Fjárlög 1996

Föstudaginn 15. desember 1995, kl. 13:11:53 (1993)

1995-12-15 13:11:53# 120. lþ. 66.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., MF
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur


[13:11]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég mun ekki taka hér langan tíma og reyna að virða þá samninga sem áður hafa verið gerðir um að við styttum mál okkar, en ég mæli fyrir tveimur breytingartillögum á þskj. 356 og 373. Á þskj. 356 er brtt. sem ég flyt ásamt hv. þm. Svavari Gestssyni. Þar eru lagðar til að auknar fjárveitingar til Háskóla Íslands, til Rannsóknarnámssjóðs og til háskóla- og rannsóknastarfsemi Nýsköpunarsjóðs. Þær eru til komnar vegna þess að það hefur komið fram í ræðum og tölum sem hafa birst varðandi rekstur Háskóla Íslands að við höfum fengið um 80% þeirra fjárveitinga sem eru taldar lágmarksfjárveitingar til reksturs háskóla, að mati rektors, í þeim löndum sem við viljum gjarnan bera okkur saman við.

Rannsóknarnámssjóður og Nýsköpunarsjóður eru sjóðir sem hafa skapað atvinnu. Við höfum fengið frá stúdentaráði upplýsingar um það hvað þetta þýðir í atvinnusköpun fyrir stúdenta yfir sumartímann og reyndar allt árið og eykur möguleika stúdenta til að taka þátt í rannsóknastarfsemi og starfsemi þeirra rannsóknastofnana sem hér eru reknar. Hér er ekki um háar fjárveitingar að ræða en munu þó gera gæfumuninn ef þær fást samþykktar á hv. Alþingi.

Í öðru lagi er um að ræða brtt. sem ég flyt ásamt hv. þm. Svavari Gestssyni. Sú fyrsta er um bætur til þolenda afbrota en Alþingi samþykkti sl. vor frv. um greiðslu bóta til þolenda afbrota en þeir sem verða fyrir tjóni á líkama og sál vegna ofbeldisverka og búa við fjárhagslegt tjón fá það í mörgum tilvikum ekki bætt vegna þess að þeir ógæfumenn sem fremja verknaðinn eru yfirleitt ekki miklir eignamenn. Því stoðar lítið að fá dæmdar háar bætur.

Í vor þegar þetta frv. var samþykkt og varð að lögum var um það eindreginn samstaða allra flokka. Það er einkennileg ráðstöfun ríkisstjórnarinnar og meiri hluta fjárln. að skera þetta niður og standa ekki við þau lög sem Alþingi samþykkti fyrir aðeins örfáum mánuðum með tilliti til þess að hér er í raun um nokkurra ára baráttumál og réttindamál að ræða sem loksins fékkst samþykkt á hv. Alþingi í vor.

[13:15]

Í öðru lagi leggjum við til að inn komi nýr liður, Dómsmál, ýmis kostnaður. Það eru 5 millj. kr. sem verði notaðar til stefnumótunar varðandi vímuefnavarnir. Í umræðu á Alþingi sl. þriðjudag kom fram hjá öllum þeim sem töluðu þar með fulltrúum ríkisstjórnarinnar að nauðsynlegt væri að fara í stefnumótunarvinnu og taka á þeim mikla vanda sem aukin vímuefnaneysla er í þjóðfélaginu. Við leggjum til að 5 millj. kr. fari til þessarar stefnumótunarvinnu í fyrsta lagi í dómsmrn. og í öðru lagi í félmrn. Í þriðja lagi Félagsmál, ýmis starfsemi, nýr liður, vímuefnavarnir til stefnumótunar, 5 millj. Þá leggjum við til 20 millj. kr. fjárveitingu. Það er nýr liður undir Málefni fatlaðra og varðar aðgengi fatlaðra í opinberum stofnunum. Það er óþarfi að eyða mörgum orðum í það hér hvernig því er háttað. Reyndar hafa samtök fatlaðra vakið athygli á aðgengi fatlaðra í opinberum stofnunum núna á undanförnum vikum.

