1995-12-15 01:02:54# 120. lþ. 65.5 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., Frsm. 2. minni hluta GE
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur


[25:02]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Gísli S. Einarsson):

Herra forseti. Ég gerði grein fyrir mjög ítarlegum tillögum Alþfl. þar sem fjallað er um hallalaus fjárlög, hæstv. fjmrh., (Iðnrh.: Hvenær?) Við 2. umr. fjárlaga fyrir árið 1996, hæstv. iðnrh., vegna þeirra forsendna sem nú eru í þjóðfélaginu. Ég gerði grein fyrir áliti mínu og þeim tillögum sem við bárum fram fyrir árið 1996 og nú hef ég hugsað mér að fjalla nokkuð um málið almennt.

Ég sagði í dag að frumvarpsgrunnurinn væri nokkru traustari eftir þá umfjöllun sem átt hefur sér stað í fjárln. og af þeim breyttu forsendum sem eru í þjóðfélaginu, bæði vegna aukins afla og þeirra aðstæðna sem eru að skapast í iðnaðinum.

Það sem hefur bæst við frá 1. umr. og ekki er gerð grein fyrir í frv. er hvernig ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, hæstv. forsrh., ætlar að nýta bandorminn til að fæða margfætluna, þ.e. frv. sem er með a.m.k. tíu veikburða ráðuneytisfætur.

Einnig bendir fátt til þess að ríkisstjórnin ætli að draga í land með afnám launatengingabóta til aldraðra, öryrkja og atvinnulausra. Alþfl. mælir með fjármagnstekjuskatti, eins og fram hefur komið, en aftengingin við almennar launahækkanir til þessara aðila er óhæfa. Herra forseti. Þeir sem standa fyrir henni ættu að fá ævarandi stimpil fyrir, sem fylgdi þeim það sem eftir er pólitískrar ævi þeirra, og skömm fyrir misgjörð gegn þeim hópi sem kostað hefur mestu framfarir í íslensku þjóðfélagi frá upphafi, margir með svita og tárum. Það er mín skoðun á þessari skammarskerðingaraðgerð, hæstv. forseti.

Stórframkvæmdirnar sem menn fjalla nú um, stækkun álvers í Straumsvík, og aðrar framkvæmdir sem lagður var grunnur að, hæstv. iðnrh., í ráðuneytum Alþfl. á síðustu kjörtímabilum eru að verða að staðreyndum. (Iðnrh.: Hvaða ráðuneyti voru það?) Það var í iðnrn. og viðskrn., hæstv. iðnrh. og viðskrh. Það eru að skapast möguleikar til endurskoðunar og það er einmitt það sem ég vona að menn hafi manndóm í sér til að gera, á þeim tíma sem er eftir fram til áramóta, varðandi þau mál sem ég nefndi áðan. Bætt verði úr ágöllum sem sjáanlegir eru.

Möguleiki er á að skila þessum auknu tekjum til þeirra aðila sem hvað harðast er ráðist að með aftengingu kjarabóta áðurnefndra hópa. Það er ástæða til að rukka um fyrirheit Framsfl. að þessu sögðu. Ekki eitt einasta atvinnutækifæri hafa þeir skapað. Þau störf sem kunna að verða til við áðurnefndar framkvæmdir eru vegna verka sem fyrir löngu hefur verið lagður grunnur að. Það er kannski, herra forseti, of mikið sagt því að búið er að ráða nokkra bílstjóra og nokkra framsóknargæðinga í ráðuneytisstörf og annað sem til hefur fallið. Ég hygg að sá hópur fylli ekki enn hundraðið þótt líklega sé stutt í að gefa megi hæstv. ráðherrum Framsóknar hundraðshöfðingjanafnið ef lagt er saman í hversu margar nefndir og ráð gæðingar þeirra hafa verið settir á síðustu mánuðum. Þá rukka ég eftir, hæstv. ráðherra, hinum 11.900 störfum og ætli sé ekki óhætt að fara að hefja einhverjar aðgerðir í þeim málum. En auðvitað verður kyrrstaða eins og ævinlega þegar um þessa stjórn er að ræða, eins og hún er samsett.

Þjóðhagsspá gerir ráð fyrir fjölgun starfa á tímabilinu sem er alveg eðlileg eða um 4.500--5.000 störf, þ.e. 1.200--1.400 störf á ári, og hún hefur ekkert eða sáralítið með stjórn að gera. Hún er einungis eðlileg, miðað við spá Þjóðhagsstofnunar, ef þróun í nágrannalöndum okkar heldur sem horfir. Ef framsóknarmenn ætla að reikna sér þetta sérstaklega til tekna er ekki um annað en blekkingu að ræða.

