Tollalög

Mánudaginn 20. maí 1996, kl. 18:28:03 (6298)

1996-05-20 18:28:03# 120. lþ. 142.10 fundur 441. mál: #A tollalög# (yfirstjórn, málsmeðferð, tollskjöl) frv. 69/1996, SJS
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur

[18:28]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég skrifa undir nefndarálit efh.- og viðskn. með fyrirvara eins og fram kom í máli hv. frsm. og formanns áðan. Fyrirvari minn lýtur einkum að einum þætti þessa máls, þ.e. það sem tengist fyrirkomulagi eða uppbyggingu tollamálanna í landinu. Á því eru gerðar með þessu frv. nokkrar breytingar og um það er ekki deilt að þar sé í sjálfu sér þörf á að taka á málum sem valdið hafa vandkvæðum á undanförnum árum, m.a. allnokkrum ágreiningi um verksvið einstakra aðila innan tollþjónustunnar og þá fyrst og fremst kannski um verksvið og mörk milli ríkistollstjóraembættisins eftir að það kom til sögunnar annars vegar og tollgæslustjóra hins vegar. Þá hluti þarf að setja niður með skýrum hætti en úr því að farið er út í breytingar á stjórnsýslulegri uppbyggingu eða skipulagi tollgæslunnar á annað borð er það mín skoðun að ástæða hefði verið til að skoða mikið betur en gert hefur verið aðrar mögulegar leiðir í þeim efnum. Og að því lýtur fyrst og fremst minn fyrirvari að ég er ekki alls kostar sáttur við að ekki skuli hafa verið lögð meiri vinna og betur farið ofan í saumana á mögulegum breytingum í aðra veru. Á ég þá m.a. við að ég tel að æskilegt hefði verið að hv. Alþingi og efh.- og viðskn. hefði getað gefið sér betri tíma til að kanna til hlítar þá þætti mála.

Í stuttu máli er það svo, herra forseti, að við höfum búið við nokkuð gamlan arf hvað varðar skipulag þessara mála sem m.a. lýsa sér í því að tollstjórinn í Reykjavík var jafnframt eins konar yfirmaður annarra tollgæslumanna. Þetta fyrirkomulag er að sjálfsögðu barn síns tíma og ekki um það deilt að það var æskilegt að hverfa frá því þannig að það sem kallað er á fínu tæknimáli hliðsett stjórnvald fær ekki jafnframt með yfirumsjón með verkum annarra sem ættu að vera sambærilega settir í stjórnkerfinu. Í raun var það svo að tollstjórinn í Reykjavík hafði bæði eftirlit með eigin verkum og síðan annarra tollstjóra á sínum tíma. Síðan var ríkistollstjóraembættið stofnað og þá var horft til embættis ríkisskattstjóra og í raun og veru sambærileg hugsun að baki í báðum tilvikum, að verða þyrfti til eitt embætti yfirmanns þessara mála yfir landið allt sem væri ekki beinn framkvæmdaaðili, væri ekki jafnframt með tollgæslu sem slíka í einhverju einu umdæmi á hendi.

[18:30]

Nú er valin önnur leið í þessum skipulagsbreytingum en síðan hefur verið farin hvað varðar uppbyggingu skatteftirlitsins og skattamálanna. Þar er eins og kunnugt er búið að aðskilja rannsóknarþáttinn og álagningarþáttinn í embætti ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra. Hér er ekki valin sú leið heldur eru þvert á móti öll þessi verkefni sameinuð undir einu opinberu embætti, embætti ríkistollstjóra. Ég leyfi mér að segja að úr því að menn töldu svo ríka ástæðu vera til þessarar aðgreiningar á sínum tíma að stofna algerlega sjálfstætt embætti skattrannsóknarstjóra hljóta mörg hin sömu rök að eiga við hvað varðar rannsókn tollamála og spurning hvort ekki hefði átt að verða til embætti tollrannsóknarstjóra.

