Fjárlög 1996

Föstudaginn 06. október 1995, kl. 14:04:13 (82)

1995-10-06 14:04:13# 120. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., KH
[prenta uppsett í dálka]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Fyrir rúmum sólarhring stóðum við hér og ræddum stefnu ríkisstjórnarinnar eins og forsrh. setti hana fram í stefnuræðu sinni en nú ræðum við stefnuna eins og hún birtist okkur í frv. til fjárlaga sem er auðvitað raunveruleikinn sjálfur. Þetta er mikil bók um mikið efni sem við flest okkar sáum fyrst fyrir þremur dögum.

Mér finnst rétt að nefna það strax og spyrja hæstv. fjmrh. --- ef hann má heyra mál mitt sem hann gerir sennilega ekki þar sem hann er í síma hérna í hliðarsal. --- Ég var að segja það, hæstv. ráðherra, að mér fyndist rétt að nefna það strax og spyrja hvort það sé rétt sem mér hefur verið sagt að ýmsir aðilar aðrir hafi fengið upplýsingar um efni frv. nokkru áður en það var lagt fram. Samkvæmt mínum heimildum á t.d. forusta Alþýðusambandsins að hafa fengið sérstakan fund um málið tíu dögum áður en frv. var lagt fram og ef það er rétt skýrir það auðvitað snögg viðbrögð þeirra við ýmsu sem þar er að finna og það kann líka að skýra að það voru að birtast fréttir í blöðum fyrir nokkru um einstök atriði frv. svo sem niðurskurð til vegamála o.fl. Sé þetta rétt er það vissulega athyglisvert að við alþingismenn skulum ekki njóta sama trúnaðartrausts og þessir aðilar, ekki einu sinni þeir sem sitja í fjárln. þingsins.

Mín fyrsta spurning til hæstv. fjmrh. er því sú hvort það sé rétt að fulltrúum ASÍ, VSÍ og e.t.v. fleirum hafi verið kynnt efni þessa frv. áður en það var lagt fram á Alþingi sl. þriðjudag og ef svo er, hvenær var það gert og hvers vegna?

Eins og ég sagði er þetta mikil bók um mikið efni og langur vegur frá því að manni hafi gefist tími til þess að setja sig inn í það í smáatriðum. En ef ég reyni að draga saman í örfá orð það sem kemur í hugann við fyrstu yfirferð set ég í fyrsta lagi sannarlega spurningarmerki við margt í forsendum frv. sem einkennast líklega fremur af óskhyggju en raunsæi. Í öðru lagi er þar fátt að finna sem hleypt geti auknum krafti í atvinnulífið. Í þriðja lagi sé ég ekki betur en þarna sé verið að ávísa á aukið atvinnuleysi og minnkandi kaupgetu þrátt fyrir fullyrðingar um hið gagnstæða. Í fjórða lagi er frv. heill frumskógur tilfærslna og breytinga á milli liða, frysting verðuppfærslna og fleira sem tekur sinn tíma að átta sig á og sjá hvernig þær koma út fyrir viðkomandi. Í fimmta lagi sé ég engin merki þess að menn hafi nokkurn raunverulegan vilja til að taka mark á háværri umræðu og kröfu um mannréttindi kvenna.

Svo að ég víki fyrst að forsendum frv. eru auðvitað talsvert breyttar aðstæður í efnahagsumhverfinu, lítil verðbólga, hagstæður viðskiptajöfnuður, meiri stöðugleiki en áður og bættur hagur fyrirtækja sem ættu að gera auðveldara að spá um þróun mála og gera áætlanir sem hafa möguleika til að standast. Þrátt fyrir þetta er ýmislegt í forsendum þessa frv. sem orkar tvímælis og er ekki rökstutt á sannfærandi hátt. Ég vildi gjarnan geta tekið undir þann bjartsýnistón sem fram kemur í þessum forsendum en hann virkar ekki sannfærandi þegar litið er t.d. til landflóttans sem ekkert lát er á og til skulda heimilanna sem hafa vaxið gríðarlega á undanförnum árum um leið og fyrirtækin hafa verið að grynnka á sínum skuldum. Það er viðurkennt af sérfræðingum að skuldaþol heimilanna nálgast óðfluga efstu mörk og þá muni óhjákvæmilega draga úr eyðslu. Hæstv. ráðherra, þá mun óhjákvæmilega draga úr einkaneyslunni sem er aftur einn grunnþátta þess að hagvöxtur haldi áfram að aukast.

