Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 22. maí 1996, kl. 16:34:09 (6458)

1996-05-22 16:34:09# 120. lþ. 145.7 fundur 344. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (nauðasamningar) frv. 64/1996, SJS
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur

[16:34]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég stend að nál. efh.- og viðskn. um þetta mál. En með nokkrum efasemdum þó. Satt best að segja velti ég því fyrir mér hvort ég ætti að standa að nál. með fyrirvara. Ekki vegna þess að ég sé ósáttur við málið sem slíkt svo langt sem það nær, þvert á móti, heldur fyrst og fremst vegna hins að ég óttast að það eigi eftir að koma á daginn að hér sé um svo afar takmarkað úrræði að ræða sem svo litlu máli muni skipta fyrir þá sem úti í þjóðfélaginu hafa væntingar um að verði þeim að liði að það jaðri við að fólk sé afvegaleitt eins og umfjöllunin hefur verið um þessi mál.

Þetta er eitt af nokkrum frv. eins og kunnugt er sem þessi ríkisstjórn er að leggja fram og eiga að taka á brýnasta greiðsluvanda fólks sem er í erfiðleikum og hefur þá ekki síst verið til umræðu vandi fólks vegna vanskila út af húsnæðisskuldbindingum. Hér er því um það að ræða að auðvelda einstaklingum að gera nauðasamninga um mál sín eða semja með frjálsum hætti um að koma málum sínum í skil án þess að ganga í gegnum gjaldþrot. Angi þessa máls teygir sig inn í skattkerfið eins og hér er dæmi um í frv. þessu til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt.

Ég hef orðið var við að fólk telur almennt að í þessum frv. sé verið að lögleiða og lögfesta einhvers konar almenna heimild til skuldaeftirgjafar og samninga fyrir fólk um vanskil sín. Þess vegna held ég að það sé óhjákvæmilegt því miður að vekja athygli á því t.d. að það sem í raun er verið að gera hér er afar takmarkað úrræði umfram það sem út af fyrir sig hefur þó verið heimilt hvort sem er. Ég bendi mönnum á að lesa 4. málsgr. í 1. gr. frv. Í fyrri málsgreinum koma þær heimildir sem stofnað er til til að tryggja kröfur ef innheimtumaður ríkissjóðs telur að hagsmunum sé betur borgið með slíkum samningum. Þar segir m.a., herra forseti:

,,Telji innheimtumaður tök á að tryggja greiðslu kröfu, sem ella mundi tapast, með samningi um greiðslu skal hann gefa fjármálaráðherra skýrslu um málavöxtu. Fjármálaráðherra er heimilt að samþykkja slíkan samning, að fenginni umsögn Ríkisendurskoðunar.

Telji innheimtumaður að hagsmunum ríkissjóðs verði betur borgið með nauðasamningi gjaldanda við skuldheimtumenn skal hann gefa fjármálaráðherra skýrslu um málavöxtu. Fjármálaráðherra er heimilt að samþykkja nauðasamning, að fenginni umsögn Ríkisendurskoðunar, enda sé eftirfarandi skilyrðum fullnægt:

Gjaldandi sé skuldlaus í virðisaukaskatti, staðgreiðslu opinberra gjalda, tryggingagjaldi og vörugjaldi, sem og öðrum sköttum sem lokunarheimild fylgir lögum samkvæmt.``

Þá var náttúrlega spurt í efh.- og viðskn. Hvað er þá eftir? Hvaða vanskil eru það þá hjá einstaklingunum sem er verið að opna fyrir heimildir til að semja um? Þú er ekki í vanskilum ef þú ert skuldlaus við guð og menn, gagnvart virðisaukaskatti, staðgreiðslu opinberra gjalda, tryggingagjaldi og vörugjaldi. Reyndar er svo frv. þannig að bætt er við: sem og öðrum sköttum sem lokunarheimild fylgir lögum samkvæmt. Það átti því meira að segja að ganga svo langt samkvæmt frv. að allar þær vanskilaskuldir sem vekja upp heimildir til innheimtuaðgerða og lokunaraðgerða væru sjálfkrafa undanþegnar. Það komu hinar mestu vöflur á talsmenn t.d. fjmrn. þegar þeir voru beðnir að telja þá upp það sem eftir væri. Mig minnir að það hafi helst fundist einhver hluti bifreiðagjalda eða barnsmeðlaga sem gætu hugsanlega verið í vanskilum án þess að til slíkrar lokunarheimilda væri unnt að grípa. Þetta er að vísu verið að lagfæra með breytingartillögu nefndarinnar þar sem segir að orðin ,,sem og öðrum sköttum sem lokunarheimild fylgir lögum samkvæmt`` skuli falla brott. Þar með koma hugsanlega ein eða tvær tegundir gjalda undir nauðasamninga eða samningsákvæðin sem ekki hefðu orðið það ella með þessari breytingu á frv. Það vegur satt best að segja ekki þungt, þessar algengustu skuldir sem menn eiga auðvitað eðlilega langoftast í við innheimtumenn ríkissjóðs sem allt venjulegt fólk þarf að greiða, alla staðgreiðsluna, virðisaukaskattinn o.s.frv. Þær er ekki heimilt að semja um vegna þess að forsenda þess að menn geti farið í þessa samninga er að menn séu skuldlausir.

