Fjárlög 1996

Þriðjudaginn 17. október 1995, kl. 22:30:40 (398)

1995-10-17 22:30:40# 120. lþ. 13.7 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að það var alltaf vilji hæstv. fjmrh. að skerða elli- og örorkulífeyri með fjármagnstekjutengingu án tillits til þess hvort að fjármagnstekjuskattur yrði tekinn upp í leiðinni. En þar var niðurstaðan í ríkisstjórn að gera það ekki vegna þess að ég stóð gegn því. Það er líka rétt, og ég tók það nú raunar fram og leiðrétti sjálfan mig, að þeir 48 milljarðar sem ég ræddi um voru á tímanum að nokkru leyti notaðar til að þess að greiða niður útflutningsverð á öðrum afurðum landbúnaðar en lambakjöti. En þetta er mesti stuðningur við markaðssetningu á íslenskri afurð erlendis sem ég veit um og ég þekki ekki til að nokkur önnur þjóð hafi veitt jafnmiklum fjármunum til þess að reyna að finna markað fyrir afurð sem hún framleiðir eins og þarna er um að ræða. Það sem er sorglegast við allt saman er að árangurinn varð nákvæmlega enginn. En ég benti á að þessi fjárhæð, 48.000 millj. kr., sem varið var í þessu skyni er rúmur þriðjungurinn af þeim skuldum sem ríkið og ríkisstofnanir hafa safnað erlendis á sama tíma. Þetta er ekkert lítið fé.

Í lokin þá er það rétt að hæstv. fjmrh. keypti tillögu sem sparaði kannski ekki mjög mikið. En ég er líka alveg sannfærður um það að hann er nú, virðulegi forseti, búinn að kaupa margar tillögur sem spara ekki neitt, m.a. tillögu um það að ekki verði staðið við samninga sem hann hefur sjálfur undirritað við sveitarstjórnir í landinu. Ég er líka sannfærður um það að hann hefur keypt þá tillögu frá forsrh. sem mun ekki standast að niðurskurður á framkvæmdum verði 2.000 millj. eins og gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. Hæstv. fjmrh. hefur því keypt miklu stærri sparnaðartillögur sem munu ekki ganga upp en nemur tilllögunni sem hann keypti af mér forðum daga. (Gripið fram í.)