Verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Miðvikudaginn 22. nóvember 1995, kl. 15:38:19 (1216)

1995-11-22 15:38:19# 120. lþ. 39.12 fundur 166. mál: #A verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur


[15:38]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég var bara að benda á þá staðreynd, sem verður ekki hrakin, að samkvæmt þeim lögum sem í gildi eru um hinn sérmerkta tekjustofn flugmálaáætlunar, þá skal hann renna til framkvæmda og framkvæmda eingöngu. Því miður hefur það að vísu gerst nú í fyrsta sinn að hæstv. núv. ríkisstjórn hefur ákveðið að skerða stórlega þennan tekjustofn og láta hann renna til reksturskostnaðar Flugmálastjórnar. Það er alveg óskylt mál, en lögin eru svona og verður ekki fram hjá því litið. Hvaða æfingar þeir hafa verið með í tillögugerð sín í milli hæstv. ráðherrar í fyrri ríkisstjórn er mér að sjálfsögðu óviðkomandi. En hæstv. samgrh. varð ekki skilinn öðruvísi áðan en að það hefði staðið til boða að ráðstafa tekjustofnum flugmálaáætlunar í það að greiða hallann af Keflavík ef ekki hefði verið búið að nota það í annað. En fyrst hefði þurft að taka um það pólitíska ákvörðun, en síðan breyta lögum og hafa fyrir því meiri hluta á Alþingi. Það hlýtur hæstv. samgrh. a.m.k. að viðurkenna.