Ef menn vildu gefa sér það að skuldir heimilanna gætu farið lækkandi hlyti það að vera í samhengi við aukinn kaupmátt og vissulega er því haldið fram að kaupmáttur hafi vaxið og muni halda áfram að vaxa. En þá er ekki tekið með í reikninginn að einstaklingar hafa verið látnir taka á sig aukin fjárútlát, svo sem vegna þjónustugjalda, hærri skólagjalda, lyfja- og lækniskostnaðar og vegna þjónustu af ýmsu tagi og ekki er nú aldeilis í bígerð að draga úr slíku né láta þar við sitja heldur á nú að taka gjöld af fólki í auknum mæli. Þar eru áform um víðtækari gjaldtöku fyrir læknisverk, jafnaðargreiðslur vegna biðlistaaðgerða. Það á að lækka mæðra- og feðralaun, svipta ellilífeyrisþega frá 67 ára til sjötugs afslætti af greiðslum fyrir heilbrigðisþjónustu og lyf og sitthvað fleira sem við eigum eftir að fá nánari skýringar á. Halda menn virkilega að þetta sé til þess fallið að auka kaupmáttinn?

Nú eru leiðir til þess að auka kaupmátt sem ástæða er til þess að íhuga nú þegar skuldaþol heimilanna er að nálgast efstu mörk, þegar einstaklingar og heilu fjölskyldurnar eru lagðar á flótta úr landi í leit að bærilegri lífskjörum. Slíkt ástand kallar á önnur viðbrögð en birtast í þessu frv. til fjárlaga næsta árs.

Ein leiðin væri uppskurður skattkerfisins sem að vísu er áformað að taka til við á næsta ári. Það er bara of seint fyrir marga sem eru þá þegar flúnir þetta ástand og koma vafalaust ekki aftur í bráð. Búið er að létta sköttum af fyrirtækjunum og bæta skattaumhverfi þeirra og nú er röðin komin að einstaklingunum og þó fyrr hefði verið. Það er hins vegar öðru nær samkvæmt þessu frv. Samkvæmt því á að frysta persónuafsláttinn sem þýðir það að hann hækkar ekki eins og hann á að gera í samræmi við verðlag. En á móti er sagður koma sá ávinningur sem fékkst þegar lífeyrisiðgjöld voru undanþegin skatti. En því í ósköpunum mega almennir skattgreiðendur ekki með nokkru móti hagnast á skattbreytingum eins og afnámi skattlagningar á lífeyrisiðgjöld heldur er alltaf rembst við að taka ávinning á einu sviði til baka á einhverju öðru?

Hæstv. fjmrh. sagði að öllum hefði mátt vera ljóst þegar þetta afnám skattlagningar á lífeyrisiðgjöld var lögfest að það tekjutap yrði bætt upp með öðrum tekjum og vissulega höfðu menn áhyggjur af þeim yfirlýsingum. En ég hygg að menn hafi þá frekar haft eitthvað annað í huga, t.d. tekjur af fjármagnstekjuskatti, en í frv. er ekki gert ráð fyrir þeim tekjum, þær eru enn í blámóðu fjarskans.

Löngu er kominn tími til að bæta hag einstaklinganna á sama hátt og fyrirtækjanna annaðhvort með lægri skattprósentu eða hækkun persónuafsláttar og gera það þá svo að um muni og fyrir því eru sanngjörn rök, bæði félagsleg og hagfræðileg. Það er beinlínis óskynsamlegt að þjarma svo að fólki að það geti mest litlu ráðið um eyðslu sína og ég minni aftur á að einkaneyslan er einn af undirstöðuþáttum hagvaxtar sem er eitt helsta markmið þessarar ríkisstjórnar. Hæstv. ráðherra sagði áðan að meginatriðið í því að efla hagvöxt væri að stöðva hallarekstur ríkissjóðs. En það er ekki síður mikilvægt að hleypa krafti í atvinnulífið og bæta hag einstaklinganna sem er mikilvæg forsenda þess að auka tekjur ríkisins og draga úr hallarekstrinum. Kannski er líka við hæfi að minna á að veruleg hækkun skattleysismarka var eitt af því fáa sem frambjóðendur allra flokka voru sammála um fyrir kosningarnar 1991 en af einhverjum ástæðum reyndust þeir ekki langminnugir um það efni.

