Fjárlög 1996

Fimmtudaginn 14. desember 1995, kl. 22:55:10 (1947)

1995-12-14 22:55:10# 120. lþ. 65.5 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur


[22:55]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst segja það að ég deili skoðunum mínum með hv. 4. þm. Austurl. Hjörleifi Guttormssyni varðandi stöðu og verkefnahlutverk ráðuneyta. Ég held að þau eigi og þurfa að vera þannig í stakk búin að þau geti virkað sem stjórnsýslulegar eftirlitsstofnanir og séu þannig búin að mannafla og fjármunum að þau geti sinnt því hlutverki sínu. En ég vil hins vegar minna á það líka að þó umhvrn. sé ungt ráðuneyti að árum held ég að það verði nú að segjast samt að því hafi verið býsna vel sinnt og það sé skilvirkt ráðuneyti. Ég efast ekki um hitt að auðvitað mætti gera betur og þyrfti að gera betur á ákveðnum sviðum.

Aðeins varðandi náttúruverndarmálin. Auðvitað er það svo að Náttúruverndarráð eins og margar aðrar stofnanir gætu nýtt meiri fjármuni ef tök væru á að sinna þeim verkefnum öllum. En ég minni á að undir fjárlagalið 14-190 Ýmis verkefni, eru þó fjárveitingar t.d. bæði til verndar Breiðafirði og til undirbúnings að stofnun þjóðgarðs á Snæfellsnesi þannig að það er þó reynt að verða ofurlítið við nýjum, brýnum verkefnum sem ég tel nauðsynlegt að sinna.

Hann hleypur nú hratt tíminn, virðulegi forseti, í andsvari. En síðan er það auðvitað með Hollustuvernd ríkisins að ég hef margoft áður, allt frá þeim tíma er ég var í stóli heilbrrh. því þá heyrði þessi stofnun undir heilbrrn., haft nokkrar áhyggjur af því að þeirri stofnun væri ekki sinnt sem skyldi. Það má kannski segja að hún njóti ekki þess skilnings sem hún í raun þarf hjá löggjafanum og fjárveitingavaldinu. Ég hef líka rætt það hér oft að undanförnu að EES-verkefni stofnunarinnar séu svo mörg og margvísleg það þurfi að taka tillit til þess. Og vafalaust er það rétt hjá hv. þm. að það hefði þurft að taka á málinu strax og þessi ágæti samningur var samþykktur á hv. Alþingi. Hollustuverndin var ein fyrsta stofnunin sem ég heimsótti eftir að ég kom í umhvrn. en strax og ég kom í það ráðuneyti var mér ljóst að þar væri við vanda að glíma. Ég ræddi það við fjárlagagerðina. Niðurstaðan varð sú sem kemur fram í grg. frv. að leggja til að það yrði reynt að líta sérstaklega á fjárhagsmál hennar fyrir fjárlagagerðina. Niðurstaða nefndarinnar sem sett var í málið var hins vegar sú að fallast á að það yrði gefinn meiri tími til þess og stofnunin sett í stjórnsýslulega endurskoðun og ég hef fallist á að það starf verði hafið nú þegar. Það er búið að semja við eftirlitsaðilann eða úttektaraðilann og það er ætlað að hann ljúki störfum sínum í marsmánuði á næsta ári þannig að það er reynt að vinna hratt að þessu verkefni. Ég biðst afsökunar að hafa syndgað svona á tíma, virðulegi forseti.