Á hinn bóginn má spyrja: Er umfang tollanna og tollgæslunnar slíkt í okkar litla þjóðfélagi að það réttlæti tilvist slíkra sjálfstæðra embætta? Um það má vissulega deila. Þá er eftir sú leið í þessum efnum sem t.d. Danir hafa farið og ég tel að hefði átt að skoða mjög vandlega miðað við okkar aðstæður uppi á Íslandi og það er ósköp einfaldlega að sameina yfirstjórn tolla- og skattamála undir einu embætti, deildaskiptu embætti þar sem væri tolladeild og skattadeild og þá hefði legið á borðinu að sameina síðan rannsóknarþáttinn undir öðru embætti skattrannsóknar- og tollarannsóknarstjóra. Þar með náðu menn hvoru tveggja fram að vera ekki með óþarfa yfirbyggingu og óþarflega mörg embætti í þessum efnum en halda eftir sem áður aðskildum þessum tveimur meginþáttum sem vissulega eru ærin rök fyrir að gera, leitast við að gera eins og kostur er, þ.e. annars vegar framkvæmdahliðinni og álagningu skatta og tolla og hins vegar rannsókn deilumála og úrskurðarmála sem upp koma. Sérstaklega held ég, herra forseti, að það hefði átt að gaumgæfa vel þennan seinni kost sem frændur vorir Danir sem þó eru með mikið meira umleikis í þessum efnum hafa valið, þ.e. að reka ekki sjálfstæða yfirbyggingu á tollgæslunni sem slíkri heldur sameina hana yfirstjórn skattamála.

Það er líka rétt að hafa í huga að umfang tollanna og sú fjáröflun sem tollar eru ríkissjóði nú orðið er á undanhaldi og tollgæslan er því í ríkari mæli en áður var fyrst og fremst að verða eftirlitsstörf í okkar þjóðfélagi en ekki fjáröflunaraðgerð með sama hætti og áður var þegar beinir tollar námu mun hærra hlutfalli af tekjum ríkissjóðs. Gæsluhlutinn er hins vegar mjög mikilvægur og þarf ekki að fara mörgum orðum um það hversu nauðsynlegt það er að reyna að halda uppi öflugri tollgæslu. Nægir þar að nefna mál sem bar á góma fyrr í dag, herra forseti, á dagskrá fundarins, þ.e. fíkniefnin og ólöglegan innflutning á þeim í því sambandi.

Ég vonast til þess, herra forseti, að þótt þetta verði niðurstaðan hér, sem ég út af fyrir sig get prýðilega sætt mig við hafandi þó á því þennan fyrirvara, þýði það ekki að þessi mál sofni svefninum langa til langs tíma því að ég er sannfærður um að það er þörf á því að skoða þarna ýmsa hluti áfram og huga að skipulagi þessara mála til frambúðar.

Fáein orð er rétt að hafa um framkvæmd þessara mála að undanförnu. Mér finnst ekki við hæfi annað en að það sé nefnt í umræðunni að það er vissulega rík þörf á því að lagfæra hluti sem úrskeiðis hafa hafa farið í framkvæmd þessara mála undanfarin ár. Fyrir liggur m.a. álit umboðsmanns Alþingis í framhaldi af erindi sem tollgæslustjóri vísaði þangað þar sem býsna alvarlegar athugasemdir koma fram um framkvæmd þessara mála á undanförnum nokkrum síðustu árum. Mér finnst ekki hægt annað en það sé a.m.k. nefnt í þessari umræðu að í efh.- og viðskn. var farið yfir þessi mál og þar lágu fyrir gögn um hluti sem hafa bersýnilega ekki verið sem skyldi. Á ég þá við þann ágreining og þær deilur sem verið hafa um verksvið og fleira annars vegar en líka athugasemdir og ummæli umboðsmanns Alþingis varðandi þætti sem beinlínis hafa ekki verið sem skyldi með hliðsjón af lögum. Sem dæmi má taka að verkefni hafa verið færð undir ríkistollstjóraembættið umfram það sem lögin gera ráð fyrir eins og þau hafa verið og að ráðning tollvarða og fleira því um líkt hefur ekki verið strangt tekið í samræmi við lagafyrirmæli. Þar er gengið beinlínis svo langt í áliti umboðsmanns að tala um að nauðsynlegt sé að koma á lögmætu ástandi hvað meðferð þeirra mála varðar og það er auðvitað býsna mikið sagt.