Þá er útilokað að líta fram hjá því að launaþróun kann að verða með allt öðrum hætti en forsendur gera ráð fyrir. Launamálin eru í algeru öngstræti og þarf lítið til að upp úr sjóði. Almennt launafólk er búið að taka á sig gífurlegar byrðar á undanförnum árum og hefur reynt að sætta sig við þær í trausti þess að afkomubati fyrirtækjanna og ríkissjóðs skili sér að lokum til þess eins og því hefur alltaf verið sagt. Þetta fólk er orðið yfir sig þreytt og sættir sig ekki við vaxandi launabil og misskiptingu. Mér finnst satt að segja ákaflega ótrúlegt að það reyni ekki að sækja á um leiðréttingu kjara sinna fyrr en gert er ráð fyrir í forsendum þessa frv. Þarna ætti ríkið auðvitað að ganga á undan með góðu fordæmi og marka stefnu um aukinn launajöfnuð, t.d. með því að beita krónutöluhækkunum eins og Kvennalistinn hefur oft lagt til og eins og hæstv. utanrrh. nefndi í ræðu sinni í fyrradag. Hann var þar að bregðast við launaumræðunni í þjóðfélaginu á allt annan og skynsamlegri hátt en hæstv. forsrh. gerði við sama tækifæri og fannst mér það aðlaðandi hugmynd sem hann nefndi að stjórnmálamenn og aðilar vinnumarkaðarins settust niður saman og reyndu að móta, ef ég man rétt orð hans, siðferðilegan ramma fyrir kjarasamninga í framtíðinni. Það þarf ekkert að undra þótt mér þætti það aðlaðandi hugmynd vegna þess að mjög svipaða hugmynd settum við kvennalistakonur fram í viðræðum um myndun ríkisstjórnar fyrir átta árum.

Hins vegar er kannski ekki beint grundvöllur fyrir slíkt þessa dagana með síðustu ákvarðanir í launamálum hangandi yfir höfðum manna. Slík aðgerð yrði að byggjast á tiltrú og heilindum en mér finnst sú spá um þróun launamála sem er ein af forsendum þessa frv. ekki sérlega traustvekjandi.

Eitt er mjög skynsamlegt í þessum forsendum, svo að maður sé nú ekki bara á efasemdarnótunum, og það er að menn skuli ekki gera ráð fyrir stóriðjuframkvæmdum enda fullkomin óvissa um hvernig þær þreifingar muni ganga. Sporin hræða vissulega í þessu efni. Hins vegar liggur ljóst fyrir að það verða færri atvinnutækifæri en verið hefur vegna framkvæmda á vegum hins opinbera. Það gefur auðvitað auga leið. Það munar um minna en tveggja milljarða kr. niðurskurð.

Reyndar mætti flytja langan fyrirlestur um framkvæmdir hins opinbera, skynsamlegar og óskynsamlegar sem hafa oftlega allt eins tekið mið af félagslegum aðstæðum eins og fjárhagslegum. Nú er ég alls ekki að segja að það sé rangt. Félagslegar aðstæður, byggðasjónarmið og annað verða að vera inni í myndinni. En allt of oft hafa framkvæmdir á vegum hins opinbera, sérstaklega ríkisins, verið allt of dýrar eða óhagkvæmar og ekki verið tekið tillit til þess hvernig þær eru í rekstri. Misvitrir ráðamenn hafa gert fáránlegar kröfur um stærð húsa, hönnuðir hafa leikið lausum hala, hús hafa verið allt of lengi í byggingu o.s.frv. og á þessu öllu þarf að taka og halda vel utan um allar slíkar framkvæmdir. En nú á ekki að byrja á neinu, jafnvel ekki á húsum sem þegar hefur verið samið um, jafnvel ekki bráðnauðsynlegum framkvæmdum við byggingu húss sem mundi auka verulega hagkvæmni reksturs og með þessu er ég að vísa til D-álmu Sjúkrahúss Suðurnesja. Sú sorgarsaga verður ekki rakin í þessari atrennu en að sjálfsögðu verður farið ofan í það mál á vettvangi nefndarinnar.

