Fjárlög 1996

Fimmtudaginn 14. desember 1995, kl. 22:10:11 (1946)

1995-12-14 22:10:11# 120. lþ. 65.5 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., HG
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur


[22:10]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég vænti að hv. formaður fjárln. sé ekki langt í burtu. Hér er hæstv. umhvrh. á meðal vor ásamt hæstv. menntmrh. Ég þakka hæstv. umhvrh. fyrir að bregðast við ósk minni um að vera nærstaddur því ég mun m.a. og ekki síst koma svolítið að þeim málaflokki. Þó hér sé vissulega við þingið að eiga í sambandi við fjárveitingavaldið, þá má ríkisstjórn sín nokkurs og raunar mikils yfirleitt í sambandi við fjárlagagerð og breytingar frá upphaflegu fjárlagafrv. Þannig að það er ekki óeðlilegt þótt við viljum einnig eiga orðastað við hæstv. ráðherra í sambandi við 2. umr. málsins.

Fyrir hönd 1. minni hluta sem fulltrúar Alþb. í fjárln. eru aðilar að hefur þegar verið mælt í ágætu innleggi af hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni, sem hafði framsögu fyrir minnihlutaáliti, og síðan af hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur. Þar er fjallað um almenn viðhorf af hálfu Alþb. og minni hlutans til þessara mála. Þess vegna ætla ég að spara mér að fara út í þau efni. Ég hef þar ekki miklu við að bæta, þótt margt mætti um málið segja. Ég ætla fyrst og fremst að mæla hér fyrir breytingartillögum sem ég á aðild að eða flyt hér við fjárlagafrv. Ég minni þó á að Alþb. stendur að mörgum breytingartillögum við fjárlagafrv. bæði tekjuöflunarfrv. upp á 1,5 milljarða kr. og útgjaldatillögum sem ná þó ekki því, þannig að okkar breytingartillögur fela það í sér að minnka fjárlagahallann en ekki auka. Vænti ég að það þyki gott til eftirbreytni og auðvitað mjög eðlilegt að eftir slíku sé spurt þótt sumt af því sem varðar heildarramma fjárlaganna sé auðvitað frekar teygjanlegt, m.a. spurningin um líkurnar á tekjuöflun ríkissjóðs. Eins og menn þekkja er þar gjarnan lyft þakinu eitthvað frá því sem var í áætlunum í sambandi við 3. umr. fjárlaga, þótt það verði auðvitað að fara eftir aðstæðum hvað menn treysta sér til í þeim efnum. Alþb. flytur hér margar breytingartillögur, misjafnlega kostnaðarsamar að því er varðar útgjaldaauka. Þær miðast við einstök svið, ekki síst eftir því að hverju menn einkum beita sér hér í þinginu bæði í nefndum og þess utan, þótt við höfum óbundnar hendur í þeim efnum. Ég minni t.d. á mjög gildar tillögur sem liggja fyrir á sviði menntamála, félagsmála, menningarmála og framkvæmdamála, m.a. þær tillögur sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon stendur að um leiðréttingu á þeirri tekjuskerðingu til vegagerðar sem fjárlagafrv. felur í sér. Það er auðvitað afskaplega tilfinnanlegt mál fyrir landið allt. Satt að segja mjög sérkennilegt að ríkisstjórnin skuli leggja í það á sama tíma að hún beitir sér fyrir því að nýjar kostnaðarsamar framkvæmdir hefjist hér á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess, að þá skuli framkvæmdaliðir eins og vegagerð og framkvæmdir í flugmálum vera skertar með þeim hætti sem raun ber vitni. Og það sem kórónar í rauninni það verk er að hér er verið að taka niður markaða tekjustofna til þessara mála til almennrar ráðstöfunar í ríkissjóð. Það hefur aldrei þótt gott hver sem að því hefur staðið að þannig sé á máli haldið og mér finnst það afar miður að sjá hér í brtt. meiri hluta fjárln., hversu langt á að seilast í þessum efnum. Það mál hlýtur að verða rætt hér mikið í tengslum við þessi mál.

[22:15]

Virðulegur forseti. Svo ég víki að þeim brtt. sem ég á hlut að þá er það í fyrsta lagi tillaga sem hv. þm. Svavar Gestsson er 1. flm. að á þskj. 361, sem varðar hækkun á framlögum til húsafriðunarsjóðs frá 10 og upp í 30 millj. eða um 20 millj. kr. Tillagan sem gengur lengra en sú tillaga sem meiri hluti fjárln. nú hefur kynnt og er þó í rauninni of lág miðað við það sem væri eðlilegt að rynni til þessara mála. Þörfin í þessum efnum og jafnframt notagildið blasir alls staðar við þar sem mikið af þeim húsum sem af menningarlegum ástæðum er þörf á að vernda geta komið til prýðisnota í ýmsu samhengi eins og ég mun reyndar koma aðeins betur að síðar í sambandi við aðra brtt.

