1995-12-15 00:02:59# 120. lþ. 65.5 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur


[24:02]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er nú unaðslegt að fá að taka til máls um lágnættið og ræða fjárlögin. Gott að nóttin er enn ung á þessum degi sem eiginlega er rétt byrjaður þó að nú sé klukkan orðin 12 á hádegi á Kamtsjatka, þ.e. hádegi á föstudag. En dagurinn í gær er enn ungur á vesturströnd Ameríku. Hér er nóttin ung og við ræðum fjárlögin og afrek hæstv. ríkisstjórnar í þeim efnum og það sem hún leggur til og meiri hluti hennar á þinginu.

Mitt aðalerindi er, herra forseti, að mæla fyrir breytingartillögum sem ég flyt á tveimur þingskjölum. Annars vegar einn á þskj. 357 og hins vegar ásamt með öllum öðrum hv. þm. í þingflokki Alþb. og óháðra á þskj. 364.

En það er kannski við hæfi fyrst að fara aðeins nokkrum almennum orðum um aðstæðurnar hér, herra forseti, þegar við ræðum þessi mál og hæstv. fjmrh. spýtist úr salnum enda ókyrr og kvikur undir þessum umræðum jafnan. Einnig er rétt, herra forseti, ... --- Ef hv. þm. vildi láta af því að trufla hæstv. forseta sem ekki má við því að vera að hlusta á margt í einu. Ef hæstv. forseti vildi nú vera svo vænn að láta stórvin minn, hæstv. samgrh., vita því ég hafði gert honum viðvart um að ég vildi gjarnan nærveru hans í þingsalnum. Þegar kemur lítillega aftar í ræðu mína hyggst ég ræða við hann samgöngumál.

(Forseti (ÓE): Forseti getur upplýst að hæstv. samgrh. er í húsinu og mun gera honum viðvart.)

Þá er vel fyrir því séð, herra forseti. Fer þá að glaðna bragurinn á þessu þegar hinn mikli þinggarpur, hæstv. samgrh. kemur sem var á köflum allra manna hressastur í umræðum af þessu tagi hér fyrr á öldinni eins og ónefndur maður í þingsalnum segir stundum.

Það verður ekki sagt, herra forseti, að svipurinn á umræðunni sé mjög góður. Það er þokkalegur svipur á einum og einum manni hér inni og sumum hv. stjórnarþingmönnum sem bera sig vel en svipurinn á málinu sem slíku og það hvernig það er fram borið af hálfu hæstv. ríkisstjórnar, er ekki góður. Það er nú t.d. þannig að það vakti nokkra athygli hjá þjóðinni þegar þær fréttir bárust út um hádegisbilið að ríkisstjórnin hefði orðið að fresta umfjöllun um 40% af fjárlögunum. Hún ætti í ágreiningi um rúmlega 40% af fjárlögunum. Það vill svo til að ég ferðaðist nokkuð innan lands í dag. Ég brá mér norður í mitt kjördæmi til Akureyrar og var nokkuð spurður út í þetta mál. Hvernig þetta stæði eiginlega hjá ríkisstjórninni. Hvort það væri bara svo að þeir ættu í vandræðum með heil 40% af fjárlögunum. Til hvers eiginlega þessi 2. umr. væri þá. Það var einnig þungt í mönnum hljóðið yfir ýmsum fréttum sem hafa verið að berast frá hæstv. ríkisstjórn eða úr stjórnarherbúðunum undanfarna daga. Ég held satt best að segja að menn hafi bundið vissar vonir við að það yrðu gerðar ákveðnar lagfæringar á fjárlagafrv., jafnvel talsverðar lagfæringar. Ég leyfi mér að fullyrða að úti í þjóðfélaginu hafi verið væntingar um það, til að mynda að ríkisstjórnin mundi skammast til að bakka með sumar þær álögur og þær árásir sem hún er að gera á velferðarkerfið. Ég varð einnig áþreifanlega var við að það voru væntingar um að til að mynda yrði eitthvað bakkað með hinn harkalega niðurskurð í ýmsum framkvæmdum. Ekki síst fannst mér það á fólki sem ég hitti utan af landsbyggðinni. Þess vegna fannst mönnum þær fréttir ekki góðar og satt best að segja eiginlega óskiljanlegt að það væri nú eitthvað annað. Þvert á móti ætti að auka þar í. Ganga þar enn lengra. Höggva enn dýpra í sama farið. (Gripið fram í: Knérörið.) Sama knérörið, eins og einu sinni var sagt. Þegar þetta bætist við í þessari mynd, nánast upplausn og lausatökur í allar áttir hjá hæstv. ríkisstjórn sem er hér í uppnámi með afgreiðslu fjárlagafrv. þegar menn er farnir að undirbúa skötuna, þá er það ekki mjög trúverðugt. Þetta er nánast á hveitibrauðsdögunum. Þetta er á fyrsta ári hæstv. ríkisstjórnar. Þá er ástandið ekki betra en þetta.

Á þessu er ekki góður svipur, herra forseti. Það er langt frá því. Það held ég að allir hljóti að viðurkenna og auðvitað reyna hv. stjórnarliðar ekki að bera á móti því að þetta er ekki jafnglæst og þeir hefðu viljað og langt frá því. Það munar um minna en bullandi ágreining um 40% af fjárlögunum. Þegar menn koma sér engan veginn saman um að leysa vandamál af því tagi sem við er að glíma hjá stærstu heilbrigðisstofnunum þjóðarinnar þar sem ástandið er geigvænlegt svo ekki sé meira sagt, þá eru það engin smámál sem þar eru á ferðinni. Þrátt fyrir alla umræðuna sem orðið hefur í þjóðfélaginu um hvernig búið er að þjarma að þessari þjónustu, er ástandið svona við afgreiðslu fjárlaganna. Það er ekki eins og þessi vandamál ættu að koma neinum á óvart. Hæstv. heilbrrh. og hæstv. fjmrh. ættu að hafa haft einhvern tíma til að átta sig á þessum vandamálum. Þeir tóku við embætti í aprílmánuði sl.

Herra forseti. Það er búið að fara svo rækilega yfir hin stórbrotnu kosningaloforð Framsfl., ítrekað bæði í þessum umræðum og áður og þá hroðalegu magalendingu sem maddama Framsókn er að fá í heildina tekið, að það er eiginlega óþarfi að bæta þar miklu við. (Samgrh.: Það er ágætt að rifja það upp samt.) Auðvitað er alltaf gott að rifja upp hlutina og ég þakka hæstv. samgrh. fyrir hvatninguna en hann hefur greinilega náð sér í góða bók þarna og líður vel í sæti sínu. Það er notalegt að vita til þess að það skuli standa svona vel í bólið hjá hæstv. samgrh. þrátt fyrir alla útreiðina sem hann er að fá.

