Fjárlög 1996

Þriðjudaginn 17. október 1995, kl. 21:51:32 (395)

1995-10-17 21:51:32# 120. lþ. 13.7 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um frv. til fjárlaga því margt af því sem ég hefði viljað segja hefur þegar verið sagt í ágætum ræðum hér fyrr í dag. En mig langar til að byrja á því að vekja athygli á litlum bæklingi sem ég fékk inn um dyralúguna hjá mér fyrir fáum dögum þar sem segir að við eigum að taka ábyrgð á framtíðinni. Þetta er upplýsingarit ríkisstjórnarinnar um stefnu og aðgerðir í efnahags- og ríkisfjármálum. Og hér, auk þess að tala um ábyrgðina á framtíðinni, er skýrt fyrir okkur hver leiðin sé til betri lífskjara. Og ef við flettum áfram þá er talað um áfanga á réttri leið. Einn slíkur áfangi er væntanlega þessi bók hér. Hvernig skyldi hæstv. ríkisstjórn Davíðs Oddssonar fara að því að feta sig áfram hina réttu leið með þjóð sína til betri lífskjara? Hv. þm. Pétur Blöndal sagði hér áðan og vitnaði í miklar skuldir íslensku þjóðarinnar, að einhvers staðar þyrfti að herða sultarólar. Og það er alveg rétt. Það hefur verið gert og það er boðað í þessari bók hér. En hverjir skyldu það vera sem eiga að herða sultarólarnar samkvæmt forskrift hæstv. ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar? Ég sakna þess hve fáir hæstv. ráðherrar eru hér við þessa umræðu. Enda þótt alvarlegustu hlutirnir sem fram koma í fjárlagafrv. að mínu mati séu þeir sem snerta málaflokk hæstv. heilbrrh., þá finnst mér ósanngjarnt að láta hæstv. heilbrrh. einan axla þá ábyrgð, því að sú ábyrgð er ríkisstjórnarinnar allrar.

Af þeim málum sem ég vildi víkja að hér í mínu stutta máli þá langar mig til að geta sérstaklega um hve alvarlegt ég tel vera að skera á tengslin sem hingað til hafa verið á milli almennrar launaþróunar í landinu annars vegar og bótagreiðslna hins vegar. Og hér erum við að tala um tryggingabætur og við erum að tala um atvinnuleysisbætur. Við erum að tala um skattleysismörkin, því við erum að tala um persónuafsláttinn sem þó að hluta til var bundinn launaþróun. Þetta var eina vörnin sem menn höfðu þar. En ég vil segja það að þetta er ekki bara mjög ranglátt, þetta er líka mjög óskynsamlegt. Vegna þess að ég leyfi mér að fullyrða, hæstv. forseti, að í engum kjarasamningum sem kunna að vera gerðir á næstu missirum eða árum þar sem heildarsamtök launafólks koma að máli, verður þetta látið standa. Ég leyfi mér að fullyrða það. Og ég byggi þetta á yfirlýsingum sem hafa komið fram frá Alþýðusambandi Íslands og ég fullyrði þetta á grundvelli yfirlýsinga sem að hafa verið gerðar af hálfu Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og ég mun á eftir vitna í yfirlýsingar sem fram hafa komið frá þessum stærstu heildarsamtökum launafólks á Íslandi.

Eins og ég hef getið um áður hefur hér verið gerð mjög vel grein fyrir ýmsum liðum fjárlaga sem eru gagnrýnisverðir og ég tel ekki þörf á að endurtaka það. En hins vegar get ég ekki látið hjá líða að benda á ýmislegt sem mér finnst harla undarlegt. Árum saman er búið að hamra á því að hér skuli komið á fjármagnstekjuskatti. Það var fullyrt af hálfu fyrrv. ríkisstjórnar að þetta stæði til. Í kosningabaráttunni töluðu báðir stjórnarflokkarnir um nauðsyn þessa og hvarvetna í samfélaginu hljómaði og endurómaði þessi krafa, þessi réttlætiskrafa, og í því samhengi bent á að við erum eina ríkið, við erum eina þjóðin í gervöllu OECD þar sem ekki er fjármagnstekjuskattur. Að vísu hefur verið bent á það við umræður í dag að það er nefnd að störfum við að smíða þennan skatt. En engu að síður er ekki gert ráð fyrir honum í þessu fjárlagafrv. nema gagnvart einum hópi og það er gamla fólkið. Það eru lífeyrisþegarnir. Það á að skerða bætur sem þeir fá úr tryggingakerfinu vegna fjármagnstekna. Og nú vil ég taka það skýrt fram, hæstv. forseti, að ég er fylgjandi fjármagnskatti á alla þegna landsins. Hvort sem þeir eru fimm mánaða, fimm ára, fimmtíu ára eða hundrað ára. En mér finnst sannast sagna byrjað á öfugum enda að taka þennan hóp einan og skattleggja hann. Mér finnst það vægast sagt mjög undarleg forgangsröð.