Herra forseti. Ég tel óhjákvæmilegt að draga hér fram vegna þess að ég óttast að ella verði uppi og sé jafnvel í gangi talsverður misskilningur um það hversu langt þessar heimildir nái. Mér finnst umræðan á Alþingi sem og umfjöllun um þetta mál almennt út í þjóðfélaginu alls ekki hafa verið nógu efnisleg hvað það snertir að reyna að draga skýrt upp fyrir fólki hvað hér er á ferðinni þannig að ekki sé verið að gefa fölsk merki út í þjóðfélagið og vonir og væntingar um að eitthvað annað og meira standi til en raun ber vitni um.

Það er nú kannski að æra óstöðugan, herra forseti, að fara að rifja hér upp kosningaloforð en af því að það hefur borið á góma á undanförnum dögum þá er manni það ofarlega í huga. Þannig háttar til að það var einmitt farið býsna glannalegum orðum yfir sviðið í þessum efnum í aðdraganda síðustu alþingiskosninga og jafnvel gefið í skyn ef tilteknir flokkar kæmust til valda í þjóðfélaginu yrði farið í mjög víðtæka skuldaeftirgjöf. Almenningur trúði því. Fjöldi manna sem ég hef haft samband við, t.d. fólk sem hefur átt í miklum greiðsluerfiðleikum vegna húsnæðisskuldbindinga, trúði því að nú væri bara að bíða þangað til að þetta yrði opnað. Það hringdi í mann fólk á fyrstu mánuðum eftir að þessi ríkisstjórn tók við og spurði: Hvenær kemur að því? Fólk stóð í þeirri meiningu að það gæti farið í almenna skuldbreytingaaðgerð. Tekið lausaskuldir sínar, hvar sem þær lægju og breytt þeim í löng lán, fengið niðurfellingu á vöxtum og gjaldföllnum afborgunum og öðru slíku. En hver er svo útkoman? Hún er sú að í húsnæðiskerfinu hefur nánast ekkert gerst. Greiðsluerfiðleikalán og annað því um líkt sem þar hefur áður verið við lýði eru síst burðugri úrræði nú en þau sem áður hafa verið. Greiðsluaðlögunin eða jöfnunin, sem talað var um, hefur ekki komist á og þau úrræði sem verið er að opna að einhverju leyti í tengslum við ráðgjafarstofnunina þar sem eitthvað á þriðja hundrað manns bíða nú eftir viðtölum og mér er sagt að enginn hafi enn fengið úrlausn í gegnum. Fjöldinn allur komist í viðtöl en það hefur ekkert gerst meira. Nú er ég ekki að segja að það sé auðvelt að fara í einhverjar almennar skuldbreytingaaðgerðir svo ekki sé nú talað um niðurfellingu almennt á skuldum fólks. Hver á þá að borga þær? Að sjálfsögðu er það ekki svo en þá eiga menn ekki að segja það og gefa í skyn fyrir kosningar að það sé eitthvað sem komi til tals og geti verið á dagskrá. En það stendur nú samt í kosningaloforðum Framsfl. að niðurfelling skulda geti verið eitt af þeim úrræðum sem menn muni beita sér fyrir. Það er beinlínis talað þar um niðurfellingu skulda. Hér er að sjálfsögðu ekkert slíkt á ferðinni.