Mér finnst það slæmt, virðulegi forseti, ef að form. fjárln. sem er jafnframt ábyrgðarmaður Tímans og ritstjóri, er farinn úr salnum þar sem fram kom hér áðan hjá hv. þm. Árna Johnsen að nú væri verið að ná tökum á ríkisfjármálunum og þakkaði hann það sérstaklega ábyrgri fjármálastjórnun eða markvissum vinnubrögðum fjmrh. En Tíminn hefur allt aðra sögu að segja. Form. fjárln. er í forsvari og jafnframt ritstjóri Tímans og ég hefði því gjarnan viljað fá hv. þm. hér inn til að til að ræða þetta aðeins. En ég get nefnt það á meðan að þótt við flytjum hér tillögu, hv. þm. Svavar Gestsson og ég, um 5 millj. kr. til vímuefnavarna og stefnumótunarvinnu í heilbrrn. að ýmislegt hefur komið manni á óvart í málflutningi hæstv. heilbrrh. undanfarið um forvarnir og þá peninga sem eiga að fara til forvarnastarfsemi.

Frá því sl. vor hefur mikið verið rætt um svokallaðan forvarnasjóð sem stofnaður var af því tilefni að breytingar urðu á lögum um innflutning áfengis og sölu. Þar voru ákvæði þess efnis að 1% af vínandagjaldi samkvæmt frv. og reyndar lögunum, færi í sérstakan forvarnasjóð. Þegar efh.- og viðskn. fjallaði um þetta sl. vor var talið að tekjur af þessu gjaldi yrðu 40--50 millj. Það hefur síðan verið ítrekað bæði í blaðagreinum og ræðum að tekjurnar af þessu gjaldi yrðu um 40--50 millj. Jafnframt hefur hæstv. heilbrrh. mjög oft sagt að um 50 millj. færu í forvarnastarf og að tekjurnar sem kæmu af þessu gjaldi yrðu ekki til að skerða þau framlög sem áður höfðu verið til forvarna, hér væri um hreina viðbót að ræða.

Nú nýverið var sett reglugerð um forvarnasjóð þar sem m.a. er kveðið á um hvert skuli vera hlutverk hans en það er að styrkja forvarnastarf félagasamtaka, einstaklinga á sviði áfengisvarna, á verkefnagrundvelli svo sem fræðslustarfsemi og alls kyns áróðri. Að styrkja rannsóknir sem tengjast áfengisvörnum. Að skipuleggja og hafa frumkvæði að verkefnum á sviði áfengisvarna. Að samræma forvarnastarf á sviði áfengisvarna meðal þeirra ráðuneyta sem fulltrúa eiga í stjórn sjóðsins og önnur verkefni á sviði áfengisvarna sem sjóðstjórn mælir með og heilbr.- og trmrh. samþykkir. Sérstök áhersla skal lögð á að styrkja verkefni sem snúa að ungmennum og áfengisvörnum. Forvarnasjóður greiðir kostnað vegna reksturs og stjórnar sjóðsins samkvæmt nánari ákvörðun heilbr.- og trmrh.