Ég ætla aðeins að nefna tvennt af því það tengist viðamestu málaflokkunum þar sem Framsókn var að gera sig breiða fyrir fólkið í landinu. Fólk í fyrirrúmi, sagði Framsókn og sótti sér líkingamál í sjávarútveginn eins og fleiri gera nú gjarnan þó ég sé ekki viss um að allir framsóknarmenn hafi skilið þetta slagorð, hvað það þýði að vera í fyrirrúmi og jafnvel ekki einu sinni áttað sig á því hvað fyrirrúm er. Það er ekki rúm eins og tómu rúmin á sjúkrahúsunum eru. Nei, ég ætla aðeins að staldra við útkomuna sem tveir málaflokkar fá hér í fjárlagafrv. og efnahagsfrv. ríkisstjórnarinnar. Það eru annars vegar atvinnumálin og hins vegar húsnæðismálin. Hvernig er þetta með atvinnumálin? Hvað er að gerast í þeim efnum í tengslum við fjárlagafrv. og miðað við ástandið eins og það er í úti í þjóðfélaginu? Það sem er að gerast er að atvinnuleysið er svipað eða meira en það hefur mest verið á undanförnum árum og höfum við þó núna tvö, þrjú ár í senn upplifað eitthvert versta atvinnuleysisástand sem hér hefur verið og í raun það versta síðan í kreppunni miklu. Það hefur aldrei áður verið jafnmikið og varanlegt atvinnuleysi á Íslandi síðan í kreppunni miklu. Framsóknarmenn flagga að vísu einhverjum tölum um að það hafi orðið aukning á atvinnumagni og það kann vel að vera að slíkt sé í einhverjum mæli á ferðinni enda kemur það þá fyrst og fremst upp á móti þeim mikla samdrætti sem orðið hefur til að mynda á vinnutíma í landinu á undanförnum árum. Því að til viðbótar atvinnuleysi upp á 5%, þannig að 6--7 þús. Íslendingar á ári að meðaltali ganga án atvinnu núna ár eftir ár, dróst vinnutími hinna sem vinnu höfðu saman um á milli eina og tvær vinnustundir á sl. einu til tveimur árum. Þó þar gangi eitthvað til baka og menn fái aftur eitthvað af þeirri yfirvinnu eða vinnu sem þeir höfðu áður misst er það ekki eitthvað til að hrósa sér af í sambandi við loforð um 12.000 ný störf. Það er ekki svo, hv. þm. Jón Kristjánsson, formaður fjárln.

En það sem er hins vegar að gerast í fjárlagafrv. í tillögum meiri hlutans er að það er verið að draga saman þá þætti í útgjöldum eða umsvifum ríkisins sem einna mest áhrif hafa á atvinnustigið í landinu um 3--4 milljarða ef ekki meira, með viðbótarniðurskurði sem nú er lagður til í samgöngumálum. Ég leyfi mér að spyrja. Hvað hefur breyst síðan í hittiðfyrra og árið þar áður? Þá sáu menn sig knúna til að leggja marga milljarða kr., 2--3 milljarða kr. í átak í atvinnumálum til að sporna gegn atvinnuleysi sem þá var þó minna en það er núna. Ég minni á að þegar fyrsta stóra átakið í atvinnumálum fór af stað var atvinnuleysið væntanlega að mælast á milli 3 og 4% þegar það fór vaxandi á árunum 1992--93. Þá töldu menn það ástand svo óbærilegt að það voru lagðir til milljarðar í sérstakt átak. Var þó hallinn á ríkissjóði meiri en hann er núna og efnahagsástandið verra. Hvað hefur breyst? Er atvinnuleysið orðið þolanlegra nú en það var þá? Það eina sem hefur breyst í fljótu bragði séð, herra forseti, er að Framsókn er komin í ríkisstjórn í staðinn fyrir Alþfl. (Samgrh.: Þetta er allt í rétta átt.) Allt í rétta átt með því? (Samgrh.: Já já.) Það bregður svo við að þegar Framsókn er komin í ríkisstjórn hafandi lofað 12.000 nýjum störfum þá eru skorin niður framlög til sérstakra átaksverkefna í atvinnumálum (Gripið fram í.) að óbreyttu atvinnuleysi. Þetta er nú staðreynd málsins. (Samgrh.: Þeir stíga nú fastar til jarðar framsóknarmenn en kratar.) Er það svo já. Það kemur nú að því síðar, hæstv. samgrh., hver hefur beygt hvern. Það eru kannski þá framsóknarmenn sem stíga svona fast til jarðar og hafa skellt hæstv. samgrh. til að skera niður í vegamálum. Það verður fróðlegt að heyra frá kærleiksheimilinu ef það er nú tilfellið að það sé sérstaklega að kröfum Framsfl. sem vegamálin eru skorin niður.

En hitt er víst að þetta eru staðreyndir málsins í sambandi við atvinnuleysið. Og svo koma framsóknarmenn hér og reyna að gera sig breiða með því að þeir séu að einhverju leyti að efna sín kosningaloforð þegar gjörsamlega hið gagnstæða liggur fyrir í staðreyndum málsins. Og það sem verra er, þetta viðhorf stjórnvalda virðist leiða til þess að aðrir aðilar í þjóðfélaginu og þá fyrst og fremst sveitarfélögin kippa einnig að sér hendinni. Það er alveg ljóst að það verður mun minna um sértækar aðgerðir til að reyna að berjast gegn atvinnuleysinu á komandi ári heldur en verið hefur að undanförnu. Mun minni framkvæmdir. Sérstöku framkvæmdaátökin eru skorin beint niður og sveitarfélögin fara þá að fordæmi ríkisvaldsins og draga einnig úr sínum aðgerðum á þessu sviði. Það virðist blasa við og eru fréttir um það úr umræðum um fjárhagsáætlanir stærstu sveitarfélaganna einmitt núna þessa dagana.

[24:15]

Hinn málaflokkurinn er húsnæðismál. Það var nú ekki lítið sem hún Framsókn ætlaði að gera í þeim efnum. Endurreisa fjárhag heimilanna og koma húsnæðismálunum algjörlega á koppinn. Hvað er það merkilegast sem við ber þá í þeim efnum, herra forseti? Það er niðurskurður á Byggingarsjóði verkamanna. Hér er verið að stórskerða möguleika félagslega húsnæðiskerfisins til að leysa úr vanda þess fólks sem á erfiðast með að kljúfa sín húsnæðismál með þeim rökum að kerfið sé gallað og það standi hér og þar tómar íbúðir. Það er ekki vegna þess að ekki sé þörf fyrir húsnæðið. Þær eru yfirleitt ekki tómar vegna þess nema þá á einstöku stöðum þar sem afbrigðilegar, sérstakar eða tímabundnar aðstæður ríkja. Þær kunna að standa að einhverju leyti tómar vegna þess að félagslega kerfið er, í takt við lífskjörin eins og þau hafa þróast á síðustu árum, ekki lengur nógu hagstætt til að leysa í raun úr vanda tekjulægsta fólksins. En eru það rök fyrir því að rústa félagslegu húsnæðiskerfi? Eru það rök fyrir því að lífskjörin hafa versnað þannig í landinu að jafnvel greiðslubyrðin í félagslega húsnæðiskerfinu er orðin þúsundum fjölskyldna um megn? Er þá aðferðin sú að rústa því kerfi? Halda menn að það fólk verði betur sett með þeim hætti? Nei. Aðferðin væri þá sú að láta ganga til baka hækkun á vöxtum og íþyngjandi aðgerðir sem voru lagðar á í því kerfi á síðasta kjörtímabili. En Framsókn leggur það ekki til. Hún dregur einfaldlega úr fjárveitingum í félagslega húsnæðiskerfinu. Það er fyrsta stóra merkið sem við höfum um efndir eða öllu heldur svik framsóknarmanna á þessu mikla loforði sem gefið var í sambandi við húsnæðismál og greiðsluerfiðleika fólks. Ég vona að við þurfum ekki oft að horfa upp á aðrar jafnaumlegar uppákomur eins og þær sem voru hér þegar hæstv. félmrh. kom og var að tala um að með því að lengja í húsbréfakerfinu hennar Jóhönnu væri hann að byrja á að efna loforð framsóknarmanna í húsnæðismálum. Það voru málsrök hans og málsbætur hér í umræðum fyrir nokkrum dögum síðan.