Ég vil nú, hæstv. forseti, gera ástandið í velferðarmálum okkar að umræðuefni og þann mismun sem er á áætlanagerð og því sem stjórnendur heilbrigðiskerfisins telja að þurfi til að geta rekið málaflokkinn miðað við þarfir. Ég vil nota tækifærið til að mótmæla því að hér skuli rætt um fjárlög án þess að fyrir liggi hugmyndir frá heilbrrn. um aðgerðir sem varða 40% af fjárlögum ríkisins. Þetta þýðir, herra forseti, að verið að keyra þennan hluta fjárlaga í gegnum hið háa Alþingi án þess að hann fái þrjár umræður eins og lög gera ráð fyrir. Ég var ekki og er ekki í aðstöðu til að koma í veg fyrir það. Sættir náðust í dag um að kynna hluta þeirra lausna sem menn eru að velta fyrir sér að grípa til, en eru alls ekki tilbúnar eins og hv. formaður fjárln. gerði grein fyrir þeim fyrr í kvöld, því að enn vantar 310 millj. upp á bara til þess að geta staðið, herra forseti, við að lækka uppsafnaðan halla sem er um 700 millj., til að geta staðið við þær sjálfsögðu leiðréttingar sem þarf að grípa til.

Það er eðlilegt að spurt sé hvað menn leggja til í þessum málum. Nánast ekkert hefur komið enn þá sem hönd er á festandi. Þjóðin eldist æ hraðar og meiri tæknivæðing eykur stöðugt kostnaðinn. Leiða má líkur að því að aðgerðir fyrrv. heilbrrh. hefðu komið í veg fyrir 7--10 milljarða kostnaðarauka í kerfinu en núna, eftir þær aðgerðir, blasir ekkert annað við en breyttar áherslur og kerfisbreyting. Vaxandi kostnaður innan heilbrigðis- og velferðarkerfisins er helsta viðfangsefni allra nágrannaþjóða okkar þannig að þessi vandi er ekki sérstakt íslenskt fyrirbrigði. Ríkisstjórnin hefur nýlega bætt við einum milljarði til vinnumarkaðarins og ég segi að ef gert er ráð fyrir að fjármagnstekjuskattur komi á fjóra síðustu mánuði ársins 1996 er lágmarkskrafa að þeir sem lakast eru settir fái leiðréttingar svo jafnist á við laun á almennum markaði.

Herra forseti. Aðgerðir sem varða styrkingu byggðarlaga hafa legið niðri. Hugmyndum um flutning stofnana, svo sem Landmælinga, Brunamálastofnunar og Vegagerðar, út á landsbyggð og kerfisbreytingum sýslumannaembætta hefur ekki verið sinnt. Öllum þessum hugmyndum hefur verið stungið ofan í skúffu eða sópað undir teppið. A.m.k. hefur ekki örlað á neinum aðgerðum til að fylgja eftir tillögunum sem hæstv. forsrh. lét vinna fyrir sig undir stjórn fyrrv. hv. þm., Þorvaldar Garðars Kristjánssonar. Ég leyfi mér, herra forseti, að rukka eftir aðgerðum í þessum málum sem menn ræða á tyllidögum af mikilli festu og alvöru, eða er þetta mas aðeins sett fram til að blekkja fólkið á landsbyggðinni þegar verið er að sækjast eftir atkvæðum fyrir kosningar?

Tillaga sem ég gerði grein fyrir í dag, hæstv. forseti, um breytta fiskveiðistjórnun lýtur að tekjuöflun í ríkissjóð. Miðað er við að greitt verði fyrir afnot af auðlindinni beint í ríkissjóð í gegnum Fiskistofu. Þannig væri fyrir hvert úthlutað þorskígildiskíló t.d. unnt að setja sér það markmið að sjávarútvegurinn stæði undir stoðaðilum sínum, svo sem Hafró, Landhelgisgæslu að hluta, Fiskifélaginu og öðrum slíkum, ásamt rannsóknum sem gerðar eru í þágu hans. Þar að auki, herra forseti, með breytingartillögum við þetta fjárlagafrv. sem við alþýðuflokksþingmenn leggjum fram bjóðum við upp á varanlegar lausnir á fjárlagahallanum og meira að segja 5 millj. í afgang.

Ég sagði sögu í dag, herra forseti, sem ég hafði eftir fyrrv. 1. þm. Vestf., Matthíasi Bjarnasyni, um karlinn sem ætlaði ásamt tveimur sonum sínum að slátra hrúti sem var með svo harða hausskel að þrátt fyrir þrjú skot og gífurlega tilburði gekk ekkert að skjóta hann. Þá sagði karlinn við syni sína: ,,Látum hrússa í hús og svo byrjum við aftur að slátra eldsnemma í fyrramálið.`` Þessi slátrunaraðgerð minnir mig á stjórnunarhætti núv. hæstv. ríkisstjórnar nema ráðherrum er sennilega hættara við að skjóta sig í fótinn en bóndanum sem hér sagði frá.