Það hefur sem betur fer orðið afar mikil vakning í þessum efnum og mikil breyting á viðhorfum varðandi verndun gamalla húsa í landinu. Bæði þeirra sem eru friðuð og þess utan og það er sannarlega vel. Það hefði fyrr mátt vera því við höfum auðvitað glatað hér miklum verðmætum og erum að glata þeim vegna þess að ónógt fjármagn er til ráðstöfunar í þessu skyni og til örvunar í þessum efnum. Þessari tillögu okkar, hv. þm. Svavars Gestssonar, er ætlað að bæta þar nokkuð úr.

Þá vil ég, virðulegur forseti, koma að brtt. við fjárlagafrv. á þskj. 372, sem ég flyt í þremur liðum, og rökstyðja aðeins þær tillögur sem þar koma fram. Þar er í fyrsta lagi tillaga um hækkun eða reyndar nýjan lið, vegna sýslumannsembættisins á Seyðisfirði um að leggja til stofnkostnaðar vegna endurbóta á húsnæði embættisins 7 millj. kr. Ég hef fyrr á þinginu spurst fyrir um þessi efni vegna þess að neyðarástand má segja að ríki í sambandi við húsnæðismál þessa embættis eða a.m.k. óforsvaranlegt ástand þar sem húsið, sem ríkið á og embættið starfar í, er engan veginn boðlegt vegna lélegs ástands. Og þarf þó ekki neitt óskapa fjármagn að koma til til að lagfæra það því að stofnviðir þessa gamla húss sem reist var 1907, að mig minnir, eru í góðu lagi. En á viðhaldið hefur skort um langan tíma. Í svari sem ég fékk við fyrirspurn minni um þetta efni kom fram af hálfu hæstv. dómsmrh. að áætlaður kostnaður við endurbætur hússins væri talinn mikill þar sem lítið viðhald hefur farið fram á undanförnum árum og að framkvæmdarsýslan áætli að kostnaður við einangrun og endurnýjun járns á þaki og útveggjum ásamt endurnýjun glugga og hurða geti verið allt að 11 millj. kr. Þegar spurt var um möguleika á að nýta núverandi húsnæði í þágu embættisins til frambúðar var því til svarað að góðir möguleikar væru á að nýta húsnæðið en til þess þurfi að kosta miklum fjármunum. Varðandi framkvæmdir við endurbætur eða nýbyggingu kom fram að heimild hefur verið í 6. gr. fjárlaga til að selja þetta skrifstofuhúsnæði og kaupa annað hentugra en ekki hafi enn verið tekin ákvörðun um það hvort ráðist verður í endurbætur á núverandi húsnæði eða annað húsnæði fundið og þetta eigi að kanna. Markmiðið með þeirri tillögu sem ég flyt hér um þetta mál er að það verði tekin um það ákvörðun, sem mér finnst öll rök mæla með, að embættið verði til frambúðar í þessu húsi og tvær flugur slegnar í einu höggi. Þ.e. að bjarga þeim verðmætu menningarminjum sem þetta hús verður að teljast til og þá einnig í samhengi timburhúsabyggðarinnar á Seyðisfirði, sem er afar merkileg og gerð hefur verið úttekt á og skrifað hefur verið um nýlega í tilefni af 100 ára afmæli kaupstaðarins, og tryggja jafnframt að húsið verði endurgert og helst fært sem næst upphaflegu horfi því þetta var glæsilegt hús á sínum tíma. Það er kallað Stefánsbúð því þarna var verslun rekin, verslun Stefáns Th. Jónssonar, sem þarna tók til starfa 1907 eða 1908 og var þá ein allra glæsilegasta verslun á landinu. Verslunin var þarna í rekstri fram til ársins 1930 þegar eigandinn varð gjaldþrota. Það mætti margt upp rifja í sambandi við það efni sem ég ætla ekki að fara út í hér því það er önnur saga, ef svo má segja. En þarna fór síðan fram margháttuð starfsemi. Auk verslunarreksturs var þarna um tíma rekin prentsmiðja, sérstakt prentver. Það var Lárus Jóhannesson, fyrrv. hv. alþingismaður sem átti það, gekkst fyrir um kaup á því prentverki og rak það um nokkurra ára skeið. Þarna voru gefin út merk austfirsk tímarit en einnig ýmislegt af léttara taginu. Bókmenntir eins og Basil fursti. Einhverjir eru kannski það aldnir meðal hv. þm. að muna eftir þeim merkisritum sem stytti mönnum stundir í skammdeginu hér áður fyrr. (Gripið fram í: Er þingmaðurinn að segja að hann hafi lesið Basil fursta?) Ekki vil ég nú fara langt í það, virðulegur þingmaður, að gangast við því að hafa legið í þeim bókum svona seinni árin. En ekki get ég alveg svarið það af mér á gelgjuskeiði að hafa ekki flett þessum ritum, enda voru þau þá splunkuný af nálinni og gefin út í austfirkri prentsmiðju. Það má því segja að það hafi í rauninni verið mjög eðlilegt.