Nei, herra forseti. Þetta tvennt nægir held ég af minni hálfu til að taka fyrir mitt leyti þátt í þessari umræðu og undirstrika að auðvitað er útreið framsóknarmanna í þessum efnum alveg hörmuleg, ótrúleg. Það er ótrúlegt að horfa upp á þessa glæstu siglingu enda jafnhroðalega á innan við einu ári og raun ber vitni. Hæstv. utanrrh., sem er hér fjarri góðu gamni eins og stundum endranær eftir að hann náði kosningu og komst í ferðamálastólinn utanríkisráðherrans, geystist hér um í þjóðfélaginu í febrúar og mars og boðaði myndun vinstri stjórnar. Gæti það ekki verið, herra forseti, að þetta sé rétt munað? Að hæstv. utanrrh., og þá tiltölulega ferskur formaður Framsfl., vel klæddur í selskinnskápunni hafi stormað hér um þjóðfélagið og boðað að nú yrði mynduð vinstri stjórn og tekið á vandamálunum. Greiðsluerfiðleikum heimilanna, húsnæðismálunum og öllu þessu. Það er mikið vatn til sjávar runnið síðan formaður Framsfl., hæstv. utanrrh., ætlaði að mynda þessa vinstri stjórn. (Samgrh.: Hann náði skjótum þroska.) Það er þitt mat, hæstv. samgrh., að hann hafi þroskast undraskjótt.

Nei, ætli það hafi ekki annað búið undir, herra forseti. Og satt best að segja er öll sú saga heldur dapurleg. Sannast nú hið gamla og margsannaða tvíeðli Framsfl. Hann fer jafnan þangað með ávinningana sem honum af og til hlotnast því miður í kosningum sem síst skyldi og hann síst sagði mönnum frá. Þegar framsóknarmenn ræða um að mynda vinstri stjórn og tala sem allra fjálglegast um félagsleg úrræði gagnvart vanda fólksins í landinu, talar um að setja fólk í fyrirrúm, þá hlaupa þeir beint upp í með íhaldinu í ómengaða frjálshyggjustjórn. Síðan er þar ekki viðstaða í neinu tilliti í þeirra veru í ríkisstjórninni eins og sést m.a. á þeirri útreið sem félagsleg mál fá í fjárlagafrv. og hæstv. ráðherrar, heilbrrh. og félmrh., verða að sætta sig við.

Herra forseti. Á þskj. 364 flyt ég ásamt öðrum hv. þingmönnum Alþb. og óháðra breytingartillögu við liðinn 03-390 Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Það mun verða svo að samkvæmt fjárlagafrv. sé gert ráð fyrir því að þessi liður dragist saman, að hann skerðist að raungildi. Hér er á ferðinni hin eiginlegu framlög Íslendinga til sjálfstæðrar þróunaraðstoðar. Fyrir utan þennan lið er fyrst og fremst um skyldubundnar greiðslur okkar til alþjóðastofnana að ræða og það er tæplega hægt að kalla það sjálfstætt framlag til þróunaraðstoðar heldur fyrst og fremst uppfyllingu á þeim skyldum sem við höfum undirgengist. Það er kunnara en frá þurfi að segja, þótt dapurlegt sé, að frammistaða okkar Íslendinga í þessum efnum er og hefur lengi verið hreint út sagt til stórkostlegrar skammar. Þar bera því miður margir ábyrgð á og eru fáir flekklausir af því í raun sem eitthvað hafa komið að stjórn landsins og borið ábyrgð á fjárveitingum undanfarin 10--15 ár eða svo. Við, sem ein af ríkustu þjóðum heimsins, getum auðvitað engan veginn boðið upp á það að sýna svona tölur hér ár eftir ár. Þegar háttar til eins og nú að það er þó þrátt fyrir allt einhver hagvöxtur í landinu, einhver vöxtur þjóðartekna, þá er auðvitað ekki boðlegt að sýna tölu sem felur í sér raunlækkun þessarar upphæðar. Það er það ekki. Þetta er þeim mun dapurlegra sem Íslendingar hafa að ýmsu leyti ágætt rykti í sambærilegum málum. Við erum t.d. ein fárra þjóða sem hafa að ég hygg nær undantekningarlaust staðið við og greitt á réttum tíma framlög sín til Sameinuðu þjóðanna og væntanlega flestra ef ekki til allra alþjóðastofnana sem við erum aðilar að. Það er til fyrirmyndar. Það er gott. Af því getum við út af fyrir sig verið stolt þegar jafnvel forríkar stórþjóðir draga algerlega lappirnar og beita síðan pólitískum þrýstingi og hótunum í tengslum við það að borga að einhverju leyti upp skuldir sínar. Kaupa fram vilja sinn með því að borga skyldubundin, lögbundin framlög eins og Bandaríkjamenn hafa iðulega gert. Það gera Íslendingar ekki í því sambandi. En þarna er hins vegar á ferðinni liður sem er okkur stórkostlega til vansa. Og ekki í anda þess bróðurlega eða systurlega kærleika sem okkur ber að sýna í veröldinni gagnvart erfiðleikum bágstadds fólks. Fjarri því. Og stendur nú ýmsum nærri að taka slíkt upp hér fleirum en ræðumanni.

Við leggjum sem sagt til að þarna komi til sögunnar nokkur hækkun. Þarna er farið vægt í sakirnar og farið fram á að þessi liður verði hækkaður um eins og 30 millj. kr. Það liggur auðvitað þannig í því að Þróunarsamvinnustofnun Íslands væri ekki tilbúin að taka við einhverri margföldun þessara framlaga á einu ári eða svo. Þarna verða menn að sjálfsögðu að gæta þess jafnan að fyrir hendi séu næg og vel undirbúin verkefni til að ráðstafa fjármunum í. Það liggur fyrir að Þróunarsamvinnustofnunin hefur beðið um talsvert meira fé, t.d. til þess að beita sér í meira mæli að verkefnum sem hún er vel að sér um og þar sem við Íslendingar getum svo sannarlega veitt aðstoð. T.d. ráðgjöf í sambandi við fiskveiðar til að hjálpa þróunarríkjum að byggja upp sinn sjávarútveg og gera hann að arðbærri atvinnugrein.

Herra forseti. Það er hér eins og venjulega að hv. formaður fjárln., hæstv. fjmrh. og aðrir slíkir mektarmenn mega ekki við bindast í salnum. Ég hefði gaman af að vita hvort hv. fjárln. hefur tekið þetta mál sérstaklega fyrir og hvort þar er einhver niðurstaða sem mark er á takandi, hvort einhver von er til þess að þessi liður verði skoðaður milli 2. og 3. umr. Væri svo þá værum við að sjálfsögðu fús til að kalla þessa brtt. til baka ef einhver minnsti möguleiki væri á samstöðu um að lagfæra þennan lið eitthvað.

