Fjárlög 1996

Þriðjudaginn 17. október 1995, kl. 21:15:21 (392)

1995-10-17 21:15:21# 120. lþ. 13.7 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Mig langar aðeins að taka til umræðu fjárlagafrv. 1996. Þegar þetta mál var til umræðu fyrsta sinni hélt hv. þm. Ágúst Einarsson greinargóða yfirlitsræðu um álit okkar þingmanna Þjóðvaka á þessu frv. og taldi þar til nokkra kosti en allmarga galla. Mig langar til að taka sérstaklega til umræðu þann kafla sem mér finnst einna átakanlegastur í þessu fjárlagafrv. og alvarlegastur en það er niðurskurðurinn í velferðarkerfinu, niðurskurðurinn í heilbrigðismálum.

Nokkuð hefur verið rætt um forgangsröðun hér í umræðunni. Ég hefði talið eðlilegra að forgangsraða milli málaflokka hjá ríkisstjórninni en láta niðurskurðinn allan meira og minna bitna á heilbrigðiskerfinu, því velferðarkerfi sem við höfum komið á laggirnar, því öryggisneti sem við höfum komið okkur upp ef eitthvað bjátar á hjá okkur.

Hæstv. fjmrh. sagði fyrr í dag að við yrðum að hætta að skuldsetja börnin okkar. Það er alveg rétt, ég tek undir það, við eigum að hætta að skuldsetja börnin okkar. En við eigum heldur ekki að varpa þeim vanda sem sparnaður og niðurskurður skapar á börnin okkar. Við þurfum að vega og meta í þessum efnum. Maður þarf auðvitað að vera útsjónarsamur í ríkisrekstri, það er nauðsynlegt. Það er nauðsynlegt að gæta hagkvæmni. En það gengur ekki að spara alltaf hjá þeim sem veikastir eru fyrir og geta ekki borið hönd yfir höfuð sér, svo sem sjúklingum, öryrkjum og öldruðum.

Spítalagjöldin eða sjúklingaskattarnir hafa verið til umræðu í dag. Það á að auka sértekjur sjúkrahúsanna um 100 millj. með því að samræma greiðslur fyrir sjúkrahúsþjónustu. Það á sem sagt að fara að borga fyrir það að komast inn á sjúkrahús. Ég man eftir því hvað þingmenn mótmæltu því þegar lögð voru á sjúklinga aukin gjöld á síðasta kjörtímabili. Og nú á að setja þetta á allan hópinn. Á síðasta kjörtímabili var farið að borga fyrir heilsugæsluþjónustu. Hefur hæstv. heilbrrh. kannað hversu margir þeirra sem nýta sér þjónustu heilsugæslustöðva geta ekki greitt fyrir þá þjónustu sem þar er veitt? Það er þó nokkur fjöldi fólks hér í Reykjavík sem ekki getur greitt fyrir heimsókn á heilsugæslustöðvar. Það tel ég alvarlegt. Þegar velferðarkerfið er orðið þannig að efnahagur ræður því hvort maður getur leitað sér þjónustu eða ekki þá erum við komin út á rangar brautir. Mig langar að nefna annað atriði sem er dæmi um þetta. Það er mál sem við vorum með til umræðu á geðverndardaginn þegar verið var að ræða ástandið á barna- og unglingageðdeildinni. Þá kom fram að þar eru biðlistar í allt að átta mánuði eftir þjónustu og þrjátíu til fjörutíu börn bíða eftir brýnni þjónustu á barna- og unglingageðdeildinni. En fjölda barna er ekki einu sinni vísað þangað vegna þess að meðferðaraðilar vita að þeir fá ekki þjónustu vegna niðurskurðar og sparnaðar. Þetta fólk fær ekki neina þjónustu fyrir börnin sín nema kaupa hana dýrum dómum úti í bæ hjá sálfræðingum sem velferðarkerfið tekur ekki þátt í að greiða þjónustu hjá og hjá sérfræðingum á stofu sem er dýrt úrræði. Það er farið að skipta máli hvort maður er ríkur eða fátækur hvort maður getur fengið þjónustu fyrir börnin sín sem þurfa aðstoð barna- og unglingageðdeildarinnar. Mér finnst þetta mjög alvarleg braut og mér finnst þetta vera vandi sem við megum ekki koma börnunum okkar í í framtíðinni, hæstv. fjmrh.

