Fjárlög 1996

Fimmtudaginn 14. desember 1995, kl. 17:37:07 (1928)

1995-12-14 17:37:07# 120. lþ. 65.5 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur


[17:37]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Sturla Böðvarsson sagði að við ættum að varast að láta vel skipulagða og harðsnúna hópa talsmanna aukins fjármagns til sjúkrahúsareksturs í landinu glepja okkur sýn. Hann orðaði það svo að við ættum að varast það. Og ég spyr hv. þm.: Gerir hann sér grein fyrir því að frá því að núverandi ríkisstjórn tók við völdum, frá því að núv. hæstv. heilbrrh. settist við stjórnvöl heilbrigðismála á Íslandi, hefur þeim sem eru á biðlistum eftir nauðsynlegum aðgerðum fjölgað um 400 á síðustu 4--5 mánuðum? Og gerir hann sér grein fyrir því að þeir hópar sem hann kallar harðsnúna talsmenn aukinnar sóunar, ég get ekki skilið það öðruvísi en hann sé að orða það svo, eru þarna að tala um fjármagn til að koma í veg fyrir að þeim sem sitja á biðlistum fjölgi um 800 á næsta ári, sem ella er óhjákvæmilegt? Finnst honum óeðlilegt að menn reyni að sækja fjármagn til þess að koma í veg fyrir þetta?

Hv. þm. orðaði það svo að í morgun hafi landlæknir komið rétt eina ferðina enn í fjölmiðla og talað um nauðsyn þess að fá meira fjármagn til sjúkrahúsanna og eins og hann sagði er tekið mark á slíkum mönnum. Má ég þá benda honum á að samþingmaður hans af Vesturlandi, hæstv. heilbrrh., kom rétt eina ferðina enn í fjölmiðla þann 10. desember, eins og hann mundi sennilega orða það, og sagði að það þyrfti meira fjármagn í heilbrigðiskerfið. Hún var spurð hvort hún væri reiðubúin að leggja til að það yrðu hækkaðir skattar til þess að auka þessar fjárveitingar og hæstv. heilbrrh. svaraði: ,,Já. Ég legg það fremur til en að draga úr góðri þjónustu.`` Mig langar þess vegna að spyrja hv. þm. Sturlu Böðvarsson: Er ágreiningur uppi milli hans og hæstv. heilbrrh.? Hvaða afstöðu tekur hann til tillagna hæstv. heilbrrh. um að hækka skatta til þess að fjármagna heilbrigðiskerfið?