Fjárlög 1996

Föstudaginn 15. desember 1995, kl. 12:46:18 (1991)

1995-12-15 12:46:18# 120. lþ. 66.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur


[12:46]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er nokkuð sérkennilegt hvernig umræður um svokallað veiðileyfagjald eru farnar að ganga aftur í máli ræðumanna í sambandi við tekjuöflun til ríkissjóðs. Satt best að segja er það nokkuð upplýsandi fyrir það sem þarna er á ferðinni að svo miklu leyti sem hægt er að botna í því hvað fyrir mönnum vakir. Ég get ekki orða bundist lengur þegar hv. síðasti ræðumaður tekur undir tillögur Alþfl. um veiðileyfagjald með þeim sérstaka rökstuðningi að þar hafi menn fundið skattstofn sem sé vel til þess fallinn að afla verulegra tekna t.d. á móti útgjöldum í heilbrigðiskerfinu. Það er akkúrat það sem það er. Það er verið að tala um skattlagningu á sjávarútveginn í ríkissjóð að svo miklu leyti sem eitthvert mark á þessum óútfærðu og óútskýrðu tillögum er takandi um veiðileyfagjald. Það er allt og sumt sem í þessu máli felst. Út af fyrir sig er hægt að búa til úr þessu skattstofn eins og mörgu fleiru ef það er það sem vakir fyrir mönnum.

Ég verð að segja, herra forseti, að auðvitað þarf betri tíma heldur en gefst í stuttum andsvörum til að ræða þessi mál og ég mun við eitthvert vel valið tækifæri gera grein fyrir mínum sjónarmiðum í þessu efni þar sem ég var því miður fjarstaddur þegar umræða fór fram um þetta á þingi á dögunum. En ég hef ekki séð ljósið í þessum efnum og hingað til hefur enginn maður útskýrt það þannig fyrir mér að ég hafi fengið botn í það hvaða vanda þetta veiðileyfagjald á að leysa annan en þá þann að búa til nýjan skattstofn, að þessu sinni sértækan skattstofn á sjávarútveginn og ekki síst sjávarútvegsfyrirtækin á landsbyggðinni. Það er auðvitað hægt að búa til þannig skattstofn rétt eins og nú á að gera t.d. flugfarseðla í innanlandsflugi að skattstofni með því að skerða flugmálaáætlun. En er það skynsamlegt og rétt? Ég segi nei. Þess vegna vara ég við því að menn fari að fjalla þannig um málið í miðri fjárlagaumræðu að veiðileyfagjaldi er hent inn sem upplagðri hugmynd til að afla svo og svo mikilla tekna í ríkissjóð. Þá missa menn að mínu mati verulega marks í umræðunni um þetta mál.