Húsnæðisstofnun ríkisins

Fimmtudaginn 07. desember 1995, kl. 15:53:10 (1698)

1995-12-07 15:53:10# 120. lþ. 57.3 fundur 215. mál: #A húsnæðisstofnun ríkisins# (lánstími húsbréfa o.fl.) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur


[15:53]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Varðandi það sem hv. þm. sagði um 86-kerfið, gamla kerfið og biðröðina í því kerfi þá hef ég síður en svo mælt því ástandi bót. Ég sagði einmitt í minni ræðu þegar ég vék að því ástandi að það var einmitt biðröðin sem myndaðist sem drap það kerfi og biðröðin myndaðist vegna þess að það var allt of mikið útstreymi út úr því kerfi inn í viðskipti með notað íbúðarhúsnæði sem engin ástæða var til. Ég er að því leyti sammála hv. þm. að í þeim viðskiptum tel ég að markaðsfyrirgreiðsla, markaðsbréf eða bankakerfið eða aðrir slíkir aðilar séu hinn eðlilegi milligönguaðili ef menn þurfa á einhverju fjármagni að halda. En dæmið snýr allt öðruvísi þegar kemur að grunnfjármögnuninni sjálfri. Svo spyr hv. þm.: Af hverju í ósköpunum hættu menn ekki að taka lán þegar afföllin voru orðin 20--25%? Af hverju er fólkið svona vitlaust? Gæti hugsast, hv. þm., að þetta væri vegna þess að fólkið þarf að búa einhvers staðar. Það þarf þak yfir höfuðið og það eru fjölmargir sem upplifðu sig í þeirri stöðu að þeir áttu ekki annars kost. Ég fullyrði að fólkið er ekki svona vitlaust. Það tók ekki húsbréfalán að gamni sínu eða í óvitaskap með 25% afföllum. Það gerði það vegna þess að það átti ekki annarra kosta völ. Það voru ekki og eru ekki önnur úrræði í boði en þetta kerfi. Við getum tekið bónda í sveit sem býr í heilsuspillandi húsnæði og þarf að byggja sér nýtt húsnæði. Hvaða kosta á hann völ? Ekki fer hann á leigumarkaðinn. Ekki fer hann inn í félagslega íbúð. Nei, hann verður að byggja og taka áhættuna af því að festa þannig sína fjárfestingu í jörðinni. Hvaða úrræði standa honum til boða? Ekkert nema húsbréf, ekki neitt. Það er eini lánaflokkurinn sem er í gangi. Þetta ætti hv. þm. að reyna að hafa í huga.

Ég vil að lokum segja að ég er algerlega ósammála hv. þm. Það er í raun óhugsandi fyrir ungt, eignalaust fólk með meðaltekjur eða lægri að eignast íbúð í dag. Spurningin snýst ekki um það hvort það sé ódýrara að leigja heldur en að borga af lánunum. Það er ekki valið sem fólkið stendur frammi fyrir. Ef það ætlar að kaupa þarf það að undirgangast greiðslumat og það þarf að sýna fram á að það geti borgað af lánunum. Og ef það á nú enga eina milljón og engar tvær milljónir þá gengur dæmið yfirleitt ekki upp. Það getur síðan verið hárrétt hjá hv. þm. að leigan sé dýrari. Um það spyr Húsnæðisstofnun ekki. Hún fellir þig á greiðslumatinu jafnvel þótt greiðslubyrðin sé svipuð eða lægri en leigan sem þú ert að borga. Það kemur málinu ekki við, segir Húsnæðisstofnun. Þetta ætti hv. þm. að athuga.