Það hefur verið nokkur umræða hér um greiðslur fyrir glasafrjóvganir. Ég ætla ekki að taka frekar þátt í þeim umræðum. Ég er andvíg því að það eigi að fara að greiða meira fyrir þessar aðgerðir en ég ætla að sjá hver útfærsla verður á því áður en ég segi nokkuð meira um það.

Sjálfvirk tenging bóta við launataxta er afnumin og hér er verið að ræða um bætur lífeyrisþega. Þetta tel ég mjög alvarlegan hlut. Lífeyrisþegar hafa alltaf farið verr út úr kjarabótum á launamarkaði heldur en þeir sem eru í atvinnu. Frá febrúar 1989 hafa lágmarkslaun á vinnumarkaði hækkað um 42%, hæstv. heilbrrh. og hæstv. fjmrh., á meðan lífeyrisgreiðslur hafa hækkað um 34,9%. Þarna er verulega minni hækkun á bótum og ég óttast að þarna muni lífeyrisþegar enn bera skarðan hlut frá borði. Afnám eingreiðslna er boðuð einnig í þessu fjárlagafrv. Ég viðurkenni að eingreiðslurnar hafa valdið ruglingi í almannatryggingunum, þær hafa komið inn í bótaflokka og menn hafa ekki getað gert sér fulla grein fyrir því hvað eru eingreiðslur og hvað eru önnur áhrif á bæturnar þá mánuði sem eingreiðslurnar hafa komið. Ég tel kost að jafna þær út. Ég tel það kost. Það er auðveldara fyrir lífeyrisþega að glöggva sig á því hver raunveruleg upphæð bótagreiðslna þeirra er. En ég óttast að lífeyrisþegar verði aftur fyrir tekjumissi sem ég vona þó að verði ekki.

Það á að herða eftirlit með greiðslu heimildarbóta. Ég veit ekki hvað er þar á ferðinni en kem aðeins inn á það aftur á eftir. Það á að nota Framkvæmdarsjóð aldraðra í rekstur en sá sjóður átti að fara í framkvæmdir. Á Reykjavíkursvæðinu eru á annað hundrað manns í brýnni neyð á biðlistum eftir hjúkrunarheimilum. Það á að fara að taka fé til að byggja upp hjúkrunarheimili í rekstur, 330 millj. kr. Þá mætti nefna Framkvæmdarsjóð fatlaðra í leiðinni sem hefur margoft komið hér til umræðu. Það á einnig að taka hann í rekstur.

Nú á að lækka útgjöld ríkisins um 50 millj. kr. með því að hætta að endurgreiða sjúkradagpeninga til atvinnurekenda. Mig langar til að gera að umræðuefni, hæstv. heilbrrh., þær smánargreiðslur sem eru sjúkradagpeningar í dag. Þeim sem missir heilsuna og þarf að fara á sjúkradagpeninga og á ekki rétt í sjúkrasjóðum verkalýðsfélaganna er ætlað að lifa af 17.000 kr. á mánuði. Þessar reglur gera það að verkum að það er meiri tilhneiging hjá læknum til að meta fólk á 75% örorku. Það fer frekar inn á bótakerfið heldur en ef sjúkradagpeningarnir væru almennileg greiðsla þannig að fólk geti lifað af henni. Þetta er mjög dýrt fyrir kerfið. Það er líka erfitt fyrir fólk sem á í tímabundnum veikindum að fara inn á örorku því það fer síður út af henni aftur. Það er orðið bótaþegar þegar það er komið inn í kerfið á þennan hátt. Svona hluti þarf að leiðrétta en ekki alltaf að vera að skera niður hjá lítilmagnanum. Þarna er útgjaldaaukning fyrir ríkið innifalin í þessum reglum.