En ríkissjóður keypti sem sagt þessa húseign, neðri hæðina 1951, að ég held, og efri hæðina 1990. Þarna er sýslumannsembættið nú til húsa og ég vil skora á alla hlutaðeigandi að tryggja að í endurgerð þessa húss verði ráðist. Sú upphæð sem hér er nefnd getur dugað til skynsamlegs áfanga á komandi ári og síðan er hægt að áfangaskipta þessu verki og tryggja varðveislu hússins og ágætis húsnæði yfir embættið. Það er afskaplega mikil skammsýni af opinberum embættum, þótt hugsanlega kunni að muna einhverjum krónum, að fara að steypa upp nýbyggingar yfir embætti sem þetta ef völ er á að koma því fyrir í húsi með góðum anda eins og þarna er. Ég veit að starfsfólkinu líður vel í húsinu þegar sæmilega er hlýtt úti við en hiti helst illa þar innan dyra í vetrarkuldum eins og ástandið er. Ég vona að þetta nægi, virðulegur forseti, sem rökstuðningur fyrir þessari tillögu. Ég sá mér til nokkurrar ánægju að það er litur á því hjá hv. meiri hluta fjárln. að taka undir þetta mál með 2 millj. kr. fjárveitingu samkvæmt brtt. Það er að vísu afar smátt og því vænti ég þess að það verði vilji til að fallast á þessa till. sem mundi tryggja þokkalegan áfanga í þessu máli.

Því er svo ekki að neita að auðvitað var uggur í Seyðfirðingum sem öðrum um að þetta embætti yrði flutt frá Seyðisfirði og voru um það hugmyndir, opinberar hugmyndir, fyrir einum tveimur árum síðan. En þá var sem betur fer frá þeim horfið og ég vona að þær verði ekki vaktar upp að nýju.

Virðulegur forseti, þá ætla ég að koma að 2. lið þessara brtt. sem er hækkun á fjárveitingum til Náttúruverndarráðs, liðarins Þjóðgarðar og friðlýst svæði. Það er lagt til að sá liður hækki um 5,1 millj. kr. Það er tiltölulega auðvelt að mæla fyrir þessari tillögu því hún er vel rökstudd af ráðinu sjálfu, bæði gagnvart umhvn. þingsins og gagnvart fjárln. og vafalaust ráðuneyti á sínum tíma.

Almennt vil ég segja að það er mikil þörf á því --- og ætti ekki að þurfa að rökstyðja það í mörgum orðum --- að treysta stöðu þessa unga umhvrn. okkar. Það var stofnsett 1990 og þá var það sammæli að ekki yrði tekið mjög stórt á rétt í byrjun í sambandi við þetta mál, heldur yrði ráðuneytinu komið á í lágmarksstöðu þannig að það gæti hafið störf. En jafnframt var þá þegar lögð áhersla á að það þyrfti að auka fjárveitingar til ráðuneytisins á komandi árum til að það gæti valdið sínu hlutverki að því er varðar fjárveitingar til þess að byggja það upp. Þetta hefur nú ekki gengið eftir sem skyldi á þeim árum sem liðin eru. Þótt sitthvað hafi verið þokkalega gert í þessum efnum vantar mikið á að þar hafi verið unnið markvisst að því að efla ráðuneytið og koma þar á skipulagi mála sem þörf væri á, m.a. til að þetta ráðuneyti gæti orðið sú stjórnstöð þessara mála sem það þarf að verða og unnið og tryggt góð tengsl við þær stofnanir sem undir það heyra, sumar allmannmargar sem gegna mikilvægu hlutverki. En til þess að ráðuneytið nýtist og stjórnvöld nái fram stefnu sinni þurfa ráðuneytin að búa yfir ákveðinni lágmarksþekkingu og mannafla til að geta haldið uppi virkum tengslum við stofnanir sem undir þau heyra.

