d. nefnd upphæð upp á 56,3 millj. kr. Þar er um að ræða áhættulán til sex verkefna við markaðsöflun erlendis og væri áhugavert að fá í heild yfirlit yfir bæði þá sem hafa fengið styrkina og eins hvaða verkefni þetta eru.

Þegar litið er til þess sem sjóðurinn hefur veitt til nýsköpunarfjármögnunar er hér rætt um 238 millj. Ég verð að segja að það eru verulegar fjárhæðir sem eru settar þarna í afskriftasjóð eða 109 millj. kr. Það þýðir að áhættan varðandi lánin er metin gífurlega mikil í þessari útlánastarfsemi.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð frekar um þetta mál. Ég tel jákvætt að veita atvinnulífinu þann stuðning sem hér er lagður til. Það er margs að gæta í þessu máli eins og ég hef nefnt og ég vildi gjarnan fá svör við þeim spurningum sem ég hef lagt fram. Hafi ráðherra þau ekki við hendi mun ég óska eftir því að þessar upplýsingar berist hv. iðnn. sem mun fjalla um þetta mál.