Framleiðsla og sala á búvörum

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 22:00:41 (1497)

1995-11-29 22:00:41# 120. lþ. 45.1 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur


[22:00]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Eins og við var að búast komu ýmsar merkar upplýsingar fram í máli hv. þm. Mér var til að mynda ekki ljóst fyrr en ég hlýddi á mál hans að guð almáttugur sæti sjálfur í landbn. eða væri að minnsta kosti mjög nálægur henni. Ræðumaður eignaði honum sérstaklega tilteknar breytingar sem orðið hefðu á búvörusamningnum. Ég lagði eyrun sérstaklega eftir því að það var guð en ekki Guðni sem þar var nefndur.

En það var ekki það sem ég ætlaði að spyrja hv. þm. út í heldur hitt að mig rekur minni til þess að í viðtölum við fjölmiðla í sumar hafði hv. þm. nokkuð stór orð um þennan samning. Eða undir haustið. Ég held ég muni það rétt að hann hafi talað um að þetta væri versti samningur sem gerður hefði verið á öldinni. (Gripið fram í: Eftir Gamla sáttmála.) Já, gott ef ekki síðan Gamli sáttmáli var gerður. Það er þess vegna nokkurt undrunarefni að breytingar á samningnum sem hljóta að teljast tiltölulega minni háttar, svona í grundvallaratriðunum lagatæknilegar lagfæringar sagði hv. form. landbn., valdi því að hv. þm. treystir sér nú fyrirvaralaust til að mæla með stuðningi við samninginn. Ég vil því leyfa mér að spyrja hv. þm. hvað valdi þessum sinnaskiptum, hvort það séu eingöngu þessar lagfæringar sem nú eru lagðar til af hálfu meiri hluta landbn. eða hvort hv. þm. meti stöðuna öðruvísi en hann gerði í sumar eða á haustdögum. Eða telur hann bændur ekki eiga annarra kosta völ og mælir þess vegna með þessum samningi? Og þá væntanlega vegna þess að það er ekki við betra að búast af hálfu núv. ríkisstjórnar.