Í öðru lagi, herra forseti, vil ég svo mæla hér fyrir brtt. á þskj. 357. Þær lúta flestar að samgöngumálum, nánar tiltekið að samgöngumálum, ferðamálum, vegamálum, vita- og hafnamálum og flugvallarframkvæmdum. Og þá vona ég að hæstv. samgrh. leggi frá sér bókina og komi hér í salinn og geri svo lítið að hlýða á umræðuna.

Já, herra forseti. Það er nú þannig að útreiðin í samgöngumálum er satt best að segja alveg hroðaleg. Ég veit ekki hvernig það er að verða hér. Kannski er það liðin tíð að þeir sem sitja á Alþingi láti sig þau mál einhverju varða. En svo var nú lengi og er enn víða að í hugum manna voru átök í samgöngumálum og uppbygging á því sviði afar nátengd almennri framfarasókn þjóðarinnar og því að reyna að betrumbæta aðstæðurnar í landinu. Og enn er það svo, fyrir stóran hluta þjóðarinnar, að það mál sem nánast undantekningarlaust er nefnt númer 1, númer 2 og númer 3 af hálfu viðkomandi íbúa í landinu þegar spurt er um slík mál, eru samgöngumálin. Það eru úrbætur á því sviði. Það er uppbygging þar sem fólk telur mestu skipta að náist fram til að bæta aðstæðurnar sem við búum við í landinu. Það er líka alveg ljóst að gagnvart almennri þróun atvinnulífs, félagslífs og menningarlífs þá eru samgöngubæturnar úrslitaatriði. Þá tala ég um samgöngur í víðasta skilningi þess orðs og undanskil ekki fjarskipti og alla þá miklu möguleika sem í gegnum þau opnast.

Það hafa orðið miklar breytingar á flutningaháttum hér í landinu á undanförnum árum, mikil tæknibreyting hefur verið að ryðja sér þar til rúms. Vörur berast nú til að mynda í æ ríkari mæli þannig milli aðila að þær eru sendar svo gott sem jafnóðum. Matvara er flutt fersk frá framleiðanda til neytanda o.s.frv. Ýmsar aðrar vörur eru farnar að lúta þeim lögmálum í viðskiptum að þær þurfa að komast á milli áfangastaða svo gott sem samstundis með flugi, landflutningum eða sjóflutningum þannig að flutningatíminn er orðinn brot af því sem hann var fyrir ekki löngu síðan. Þetta er nú einu sinni hið nútímalega og þróaða þjóðfélag sem við stærum okkur af að búa í eða vilja búa í. Hvað segir þetta okkur þá um samgöngurnar og mikilvægi þeirra? Fyrir t.d. þá landshluta sem fjær liggja höfuðmiðstöðvum flutninga og þjónustu? Þetta segir okkur einfaldlega að það er spurning um líf eða dauða fyrir viðkomandi byggðarlög að þau missi ekki af lestinni í þessum efnum. Að það atvinnulíf sem þar er og það mannlíf sem þar þrífst missi ekki af lestinni hvað varðar nauðsynlegar úrbætur og þróun í samgöngumálum.

Þetta vita auðvitað hv. þm. a.m.k. flestir þeir sem eitthvað hafa haft augu og eyru opin í landinu á undanförnum árum. Þeim mun furðulegra er að sjá þetta fjárlagafrv. og þessar nýjustu tillögur hv. fjárln. Þær fela í sér, herra forseti, niðurskurð í samgöngumálum miðað við fjárveitingar og/eða áætlanir sem fyrir hafa legið um áætluð framlög til þeirra hluta á árinu 1996 upp á um samanlagt 1.300 millj. kr.

Herra forseti. Mér finnst það nú varla til of mikils mælst að hæstv. samgrh. tolli í salnum og sé ekki kjaftandi hér við menn í hliðarsölum endalaust á meðan verið er að ræða um hans málaflokk.

(Forseti (GÁ): Forseti verður við því og hæstv. samgrh. gengur í salinn.)

(Samgrh.: Ég hef beðið óþreyjufullur eftir því að hv. þm. komi sér að efninu.) Þingmaðurinn er nú að ræða um 1.300 millj. niðurskurð í samgöngumálum, hæstv. ráðherra, en það er náttúrlega eitthvert annað efni sem hæstv. ráðherra vill tala um. Mér er ekki, herra forseti, beint hlátur í huga þegar ég ræði þessi mál. Satt best að segja er mér nokkuð þungt niðri fyrir út af því hvernig þessi mál eru að þróast. Og sjá hæstv. samgrh. ganga glottandi um salinn þegar þetta er rætt er náttúrlega til skammar, herra forseti. Hæstv. samgrh. kann ekki að skammast sín. Það er alveg greinilegt. Í mínum huga væri það miklu nær að hæstv. samgrh. segði af sér. Biðjast lausnar og vera maður til þess í stað þess að ganga hér um glottandi. Ég sé ekki annað en að hæstv. samgrh. hafi með einhverjum hætti algerlega hrunið sem stjórnmálamaður og sem ráðherra í sínum málaflokki. Að láta bjóða sér þessa útreið, herra forseti. Þetta er ekki hægt.

[24:30]

Hæstv. samgrh. fór mikinn hér á síðasta kjörtímabili og sló um sig. Hann talaði um að verið væri að auka að raungildi framlög til samgöngumála. Það má til sanns vegar færa, að minnsta kosti héldust þau vel í horfinu hvað vegamálin snerti í eitt eða tvö ár af fjórum á hans síðasta kjörtímabili. Þá talaði hæstv. samgrh. mikið um nauðsyn þess að bæta samgöngur. Hvar eru þau rök núna þegar á að skera niður framlög til vegamála um yfir milljarð króna? Það er sagt, halli ríkissjóðs. Vandi ríkisfjármála. Var hann ekki fyrir hendi á síðasta kjörtímabili? Var ekki ríkissjóður rekinn þá með miklu meiri halla? Þá var m.a. sagt að vegna atvinnuleysis væri nauðsynlegt að auka framkvæmdir í samgöngumálum. Það væru einhverjar brýnustu og þörfustu framkvæmdir sem hægt væri að auka. Og þar af leiðandi væri rétt að gera þær við þessar aðstæður, þrátt fyrir halla á ríkissjóði. Ég sé ekki betur en nú snúi menn öllum þessum röksemdum meira og minna á haus. (Samgrh.: Þau eiga sinn tíma.) Eru þau smíðuð eftir pólitískum aðstæðum á hverjum tíma, hæstv. ráðherra? Getur hugsast að hæstv. ráðherra hafi aldrei reiknað með því að vera ráðherra nema í fjögur ár og sé svo rjúkandi hissa á því að hafa náð kjöri á nýjan leik að hann hafi ekki áttað sig enn þá? Þess vegna hafi þetta aldrei verið ætlað til annars en að tjalda til einnar nætur. Því það er auðvitað það sem var gert. Við héldum því hér fram ýmsir á síðasta kjörtímabili að það mundi koma að skuldadögunum hjá hæstv. ráðherra eins og hann stóð að málum. Hann sló meira og minna um sig með lánuðum fjöðrum. Skreytti sig með lánuðum fjöðrum því hann tók lán að verulegu leyti fyrir þessum framkvæmdaauka. Nú er veislunni lokið. Nú er komið að skuldadögunum.