Eins og hér hefur komið fram þá er gert ráð fyrir að spara fjórðung úr milljarði, 250 millj. með því að setja nýja reglugerð um greiðslu heimildarbóta. Heimildarbætur eru t.d. sérstök uppbót á lífeyri fyrir þá sem ekki komast af með tekjur sínar vegna sérstaks kostnaðar. Hér er því verið að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur. Sérstakur kostnaður getur t.d. verið mikill lyfjakostnaður og í því sambandi er vert að benda á að þegar kostnaðarþátttaka vegna lyfja var aukin var iðulega bent á að þeir sem þyrftu á aðstoð vegna mikils lyfjakostnaðar að halda gætu t.d. fengið þessa sérstöku uppbót. Nú, fjórum árum síðar, er svo ráðist að þessum möguleika. 125 millj. á að spara með skerðingu á mæðra- og feðralaunum. Og síðan þessi makalausa ráðstöfun að fella niður ekkjulífeyri, 5 millj. þar til að jafna niður á við til ekklanna, þessi stöðuga jöfnun niður á við. En eins og ég gat um áðan þá þyrfti í rauninni að hafa langt mál um allar þær milljónir, allar þær tugmilljónir, hundruð milljóna sem á að spara á kostnað lífeyrisþega, öryrkja og bókstaflega flestra þeirra hópa í þjóðfélaginu sem minnst mega sín. Og að láta sér detta í hug að hækka aldurstakmörk vegna afsláttar eftirlaunaþega á greiðslum fyrir heilbrigðisþjónustu og lyf úr 67 í 70 ár og ætla að spara þannig 40 millj. Það hefur að vísu komið fram í viðtali við heilbrrh. að þetta eigi aðeins við um þá lífeyrisþega sem séu í vinnu. En þarf svo ekki síðar að jafna þetta líka í réttlætisskyni? Ég bara spyr. 330 millj. vegna minni lyfjaútgjalda.

[22:00]

Ég gæti haldið áfram slíkri upptalningu en mig langar til að koma sérstaklega að þeim kerfisbreytingum sem eru boðaðar í heilbrigðiskerfinu. Því að þær þykja mér alvarlegastar. Það er talað um samræmingu á gjaldtöku fyrir ferliverk og innlagnir sjúklinga. Ferliverk eru læknisverk sem að jafnaði eru gerð án innlagnar, annaðhvort á göngudeild eða þá hjá sjálfstætt starfandi sérfræðingum. Rökin eru þau að þetta sé réttlætismál því að óréttlátt sé að þeir sem lagðir eru inn greiði ekkert fyrir aðgerðir sem aðrir þurfa að greiða fyrir. Spurningin er þó sú hvort næsta samræming í réttlætisátt verði ekki sú að allir sjúklingar á sjúkrahúsum greiði fyrir aðgerðir þar sem það sé óréttlátt að aðeins sumir innlagnarsjúklingar greiði fyrir aðgerðir. Framlög til sjúkrahúsanna eru skorin niður um 200 millj. vegna þessa. Nú spyr ég, hæstv. heilbrrh. Hvað vakir fyrir hæstv. ríkisstjórn með þessum breytingum sem hér eru boðaðar? Og ég vil spyrja nánar vegna þess að í kaflanum um nauðsynlegar breytingar á almannatryggingalögunum í bandormsyfirlitinu kemur fram að breyta á lögunum til þess að hægt verði að taka upp innritunargjald á sjúkrahús. Það á að selja aðgang að sjúkrahúsunum. Og heyrði ég það rétt hér í umræðu fyrr í dag að undanskilja eigi öryrkja? Heyrði ég rétt? En hvers vegna ekki að undanskilja sjúklinga? Til hvers halda menn að menn séu lagðir inn á sjúkrahús? Það er veikt fólk og við höfnum því að hér sé farið að selja aðgang að sjúkrahúsum. Einnig kemur fram að breyta á lögum um heilbrigðisþjónustu þannig að sjúkrahúsum verði heimilt að stofna hlutafélag um rekstur sérhæfðra deilda. Stofna fyrirtæki. Stofna hlutafélag til að græða á veiku fólki. Þetta er makalaust, segir hæstv. fjmrh. Já þetta er makalaust. Og ég skal segja hæstv. fjmrh. það og allri ríkisstjórninni að þetta er nokkuð sem íslensk þjóð sættir sig ekki við og mun aldrei gera það. Að þið einkavæðið velferðar- og heilbrigðiskerfið með þessum hætti. Við munum krefjast þess að þið gerið grein fyrir því nákvæmlega hvað það er sem að vakir fyrir ykkur.