Í þessu sambandi vil ég vekja athygli á því að á undanförnum tíu árum hefur öryrkjum fjölgað um 100%. Einnig leiðir atvinnuleysið, sem hefur verið hér viðvarandi undanfarið, til þess að öryrkjum fjölgar. Þegar menn hafa verið atvinnulausir um tíma missa þeir starfsgetuna og þeir koma inn á velferðarkerfið sem 75% öryrkjar.

Ég get tekið undir með hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur hér fyrr í dag. Ég vil frekar auka aðeins skuldastöðuna og verða pínulítið skuldugri í útlöndum og nota meira fé til að koma í veg fyrir allan þann vanda sem þetta ástand skapar. Það á eftir að verða dýrt. Það á sem sagt að lækka greiðslur til lífeyristrygginganna um 1.115 millj. Þar af 450 millj. kr. sparnaður af því að aftengja bætur til lífeyrisþega. Auðvitað er það ekkert annað en að það eru lífeyrisþegar sem greiða þennan svokallaða sparnað í ríkisfjármálunum.

Fjármagnstekjur eiga að skerða lífeyri. Ég er sammála því. Ég tel ekki ástæðu til að vera að greiða úr sameiginlegum sjóðum til fólks sem er með milljónir á mánuði í fjármagnstekjur. En ég get ekki sætt mig við að það eigi fyrst að taka fjármagnstekjuskatt af gamla fólkinu. Ég treysti því að það verði ekki gengið á undan með það að taka fyrst af gamla fólkinu og síðan geta hinir fjármagnseigendurnir einhvern tímann seint og um síðir farið að borga skatta af fjármagni sínu.

Síðan er makalaus grein í fjárlagafrv. þar sem segir að það á líka að spara á því að ákvæðum almannatrygginga verði breytt þannig að einstaklingar sem ekki hafa hirt um að greiða í lífeyrissjóð fái aldrei fulla tekjutryggingu. Hvað þýðir þetta? Auðvitað veit maður að það er fólk sem borgar ekki í lífeyrissjóði og reynir að komast hjá því. En það er líka fjöldi manns sem borgar ekki í lífeyrissjóði vegna þess að þeir eru fatlaðir eða þeir eru heimavinnandi. Á að láta þetta fólk líða fyrir það að það borgaði ekki í lífeyrissjóði þegar það er orðið óvinnufært eða aldrað? Ég spyr hæstv. heilbrrh. Á þessu á að spara 285 millj. kr. Það er ekki bara það að þeir fái ekki fulla tekjutryggingu vegna þess að með fullri tekjutryggingu fylgja tengdar bætur. Lífeyrisþegi sem er ekki með fulla tekjutryggingu fær ekki borgaðan tannlæknakostnað nema að hálfu leyti, hann fær ekki greitt fastagjaldið af símanum o.s.frv. sem eru hlunnindi sem eru tengd þessum bótum. Það er ekki bara verið að skerða tekjutrygginguna, hann er einnig að missa tengdar bætur. Þarna á að spara 285 millj. kr. Síðan koma andstæðurnar í þessu öllu saman og þær eru: Menn eru skertir fyrir að hafa ekki hirt um að borga í lífeyrissjóð, menn eru líka skertir fyrir það að hafa borgað í lífeyrissjóðinn. Þetta er alveg makalaust kerfi. Lífeyrisgreiðslurnar eru teknar af þeim sem búa einir og hafa borgað í lífeyrissjóð og eru með sérstaka heimilisuppbót. Lífeyrisgreiðslurnar, króna á móti krónu fer aftur í ríkiskassann. Hvers konar rugludallakerfi erum við að koma hér á?