Ég endurtek það hér sem ég hef oft mælt úr þessum ræðustóli að menn eiga ekki að sjá það sem meginmál að kreista ráðuneytin sí og æ þannig að þau verði sem vesælust, þ.e. að krefjast þar sparnaðar og sparnaðar af því að það þyki til vinsælda fallið að ráðuneytin spari. Ekki ætla ég að hafa á móti því að það sé tekið á í þeim efnum og alls eðlilegs aðhalds sé gætt. En ég held að menn hafi gengið allt of langt í þessum efnum oft á tíðum með þeim afleiðingum að ráðuneytin eru ekki undir það búin að sinna í lágmarki því hlutverki sem þau þurfa að geta sinnt sem er að stjórna m.a. stofnunum sem undir þau heyra, tryggja tengsl við þær og tryggja eftirlit með þeim, þar á meðal skynsamlega ráðstöfun fjármagns á þeirra vegum. Umhvrn. okkar hefur ekki enn þá vaxið upp í þá stærð eða þannig verið að því búið að það ráði við þetta verkefni. Þar hefði ég viljað sjá margt gerast í þeim efnum. Fyrir utan það sem nú er þar innan veggja hefði ég einnig viljað sjá uppbyggingu á deildum í nýju formi til þess að geta ráðið við verkefnin. Þar er ég vissulega, virðulegur forseti, að vísa til þess að umhvrn. þarf að geta vaktað auðlindir landsins, landið og auðlindir þess lífrænar sem ólífrænar. Og þá sérstaklega hinar lífrænu auðlindir. Það þarf að koma þar upp auðlindadeild og það þarf að endurskipuleggja þessi mál þannig að almenn meðferð auðlindanna, gróðurríkis landsins, sjávarlífs og vatnalífs séu undir vöktun umhvrn. sem leggi almenna stefnu um nýtingu þessara auðlinda en atvinnuvegaráðuneytin deili síðan út því sem sammæli eru um að nýta. Þannig eiga línurnar að vera að mínu mati í þeim efnum.

Þetta þýðir það að almenn gróðurvernd, og skógvernd þar á meðal, á að færast undir umhvrn. og hafrannsóknir og ákvörðun um nýtingu fiskstofna, hámarksnýtingu, á að færast undir umhvrn. En skiptingin í einstökum atriðum, útfærslan, á að vera undir atvinnumálaráðuneytum, landbrn. og sjútvrn. Ég er afar undrandi á því, virðulegur forseti, að um þetta skuli ekki hafa tekist sammæli hér á Alþingi Íslendinga. Jafnmikið og við eigum undir í þessum efnum, jafneðlilegt og auðvelt ætti það að vera að ná saman um stefnu af þessum toga.

[22:30]

Ég vænti þess að hæstv. umhvrh. hugleiði þessi efni og ég heiti honum liðveislu ef hæstv. ráðherra vill taka á í þessu máli í þessa átt. Að sumu leyti eru hæg heimatökin fyrir hæstv. ráðherra sem ég sé að gerir út ökutæki úr tveimur ráðuneytum, samrekstur, ef marka má brtt. meiri hluta fjárln. Hæstv. ráðherra ætti því að geta tekið í stýrið landbúnaðarmegin í þessu efni og fært eitthvað yfir til umhvrn. með skynsamlegum hætti án þess að nokkuð sé gengið á hagsmuni þess sem er í raun landbúnaður. Þar fyrir utan þarf að ætla ákveðinn raunvöxt í þessu ráðuneyti þangað til það hefur náð þeirri stærð að vera líklegt til að valda einum þýðingarmestu verkefnum á Íslandi ef ekki þeim allra þýðingarmestu, sem er umhverfi landsins og gæsla auðlinda þess. Sú tillaga sem varð tilefni þessara orða af minni hálfu stendur nú ekki undir mjög miklu í þessum efnum því þar er aðeins verið að leggja til litlar 5 millj. kr. til að ráðast í verkefni sem ekki ætti að vera mikill ágreiningur um að nauðsynlegt sé að hefja eða ljúka við á komandi ári. Þetta varðar sem sagt þjóðgarða og friðlýst svæði og skyld verkefni, verndaráætlun fyrir Jökulsárgljúfur, Skaftafellsþjóðgarð, skipulag á Lónsöræfum, rannsóknir á hverasvæðinu við Geysi sem er auðvitað ein af þeim þjóðargersemum sem menn mega ekki vanrækja. Það er spurningin um að gera nauðsynlegar rannsóknir til að standa að verndun með skynsamlegum hætti. Aðgerða er þörf á Hveravöllum, en þar hefur m.a. staðið uppi skipulagsdeila. Það er alveg nauðsynlegt að gera rannsóknir á því svæði sem er því miður í hraklegu ástandi. Þetta er einn af þessum fjölsóttu ferðamannastöðum margauglýstu, sem fjölmargir, þúsundir, tugþúsundir, heimsækja á hverju ári. En hann er af ýmsum ástæðum, sögulegum sumpart, ekki í því horfi sem getur talist til neins sóma. Þar lentu menn í þeim ógöngum eins og víðar að reisa sæluhús sem kallað er eða ferðamannaskála alveg ofan í aðalnáttúruperlunni, ofan í hverasvæðinu. Þeir hafa síðan prjónað utan á það þannig að það sem verið er að sýna og verið er að vernda nýtur sín ekki vegna bygginga, misjafnlega þekkilegra. Ágangur á viðkvæmt svæði, hverahrúður og annað, verður miklu meiri vegna þess að þarna er dvöl alveg ofan í hverasvæðinu.