Í húsnæðismálum er einnig gert ráð fyrir niðurskurði. Það er talað um að lækka framlag til Byggingarsjóðs verkamanna og það eru færð fram rök hvers vegna það er gert. Að þessar íbúðir gangi ekki út. Að vísu gera þær það á höfuðborgarsvæðinu en víða úti á landi gera þær það ekki. Og það eru tilgreind ýmis rök fyrir þessu. En ég spyr hvort dvínandi eftirspurn eftir félagslegu húsnæði geti átt sér þá skýringu að fólk sem þarf á slíku húsnæði að halda hafi ekki lengur efni á því að komast inn í slíkt húsnæði. Og í því samhengi hlýtur að vera áhyggjuefni líka að í fjárlagafrv. er skorið niður það fjármagn sem er ætlað til húsaleigubóta.

Það er alveg hárrétt sem hv. þm. Pétur Blöndal sagði í ræðustól áðan. Einhvers staðar þarf að herða sultarólar. En ég leyfi mér að fullyrða að Íslendingar hafna því að það verði sjúkir og aldraðir og öryrkjar sem að herða ólarnar eða að ólarnar séu hertar um þá með þeim hætti sem hér er boðað. Og ég vil að lokum vitna í ályktanir sem nýlega voru samþykktar varðandi það fjárlagafrv. sem hér er til umræðu, annars vegar af hálfu miðstjórnar Alþýðusambands Íslands og hins vegar stjórnar- og formannafundar BSRB. Í ályktun miðstjórnar Alþýðusambands Íslands um fjárlagafrv. segir, með leyfi hæstv. forseta, m.a.:

,,Miðstjórn Alþýðusambands Íslands mótmælir harðlega þeirri efnahagsstefnu sem ríkisstjórnin hefur sett fram í frv. til fjárlaga fyrir árið 1996. Óhjákvæmilegt er að líta á áherslurnar í þessari stefnu ríkisstjórnarinnar sem hreina ögrun við launafólk og samtök þess og að stjórnvöld séu að efna til harðrar deilu um efnahagsstefnuna, kjörin og velferðarkerfið. Stefnt er að lækkun skattleysimarka, hækkun skatta og niðurskurði í tilfærslum og fjárfestingum þannig að afleiðingin verður minni kaupmáttur og fækkun starfa á almenna vinnumarkaðnum. Þá stefnir ríkisstjórnin að því að rýra stöðu bótaþega með afnámi tengingar bóta við launahækkanir í kjarasamningum.``

Þetta segir m.a. í ályktun sem samþykkt var af miðstjórn Alþýðusambands Íslands 11. okt. Í ályktun sem stjórn- og formannafundur BSRB samþykkti 6. okt. er tekið undir þær hugmyndir sem fram komu hjá hæstv. utanrrh. nýlega að efnt yrði til viðræðna ríkisvalds og aðila vinnumarkaðarins um siðferðilegan grunn sem kjarasamningar gætu byggt á til framtíðar. Og þar yrði haft að leiðarljósi í þeim viðræðum að jafna lífskjörin í landinu.

Í ályktun BSRB segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

,,Sá tónn sem sleginn er í fyrsta fjárlagafrv. núv. ríkisstjórnar stangast þó á við þessa hugsun og er ljóst að áfram á að skerða kjör öryrkja, aldraðra og almenns launafólks. Þannig mun afnám vísitölu og launatengingar rýra lífskjör lífeyris- og örorkuþega og auka skattbyrði launafólks því fyrirsjáanlegt er að skattleysismörk munu lækka í raun. BSRB mótmælir þeim áformum ríkisstjórnarinnar að láta almennt launafólk, aldraða og öryrkja bera þyngstu byrðar að því að ná jafnvægi í ríkisbúskapnum. Þetta fólk hefur þegar borið herkostnaðinn af því að ná verðbólgunni niður og koma á stöðugleika. Íslenska velferðarkerfið er í hættu og mun BSRB leggja áherslu á að verja það. Í frv. er gert ráð fyrir einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu og auknar gjaldtökur boðaðar. BSRB hafnar einkalausnum þeirra sem peningana eiga og varar alvarlega við því að gróðasjónarmið verði látin taka völdin í heilbrigðisþjónustunni. Á undanförnum árum hefur smám saman verið grafið undan heilbrigðisþjónustunni og fari svo fram sem horfir hættir hún að vera sameiginleg þjónusta allra landsmanna. BSRB mun aldrei sætta sig við slíka eyðileggingu á velferðarþjónustunni og hvetur til víðtækrar samstöðu um að snúa vörn í sókn.

Það er áfellisdómur yfir ríkisstjórninni að í þessu fyrsta fjárlagafrv. hennar er ekkert sem bendir til þess að taka eigi á því varanlega atvinnuleysi sem hér hefur skapast. Ef ríkisstjórninni er alvara að vilja ræða siðferðilegan grunn fyrir kjarajöfnun er nauðsynlegt að taka þegar í stað til endurskoðunar þá þætti fjárlagafrv. sem stefna til aukins ójafnaðar.``

Tilvitun lýkur, hæstv. forseti. Ég vil gera þessi lokaorð að mínum en leggja jafnframt á þau mjög ríka og mikla áherslu.