Getur það hugsast, herra forseti, að til sé leynilegt samkomulag milli hæstv. samgrh. og hæstv. fjmrh. um að á þessu kjörtímabili skuli Vegasjóður skila í ríkissjóð öllu því sem tekið var að láni til framkvæmda á síðasta kjörtímabili? Það skyldi nú ekki vera. Það gekk afar illa að toga fram einhver svör á síðasta kjörtímabili um það hvernig sú lántaka sem Vegasjóður þá stóð fyrir í sambandi við sérstakt framkvæmdaátak í samgöngumálum væri hugsuð, hvernig hún ætti að endurgreiðast og hvenær. Það var alltaf meira og minna í þoku þegar um þetta var spurt. Þó liggur fyrir á prenti að hæstv. ráðherra samgöngumála hefur viðurkennt að skerðing á mörkuðum tekjum Vegagerðarinnar í ríkissjóð sé hugsuð sem eins konar endurgreiðsla á þessari lántöku. Það liggur fyrir á prenti. Ég hygg að það hafi verið í athugasemdum eða grg. með fjárlagafrv. síðasta árs sem slíkir hlutir komu fram á prenti. Ég get haft upp á þeim ef menn óska því ég veit að þeir eru til.

Hvað sem því líður er auðvitað ljóst að nú er verið að ganga enn lengra en menn gat órað fyrir með þessari skerðingu á framkvæmdum í vegamálum upp á rúman milljarð króna miðað við vegáætlun eins og hún liggur fyrir enn þá gagnvart framkvæmdum á árinu 1996. Og vita menn hvað milljarður kr. þýðir í þessu sambandi? 940 millj. kr. til stofnframkvæmda? Það þýðir nánast fjórðungs niðurskurð. Ég segi alveg eins og er. Ég óska þingmönnum stjórnarliðsins á landsbyggðinni til hamingju með að fara heim til sín og sinna kjósenda með þessa jólagjöf. Ég hygg að menn þekki það úr fleiri kjördæmum en Norðurl. e. að það hefur verið býsna mikið þrautaverk að skipta þó þeim framlögum sem verið hafa til framkvæmda niður miðað við óskirnar eins og þær liggja fyrir. Það hefur ekki verið vandræðalaust. Satt best að segja átta ég mig ekki alveg á því hvernig menn ætla að koma fram fyrir kjósendur sína með þessa niðurstöðu á bakinu. Ég er hræddur um að hæstv. samgrh. verði ekki eins borubrattur og hann var til að mynda á framboðsfundi á Húsavík sl. vor þegar hann fer að útskýra þessar tölur sem nú eru á pappírum hæstv. ráðherra. Eða hv. þm. Jón Kristjánsson, form. fjárln. Verður hann borubrattur á yfirreið um Austurland þegar hann fer að útskýra fyrir kjósendum þar hvernig þetta á nú að bæta úr brýnni þörf í almennri vegagerð á Austurlandi? Því næst á eftir Norðurl. e. er Austurland sennilega það kjördæmi sem einna lengst á í land með almenna vegagerð til að fá úrlausn sinna mála.

Herra forseti. Þetta er að mínu mati alveg hrakleg niðurstaða. Hér er verið að skerða markaðan tekjustofn til framkvæmda í vegamálum. Mönnum þykja álögur á bifreiðaeign og bifreiðarekstur allmiklar í landinu og það er nú ósjaldan ályktað um það. Að meira en ekki minna af þeim sköttum sem lagðir er á bifreiðarnar ættu að fara til uppbyggingar í samgöngumálum. En hér er verið að halda í þveröfuga átt og það meira að segja mjög langt. Vegna þess að það er verið seilast inn á þennan sérstaka markaða tekjustofn sem runnið hefur til samgöngumálanna, til viðbótar öllum þeim hækkunum sem orðið hafa á undanförnum árum í formi sérstaks bensíngjalds, kílóagjalds á bifreiðar o.s.frv. Það er búið að ganga mjög langt í að skattleggja þetta nauðsynlega tæki, einkabílinn, sem er auðvitað óaðskiljanlegur hluti af lífi velflestra fjölskyldna í þessu landi og er full þörf á í sjálfu sér miðað við þær aðstæður sem við búum við. En nú á sem sagt að ganga enn lengra í raun og veru.

Þessu mótmæli ég, herra forseti. Ég undrast dáðleysi hv. þingmanna stjórnarliðsins að láta þetta yfir sig ganga og sérstaklega hryggir það mig að sjá hæstv. samgrh. svona gjörsamlega flatan í þessu máli. Þvílíkt stjörnuhrap sem orðið hefur á einum hæstv. ráðherra eins og hér sést. Ég er hræddur um að það dugi hæstv. ráðherra lítt á þessu kjörtímabili til vinsælda sem nýttist honum vel á því síðasta þegar Alþfl. gerði honum þann greiða að vera eitthvað að fljúgast á við hann um landbúnaðarmál. Hæstv. ráðherra varð umsvifalaust að hinum merkasta stjórnmálaforingja og elskaður og dáður af bændum af því hann var á móti Alþfl., þótt hæstv. ráðherra gerði satt best að segja ekki svo mikið. Síðan skreytti hann sig með þessum lánuðu fjöðrum í samgöngumálunum og komst furðanlega frá kjörtímabilinu með því móti. Með þessa andlitslyftingu að láni frá Alþfl. í landbúnaðarmálum og lánaðar fjaðrir á afturhlutanum í samgöngumálunum, leit þetta bara prýðilega út. En ég er hræddur um að nú sé þessum skrautfjöðrum að fækka mjög, herra forseti.

Þá ætla ég í öðru lagi að nefna fjárveitingar til flugmála. Ekki er nú staðan betri þar, herra forseti. Hún er þvert á móti verri. Það er enn hörmulegra að sjá hvernig það er. Enn hörmulegra og furðulegra í raun og veru. Það vekur undrun manns að menn sem þekkja til mikilvægis flugsamgangnanna fyrir einmitt þau byggðarlög sem lengst liggja héðan frá þungamiðju viðskipta og þjónustu í landinu, suðvesturhorninu, og eru þar með háðust fluginu, skuli standa að þessu. Að stjórnarþingmenn af Austurlandi og Vestfjörðum skuli láta bjóða sér þetta. Það er furðulegt, herra forseti. Ég gæti fyrirgefið Sunnlendingum sem koma af láglendinu þar sem lítið er um flugvelli, enda ekki mikil þörf fyrir þá nema þá úti í Vestmannaeyjum, að hafa kannski ekki næman skilning á mikilvægi uppbyggingar í flugmálum. En ég hélt satt best að segja að þeir menn fyndust þá a.m.k. annars staðar á landinu sem gerðu það.