[21:30]

Menn eru bæði skertir fyrir það að hafa ekki borgað í lífeyrissjóð og skertir fyrir að hafa borgað í lífeyrissjóð. Þetta er með ólíkindum. Maður gæti haldið að maður væri í Spaugstofunni þetta er svoleiðis makalaust. (Gripið fram í.) Síðan kemur hér ákvæði sem ég þarfnast skýringa á þar sem ég hef ekki komið að þessari fjárlagagerð. Ég ætla að biðja hæstv. heilbrrh. að hlusta vel á mig því ég þarf að fá skýringar á ákveðnum setningum í fjárlagafrv. sem mér er gjörsamlega fyrirmunað að skilja. Það er á bls. 326, fjórða lína að neðan. Þar er fjallað um að spara eigi 250 millj. með sérstökum reglum um útgreiðslu heimildarbóta og hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Í þriðja lagi er fyrirhugað að spara 250 millj. kr. með setningu reglna um útgreiðslu svokallaðra heimildarbóta og hefur ný reglugerð um þær þegar verið gefin út. Reglugerðin tryggir stjórnsýsluframkvæmd með tilliti til jafnræðisreglu.``

Getur hæstv. ráðherra upplýst mig um hvað hér er á ferðinni? Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að spara 250 millj. kr. á þennan hátt? Þetta er mér alveg fyrirmunað að skilja og ég vil gjarnan fá skýringu. Mig skal ekki undra þótt hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir hafi átt í erfiðleikum með að skilja þetta frv. og átta sig á því. Ég tek undir þá gagnrýni hjá henni.

Síðan er hér 125 millj. kr. sparnaður með því að hætta að greiða feðra- og mæðralaun með einu barni. Ég get alveg tekið undir það að ekki eigi að borga 500 kr. til mæðra með eitt barn, þetta er bara aukin vinna hjá Tryggingastofnum og maður er litlu bættari með fimmhundruðkall á mánuði. Aftur á móti voru mæðra- og feðralaunin ágætis stuðningur við einstæða foreldra á sínum tíma áður en þessu var breytt á síðasta kjörtímabili og meðlagið var hækkað og barnalífeyririnn var lækkaður. Það átti að vera enn einn sparnaðurinn. Og hvaða sparnaður varð úr því? Hann var þannig að það var sparnaður í heilbrrn. en aukin útgjöld í félmrn. Nú stöndum við uppi með vangreidd gjöld þannig að aldrei hefur sést annað eins því menn hafa ekki ráðið við þetta. Þetta þekkir hæstv. heilbrrh. frá því að hún var í stjórnarandstöðu. Þarna er náttúrlega verið að nota aftur rök eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon minntist á áðan. Af því að það var búið að skerða þetta í síðustu ríkisstjórn er í lagi að afnema það í þessari.

En ég fagna því þó að þessi stuðningur skuli þó koma í gegnum skattkerfið. Ég tel það eðlilegt og ég veit að það er gert víða á Norðurlöndum og þannig á þetta auðvitað að vera. Stuðningur til einstæðra foreldra á auðvitað að koma í gegnum skattkerfið og á ekki að vera á mörgum stöðum, pínulítið í Tryggingastofnun og pínulítið í skattkerfinu. Það er ekki tvíverknaður heldur þrí- og fjórverknaður að vera með þetta á mörgum stöðum.