Þarna er m.a. skipulag á fleiri svæðum eins og á Búðum á Snæfellsnesi, þannig að víða er við komið, Vatnsfirði og friðlandinu þar og svo merkingar á friðlýstum svæðum. Þetta eru litlar 5 millj. kr., 5,1 samkvæmt áætlun Náttúruverndarráðs. Það væri vel gert núna á jólaföstunni að skoða þessi efni og ég er tilbúinn til að veita umhugsunarfrest til atkvæða um málið til 3. umr., ef það gæti orðið til að greiða fyrir athugun þess.

Ég ætla svo ekki, virðulegur forseti, að eyða fleiri orðum í þessa tillögu en kem þá að þeirri síðustu. Hún fjallar um 5 millj. kr. fjárframlag til Hollustuverndar ríkisins, að þar verði settur upp nýr liður: Verkefni vegna EES-samnings, reglugerðir og eftirlit. Hefði nú einhvern tímann þótt tíðindum sæta að sá sem hér mælir fyrir sé farinn að benda á samninginn um Evrópskt efnahagssvæði. En ég kemst ekki hjá því að gera það í þessu samhengi vegna þess að fjárhagsvandi stofnunarinnar, þessarar þýðingarmiklu stofnunar, er bundinn í þessum samningi sem meiri hluti Alþingis hefur samþykkt og Ísland er aðili að þjóðréttarlega. Í dag var lögð inn fyrsta kæran í gegnum kerfi þessa samnings til að sækja Íslendinga til saka fyrir brot á honum. Menn verða að átta sig á að það er margt sem fylgir slíkum skuldbindingum. Annaðhvort er að hrista þennan samning af sér eða sýna lit á því að standa við hann, a.m.k. í því lágmarki sem forsvaranlegt er.

Virðulegur forseti. Ef farið er yfir tillögur Hollustuverndar ríkisins til fjárlaga 1996 og þær bornar saman við afgreiðslu þessa máls eins og það er lagt upp hérna, er það satt að segja með miklum fádæmum. Ég get ekki orðað það öðruvísi. Ég tel það vera með miklum fádæmum. Ríkisstjórnin hæstv. reynir að koma sér undan þessu máli með því að setja það bara í athugun. Fyrst átti að leiða hana til lykta fyrir lok nóvembermánaðar. Á meðan nefndir þingsins voru að fjalla um fjárlagafrv. og þá m.a. umhvn. var málið eiginlega sett til hliðar vegna þess að það væri til sérstakrar skoðunar og niðurstaða fengist fyrir lok nóvembermánaðar. En ekki gekk það eftir, ekki gekk rófan sú. Nú heyrum við, þegar hv. formaður fjárln. mælir fyrir málinu, að nefndin sem átti að skoða þetta hafi ekki lokið starfi að öðru leyti en því að hún leggur til sérstaka stjórnsýsluúttekt á Hollustuvernd ríkisins og frekari skoðun mála eitthvað inn í framtíðina. Og til að kosta þessa vinnu, það er úrlausnin í bili, eru lagðar til 1,5 millj. kr., en ekki neitt til að lina þá kreppu sem þessi mikilvæga stofnun er í.

Til glöggvunar á því sem verið er að fara fram á af hálfu stofnunarinnar tel ég rétt að ég leyfi mér, með leyfi forseta, að lesa aðeins hér í málið eins og Hollustuvernd setti óskir sínar fram til fjárlagagerðar. Ég tek það fram, virðulegur forseti, að stofnunin hélt sig innan fjárlagaramma til skamms tíma. Ég held að það hafi verið fyrst á árinu 1994 sem hún keyrði að einhverju ráði fram úr. Það er einmitt þá, í ársbyrjun 1994, sem lagðar eru á stofnunina stórfelldar skuldbindingar sem kalla að sjálfsögðu á mannafla og fjármagn með samþykkt EES-samningsins.