Er hv. þm. Jón Kristjánsson, formaður fjárln., stoltur af því að skattstofninn sem verið er að taka upp hér með þessum breytingum eru t.d. flugfarseðlarnir milli Vopnafjarðar og Reykjavíkur? Það mun kosta um 20 þús. kr. að fljúga fram og til baka frá Vopnafirði til Reykjavíkur, ef ég man rétt. Það er a.m.k. mjög nálægt því. Það tókst að vísu að afstýra því að virðisaukaskattur yrði lagður ofan á þá flugfarseðla fyrir tveimur árum, en það var ætlun þáv. stjórnar. En sama er að þetta fargjald er einhvers staðar á bilinu 18--20 þús. kr. Það er með öðrum orðum dýrara fyrir fólk á Vopnafirði sem þarf að leita sér lækninga í Reykjavík að fljúga frá Vopnafirði til Reykjavíkur heldur en fyrir menn að fara héðan í verslunarferðir til Írlands, fylla nokkrar ferðatöskur af varningi og koma svo með heim. Jafnvel heil helgardvöl í útlöndum er á svipuðu verði og að fljúga einfalda ferð fram og til baka innan lands. Það á sér auðvitað sínar skýringar að þessi fargjöld eru há, hér er um að ræða langar leiðir, tvískipt flug o.s.frv. Ég er ekki með þessum orðum að vega að þeim sem halda uppi þessum samgöngum því þeir gera vel við erfiðar aðstæður. En ég er að segja að þetta er einhver svívirðilegasti skattstofn sem til er í landinu að gera flugfargjöldin innan lands að skattstofni með því að taka tekjur flugmálaáætlunar í rekstur sem áður hefur verið greiddur úr ríkissjóði. Þetta er ekki nothæfur skattstofn, svona á ekki að standa að hlutunum. Þá er miklu hreinlegra að leggja þetta gjald niður eða lækka það og leggja í staðinn á almenna skatta ef menn telja að afla þurfi tekna í þessu skyni. Ef menn telja að við höfum ekki efni á því lengur að byggja upp í flugmálum með sama hætti og við höfum gert á undanförnum árum.

Það var ákaflega umdeilt mál á sínum tíma, 1987, þegar flugmálaáætluninni var hrint af stað. Það var ekki síst umdeilt vegna þess að flugrekendur í landinu mótmæltu þessum álögum. Þeir voru hræddir við að þetta mundi gerast sem nú er að gerast. Að menn mundu fyrr eða síðar seilast til þessara tekna til annarra þarfa heldur en uppbyggingar í flugmálum. Samt létu menn þetta yfir sig ganga m.a. vegna þess að þá voru ábyrgir stjórnmálamenn undir forustu þáv. hæstv. samgrh. Matthíasar Bjarnasonar sem gáfu skýlaus loforð um að þessi tekjustofn rynni til uppbygginga í flugsamgöngumálum og einskis annars. Ég minnist ráðstefnu varðandi þessa flugmálaáætlun þegar hún var kynnt í Rúgbrauðsgerðinni á sínum tíma, 1986. Og ég minnist þess þegar hæstv. fyrrv. ráðherra Matthías Bjarnason mælti fyrir henni á Alþingi 1987. Þá var svarið og sárt við lagt að til þess kæmi ekki að þetta yrði notað í annað en uppbyggingu í flugmálum. Það var meira að segja sagt að ríkið mundi leggja til viðbótar bein framlög þar á móti. Ég verð að segja alveg eins og er að það er heldur dapurlegt að flokksbræður þessa ágæta stjórnmálamanns skuli nú verðlauna fjarveru hans af þingi hér á fyrsta þinginu sem hann situr ekki, með þessum hætti. Mikill er metnaður þeirra og mikil er virðing þeirra núv. hæstv. samgrh. og annarra flokksbræðra hans fyrir framlagi þessa stjórnmálamanns að standa svona að málum. Að svíkja hann með þessum ódrengilega hætti og allt sem hann stóð fyrir í þessum efnum. Því það er það sem hér er að gerast. Það er ömurlegt.

Eðlilega hafa flugrekendur ekki tekið þessum breytingum eða áformum vel, herra forseti, og ég hef hér undir höndum bréf frá Flugleiðum sem í allítarlegu máli fara yfir það hvernig þessi saga öll er. Rekja loforðin sem gefin voru 1987 í sambandi við afgreiðslu flugmálaáætlunarinnar þá og þegar þessir tekjustofnar voru teknir upp og benda á það hvers konar skattstofn í raun og veru sé hér á ferðinni. Yfirgnæfandi meiri hluti þessara tekna kemur frá þessu fyrirtæki eða eru innheimtir í gegnum umsvif þess í flugmálunum, eða um 85%. Og þar af allverulegur hluti af innanlandsfluginu og umsvifunum þar. Eða nokkur hluti. Vissulega er veltan mikil í millilandafluginu. En það breytir því ekki, herra forseti, að álögurnar eru kannski ennþá tilfinnanlegri þegar innanlandsflugið á í hlut þar sem það er viðkvæmari rekstur sem enn síður má við því en ella að taka slíkt á sig.

Herra forseti. Það á að slátra þessari flugmálaáætlun. Slátra henni eins og hún leggur sig. Þó eru einmitt þessa dagana t.d. umræður uppi um ástandið á Reykjavíkurflugvelli sem er eitt mál af mörgum sem sofið hefur værum svefni á bráðum fimm ára valdaferli núv. hæstv. samgrh. Sofið værum svefni. Enda hrökk hæstv. ráðherra illilega upp og var nokkuð geðstirður þegar umræður hófust um þetta mál fyrir nokkrum dögum. Reykjavíkurflugvöllur er í herfilegu ástandi enda var hann strax í byrjun við upphaf flugmálaáætlunarinnar eitt af sérverkefnunum sem átti að ráðast í. Og þá var reyndar ætlunin að fjármagna þær framkvæmdir utan flugmálaáætlunar með beinum framlögum. Síðan hefur mikið vatn til sjávar runnið og ástand vallarins versnað og er eins og raun ber vitni orðið hið hörmulegasta.

[24:45]

Ekki eru þær upplýsingar sem m.a. hafa verið að koma fram í þessu sambandi sérstök rök fyrir því eða hvað, herra forseti, að skera flugmálaáætlun niður um helming. Og er ég þó ekki á nokkurn hátt að gera lítið úr þörfinni á áframhaldandi framkvæmdum víða úti um landið og að þeim sé lokið sem sums staðar eru í miðjum klíðum. Þetta er sömuleiðis harla ömurlegt, herra forseti. Ég spyr að því: Hvers á þessi málaflokkur sérstaklega að gjalda? Þótt ýmislegt sé nú grátt leikið í þessu frv., er mér ekki kunnugt um að neinum öðrum flokki sé ætlað að taka á sig helmings niðurskurð á einu ári. Þetta er alveg ótrúlegt, herra forseti. Alveg með ólíkindum.

Ég sé að forseti er mér meira og minna sammála þótt hann megi sjálfsagt ekki láta það áberandi í ljós eins og aðstæður eru allar í málinu. En ég þykist finna það. Það andar heldur skilningi á minn málflutning úr stóli hæstv. forseta.