Það er fyllsta ástæða til þess að ræða hér og nú um breytta samskiptahætti í nefndum og viðameira hlutverk þeirra í kjölfar breytinganna þegar þingið varð að einni málstofu. Mig langar, herra forseti, að leggja áherslu á að ég tel að þar hafi tekist vel til og að menn séu að gera sér æ ljósara mikilvægi nefndarstarfanna, þó að einhverjir skripli á skötunni, þeir sem ókunnugir eru þeim málum.

[25:15]

Það væri nú gott, herra forseti, ef þessum boðum yrði komið til hæstv. ráðherra ríkisstjórnar sem hafa ekki eirð í sér til að vera hér í salnum eða þá að þeir eru þreyttari en þingmenn og geta ekki --- Velkominn, velkominn, hæstv. heilbrrh., í salinn. En það er eins og hluti ráðherra hafi ekki gert sér grein fyrir því að nýir starfshættir hafa verið teknir upp í þinginu. Það er ekki lengur fært að skutla málum inn í nefnd og krefjast afgreiðslu á einum klukkutíma eins og oft hefur viðgengist og mál þá verið afgreidd í einhverju klúðri sem hefur reynst örðugt að lagfæra. Þeir aðilar sem ég ræði um eru búnir að vera of lengi í ráðherrastólum og ættu að fá hvíld til að gera sér ljóst að starf nefnda þingsins snýst ekki bara um að keyra mál ríkisstjórna í gegn eins og þau eru lögð fram hverju sinni af hálfu viðkomandi ráðuneytis.

Ég vil þakka, herra forseti, fyrir þann skilning æðstu stjórnar þingsins á þörfinni á nákvæmri umfjöllun nefnda og vona að svo verði áfram. Ég vil láta þess getið að þó ekki sé um sameiginlegt nefndarálit frá minni hluta fjárln. að ræða að þessu sinni, hefur samstarf minni hluta fjárln. ásamt og við meiri hluta fjárln. verið með miklum ágætum. Og ég vil endurtaka þakkir mínar um það þó ég hefði viljað ná meiri samstöðu um tillögur um hallalaus fjárlög við 2. umr. Aðstæður til þess hafa ekki verið betri í heilan áratug.

Eins og ég sagði hefur einnig verið góður starfsandi í fjárln. þó svo að þegar til tillögugerðar hefur komið um einstaka liði ræður meiri hlutinn eins og hann ávallt hefur gert og setur fram sinn vilja. Það þýðir sjálfsagt ekkert fyrir minni hluta nefndarinnar að mótmæla og á það er auðvitað ekkert hlustað nú frekar en endranær. Það sem skilur í milli er ekki mikið í hinum smærri málum. En það virðist skorta vilja innan meiri hlutans í þeim málum sem við alþýðuflokksmenn gerum tillögur um sem geta leitt til hallalausra fjárlaga. Það verður fróðlegt að sjá hvernig ýmsir stjórnarliðar greiða atkvæði á morgun um tillögur okkar alþýðuflokksmanna.

Ég segi það, herra forseti, að hér mun fara fram eftirtektarverð atkvæðagreiðsla þar sem menn verða spurðir um vilja sinn til þeirra tillagna sem við alþýðuflokksmenn flytjum og við vitum að það er stór meiri hluti stjórnaliðsþingmanna sem hefur mælt með þeim.

Það eru fjölmörg atriði sem mér finnst hafa verið sett til hliðar við fjárlagagerðina. Ég nefni bara t.d. Fjölbrautaskóla Vesturlands sem fær nánast lítil viðbrögð frá íhaldi og Framsókn við beiðni og ég mun nota hvert tækifæri sem gefst til að minna stjórnendur og nemendur skólans á afgreiðslu erinda þeirra. Bréf sem barst frá Fjölbrautaskóla Vesturlands var að sjálfsögðu ekki sett fram með mikilli beiðni um aukin framlög en þar var mótmælt skerðingu sem fram kom í frv. til fjárlaga fyrir árið 1996 þar sem gert var ráð fyrir lækkun gildistölu og hækkuðum álögum á nemendur og fól í sér ófullnægjandi tillögur vegna Reykholtsskóla svo ég bara nefni þetta sem dæmi.

