Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Föstudaginn 08. desember 1995, kl. 18:15:54 (1791)

1995-12-08 18:15:54# 120. lþ. 58.4 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur


[18:15]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er óhjákvæmilegt að mótmæla því sem hæstv. heilbrrh. kom með undir lok ræðu sinnar að hæstv. ráðherra hefði setið í allan dag og lagt saman útgjaldaaukann af málflutningi stjórnarandstöðunnar og hann væri upp á 30 milljarða. Ég bið um að hæstv. ráðherra finni þessum orðum sínum stað eða dragi þau til baka ella. Ég fullyrði að þetta er fleipur. (Samgrh.: Hefur þingmaðurinn lagt þetta saman?) Ég fullyrði að þetta er fleipur vegna þess að það hefur ekkert slíkt verið til umræðu. Síðan sagði hæstv. ráðherra að menn ættu jafnframt að ræða tekjuöflun þegar þeir væru að ræða fjárlagafrv. Ég vona að það hafi verið mismæli og hæstv. ráðherra viti hvaða frv. við erum að tala um. Við erum ekki að ræða um fjárlagafrv. Við erum ekki að ræða frv. um tekjuskatt og eignarskatt eða aðra slíka almenna tekjuöflun ríkisins eða skattamál. Það stendur væntanlega ekkert á okkur frekar en öðrum hv. þm. stjórnarandstöðunnar að taka þátt í því að ræða tekjuöflunarúrræði fyrir ríkissjóð. Við erum að ræða um bandorm, skerðingar og niðurskurðartillögur ríkisstjórnarinnar. Og er þá eitthvað óeðlilegt við það þó að umræða dagsins lúti að því eða hvað? Um hvað á hún að fjalla? Á ekki að ræða það dagskrármál sem er á dagskrá, herra forseti, að breyttu breytanda?

(Forseti (GÁ): Hárrétt.)

Hárrétt, já. Hvað eru menn þá að væla hér, hæstv. ráðherrar, þótt við tölum um það hvort í hverju einstöku tilviki sé réttlætanlegt eða sanngjarnt að ráðast á garðinn þarna og þarna. Það er það sem er á dagskrá. Þetta er frv. um það, hæstv. heilbrrh.

Svo er það þar á ofan rangt að einstakir ræðumenn hafi ekki verið með hugmyndir um tekjuöflun eða tekið undir sparnaðaráform í vissum tilvikum. Ég minni á að bæði gerði ég það í mínu máli og eins kom hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson inn á slíka hluti. Ég tók undir í vissum tilvikum að ákveðin ákvæði þessa frv. væru réttlætanleg og eðlileg vegna þess að þarna væri ekki ástæða fyrir ríkisútgjöldum sem þó væru bundin í lögum. Ég bið því hæstv. heilbrrh. að barna ekki umræðuna með því að fara með fleipur um það sem komið hefur fram og gera mönnum upp skoðanir.