Þá er ég komin hér að ekkjulífeyri margumtöluðum og skerðingu á honum. Þar á að spara 5 millj. kr. á ekkjunum. Ég er hissa á hæstv. heilbrrh. að vera að taka á þessu. Það er búið að tekjutengja þetta. Það er búið að taka út allar ekkjur sem einhverjar tekjur hafa. Þær eru fallnar út. Dánarbætur? Auðvitað þarf að auka dánarbætur, hæstv. ráðherra. Auðvitað þarf að hækka þær. En að vera að snúa sér að ekkjunum. Ég get nefnt sem dæmi að hjá Félagsmálastofnun Reykjavíkur voru ekkjur 3% þeirra sem fengu fjárhagsaðstoð á síðasta ári, ekkjur sem eru án efa með þennan ekkjulífeyri. Þessi ekkjulífeyrir er reyndar ekki merkilegur, þetta er smánargreiðsla. Ástandið er nefnilega þannig hjá þeim konum sem missa menn sína og eru komnar á þann aldur að þær gætu átt rétt á ekkjulífeyri, fimmtugar eða eldri, að margar þeirra hafa aldrei farið út á vinnumarkaðinn og hafa ekki tök á því að fara í vinnu. Þær eiga jafnvel ekki rétt á atvinnuleysisbótum. (Gripið fram í.) Það getur vel verið að framsóknarmönnum finnist fyndið að setja ekkjur út á kaldan klaka en mér finnst það ekki fyndið. Ég sé að hv. þm. í Framsfl. finnst þetta voðalega skemmtilegt. (Gripið fram í.) Mér finnst vera lagst heldur lágt að eiga að spara 5 millj. kr. á ekkjunum, og frá 1. jan. 1996 fá ekkjur þetta ekki greitt.

Það á að lengja greiðslur á dánarbótum sagði hæstv. ráðherra áðan. Ég hef oft velt því fyrir mér hvort ekki væri réttara að hafa þetta eins t.d. í Noregi að það sé greiddur útfararkostnaður í stað þess að vera að greiða dánarbætur. Dánarbætur eru innan við 13 þús. kr. á mánuði og eru greiddar í sex mánuði. Það væri mun betra fyrir þann sem missir maka að fá eina greiðslu sem fer þá upp í útfararkostnað því að hann er orðinn ótrúlega hár og mörgum óviðráðanlegur og margir hafa orðið að leita til félagsmálastofnunar til að standa straum af þeim kostnaði.

Ég ætla aðeins að snúa mér að sjúkratryggingunum. Á þeim lið á að spara 880 millj. kr. Að spara það í ríkisútgjöldum þýðir auðvitað að sjúklingarnir borga þetta. Það á að aftengja daggjöldin við verðvísitölur. Við vitum alveg hvað það þýðir. Gert er ráð fyrir að lyfjakostnaður hins opinbera minnki um 330 millj. kr. Það á bara eftir að koma í ljós hvort hann gerir það með þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til í heilbrrn.

Ég verð að koma að þeim atriðum er varða aldraða og afslátt þeirra á lyfjum og læknishjálp. Ég bið hæstv. heilbrrh. að koma og hlýða á það sem ég hef að segja um það.

(Forseti (StB): Forseti mun gera ráðstafanir til þess að hæstv. heilbrrh. komi í salinn.)

Ég fer að ljúka máli mínu þannig að hún getur fengið kaffisopann þegar ég er búin. Mig langar aðeins að bæta inn í umræðuna um það að nú á að grípa til þeirra bragða til að spara 40 millj. kr. þannig að aldraðir, 67--70 ára, eiga að borga fullt verð fyrir læknisþjónustu og lyf. Þetta er auðvitað aukinn skattur á þennan hóp. Það kom fram í dag að jaðarskattar á öldruðum eru allt að 100% og á stóru bili eru um 70% jaðarskattar á þeim. Það lífeyriskerfi sem við búum við og tekjutengingarnar eru mjög vinnuletjandi. Það borgar sig ekki fyrir nokkurn mann sem er kominn á bætur að fara út á vinnumarkaðinn nema hann sé hátekjumaður, ráðherra eða á hátekjulista ríkisstjórnarinnar því það er verið að taka launin þeirra jafnóðum af þeim með þessum tekjutengingum. Aftur á móti þurfa þeir sem eru verst settir, þeir sem eru með lægstu tekjurnar nú að borga fullu verði fyrir lyf og læknishjálp þegar þeir eru orðnir 67 ára til 70. Mig langar til að vekja athygli hæstv. ráðherra á því að fimmti hver Reykvíkingur sem kemur og fær aðstoð hjá Félagsmálastofnun Reykjavíkur er lífeyrisþegi. Á þetta fólk nú að borga fullt gjald fyrir lyf og læknishjálp? Nei, eiga þeir að borga eins og barnafólk, svo ég vitni í hæstv. ráðherra hér áðan. Hjá barnafólki er hámarkið 100% hærra en hjá lífeyrisþegum fyrir læknisþjónustu. Af því að verið var að tala um að þetta ætti að vera fólk í atvinnu þá má geta þess að fólk sem er með tekjur, sem er við störf og á láglaunabótum, hefur líka þurft leita til Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar. Yfir 20% af þeim sem leita til sveitarfélagsins í Reykjavíkurkjördæmi er fólk sem er í vinnu. Á fólk 67--70 ára að fara að borga fullu verði fyrir þessa þjónustu?