Rétt er að vekja athygli á því að þessi ákvæði taka bæði til lögaðila og einstaklinga eins og þau eru hér úr garði gerð þannig að ekki er gerður greinarmunur á gagnvart þessum einstöku gjaldflokkum eða tegundum skatta. Þar af leiðandi er ekki um það að ræða að í þessu frv. felist einhver sérstök aðstoð við einstaklinga eins og ég held að margir hafi haldið að stæði til að fara í og að búið yrði um þau mál með sérstökum hætti, annars vegar gagnvart einstaklingum en hins vegar yrðu fjallað sérstaklega um lögaðila, þ.e. fyrirtæki og slíka aðila. Það gegnir auðvitað allt öðru máli með hvaða hætti ríkið gætir hagsmuna sinna gagnvart slíkum mjög stórum aðilum. En aðalatriðið er þetta, herra forseti, sem ég taldi óhjákvæmilegt að draga hér athygli manna, að ekki er gert ráð fyrir að þetta stofni heimildir til ráðuneytisins til að mæla með nauðasamningum sem taki til skulda gagnvart virðisaukaskatti, staðgreiðslu opinberra gjalda, tryggingagjaldi eða vörugjaldi.

[16:45]

Reyndar var ekki í upphaflegri útgáfu reiknað með að það gilti almennt gagnvart skatttegundum sem lögum samkvæmt fylgir lokunarheimild fyrst og fremst gagnvart atvinnurekstrinum, enda eru þau mál afar vandasöm, og menn lendi ekki út á þá braut að um mismunun eða brot á jafnræðisreglu við meðferð mála sé að ræða, þannig að ekki sé verið að semja um lækkun krafna hjá einum aðila á sama tíma og aðrir borga sína hluti að fullu. Þetta er mergurinn málsins sem menn verða að átta sig á. Það er afar vandasamt að fara í svona aðgerðir. Það er heldur ekki gert ráð fyrir því að þeir sem hafa lent í því að skattyfirvöld hafa endurákvarðað á þá gjöld geti samið um sín mál. Hverjir skyldu það nú vera sem lenda helst í vanskilum með sína skatta? Það eru einmitt þeir sem t.d. verða fyrir því að hafa vantalið fram eða að einhver skekkja hefur orðið í þeirra skattskilum þannig að þeir hafa greitt lægri skatta á einhverju tilteknu tímabili en síðan reyndust samsvara þeirra rauntekjum. Síðan er endurákvarðað á þá og kannski myndast allt í einu stórfelld skuld hjá viðkomandi aðila við skattyfirvöld. Það er einmitt í slíkum tilvikum sem vanskil hefjast. Síðan ráða menn ekki við greiðsluna og byrja að spóla. Það er lokað fyrir það í 2. lið 1. gr. Þetta tekur ekki heldur til heimilda í slíkum tilvikum. Ef um endurákvörðun er að ræða, alveg sama af hvaða toga hún er, þá verður heimildin ekki virk.

Að síðustu er það svo að það er alltaf háð mati ríkissjóðs á því hvað sé hagsmunum ríkissjóðs fyrir bestu. Þetta er ekki heimild af því tagi að hún snúi að skuldaranum sem slík og myndi sjálfstæðan rétt hans. Nei, þetta er heimild sem ríkissjóður eða ráðherra hefur til að meta hvernig hans hagsmunum sé best borgið, en ekki einstaklingsins eða lögaðilans. Með öðrum orðum er ráðherra þetta algjörlega í sjálfsvald sett og í raun og veru meira en það. Það er ekki ætlast til að hann nýti heimildina í þeim tilvikum að ætla megi að hagsmunum ríkissjóðs væri betur borgið með því að ganga að viðkomandi aðila hvað sem hans hagsmunum líður. Það er ekki verið að horfa til þess. Þetta, herra forseti, held ég að sé alveg nauðsynlegt að menn hafi allt í huga áður en menn hlaupa upp og hrópa húrra fyrir því að hér sé á ferðinni eitthvert stórfellt bjargræði í þessu sambandi. Það er vissulega svo að það litla sem það er þá er það í rétta átt að opna þessa heimild. En hún er hins vegar afar takmörkuð og ég óttast því miður að reynslan muni leiða í ljós að hún skipti litlu máli og verði fáum að liði eins og hún er hér úr garði gerð.

Þessum athugasemdum, herra forseti, taldi ég nauðsynlegt að koma á framfæri þó að þær yrðu í sjálfu sér ekki til þess að ég kysi að fara að leggjast gegn þessu máli, að sjálfsögðu ekki. Jafnvel sé ég ekki ástæðu til að hafa við það fyrirvara. En ég hef hér gert grein fyrir þeim sjónarmiðum sem ég tel óhjákvæmilegt að fylgi meðferð þessa máls af minni hálfu.