Þessi reglugerð er gefin út líklega 2. eða 3. október sl. og er í beinu framhaldi af þeim lögum sem samþykkt voru hér í vor. Ef leitað er eftir því hvar í frv. til fjárlaga eða í brtt. meiri hluta fjárln. forvarnasjóðurinn er staðsettur, er hans hvergi getið, hvorki í brtt. né í frv. sjálfu. Hins vegar er á bls. 164 í frv. liður 08-621 Áfengisvarnir og bindindismál. Þar er í fyrsta lagi kveðið á um fjárveitingu til áfengisvarnaráðs, þ.e. 9,1 millj. kr. Og síðan er liðurinn Annað, upp á 40 millj. og 900 þús. Samtals 50 millj. Þessi liður var á síðasta ári, 1995, samanlagt upp á 29,5 millj. kr. Þarna er um 20 millj. kr. aukningu að ræða sem hlýtur þá að vera sú aukning sem á að koma í gegnum þetta gjald. Ýmsar yfirlýsingar hafa komið fram í ræðum að um að forvarnasjóðinn eigi m.a. að nota til þess að koma skikki á forvarnastarfsemi, skipuleggja hana betur þannig að hún sé undir einum hatti en ekki dreifð og óskipulögð og aðgerðir ósamræmdar eins og verið hefur undanfarin ár. Þrátt fyrir allar þessar yfirlýsingar og þrátt fyrir að þarna er komin sjóðstjórn og reglugerð fyrir sjóðinn er reyndin sú að fjárln. hefur í tillögum sínum nú þegar úthlutað eða gert tillögur um að úthluta nákvæmlega sömu samtökunum og hafa verið á fjárlögum undanfarinna ára. A.m.k. 12 millj. kr. eiga samkvæmt tillögum meiri hlutans að renna til þessara samtaka. Það eru Íslenskir ungtemplarar, Stórstúka Íslands, Fræðslumiðstöð í fíknivörnum, líknarfélagið Skjöldur, áfangaheimilið Dyngjan, Krossgötur, líknarfélagið Þrepið, Áfangi, líknarfélag. Flest þessi félagasamtök hafa sérhæft sig að einhverju leyti í forvarnastarfsemi hvað varðar áfengisneyslu og í máli þeirra flestra hefur á undanförnum árum komið fram nauðsyn þess að skipuleggja þessa starfsemi, henni sé stýrt einhvers staðar að af einum aðila þannig að þeir peningar sem fara til hennar nýtist sem allra best. Þess vegna hefði maður búist við að þær 40 millj. sem eru undir Annað í lið 08-621, heilbrrn., færu fyrst og fremst í þann forvarnasjóð sem búið er að ákveða að setja á laggirnar. Þar er komin stjórn og meira að segja búið að móta reglur um það með hvaða hætti skuli staðið að úthlutun styrkja. Auglýst verði eftir styrkumsóknum og þar verði félagasamtök að uppfylla ákveðin skilyrði til að hljóta styrkina en stýringin í verkefnin verði á einum stað. Þess vegna þykir mér mjög skrítið, að ekki sé meira sagt, að fjárln. skuli hafa haldið sínu striki og úthlutað fjármagni til þessara samtaka án kröfu um samhæfingar eða skýrslu um starfsemi til sjóðsins. Það kemur hvergi fram í tillögunum.

Í öðru lagi langar mig að minnast aðeins á þær tillögur sem hv. form. fjárln. fór yfir í gær varðandi ráðstafanir sem fyrirhugaðar eru í heilbrigðismálum. Ég verð að segja að þar finnst mér lítið koma út úr því ef horft er til þess vanda sem sjúkrahúsin í landinu standa frammi fyrir og búið er að fara hér yfir í löngu máli. Flestum er kunnugt hvernig ástandið var á legudeildum Ríkisspítalanna árið 1995 og hvaða ráðstafana hefur þurft að grípa til þar á þessu ári. Ríkisspítalar og stjórnendur þeirra hafa legið undir mjög þungri gagnrýni sérstaklega af hálfu hæstv. fjmrh. um óstjórn, en forstjóri Ríkisspítalanna er nú orðinn ráðuneytisstjóri í heilbrrn. Þetta er gagnrýni sem ekki er hægt að láta ósvarað hér og fara verður aðeins yfir þær ráðstafanir sem búið er að grípa til á þessu ári, t.d. það hvað legudögum hefur fækkað á árinu 1995. Þar eru lokanir á handlækningasviði og legudögum hefur fækkað um 6.492 á þessu ári, 15% samdráttur. Á lyflækningasviði hefur legudögum fækkað um 9.073, 11%. Á barnalækningasviði hafa sparast 3.754 legudagar, 15%. Lokanir á kvenlækningasviði hafa sparað 4.934 legudaga, 15%. Geðlækningasvið 8.080, 9% . Lokanir voru samtals 95, það þýðir 32.333 legudaga sem skornir voru niður vegna sparnaðar, 12%.