Í erindi frá stofnuninni vegna fjárlaga í maímánuðu sl. segir: ,,Gerð er tillaga um 11,5 ný störf þannig að störfum Hollustuverndar ríkisins fjölgi úr samtals 36 í 47,5 og að mengunardeild Siglingamálastofnunar meðtalinni eru stöðugildin 51,5. Ljóst er að tillögurnar eru engu að síður vanreiknaðar með tilliti til þessa þáttar því ekki er tekinn með í reikninginn kostnaður vegna húsnæðis og annarrar aðstöðu og ýmis rekstrargjöld sem hljóta að fylgja nýjum starfsmönnum. Þótt tillögurnar feli í sér umtalsverða hækkun ríkisframlags eins og tillögurnar frá síðasta ári, leggur yfirstjórn stofnunarinnar áherslu á að ekki er raunhæft að líta einungis á hlutfallslega hækkun. Líta verður á ný verkefni sem liggja fyrir og hvernig standa megi undir aðkallandi skyldum.``

Síðan segir í liðnum Skýringar á helstu liðum á fjárlagatillögum nánar um þetta efni, um hækkanir. Ég ætla ekki lesa það upp en mig langar að koma hér að hlutverki stofnunarinnar varðandi framkvæmd samnings um Evrópskt efnahagssvæði. Ef forseti leyfir að ég vitni þar í 5. lið í erindi Hollustuverndar: Undirbúningur og útgáfa tilskipana og gerða.

,,Öll fagsvið stofnunarinnar nema rannsóknastofan eru meira eða minna yfirkeyrð af EES-vinnu. Á matvælasviði eru um 100 tilskipanir, á mengunarvarnasviði um 40 og 40--50 á eiturefnasviði.`` Ég vænti þess að menn átti sig á hvað tilskipanir eru í þessu samhengi. Þetta eru tilskipanir Evrópusambandsins sem okkur er gert að yfirtaka með öllum skuldbindingum.

,,Vinna við gerð ESB-tilskipana og annarra stjórnvaldsfyrirmæla, samþykkt þeirra sem hluta af EES-samningnum og framkvæmd þeirra hér á landi, þ.e. setning reglugerða og yfirumsjón og samræming eftirlits er meira en fullt starf fyrir alla starfsmenn þessara fagsviða. Þá má nefna að stöðugt er unnið að nýjum gerðum hjá Evrópusambandinu.``

Og undir fyrirsögninni: EES, ESB-tilskipanir í framkvæmd: ,,Miklar kvaðir fylgja varðandi framkvæmd margra tilskipana svo sem varðandi innra eftirlit í matvælaiðnaði, umhverfisvöktun og úrbætur í frárennslis- og sorpmálum og eftirlits- og skráningarkerfi fyrir eiturefni. Mjög þrengir nú að stofnuninni varðandi framkvæmdaþáttinn samanber nýleg samskipti við ESA.`` Þetta er enska skammstöfunin, EFTA Surveillance Authority. Við köllum þetta Eftirlitsstofnun EFTA.

Næsti liður: ,,Auk undirbúnings og framkvæmdar krefst Evrópusamstarfið stöðugra samskipta og verulegra fundarferða. Álag vegna fjarvista þrengir enn að varðandi eftirfylgni og úrvinnslu heima fyrir. Ekki verður séð að Hollustuvernd ríkisins geti með óbreyttum fjárveitingum og mannafla staðið undir þeim skyldum sem EES-samningurinn felur í sér, nema lögum yrði breytt þannig að innlendum skyldum yrði að mestu aflétt og stofnunin gerð að Evrópustofnun. Þetta verður að telja óraunhæft og því ber að stefna að bættri rekstrarstöðu stofnunarinnar.``

Hér eru síðan saman dregnar tillögurnar um aukningu. Ég viðurkenni að þetta eru geysilega miklar óskir í fjárveitingum talið eins og það er lagt fyrir. Ég er ekki að leggja til nema örlítið brot af því sem þarna er verið að biðja um og telja menn þó að það sem óskað er eftir sé vanílagt og það verulega. En miðað við að gjöldin samtals á fjárlögum 1995 voru tæplega 106 millj. þá er núna að meðtalinni Siglingamálastofnun, þ.e. mengunarvarnadeildinni, beðið um tæpar 180 millj. Í fjárlagatillögunum var beiðnin um tæpar 160 millj. kr. Síðan gerðist það sl. vor að mengunarvarnasvið Siglingamálastofnunar var flutt yfir og að því meðtöldu er þarna um 180 millj. tæplega að ræða. Síðan dragast frá sértekjur sem stofnunin áætlar þó að fari lækkandi af sérstökum ástæðum sem koma fram og eru rökstuddar í erindi stofnunarinnar.

