Fjárlög 1996

Fimmtudaginn 14. desember 1995, kl. 17:41:39 (1930)

1995-12-14 17:41:39# 120. lþ. 65.5 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur


[17:41]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Sturlu Böðvarssyni að ég hef kannski lagt honum ákveðin orð í munn sem hann sagði ekki, ég vil að það komi fram.

Ég er sammála honum um það að menn verða að leita allra leiða til þess að auka hagræðingu í heilbrigðiskerfinu. Ég ætti kannski ekki að vera að skammast við hann yfir því sem hæstv. heilbrrh. er að gera. En hæstv. heilbrrh. eigi að síður settist í sinn stól með það á vörunum að nú ætti að grípa til nýrra og annarra leiða. Hvaða leiðir eru það sem hæstv. heilbrrh. hefur gripið til? Hún hefur lagt til að skattar verði hækkaðir og nú hefur það komið fram að samstarfsflokkurinn hefur hafnað þeirri stefnu. Það hefur komið fram að hæstv. heilbrrh. hefur engin úrræði önnur en þau að hækka skatta. Hv. þm. Sturla Böðvarsson situr í fjárln. og hann segir: Við þurfum að útvega þessu fólki sem stýrir heilbrigðisstofnununum það fjármagn sem við höfum raunverulega aflögu í þessu verkefni og síðan er það þeirra að spila úr því. En það er líka okkar að reyna að benda á leiðir.

Ég vísa til þess að landlæknir, sem hann vék að með ekki mjög jákvæðum hætti, kom á framfæri við fjárln. einum 15 erindum þar sem hann taldi að hægt væri að spara verulega fjármuni ef fjárln. legði til þeirra tiltölulega litla fjármuni. Ég nefni eitt alveg sérstaklega. Hann óskaði eftir því að fá fjármuni til þess að kynna betur það sem við höfum kallað sjúklingahótel. Það hefur komið fram að með því að taka upp sjúklingahótel í tengslum við handlækningadeildir mætti draga úr rekstrarkostnaði þeirra um allt að 15--20%. Þetta eru gríðarlegir fjármunir og ég fullyrði það að ef þetta yrði gert þá mundu sparast það mikið af peningunum að það væri hægt að útrýma biðlistunum á tiltölulega skömmum tíma. En þetta hefur hv. fjárln. forsómað að kanna. Hún hefur skellt skollaeyrum við þessum ábendingum landlæknis og það sem verst er, hæstv. heilbrrh. hefur líka gert það, þrátt fyrir allt hennar hjal um forvarnir og nýjar leiðir.