Hvernig hefur þetta komið niður á starfssemi Ríkisspítalanna? Hverjar eru afleiðingarnar? Á biðlistum Ríkisspítala eftir hinum ýmsu aðgerðum eru nú um 1.200 manns. Og ef sá samdráttur sem boðaður er í frv. til fjárlaga fyrir árið 1996 verður að veruleika mun það lengja biðtímann eftir skurðaðgerðum verulega. Talað er um óstjórn og að ekki hafi verið staðið við svokallaða samninga sem gerðir voru. En skurðaðgerðir á Ríkisspítölunum eru 400 færri á seinni hluta árins 1995 en á fyrri hluta þess. Áætla má að biðlistinn lengist um 400--600 einstaklinga ef samdráttur í rekstri Ríkisspítala verður jafnmikill og frv. til fjárlaga gerir ráð fyrir. Það er tveggja ára bið eftir hryggjaraðgerð og yfir eins árs bið eftir liðskipta- og lýtalækningaaðgerðum. Um sex mánaða bið er eftir almennum skurð- og þvagfæraaðgerðum og bið eftir bæklunaraðgerðum, aðgerðum í kviðarholi og lýtalækningaaðgerðum, svo sem lagfæringum á ýmsum fæðingargöllum sérstaklega á börnum og fjarlægingu æxla, mun lengjast verulega. Hjartaaðgerðir var farið að gera á börnum á Ríkisspítölunum árið 1994. Það hefur verið mikill áhugi fyrir því á Ríkisspítölunum að fjölga hjartaaðgerðum hér á landi á börnum en við höfum ekki haft neitt svigrúm til þess í stjórnarnefnd til að taka þá ákvörðun. Og svigrúmið mun ekki aukast samkvæmt því frv. til fjárlaga sem hér liggur fyrir. Þar mun frekar verða um þrengingu að ræða.

Eitt af því sem við óttumst er að verði þessar fjárveitingar að veruleika muni biðlistinn eftir kransæðavíkkunum lengjast. Þar muni fjölga verulega. Þetta þýðir allt saman annan kostnaðarauka í þjóðfélaginu. Það er nauðsynlegt að menn fari að horfa á dæmið í heild sinni. Menn fari að horfa á hvað það þýðir þegar aðgerðum fjölgar og legutími styttist. Það er vissulega dýrara í rekstrarreikningum sjúkrahússins en það mun bara koma fram á öðrum sviðum í sparnaði. Það verður að horfa á þetta í heild sinni. Mér finnst satt að segja svolítið sérkennilegt að hlusta á að nú séu menn hættir við að ræða samstarf sjúkrahúsa á höfuðborgarsvæðinu hér á Reykjanesi. Ég hélt satt að segja að það væri byrjunin á þeirri úttekt sem þarf að fara fram á hverri einustu stofnun innan heilbrigðiskerfisins þar sem mótuð eru verkefni hverrar stofnunar og þjónustustig. Það næst enginn árangur til lengri tíma litið nema farið sé í þessi verk. Í forustugrein Tímans í dag er talað um dugnaðarforkana, ráðherra Framsfl. og rétt að fara hér yfir hana. Það er slæmt ef hv. þm. Árni Johnsen er farinn úr húsi því hann var að tala um dugnaðinn í fjmrh. Þar er Tíminn alls ekki sammála. Ég fer yfir það á eftir. En úttekt er nauðsynleg og úr því að hæstv. ráðherrar Framsfl. eru komnir á þennan sprett ættu þeir að taka á þessum málum af einhverri alvöru.

Í forustugrein Tímans í dag stendur, með leyfi hæstv. forseta, og þetta er sagt af því tilefni að hv. þm. Árni Johnsen þakkaði fjmrh. markviss vinnubrögð og dugnað og þess vegna væri verið að ná árangri:

[13:30]

Framsóknarmenn segja: ,,Samheldni og samkomulag á stjórnarheimilinu virðist vera með miklum ágætum, sem hlýtur að teljast gott mál í ljósi þess að ríkisstjórnin stendur frammi fyrir erfiðum verkefnum nú í fjárlagagerðinni. Einkum eru það þó framsóknarráðherrarnir sem standa í stórræðum, enda fara þeir með þá málaflokka sem fjárfrekastir eru og erfiðastir, landbúnaðarmál, heilbrigðis- og tryggingamál, að ógleymdum félagsmálunum. Á þessum sviðum hefur það komið í hlut framsóknarmanna að stýra undanhaldi sparnaðarins og eru menn að lenda hverju málinu á fætur öðru í þokkalegri sátt við ólíka hagsmunaaðila, þannig að friður hefur haldist.``

Þetta er tilvitnun í forustugrein Tímans.