Einstök svið þessarar stofnunar gera grein fyrir sinni áætluðu fjárþörf. Ég tek fram, virðulegur forseti, að ég er ekki að segja að sjálfsagt mál sé að renna öllum þeim óskum í gegnum þingið. Auðvitað þarf að leggja raunsætt mat á þarfirnar þarna eins og annars staðar og meta hvað telst svartalágmark í þessum efnum ef menn eru að beita hér ýtrasta aðhaldi. En ég fullyrði að menn ganga hér miklu lengra en að beita ýtrasta aðhaldi eða miða við svartalágmark, eins og stundum er sagt. Því til staðfestingar leyfi ég mér, virðulegur forseti, að grípa niður í erindi mengunarvarnadeildar ráðuneytisins. Ég gæti allt eins og ekki síður farið í eiturefnasviðið, menn tækju kannski betur eftir þegar hættuleg efni og eiturefni eiga í hlut. En ég kýs þó að grípa frekar niður í erindi mengunarvarnadeildarinnar vegna þess að það snertir mál sem á að ræða innan skamms í þinginu í sambandi við mengunarvarnir tiltekins iðjuvers sem á að fara að stækka. Hvað segir nú í erindi mengunarvarnadeildar? Ég kem inn í miðjum klíðum, með leyfi forseta. Fyrst er það bjartsýni og lyfting og svo syrtir aðeins á álinn:

[22:45]

,,Mikil umskipti urðu eftir að umhvrn. tók til starfa árið 1990 og nú síðast eftir samþykkt EES-samningsins í upphafi árs 1994. Hollustuvernd ríkisins er mengunarvarnastofnunin hér á landi. Fjárveitingar til mengunarvarnasviðs hennar sýna aftur á móti að þar hafa engin umskipti orðið og engin umtalsverð uppbygging á undanförnum árum. Nú er svo komið að mati undirritaðs ...`` og undirritaður er forstöðumaður þessa sviðs, Ólafur Pétursson, ,,... að stofnunin er lengra frá því en nokkru sinni fyrr að geta sinnt málaflokknum með viðunandi hætti. Fjárveitingar og fjölgun starfsmanna hafa ekki verið í takt við aukin verkefni. Allur samanburður við mengunarvarnastofnanir í nágrannalöndunum er okkur mjög í óhag að sjálfsögðu þegar tekið hefur verið tillit til mismunandi fólksfjölda. Eðlilegt væri þó vegna eðlis starfseminnar að samanburðurinn væri á hinn veginn. Fjölbreytileiki verkefna sem vinna þarf er ekki verulega frábrugðinn því sem gerist meðal annarra þjóða og fjöldi ESB-tilskipana og reglugerða sem koma þarf í framkvæmd er sá sami.

Í grg. með fjárlagatillögum fyrir árið 1995 var minnt á fylgiskjal sem fylgdi frv. til laga um breytingu á lögum nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, á 116. löggjafarþingi. Enn skal á það minnt. Í fylgiskjalinu sem unnið er af fjárlagaskrifstofu fjmrn. kemur fram að samþykkt EES-samningsins hafi það í för með sér að fjölga þurfi starfsmönnum mengunarvarnasviðsins.

EES-samningurinn hefur nú verið samþykktur. Fyrsti viðbótarpakki hans einnig og auk þess nýlega nokkrar tilskipanir til viðbótar á mengunarvarnasviðinu. Starfsmönnum mengunarvarnasviðs hefur hins vegar lítið fjölgað og fjárveitingar sitja í sama farinu. Afleiðingarnar láta ekki á sér standa. Framkvæmd ýmissa tilskipana situr á hakanum. Þegar á næsta ári ber okkur að veita upplýsingar um framkvæmd fimmtán ESB-tilskipana á mengunarvarnasviðinu. Þessar upplýsingar eru að stórum hluta ekki til og verða fyrirsjáanlega ekki á tilsettum tíma. Það er nú svo komið að mati undirritaðs að áframhaldandi sjálfvirkni þar sem fjárveitingar taka mið að fjárveitingum fyrri ára dugar ekki. Það er kominn tími til að skoða rækilega þörf á fjárveitingum til sviðsins og gera áætlun um uppbyggingu þannig að hægt sé að segja með sæmilega skammlausum hætti, að verið sé að vinna að málinu``.