Hvað varðar niðurskurð til vegamála um 500 eða 700 millj., eftir því við hvað maður miðar, þá kæmi mér ekkert á óvart þó að sú upphæð birtist aftur í einhverju átaki á næsta vori. Það er rétt eins og hæstv. ráðherrar vilji hafa skiptimynt uppi í erminni ef þeir þurfa á að halda.

Þessi framkvæmdafrysting mun að sjálfsögðu hafa mikil áhrif á atvinnustigið í landinu og það er ekkert vafamál að verktakar naga nú neglur sínar í skelfingu. Ég skil reyndar ekki með nokkru móti þá trú manna sem staðhæfa hér í greinargerðinni að atvinnulífið muni taka þann kipp á næsta ári að það dugi til að vega upp þann samdrátt sem verður hjá ríkinu, einkanlega í fjárfestingum. Hæstv. fjmrh. studdi þetta m.a. þeim rökum að með minnkandi hallarekstri ríkissjóðs minnkaði þörf hans fyrir lánsfé og þar með rýmkaði um á lánsfjármarkaði fyrirtækjunum til hagsbóta. En ég leyfi mér að efast um mikil áhrif þess því að ríkissjóður hefur náttúrlega að undanförnu fyrst og fremst leitað á erlendan lánsfjármarkað. Fyrirtækin eru mjög feimin við að auka umsvif og þau spara við sig mannafla eins og þau frekast geta. Þau eru vissulega farin að auka fjárfestingar, það er rétt. En það er fyrst og fremst í vélum og tækjum, tölvum og tæknibúnaði. Þau eru því frekar að skapa mönnum vinnu í útlöndum en hér á landi og það er nú athugandi t.d. fyrir hæstv. félmrh. sem er áhugamaður á því sviði. Það er heldur aumleg niðurstaða fyrir flokk hans ef drjúgur hluti þeirra fjölmörgu starfa sem hann lofaði að skapa verða í útlöndum samanber þetta atriði svo og landflóttann mikla.

Það er því nauðsynlegt að mínu mati að auka með einhverjum hætti kraftinn í atvinnulífinu en það eina sem mér virðist ríkið ætla að gera til þess að stuðla að uppbyggingu og nýsköpun í atvinnulífinu er aukin áhersla á menntun, rannsóknir og þróunarstarfsemi og það er lofsvert. Það er vissulega lofsvert. Það er mjög mikilvægt og á það höfum við kvennalistakonur ítrekað bent. Það skilar sér til lengri tíma litið og er alveg bráðnauðsynlegt. Ég hygg að hv. 19. þm. Reykv. muni koma eitthvað inn á þetta. Hún mun fjalla síðar í umræðunum um þá þætti sem lúta að menntamálum þjóðarinnar. En ég sé ekkert í þessu frv. sem styður það að atvinnulífið muni taka einhvern kipp á næsta ári nema menn séu að gera ráð fyrir framkvæmdum við álver og virkjanir þó að þeir segist ekki gera það.

