Fjárlög 1996

Föstudaginn 06. október 1995, kl. 16:51:33 (108)

1995-10-06 16:51:33# 120. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég virði að sjálfsögðu áhuga hv. þm. á þessum málaflokki. En ég held að nauðsynlegt sé til viðbótar að segja það hér að í fjárlögum fyrir yfirstandandi ár er varið 330 millj. kr. til þessa málaflokks og þar af fara 205 millj. kr. til stofnkostnaðar. Í frv. fyrir næsta ár er varið 257 millj. til stofnkostnaðar til viðbótar við sölutekjurnar af Sólborg sem eru áætlaðar 80 millj. Og ekki má gleyma því sem ég veit að hv. þm. hefur tekið eftir að í fjáraukalagafrv. sem liggur fyrir þinginu núna er gert ráð fyrir að til viðbótar fari 108 millj. kr. til stofnkostnaðar í málefnum fatlaðra. Ég vil minna á það og það vita allir að lottópeningar fara að nokkrum hluta til Öryrkjabandalagsins. Þegar farið er að draga frá skuldbindingar sjóðsins verð ég að biðja hv. þm. að hafa það í huga að þeir sem hafa skuldbundið sjóðinn fram í tímann eru væntanlega stjórnarmenn í viðkomandi sjóði og það gera þeir að sjálfsögðu á sína ábyrgð. Ég verð að segja það eins og er og ætla að standa við það hvar sem er að íslenska ríkið hefur á undanförnum árum og líklega í áratug, miklu lengur en ég hef verið í fjmrn., staðið með sóma að málefnum fatlaðra og ég held að menn geti verið hreyknir af þeirri uppbyggingu og ég er sannfærður um að þessi málaflokkur og þær aðgerðir sem íslenska ríkið stendur að í þessum málaflokki nýtur stuðnings allra þingmanna. En það eru að sjálfsögðu takmörk fyrir því hve mikið á að byggja yfir fólk þegar við sjáum að við höfum ekki fjármuni til að standa undir öllum þeim rekstri á húsnæði sem við erum að byggja upp á hverjum tíma. Það er eingöngu þess vegna sem ég kvaddi mér hljóðs í þessu andsvari, virðulegi forseti.