Að sjálfsögðu get ég haldið áfram og nefnt erindi héraðsnefndar Skagfirðinga svo ég nefni bara það sem ég greip með mér af þessum 575 beiðnum sem bárust til fjárln. Sumum hefur verið mjög vel sinnt en öðrum miður. Ég vil vitna, með leyfi forseta, til erindis frá héraðsnefnd Skagfirðinga sem er svohljóðandi:

,,Heimavist skólans er fyrir 140 nemendur. Hún hefur verið fullsetin undanfarin ár. Nemendur við skólann eru nú 478, þar af eru 429 úr kjördæminu. Auk nemenda í heimavist eru á vegum skólans 36 nemendur í húsnæði úti í bæ eða samtals 176 nemendur í vistun á vegum skólans. Sífellt fleirum hefur þurft að vísa frá vegna skorts á heimavistarhúsnæði. Það er áhyggjuefni sérstaklega með tilliti til þess að nemendum úr kjördæminu sem vilja fá skólavist í heimabyggð fjölgar ár frá ári. Það hefur verið gert ráð fyrir stækkun heimavistarinnar um 60 rúm. Á fjárlögum síðustu tveggja ára hafa verið veittar 2 millj. kr. til heimavistarinnar.``

Erindinu lýkur þannig:

,,Það er von þeirra sem að skólanum standa að samningur náist nú við menntmrn. um að hefja megi framkvæmdir við þennan áfanga.``

Í trausti þess var sótt um fjárveitingu á árinu 1996 til byrjunarframkvæmda. Það var sótt um 20 millj. Ég þarf ekkert að rekja það. Heimamönnum og hv. Alþingi er fullkunnugt um hver endalok þeirra mála eru.

Ég gat um það áðan, herra forseti, að hér er um að ræða dæmi sem tekin voru úr bunka 500--600 erinda sem komu til vinnslu fjárln. Það þarf ekki stórar aðgerðir til að mæta óskum fjölmargra eins og hv. form. fjárln. er vel kunnugt um. Ég er ekki, herra forseti, að ásaka hv. form. fyrir hans vinnubrögð þó ég geti um þetta. Hann hlýtur að sjálfsögðu að vinna eftir þeim fyrirmælum sem honum eru gefin frá sínum yfirboðurum. Þá er ég að tala um áðurnefnd dæmi um niðurskurð í búnaðarkaupum. Ef gripið væri til aðgerða til að mæta þessum óskum þá mætti vinna mikið með endurskipulagningu á vinnu ráðuneytanna sem gæti skilað miklu af slíkum framlögum og þar að auki sparnaði ef menn vildu á annað borð taka á málum í búnaðarkaupum og vinnuskipulagi ráðuneyta.

Ég get ekki lokið máli mínu, herra forseti, án þess að minnast á niðurskurð fjárln. sem varðar stofnanir atvinnulífsins. Þá spyrja einhverjir, hvað er nú það? Þar er um að ræða Vinnuveitendasamband Íslands, BSRB, ASÍ o.fl. Sama niðurskurði er beitt á alla. Mér er kunnugt um að þessum fjármunum hjá ASÍ hefur verið veitt til endurmenntunar og fræðslu atvinnulausra og til fólks í atvinnulífinu. En það er enginn mismunur á niðurskurðinum gerður milli ASÍ og VSÍ þó Vinnuveitendasamband Íslands noti sitt framlag í rekstur en ASÍ til fræðslu.

Herra forseti. Ég vil ljúka máli mínu með því að ítreka áskorun mína til stjórnarþingmanna um að kanna vel tillögur okkar alþýðuflokksmanna áður en þeir greiða atkvæði um þær. Ég tel að flestar þeirra séu þannig að það stríði bæði gegn vilja og samvisku fjölda stjórnarliða að fella þær. Ef svo fer má öllum augljóst vera að það er ekki orð að marka hástemmdar yfirlýsingar varðandi ráðdeildarsemi og hagræðingu sem ekki bara einn eða tveir stjórnarliðar hafa viljað kenna sig við heldur tveir til þrír tugir þeirra að minnsta kosti með hæstv. fjmrh. í broddi fylkingar.

Herra forseti. Ég hef ákveðið þar sem langt er liðið á nótt og komið nokkuð fram yfir þann tíma sem ég átti von á að hér stæði fundur, að ljúka máli mínu en ég vil í lokin segja þetta. Ég tel að það sé rangt gagnvart þingmönnum að láta þá halda svona lengi út. Hér er um að ræða menn sem þurfa að mæta snemma til vinnu í fyrramálið og fóru upp kl. sjö í morgun og eru búnir að vera hér að minnsta kosti 18--19 klukkutíma og eiga fyrir höndum þriggja, fjögurra tíma svefn.