Ég hef þá farið yfir nokkra þeirra þátta sem mér virðast einkenna frv. við fyrstu yfirsýn og skýrt ástæðurnar fyrir því að mér finnst þessi smíði standa á hálfgerðum brauðfótum. Nánar að smíðinni sjálfri. Ég nefndi í upphafi að eitt af því sem vekti athygli við fyrstu yfirferð er heill frumskógur tilfærslna og breytinga sem fara þarf gaumgæfilega yfir til að átta sig á því hvaða afleiðingar þær hafa fyrir viðkomandi. Ég viðurkenni að ég er full tortryggni og án þess að ég sé nú að gera því skóna að frumvarpssmiðir séu einhverjir óþokkar sem hafa setið við það að finna upp leiðir til þess að þjarma að hinum og þessum í þjóðfélaginu og þá helst hinum minna megandi, sjúkum, öldruðum, öryrkjum, einstæðum mæðrum, ekkjum, námsmönnum, atvinnulausum o.s.frv., þá er það nú svo að allt þetta fólk hefur orðið fyrir barðinu á þeim og verður það að teljast heldur lítill garpsskapur. Það eru miklar hundakúnstir í kringum þessar tilfærslur svo að það er hreint ekkert einfalt að átta sig á afleiðingum þeirra en þó má yfirleitt bóka að einstaklingarnir fara halloka þegar upp er staðið. (Gripið fram í.) Þó að ég hafi nú nefnt þetta með garpsskapinn, hæstv. ráðherra, þá er nú óþarfi að verða mjög viðkvæmur. Hæstv. ráðherra hefur nú tekið við öðru --- eins og reyndar alþingismenn allir.

Ég hef áður nefnt áform um víðtækari gjaldtöku fyrir læknisverk. Þetta er t.d. orðað þannig í greinargerðinni á bls. 324--325 að það eigi, með leyfi hæstv. forseta, ,,að auka sértekjur sjúkrahúsanna um 104 millj. kr. með því samræma greiðslur notenda fyrir þjónustu sem unnin er utan og innan sjúkrahúsa og endurskoða gjaldtöku fyrir glasafrjóvganir``. Þessi samræming sem þarna er talað um er að sjálfsögðu samræming upp á við. Það á að fara að taka greiðslu fyrir verk sem ekki hefur áður verið tíðkað en það er ekkert leyndarmál að það hefur verið tilhneiging til þess að létta frekar undir með þeim sem hafa lítil efni með því að þjónusta þá á sjúkrahúsunum svo að það er ekkert vafamál á hverju þessi samræming sem svo er kölluð muni bitna fyrst og fremst. Endurskoðun gjaldtöku fyrir glasafrjóvganir mun svo þýða það í raun að gjald fyrir þá þjónustu verði hækkað um u.þ.b. 100% ef upplýsingar mínar eru réttar. Nú er hæstv. heilbrrh. því miður ekki við til þess að svara fyrir þessar hugmyndir en hún mun væntanlega verða krufin svara innan tíðar. (Gripið fram í: Krafin.) Krafin, afsakið, ég þakka leiðréttinguna. Það er líklega af því að við vorum að ræða heilbrigðismálin sem ég tók óvart svona til orða en ég ætla nú ekki að gerast svo aðgangshörð að ég fari að kryfja hana.

En hvað eru hæstv. ráðherrar eiginlega að hugsa í þessu efni? Ég vænti að hæstv. fjmrh. viti eitthvað um þetta. Veit t.d. ráðherra ekki að sumir þurfa að fara oftar en einu sinni í slíka aðgerð og greiða nú þegar mjög háar fjárhæðir fyrir þessa þjónustu? Það er þá rétt að spyrja hæstv. fjmrh. um þessar upphæðir, hvernig þessi samræming er hugsuð og hvaða upphæð það er sem þeir geta búist við að þurfa að greiða sem fara í glasafrjóvgun. Ég held að ég hafi heyrt töluna u.þ.b. 200.000 kr. sem yrði eftir að þetta kæmist á.

Þá fengum við það upplýst í fjárln. í gær að það væri áformað að láta fólk greiða eitthvert gjald fyrir svokallaðar biðlistaaðgerðir en eftir væri að útfæra það nánar. Hér virðist mér helst um að ræða t.d. bæklunaraðgerðir en eins og allir vita er fjöldi manna langtímum saman á biðlista eftir slíkum aðgerðum. Sumir verða fyrir miklu tekjutapi meðan þeir bíða auk þeirra þrauta sem þeir verða að þola og ætla menn nú virkilega að fara þar á ofan að leggja á greiðslur vegna þessara læknisaðgerða? Allt er þetta heldur óljóst og óhjákvæmilegt að kalla eftir nánari skýringum.