Að síðustu er það þannig með hafnirnar, herra forseti, að þar er líka verið að skera niður. Hefur þó hæstv. samgrh. oft stært sig af því að hafnarframkvæmdirnar væru afar þýðingarmikill málaflokkur sem hæstv. ráðherrann hafi alveg tekið sérstöku ástfóstri við og reynt að sinna. (Samgrh.: Það verður að reyna að halda ballans í þessu.) Af því ég læt menn njóta sannmælis jafnvel þótt þeir eigi það varla skilið, eins og hæstv. samgrh. í þessum efnum, vil ég segja að það er rétt að varðandi framlög til hafna stóð hæstv. ráðherra sig nokkuð vel á síðasta kjörtímabili. Ég get verið vel sáttur við að hæstv. ráðherra tókst að verja allmyndarlegt framkvæmdastig í hafnargerð á síðasta kjörtímabili. Það var komið niður undir ekki neitt í tíð ríkisstjórnar Framsfl. og Sjálfstfl. á árunum 1983--87. Það tókst á árunum sem eftir fóru með margra góðra manna hjálp að ná því verulega upp aftur og því hefur hæstv. samgrh. haldið að miklu leyti þar til núna. Hann beygir sig einnig undir það ok, undir þá svipu, að skera niður framkvæmdafé til hafnargerða. Að vísu ekki nema um tæpar 100 millj. kr. eða svo, en það er samt umstalsverður niðurskurður í ekki stærri málaflokki. Það er ekki vegna þess, leyfi ég mér að segja, hæstv. forseti, að hæstv. samgrh. viti ekki vel hver þörfin er. Það er grenjandi þörf fyrir framkvæmdir í höfnum vítt og breitt um landið. M.a. vegna þess að sem betur fer hefur allnokkur þróun átt sér stað í sjávarútvegi okkar og atvinnulífi. Skip hafa stækkað, bæði fiskiskip og flutningaskip. Þau eru djúpristaðri, þurfa meira viðlegupláss o.s.frv. Hafnarmannvirki ganga úr sér. Mörg þau mannvirki sem byggð voru á árunum eftir stríð þegar umtalsverðar framkvæmdir fóru af stað eru einfaldlega komin á tíma eins og sagt er. Þeim var aldrei ætlað meira en 40 ára endingartími. Ef ég man rétt var við það miðað í grófum dráttum í þeim áætlunum sem þar voru lagðar til grundvallar að meðallíftími slíkra mannvirkja væri um 40 ár. Það er langt í frá að þau hafi verið endurnýjuð með eðlilegum hraða þannig að það liggur hvort tveggja fyrir, mikil þörf nýrra framkvæmda og mikil þörf á viðhaldi eldri mannvirkja. Aðstæður hafa breyst og þarna er um að ræða mikilvæga undirstöðu atvinnulífsins í landinu, verðmætasköpunarinnar í landinu. Fiskiskipin liggja undir skemmdum. M.a. á nokkrum stöðum í kjördæmi okkar, mínu og hæstv. ráðherra. Það er þannig. Það stórskemmdist bátur í minni háttar brimi á einum stað á Norðurl. e. fyrir nokkrum dögum af því ókyrrðin er svo mikil inni í höfninni að trébátum er þar ekki vært. Það varð milljónakróna tjón. Það má alveg nefna staðinn, Þórshöfn. Og ástandið er svona víðar. Og þá er gripið til niðurskurðar í hafnargerð. Nú geta menn auðvitað rætt um hvort þær framkvæmdir á vegum og flugvöllum sem sumir kalla malbik séu nauðsynlegar þegar grenjandi niðurskurður á sér stað í sambandi við rekstur til velferðarþjónustunnar og spítalanna o.s.frv. Ég minni ég samt á þetta í sambandi við hafnirnar, vegina og auðvitað flugvellina því þar erum við að tala um undirstöðuna fyrir rekstri þjóðfélagsins; verðmætasköpunin, uppsprettan er þarna. Á hverju ætlum við að lifa? Með hverju ætlum við að borga rekstur sjúkrahúsanna ef ekki er hægt að gera út og verja skipin fyrir skemmdum þegar þau eru í höfn? Það er mikil skammsýni að standa svona að málum. Allar þjóðir sem reyna að hugsa eitthvað til framtíðar leggja sérstaka áherslu á tvennt, menntun og rannsóknir. Það er hin efnislega undirstaða, það eru innviðir þjóðfélagsins sem stundum er kallað svo. Infrastrúktúr á vondu máli, herra forseti, og hefur gengið bölvanlega að þýða. Það eru þessir efnislegu innviðir þjóðfélagsins, undirstaðan sem atvinnulífið, mannlífið og félagslífið byggir á. Það er illa komið ef við erum að gefast upp við að bæta aðstæðurnar í landinu og búa okkur undir framtíðina með því að reyna að halda í horfi hvað varðar þróun í samgöngumálum o.s.frv. Þetta er ömurleg niðurstaða, herra forseti.

Og við þessar aðstæður, herra forseti, þennan grenjandi niðurskurð upp á m.a. 1.300 millj. kr. í samgöngugeiranum sem að verulegu leyti bitnar á framkvæmdastiginu úti á landi, er verið að boða hér, með blessun hæstv. ríkisstjórnar, seríu af stórframkvæmdum á einu svæði á landinu, hér á suðvesturhorninu. Þá kemur auðvitað til viðbótar upp sá flötur á málinu að hér er verið að stefna í stórfellt jafnvægisleysi í atvinnu- og byggðamálum í landinu, vitandi vits. Hæstv. samgrh. fer stundum mikinn þegar hann er kominn norður til Akureyrar, svo ég minnist nú ekki á þegar hann er kominn út í Ólafsfjörð, því þar verður nú einna hæst til lofts hjá hæstv. ráðherra. Þá er nú völlur á mínum manni og hann er að eigin sögn einn allra ötulasti baráttumaður fyrir því að efla Akureyri og Eyjafjarðarsvæðið sem mótvægi við suðvesturhornið til þess að reyna að halda þar í horfinu fyrir landsbyggðina. (Samgrh.: Sem líka er rétt.) Sem er rétt, segir ráðherrann. Og meira að segja sannar nú mál mitt. Hæstv. ráðherra heldur t.d. um það miklar ræður fyrir kosningar að hann ætli að berjast ötullega fyrir þessum málum. (Samgrh.: Þingmaðurinn heldur sig í Þistilfirði.) Ég bregð mér nú stundum til Akureyrar. Það skyldi þó ekki vera þegar upp er staðið að það hallist ekki svo mikið á í þeim efnum. Því kannski fara Akureyringar eins og fleiri að dæma hæstv. ráðherra af verkum sínum en ekki orðum. Það dugar ekki, hæstv. ráðherra, að vera mikill vinur Háskólans á Akureyri bara rétt fyrir kosningar og standa svo að því að hann sé sveltur í fjárveitingum á fyrsta árinu eftir kosningar. Það dugar ekki að tala fjálglega um vegaframkvæmdir á framboðsfundum á Húsavík en láta svo skera þær niður um milljarð þegar menn eru skriðnir inn á þing í þriðja, fjórða eða fimmta sinn eða hvað það nú er. Þetta er ekki nógu gott. Þótt hæstv. ráðherra reyni að bera sig mannalega og jafnvel kreista fram bros eða glott eða hvað þetta nú á að vera, veit ég að honum er ekki hlátur í hug. Það getur ekki verið að hæstv. ráðherra sé svo skyni skroppinn og úr tengslum við veruleikann að hann átti sig ekki á því að hér fer meira og minna fram pólitísk jarðarför, herra forseti. Pólitísk jarðarför á orðstí hæstv. samgrh. í þessum efnum. (Samgrh.: Orðstír.) Orðstír. Ég þakka leiðbeininguna. Þótt hæstv. ráðherra hafi af mikilli hógværð borið fyrir sig slakri íslenskukunnáttu í sambandi við umræður um láglaunastefnu, er honum þó ekki alls varnað í þessum efnum eins og heyra má.