,,En framsóknarmenn ríkisstjórnarinnar hafa líka verið í sókn og ber þar að sjálfsögðu hæst fyrirhugaðar og hafnar stóriðjuframkvæmdir, auk þess sem utanríkisráðherra hefur verið á stöðugum þeytingi um heiminn að undirbúa sóknarfæri og semja um réttindi landsmönnum til handa á fjölmörgum sviðum.``

Enda hefur, virðulegi forseti, hæstv. utanrrh. ekki mikið verið að þvælast hér í þingsölum og þarna er skýringin. Hún er í forustugrein Tímans. Hann er á stöðugum þeytingi um heiminn. Það er innskot í þessa annars ágætu forustugrein, sem lýsir auðvitað viðhorfum framsóknarmanna, hæstv. iðnrh. þar með, einum af þessum sprellfjörugu. Varla trúi ég því. Kemur nú hæstv. utanrrh. í salinn, er hættur að þeytast og tekur því rólega svona rétt um jólin. Varla trúi ég því nú að hv. formaður fjárln., hv. þm. Jón Kristjánsson, hafi skrifað þessa grein í miðjum önnum við að ná samningum og fá niðurstöðu í fjárlagagerðina. En bíðum nú við. (Gripið fram í: Hann er ótrúlegur afkastamaður.) Já, hann er ótrúlegur afkastamaður, það er alveg hárrétt, og heiðarlegur og vinnur vel. Þess vegna hef ég ekki nokkra einustu trú á því að hann hafi skrifað greinina.

En svo ég haldi nú áfram að vitna beint í greinina, með leyfi virðulegs forseta:

,,Innkoma Framsfl. í ríkisstjórn hefur því verið mjög virk og segja má að langstærstur hluti þess sem er að gerast hafi verið að gerast hjá framsóknarhelmingi stjórnarinnar.

Kyrrstaða og nánast lognmolla hefur hins vegar með örfáum undantekningum einkennt ráðherra Sjálfstfl. og ekki einu sinni fjmrh., sem þó er að reyna að koma fjárlagafrv. sínu í gegnum þingið`` --- ekki fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar, takið eftir, heldur fjárlagafrv. sínu --- ,,er í hlutverki hins ótvíræða geranda.`` --- Eins og hæstv. ráðherrar Framsfl. (Gripið fram í: Þetta er allt tóm vitleysa.) Þetta stendur í Tímanum í dag. (Gripið fram í: Það getur verið vitlaust samt.) ,,Ástæðan er að ráðuneytin sjálf voru gerð ábyrg fyrir sínum málaflokkum í auknum mæli, þegar núv. fjmrh. settist í stól sinn.`` --- Af því hann hefur sjálfsagt kosið lognmolluna, hæstv. ráðherra. Þetta stendur að vísu ekki í greininni, virðulegi forseti, þetta eru mín orð.

En áfram með greinina:

,,Búast verður líka við að sjálfstæðismenn verði í hlutverki Björns úr Mörk, þegar virkilega hvessir, og standi þétt að baki Kára`` --- sem er í Framsfl.

Virðulegi forseti. Mér þætti vænt um ef hv. formaður fjárln. og ritstjóri Tímans mundi fara örstutt yfir innihald þessarar forustugreinar Tímans og þessa viðhorfs framsóknarmanna í ræðu sinni. Hvort þetta er samdóma álit allra framsóknarmanna, svo ég tali nú ekki um, sérstaklega, formanns fjárln. og ritstjóra Tímans.