Þá hlýt ég að benda á þá fyrirætlun að lækka mæðra- og feðralaun en í greinargerðinni er sagt, með leyfi hæstv. forseta, að til að ,,vega upp á móti lækkun þessari er fyrirhugað að draga úr tekjutengingu barnabótaauka í skattkerfinu``. Það dæmi þarf auðvitað að fá svart á hvítu svo að menn hafi það alveg á hreinu hverjir tapa því að einhverjir tapa örugglega.

Þá hafa menn e.t.v. tekið eftir eftir því sem stendur neðst á bls. 317 að gert er ráð fyrir að spara 40 millj. kr. með því að hætta að veita ellilífeyrisþegum á aldrinum 67--70 ára afslátt á greiðslum fyrir heilbrigðisþjónustu og lyf. Það er reyndar orðað á svolítið annan hátt í greinargerðinni en þetta er það sem það merkir og þetta eru nú áherslurnar, hæstv. ráðherra.

Loks vil ég benda á athyglisverðan lið í öllum þessum sparnaðaráformum sem hefur aldeilis gríðarlegan sparnað í för með sér eða heilar 5 millj. kr. sem eiga að sparast við það að fella niður ekkjulífeyri. Reyndar virðist tilgangurinn ekki vera þessi mikli sparnaður í raun heldur skýrist hann með hreint yndislegri athugasemd á bls. 327, með leyfi hæstv. forseta. Þar er sagt svo:

,,Með þessari breytingu er komið á fullt jafnræði milli kynja gagnvart bótagreiðslu vegna fráfalls maka.`` Verður mér nú sem stundum áður hugsað til ágætrar persónu í bók eftir Guðrúnu Helgadóttur, rithöfund og fyrrv. forseta Alþingis, en sú persóna fann til mikillar hlýju vegna eigin göfgi og varð að orði við tvíburabróður sinn: ,,Nú erum við aldeilis góðir.`` Þetta er sem sagt hægt að gera í nafni jafnréttis þó að menn sjái enga leið til að taka á ýmsu misrétti á hinn veginn eins og t.d. launamisrétti kynjanna. Þó er nú greinilega mikill og einlægur vilji til að taka á því máli sérstaklega eins og sést ef litið er yfir lista yfir nokkur verkefni sem talin eru upp sem áhersluatriði og framtíðarverkefni í ríkisfjármálum og hæstv. ráðherra fór nokkuð í það hér áðan. Þá upptalningu er að finna á bls. 242--243 í greinargerð frv. og 7. liðurinn í þeirri upptalningu hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Jafnréttismál kynnt. Fjmrh. hefur ákveðið að taka jafnrétti karla og kvenna í kjaramálum til sérstakrar skoðunar. Einnig er fyrirhuguð kynning meðal ríkisstarfsmanna um stöðu jafnréttismála.``

Þetta sýnir náttúrlega mikinn áhuga á málinu. En því miður er minna um útlistun á því hvernig á að nálgast það en um flest önnur verkefni sem þarna eru talin upp. Það er nefnd um sparnað í rekstri. Það á að stofna nefnd til að finna leiðir til að lækka jaðarskatta. Það er fyrir hendi framkvæmdanefnd um hert eftirlit, það er nefnd um endurskoðun lífeyrismála, það er nefnd um nýja starfsmannastefnu og svo mætti áfram telja og allt er þetta harla gott og verkefnin lofsverð. En engin útlistun er á því hvernig hæstv. fjmrh. ætlar að taka jafnrétti karla og kvenna til sérstakrar skoðunar. Ætlar hann að skoða þetta svona prívat og einhvern tíma í framtíðinni eða er einhver marktæk áætlun að baki þessu? Hvernig ætlar hann að vinna þetta verkefni? Á hvern hátt ætlar hann að taka jafnrétti kvenna og karla til sérstakrar skoðunar? Gætum við fengið svolítið meira að vita um fyrirhugaða kynningu meðal ríkisstarfsmanna? Mér fannst hann ekki skýra neitt af þessu í máli sínu hér áðan.

Nú tók ég eftir því að búið er að dreifa fyrirspurn frá nöfnu minni, hv. 14. þm. Reykv. og ef hæstv. ráðherra hefur ekki svörin núna, er velkomið að bíða með að heyra þau þangað til hann er búinn að ákveða þetta betur og getur skýrt það nánar þegar sú fyrirspurn verður rædd.