Þetta segir hógvær forstöðumaður þessa sviðs. Ég segi hógvær eins og ég þekki þennan ágæta starfsmann. Mér finnst þörf á því hér á Alþingi að það sé tekið eftir þessu og yfir þetta farið. Í upphafi skal endinn skoða og það ættum við að hafa í huga nú fyrsta daginn þegar málssókn frá Eftirlitsstofnun EFTA, hin fyrsta er að skella á okkur. Hér er verið að safna í sarpinn fjölda mála svo skiptir ekki bara 100 heldur nær 200 tilskipunum Evrópusambandsins sem þessari einu stofnun er ætlað að sinna og undirbúa að færa í íslensk lög það sem þarf að lögfesta og síðan framkvæmdin og eftirlitið. Og ekkert gerist og ekki er neinu sinnt. Ekki er króna til þess arna. Það er síst meira, ég held að það fari minna fé í reynd til stofnunarinnar á þessu ári þegar tekið er tillit til þess að sértekjumöguleikar hennar eru metnir minni heldur en áður.

Er það nokkur hæfa, hæstv. forseti, að svona sé staðið að málum? Hugsa ég þá til hæstv. umhvrh. sem hlýðir á umræðuna og hlýtur að gera sér grein fyrir í hvern ógnarvanda verið er að stefna varðandi þessa mengunarvarnastofnun Íslands. Mér finnst þetta líka svo raunalegt gagnvart því fólki sem þarna er að reyna að gera sitt besta vafalaust. Það vinnur undir miklu álagi, sér ekki fram úr verkefnum, getur aldrei gert vel og getur aldrei náð í endann á því sem liggur fyrir. Og málið á að afgreiða frá þinginu samkvæmt tillögum meiri hlutans bara með því að segja: Ja, við ætlum nú að skoða þetta hérna eitthvað fram í tímann. Þið fáið ekki krónu. Ekki krónu til að lina þjáningarnar. Ég held að það sé alveg rétt að gera úttekt á stofnuninni. Ég held að það hafi þurft að gera miklu fyrr, ekki síðar heldur en að samþykktur var þessi samningur um Evrópska efnahagssvæðið. Þá hefði auðvitað þurft að gera úttekt á stofnuninni en það má ekki vera afsökun fyrir því að gera ekki neitt til úrbóta. Lágmarkið hefði verið að láta stofnunina hafa það sem blasir við að verður að gera til þess að þeir sem þarna vinna verði eitthvað skár í stakk búnir til að sinna þessum verkefnum.

Eins og ég sagði, virðulegur forseti, ég aðeins greip hér niður í röksemdafærsluna á einu sviði. Staðan varðandi eiturefni og hættuleg efni eða eiturefnaeftirlit Hollustuverndar er síst betri. Þar er kannski váin raunverulega svona nær. Hún er bráðari heldur en hitt. Hitt er vissulega til staðar alls staðar. Ég vil aðeins nefna í þessu sambandi, ég kem kannski að því aðeins í öðru samhengi, að norsk yfirvöld hafa verið að sýna fram á og reikna það út hvað loftgæði þýða. Hvað heilnæmt umhverfi þýðir í sparnaði. Systurstofnun Hollustuverndar í Noregi, Statens forurenings tilsyn hefur verið að draga saman efni um þetta varðandi Óslóarsvæðið alveg sérstaklega, þeirra höfuðborgarsvæði. Hvað það þýðir í sparnaði að varðveita og endurheimta gæði, loftgæði í þessu samhengi alveg sérstaklega. Ég er ekki með það efni sem ég hefði gjarnan viljað vitna til um þetta en geri það kannski seinna til hvatningar vegna þess ég held að við þurfum að skoða málið út frá þessu. Forvarnir þarf víðar heldur en varðandi heilsu mannsins með beinum hætti á heilbrigðissviði. Hér er um svið, nátengt sama eðlis að ræða sem varðar einnig heill og heilsu mannfólksins fyrir utan aðrar lífverur.

Virðulegur forseti. Þetta er var kannski nokkuð í lagt fyrir þessa litlu tillögu sem var nú af minni hálfu hugsuð þannig að hún væri táknræn ef Alþingi féllist á að samþykkja hana. Táknræn um að það væri einhver skilningur hér á Alþingi fyrir því að þarna verði að gera eitthvað. Ég er reiðubúinn til að standa að hækkun á þessari tillögu ef það er lagt til svo ekki stendur á því. Eins og ég segi þá er þetta nánast eins og dropi í hafið miðað við þörfina. Ég vil biðja hv. þingheim í heild sinni og hæstv. ríkisstjórn um að hugleiða þetta mál meðan ráðrúm er til þannig að við vekjum því fólki sem er að vinna þarna vandasöm verk fyrir Ísland á þessu sviði, von um að eitthvað sé verið að hugsa um þessi mál af þingsins hálfu í samhengi við þá bagga sem verið er að binda þessari stofnun af Alþingi Íslendinga.

Ég læt þetta nægja, virðulegur forseti, og máli mínu er lokið.