Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 07. maí 1996, kl. 21:23:05 (5751)

1996-05-07 21:23:05# 120. lþ. 132.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur

[21:23]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Maður veit ekki alveg hvaða aðferð maður á að nota til þess að reyna að ná upp einhverjum málefnalegum samskiptum við hæstv. fjmrh. Ég hugsa að það sé helst að reyna útúrsnúningaaðferðina á honum sjálfum og þá ætla ég að prófa að spyrja svona: Ef þessi ríkisstjórn, sem sat þarna fyrir löngu síðan var svona vond, lækkaði kaupið svona mikið hjá opinberum starfsmönnum og gerði svona marga hluti í ósamkomulagi við þá, var þá ekki komið nóg? Þurfti þá sú ríkisstjórn sem tók við að halda áfram að lækka kaupið? Þarf hún þá að halda áfram svona vinnubrögðum? (Gripið fram í.) Ég get alveg eins spurt og kallað þetta málefnalegt eins og andsvar hæstv. fjmrh. var áðan.

Við erum að ræða um grundvallarleikreglur, herra forseti, þ.e. þau okkar sem reynum að ræða þetta málefnalega, spurninguna um grundvallarleikreglur í samskiptum þessara aðila sem geta vonandi staðið árum og áratugum saman. Þannig þarf það helst að vera. Menn eiga ekki að vera að hringla með slíka hluti í tíma og ótíma. Bestu hlutirnir eru þeir sem standa sem mest óbreyttir árum eða jafnvel öldum saman. En málsvörn hæstv. fjmrh. fyrir frv. sínu sem hér hefur verið gagnrýnt í dag er mjög sérkennileg og ég vona að hæstv. ráðherra sé ekki að væla undan því þó að hér verði fluttar nokkrar ræður. Er hæstv. ráðherra orðinn eitthvað aumur í rassinum? Getur hann ekki setið undir þessu lengur? Hver er málsvörn hæstv. ráðherra þegar frv. hans er gagnrýnt? Hvernig birtist hún í þessu andsvari? Jú, hann fer aftur í tímann og ræðir um óskylda hluti. Hæstv. ráðherra svarar ekki einu einasta atriði af því sem hefur verið gagnrýnt í frv. hans. Málsvörnin felst ekki í því. Hæstv. ráðherra kemur ekki og útskýrir fyrir okkur 9. gr. eða 47. gr., ber ekki af sér það sem sagt hefur verið um þá hluti. Ég held að þessi málsvörn dæmi sig sjálf. (Fjmrh.: Það verður gert.)