Það var ekki ætlun mín að fara mjög nákvæmlega út í mörg atriði í útgjaldahlið frv., aðeins drepa á fáeinu sem ég hef tekið sérstaklega eftir. Við munum væntanlega fá svör við spurningum okkar í störfum nefndarinnar en þó eru hér örfá atriði sem ég vil nefna í 1. umr. um frv. og þá frekast varðandi það sem mér finnst vanta í frv. Þó aðeins örfá atriði.

Í fyrsta lagi vil ég nefna það --- og nú væri ágætt ef báðir hæstv. ráðherrar, sem eru að ræða saman, hlusta því að það varðar þá báða eða jafnvel alla ráðherrana. --- Það hefur verið nokkur umræða í þjóðfélaginu að undanförnu, þó að hún mætti vissulega vera meiri, um frammistöðu okkar Íslendinga í málefnum flóttamanna. En við höfum vægast sagt af litlu að státa í því efni. Þó stóð ég í þeirri trú að við ætluðum að reyna að taka okkur á og hefði jafnvel verið stofnað eitthvað sem heitir flóttamannaráð til þess að gera tillögur um betri tök á málinu. Ég hef ekki fundið neitt í frv. sem gæti tengst þessu verkefni og því spyr ég: Er ekki ætlunin að reka af okkur slyðruorðið í þessu efni og er þá hægt að finna þess stað einhvers staðar í frv.?

Það væri út af fyrir sig réttmætt og sjálfsagt að nefna nokkur atriði sem gleðja mann við fyrstu yfirferð yfir frv. en það liggur beinast við að nota þennan stutta tíma til að benda á það sem betur má fara. Þó vil ég ekki láta hjá líða að lýsa ánægju minni með tvennt sem ég rak augun í í kafla 06 um dómsmrn. þar sem annars vegar er um að ræða fjárveitingu til rannsókna á heimilisofbeldi og hins vegar til lögfræðiþjónustu við neyðarmóttöku vegna nauðgana. Það er sjálfsagt að benda á það sem vel er gert þó að hér sé e.t.v. ekki um nægilega háar upphæðir að ræða en það verður að athuga betur og þetta gleður auðvitað okkur kvennalistakonur sem höfum barist fyrir þessum málum frá upphafi.

Hitt er svo afar slæmt og mjög alvarlegt mál að ekki er gert ráð fyrir fjárveitingum vegna framkvæmda laga um bótagreiðslu ríkisins til þolenda afbrota. Þau lög eiga að taka gildi 1. janúar nk. og ná jafnframt til brota sem framin voru eftir 1. janúar 1993. Hér er um mikla réttarbót að ræða fyrir þolendur ofbeldisbrota en það hefur jafnan reynst þrautin þyngri að sækja bætur í hendur afbrotamanna. Áform um frestun á gildistöku þessara laga eru skelfileg tilhugsun fyrir þetta fólk. Ég vakti máls á þessu í umræðum um stefnuræðu forsrh. í fyrrakvöld og kvaðst mundu spyrja að því við þessa umræðu hvort hæstv. dómsmrh. ætlaði virkilega að leggja til við Alþingi að gildistöku laganna yrði frestað og ef svo væri hversu langa frestun menn væru að áætla og hvaða áhrif það hefði á afturvirkni laganna. Ég fann reyndar svarið í morgun en ég var ekki áður búin að skoða svo langt, ég var ekki búin að líta á hinn svokallaða þrátt-fyrir-kafla. Hæstv. ráðherra verður að fyrirgefa mér, það er svolítið langt síðan ég hef setið í þessari nefnd og ég var búin að gleyma því að gá að þessum kafla sem er alltaf mjög athyglisverður en hann er á bls. 403 í frv. Þar kemur fram að ætlunin er að fresta gildistökunni um eitt ár og það á jafnframt að færa til afturvirknina þannig eins og stendur hér á bls. 403, með leyfi hæstv. forseta: ,,og jafnframt að ákvæði laganna gildi um tjón sem leiðir af brotum sem framin voru 1. jan. 1994 og síðar í stað 1. jan. 1993``. Hér stendur það svart á hvítu. Og til hvers var verið að gefa fólki von til þess eins að svipta það henni strax aftur? Ég lít mjög alvarlegum augum á þessar fyrirætlanir og mun berjast gegn þeim af öllum mætti.