Mig langar til að spyrja um eitt í viðbót. Er eitthvað hæft í því að fólk eigi að fara að kaupa sig út af biðlistum? Á að fara að borga sig inn á aðgerðirnar og út af biðlistunum? Mér finnst forgangsröðunin hjá hæstv. ríkisstjórn vera sérkennileg. Mér finnst mikið á hæstv. heilbrrh. lagt að hún skuli þurfa að taka á sig nánast allan niðurskurðinn. Mér finnst þetta ekki boðlegt. Mér finnst ekki eðlileg forgangsröðun að það eigi allt að fara í niðurskurð í velferðarkerfinu. Ég get ekki látið hjá líða að minnast á bótagreiðslur til tjónþola afbrota, sem hafa komið til umræðu í dag, og sem á að fresta greiðslum á. Það lýsir forgangsröðinni hjá a.m.k. sumum ráðherrum ríkisstjórnarinnar að þeir geta notað sömu upphæð og átti að fara í að borga tjónþolum til að endurnýja ráðherrabíla sína. Þetta er forgangsröðun þeirra í hnotskurn.

Forvarnir voru aðeins til umræðu í dag. Mig langar til að minnast á það að ég fagna því að það á að gera átak í forvörnum hvað varðar notun áfengis og tóbaks. Það var til umræðu í vor þegar við vorum að afgreiða lög um áfengi og tóbak að sett yrði fé í forvarnir. En ég verð satt best að segja að láta það koma fram að ég hef áhyggjur af forvarnaþættinum í tillögum sem hafa verið lagðar fram í heilbrrn. um nýja skipan mála í stjórn sjúkrastofnana sem er nú til umræðu og hafa verið kynnt fyrir heilbr.- og trn. Því miður sýnist mér að forvarnaþátturinn þar hjá heilsugæslustöðvunum sé ekki tryggður.

[21:45]

Ég vil líka minnast á þann sparnað ef um einhvern sparnað er að ræða, ég veit það ekki, og það er það að það eigi að hætta að veita bílalán til hreyfihamlaðra í Tryggingastofnun ríkisins. (Gripið fram í: Búið að taka ákvörðun.) Það er búið að taka ákvörðun um það. Það var gert á fundi hjá tryggingaráði og ég vil mótmæla þessu. Það hefur verið mikil aðstoð og stuðningur við fatlaða að fá þessa fyrirgreiðslu í Tryggingastofnun, þetta hafa verið mjög hagkvæm lán, 1% vextir og verðtryggð til ekki svo langs tíma, endurgreitt af bótum bótaþegans. Það er mjög tryggt að þessi lán skila sér aftur. Tryggingastofnun sér um að taka þetta jafnóðum af bótum lánþega þannig að ég skil ekki svona sparnað. Ég trúi ekki öðru en þetta verði endurskoðað.

Að þessu upptöldu leyfi ég mér að efast stórlega um að markmið ríkisstjórnarinnar sem kemur fram í stjórnarsáttmálanum, að þessi ríkisstjórn ætli sér að treysta undirstöður velferðarinnar hér á landi, sé sambærilegt markmið. Það lýsir sér í þessu frv.