Herra forseti. Að lokum örfá orð um frv. og breytingartillögur sem hér eru fluttar af efh.- og viðskn. Ég tel að frv. eins og það var fram borið hafi verið langt frá því nógu vandað og vel unnið. Það kom mjög fljótlega í ljós þegar efh.- og viðskn. fór að fara í saumana á því að í því voru fingurbrjótar sem ekki fá staðist. Þar vil ég alveg sérstaklega nefna að mjög óskýr mörk voru dregin um það hvar í raun og veru tollgæsluvaldinu sem slíku væri fyrir komið. Í reynd var það svo að frv., hefði það náð fram að ganga óbreytt, fól í sér að mörk tollgæsluvalds, og þá á ég sérstaklega við lögregluvaldið sem tollverðir hafa, vald til að framkvæma tollgæsluna með valdboði ef svo ber undir, voru mjög óljós og framsal á því valdi hefði getað átt sér stað á grundvelli laganna til annarra en tollvarða. Auðvitað samrýmist það ekki þeirri hugsun sem á bak við liggur. Ætlunin hlýtur að vera að starf tollvarðanna sé fólgið í því eða þeir einir hafi vald til þessara löggæsluþátta sem starfinu tengjast.

Hitt er allt annað mál að ákveðnir þættir afgreiðslunnar sem slíkrar og ákveðin innheimta geta verið í höndum annarra aðila. Það er til hægðarauka og í raun og veru tíðkað að aðilar eins og Póstur og sími, jafnvel bankar og fjármálastofnanir geti í vissum skilningi verið afgreiðsluaðilar eða innheimtuaðilar. En það ber að draga skýr mörk á milli annars vegar slíkra þátta og hins vegar tollgæslunnar sjálfrar og löggæsluþáttar hennar.

Annað dæmi um þætti sem ekki voru þarna sem skyldi var til að mynda það að frv. gerði ráð fyrir að tollskólinn yrði lagður niður en í ljós kom að tollskólinn er hluti af ekki bara menntun og starfsþjálfun þeirra sem við tollgæsluna starfa heldur er hann líka bundinn í kjarasamninga þeirra sem að þessum málum vinna með þeim hætti að það fær ekki staðist að leggja hann niður miðað við gildandi kjarasamninga og uppbyggingu kjaramála starfsmanna í tollinum. Þessu er sem betur fer kippt í liðinn með breytingartillögum efh.- og viðskn.

Þá vil ég nefna líka að löngu tímabærar heimildir til þess a setja á fót tollfrjálsar verslanir í helstu millilandahöfnum landsins eru settar inn í 24. gr. frv. Þetta hefur reyndar verið á dagskrá á undanförnum þingum og fluttar hafa verið breytingartillögur um þetta eða í þessa veru sem ekki hafa náð fram að ganga. Hér er lagt til varðandi helstu tollhafnirnar eða þær hafnir þar sem millilandasiglingar eru í einhverjum mæli svo sem eins og Reykjavíkurhöfn, Ísafjarðarhöfn, Akureyrarhöfn, Seyðisfjarðarhöfn og Vestmannaeyjahöfn að það verði sjálfkrafa í hendi fjmrh. að heimila rekstur eða reka verslanir með tollfrjálsar vörur á þessum stöðum. Þarna eru inni eftir sem áður helstu flugvellir þaðan sem millilandaflug er stundað. Ég vek sérstaka athygli Vestfirðinga á því að þeir færast nú í þennan göfuga hóp bæði hvað hafnir og flugvelli snerta þar sem heimilt er að leyfa rekstur fríhafna.

Sömuleiðis hef ég gert að umtalsefni 9. tölul. brtt. sem varða 30. gr. frv. og þau álitamál sem tengjast framsali á tollgæsluvaldi. Ég tel að á því sé enginn vafi að breytingartillögurnar færa málið til betri vegar. Ég er því eftir atvikum ágætlega sáttur við að afgreiða frv. eins og það verður úr garði gert að brtt. efh.- og viðskn. samþykktum, en með þeim fyrirvara um uppbyggingu og stjórnsýsluþáttinn sem ég hef gert grein fyrir.