Þá vil ég taka undir hvert orð sem hv. 5. þm. Suðurl. sagði í ræðu sinni um aðgerðaleysi gagnvart þeim vanda sem leiðir af aukinni fíkniefnaneyslu og vaxandi ofbeldi.

Þá hlýt ég að gera athugasemd við þá meðferð sem ferðamálin fá rétt eina ferðina. Metnaðarleysi stjórnvalda gagnvart þessari atvinnugrein er hreint með ólíkindum, atvinnugrein, sem hefur fært okkur fjölda nýrra starfa og aflar okkur sífellt meiri gjaldeyris eins og ég benti rækilega á í umræðunum í fyrradag. Flestir hér þekkja væntanlega sorgarsögu fjárveitinga til þessa málaflokks sem aldrei hefur fengið það fé sem honum ber lögum samkvæmt og væri hreinlegra að breyta þeim lögum ef menn eru svona harðákveðnir í að standa aldrei við þau. Þær upphæðir skipta hundruðum millj. sem Ferðamálaráð hefur verið svipt með árlegum niðurskurði í fjárlögum nú í bráðum 20 ár. Þessi meðferð hefur að sjálfsögðu gert ráðinu gersamlega ókleift að sinna lögboðnum verkefnum sínum. Menn geta haft þá skoðun að greinin eigi sem mest að standa á eigin fótum og mér er fullkunnugt um að hún vill það. En það eru ákveðnir þættir sem hið opinbera verður að sinna svo sem ákveðnum samskiptum og upplýsingum og almennri landkynningu hér heima og erlendis og ekki síður að vernda náttúru landsins og búa svo í haginn að henni verði skilað óskemmdri til komandi kynslóðar. Það mikilvæga verkefni verður að vera undir stjórn og að frumkvæði hins opinbera og til þess þarf fé. Það er hættulegt að láta þau mörgu verkefni á þessu sviði danka og bíða árum saman. Náttúran og umhverfið eru undirstaða þessarar atvinnugreinar og reyndar fleiri og það mundi því kallast að drita í nytina sína að skemma þá auðlind. Andvaraleysi í þessum efnum jafngildir að mínu mati skemmdum. Ég mun taka þetta nánar upp á vettvangi nefndarinnar en vona að ráðamenn fari einhvern tíma að taka varnaðarorð mín alvarlega. Ég tek það fram að ég lít ekki á þetta sem eyðslutillögu því að þetta er mál sem við þurfum að sinna til þess að fá það aftur í tekjum.

Hæstv. fjmrh. talaði um bætt skatteftirlit sem hefur skilað árangri og það er vel. Því starfi á að halda áfram. Það væri gott að fá nánari skýringar á orðum hans þar sem hann varaði við nornaveiðum í því sambandi og lagði áherslu á jafnrétti skattgreiðenda til þess að kæra skattlagningu. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað átti hann við með þessum orðum?

Loks vil ég spyrja hann um sparnað í rekstri ráðuneyta og ríkistofnana. Það er ekki skýrt á neinn hátt og ég spyr: Hvernig er ætlunin að standa að þeim sparnaði? Hvað t.d. með risnu og ferðakostnað? Hver er hann áætlaður á næsta ári? Ég hef a.m.k. ekki fundið hann í frv.? Hver er hann áætlaður á næsta ári t.d. í ráðuneytunum og eru einhver áform uppi um að lækka hann? Mér er fullkunnugt um að reynt hefur verið að taka á þessu máli en það gengur sjaldnast mjög vel og þess vegna er nauðsynlegt að móta einhverjar reglur sem menn geta farið eftir og er ætlað að fara eftir.

Herra forseti. Það eru fjölmörg atriði sem ástæða hefði verið til þess að ræða og spyrja út í en um mörg þeirra hefur nú þegar verið rætt og verður sjálfsagt síðar í umræðunni og í nefndinni og ég læt því hér staðar numið.