Nei, þetta er harla dapurlegt, herra forseti. Ég ætlaði síðan að nefna að við leggjum til á þessu sama þskj. smáhækkun á fjárframlögum til ferðamála. Þar eru að vísu lítils háttar lagfæringar á ferð í breytingartillögum meiri hlutans og skal þakka það. Þeim er þó ekki alls varnað í þeim efnum að sjá út yfir þann málaflokk. En það er heldur dapurlegt að til almennra framkvæmda hefur Ferðamálaráð haft óbreytta krónutölu í fjárlögum öll árin sem núv. hæstv. samgrh. hefur verið ráðherra. Það er með þetta eins og fleira. Það hefur sofið værum svefni allan valdatíma hæstv. ráðherrans. (Gripið fram í: Var ekki búið að breyta þessu?) Það er nú ekki mikið. Mér skilst að meiri hlutinn í fjárln. leggi til einhverjar lítils háttar eyrnamerktar breytingar til valinna verkefna svo sem að rækja ættartengsl okkar við Kanada. Það er hugsanlega í tilefni af því að Flugleiðir munu ætla að leggja land undir væng og taka upp flug þangað á næsta ári og á nú eitthvað að hjálpa þeim í markaðssetningunni, eða hvað? En sama er, það er allt góðra gjalda vert. En eftir stendur að til almennra verkefna sinna á Ferðamálaráð víst að hafa sömu krónutöluna áfram. Einu sinni enn. Það er nú svolítið dauflegt, bæði vegna þess að einhver verðrýrnun hefur orðið á þessu fimm ára tímabili en ekki síður þó vegna hins að umsvifin í ferðaþjónustunni hafa stóraukist. Þetta er þó þrátt fyrir allt ein af vaxtargreinunum. Er það ekki, hæstv. iðnrh.? Það getur fleira sprottið upp en álver. Menn voru búnir að röfla hér í 25--30 ár um álver og það gerðist aldrei neitt fyrr en það mikla glópalán varð hjá hæstv. núv. iðnrh. (Iðnrh.: Það var ekkert glópalán.) Ja, sumir segja það nú, hæstv. ráðherra. (Iðnrh.: Sumir, það eru ekki allir.)

(Forseti (ÓE): Hljóð í sal.)

Það fylgja því hálfgerðar óspektir að hæstv. iðnrh. kemur hér, herra forseti. En það verður að búa við það.

En ferðaþjónustan hefur dafnað og þar erum við að uppskera bæði mikið starf sem ýmsir aðilar hafa unnið en ekki síður þó það að landið okkar einfaldlega selur sig sjálft sökum þess að það býr enn þá sem betur fer yfir gæðum sem eru að verða æ sjaldgæfari. T.d. sæmilega hreinu lofti þótt hv. 4. þm. Austurl. hafi að vísu áhyggjur af að loftgæði fari minnkandi, eins og menn hafa heyrt. Enn er það þó þannig að hægt er að sjá á milli húsa á venjulegum dögum ef ekki er alveg logn og landið er enn svona tiltölulega laust við meiri háttar iðnaðarmengun. En það getur því miður breyst ef hæstv. iðnrh. treður hér niður hverju álverinu á fætur öðru, alltaf á sama landshorninu og hefur lélegan hreinsibúnað í þeim fabrikkum. Það fer auðvitað ekki vel saman við það að ætla að markaðssetja Ísland sem hreint og ómengað og ósnortið land. Þegar menn svo aka frá Keflavík og á aðra hönd er álver og á hina ruslahaugur er það nú satt best að segja ekki gæfulegt. Og svo á að auglýsa landið upp sem hreint og fagurt land og græna ferðamennsku. Það er nú hætt við að þeir ferðamenn komist aldrei norður í Skagafjörð. (Gripið fram í: Þeir yrðu að koma inn fyrir austan.) Þeir snúa við þegar þeir sjá ruslahauginn og álverin.

Herra forseti. Við teljum sem sagt fulla ástæðu til að minna á þennan málaflokk og leggja þarna betur til. Satt best að segja er það þannig, að öllu gamni slepptu, að það er til háborinnar skammar hversu grútmáttlausir menn eru gagnvart því til að mynda að vera með nauðsynlegan viðbúnað á mörgum fjölsóttum ferðamannastöðum. Það er ömurlegt fyrir menn sem hafa einhvern tíma upplifað margar hálendisvinjarnar eins og þær geta skemmtilegastar og fallegastar orðið einar og sér í ósnortinni kyrrð, að koma svo þangað á háannatíma um mitt sumar og sjá ösina og örtröðina en þó fyrst og fremst að sjá hversu viðbúnaðarinn af okkar hálfu er lélegur eða enginn. Það er ömurlegt að sjá að við erum að gera út á þessa viðkvæmu náttúru og selja landið ekki síst út á hana, en ætlumst svo til þess að það sjái um sig sjálft þegar ferðamenn flykkjast þangað inn.

Herra forseti. Ég fer nú senn að ljúka ræðu minni enda komið fram yfir hádegi á Kamtsjatka. Ég hafði ekki ætlað mér að tala mikið lengur en þar til klukkan yrði orðin eitt eftir hádegi í Petropavlovka og ég bíð líka eftir því að hæstv. samgrh. komist hér að. Mér þætti mjög vænt um það, herra forseti, að það yrði greitt fyrir því að hæstv. samgrh. kæmist fljótlega að í umræðunni. Því auðvitað gef ég mér það að hæstv. samgrh. detti ekki í hug að hann sleppi þannig frá þessari umræðu að hann reyni ekki að verja eða útskýra mál sitt og segja okkur eitthvað um það t.d. hvernig þetta horfir í stjórnarsamstarfinu. Er það virkilega rétt að þessi niðurskurður í vegamálunum sé að kröfu Framsfl., sem hér mátti jafnvel skilja með vissum hætti áðan? Ég óska eftir að það verði upplýst hvort það er svo, hæstv. forseti, að Framsfl. hafi þvingað Sjálfstfl. til að skera niður vegafé um 1 milljarð kr. og það komi á daginn að Alþfl. hafi verið skárri í þessum efnum, miklu skárri jafnvel, og hæstv. samgrh. hafi gengið betur með sín mál í samstarfi við Alþfl. og hafi þá haft meiri skilning á að það þyrfti að leggja eitthvað í samgöngumál heldur en hann hefur í samstarfi við Framsókn. Þetta segir auðvitað heilmikla sögu um það hvers konar (SvG: ... íhaldið verið í þessum samgöngumálum.) já, hvers konar fyrirbæri þessi Framsfl. er orðinn, herra forseti. Kannski herra forseti verði að bregða sér úr forsetastólnum, láta leysa sig af og koma í umræðuna, og tala fyrir hönd Suðurlands því að eitthvað á nú eftir að gera þar í vegamálum þó að þar sé víða orðið vel teppalagt.

Herra forseti. Aðrir hafa í umræðunum fyrr og/eða eiga eftir að gera betur skil öðrum málaflokkum sem ég hefði auðvitað getað hugsað mér að nefna, svo sem þá meðferð sem velferðarmálin fá í fjárlagafrv., en ég er hlynntur skynsamlegri verkaskiptingu og hef þess vegna sérstaklega tekið að mér að fjalla um tiltekna málaflokka, samgöngumál, þróunarsamvinnu, ferðamál og annað sem ég hef nefnt og gert grein fyrir. Item hef ég mælt fyrir þeim breytingartillögum sem ég flyt einn eða ásamt með öðrum á þskj. 357 og 364 og ég held að þetta verði ekki af minni hálfu mikið betur gert, í bili a.m.k., herra forseti, og læt því máli mínu lokið.