Fjárlög 1996

Föstudaginn 15. desember 1995, kl. 13:43:58 (1998)

1995-12-15 13:43:58# 120. lþ. 66.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., Frsm. meiri hluta JónK
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur


[13:43]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Nú er komið fram yfir þann tíma sem samið var um að umræðunni lyki svo ég mun stytta mál mitt mjög og koma inn á örfá atriði sem komið hafa fram. Ég vil þakka fyrir umræðuna sem hefur verið góð og málefnaleg og oft á tíðum snúist um grundvallar- og meginatriði. En örfá atriði hafa verið nefnd sem snúa að nefndinni og ég vildi örlítið koma inn á þau.

Hv. 12. þm. Reykv., Bryndís Hlöðversdóttir, ræddi vinnubrögð fjárln. og taldi að sjónarmið landsbyggðarinnar væru þar nokkuð yfirþyrmandi. Vissulega er ekki nema einn þingmaður Reykvíkinga í fjárln. en flestir hinir fyrir landsbyggðarkjördæmi. Hins vegar er það nú svo að við ræðum málefni stofnana hér í borginni á mörgum fundum og löngum. Afar stór hluti fjárlaganna tekur til ríkisfyrirtækja, stofnana og yfirstjórnar sem eru í Reykjavík þannig að ég held að hver sá sem tekur sæti í fjárln. komist ekki hjá því að setja sig inn í málefni í borginni. Þar að auki var tekið upp núna og mér skilst að það sé í fyrsta skipti um árabil eða jafnvel í alfyrsta skipti að fulltrúar borgarstjórnar Reykjavíkur komu til viðræðna við nefndina. Við áttum með þeim mjög góðan fund þar sem þeir skýrðu sjónarmið sín.

Hvað önnur vinnubrögð nefndarinnar snertir er ég mjög opinn fyrir því að ræða breytta tilhögun og ég er reiðubúinn að hlusta á það sem nýir nefndarmenn hafa fram að færa í þeim efnum. Það er engin ástæða til annars, þegar þessari törn lýkur, en að við fjárlaganefndarmenn gefum okkur tíma til að setjast niður á nýju ári og ræða hvort vinnubrögð eiga að vera svipuð áfram eða hvort beri að breyta þeim á einhvern hátt til að þau verði markvissari. Það verður ekki hjá því komist að það verði jólavertíð í þessu en hins vegar situr fjárln. orðið allt árið og hefur umboð allt árið þannig að það kallar auðvitað á endurmat á vinnubrögðum hennar.

[13:45]

Það var einnig komið inn á hlutverk ráðuneyta sem var annað grundvallarmál og hvað ráðuneytin væru öflug í stjórnsýslunni. Hv. 4. þm. Austurl. kom inn á það mál. Ég tel að það sé nauðsynlegt að ráðuneytin séu sem best útbúin, ef svo má segja, af starfskröftum og búnaði þannig að þau séu öflug faglega og geti tekið á í stjórnsýslunni. Sama er að segja um þingið. Það er nauðsynlegt að huga að þessu.

Þá var rætt um það að ekki væri hlustað á tillögur minni hlutans og allt kæmi tilbúið frá hendi okkar í meiri hlutanum. Það er að sjálfsögðu svo að meiri hlutinn starfar í umboði ríkisstjórnarmeirihluta á hverjum tíma og er að framkvæma ákveðna stjórnarstefnu. Það er ljóst og það mun ætíð verða svo. Þess vegna markast mjög í fjárln. meiri og minni hluti. En eigi að síður er það svo að hlustað hefur verið á það sem minni hlutinn hefur fram að færa og ýmsar ábendingar og tillögur sem hafa komið frá minni hlutanum hafa verið teknar til greina við þessar umræður. Það er auðvitað skiljanlegt að hv. þm. minni hlutans finnist það ekki nógu mikið en eigi að síður er ekki um algera einstefnu að ræða í þessum efnum.

Ég vildi einnig aðeins minnast á umfjöllun fjárln. um málefni Háskóla Íslands. Það varð ekki að ráði við þessa umræðu að gera tillögur um hækkun á fjárframlögum til háskólans. Hann hækkar í frv. um 14,7 millj. auk launahækkana sem eru liðlega 100 millj. Það fer vaxandi að komið er til fjárln. með ýmis erindi sem tengjast háskólanum. Áhugamenn um þau vilja sækja sér styrk til fjárln. til að þau fái frekari framgang innan háskólans. Það hafa komið til okkar þrjú góð erindi sem eiga öll fullan rétt á sér. Það eru rannsóknir í kvennafræðum, það er iðjuþjálfun og það er prófessorsstaða í fiskifræði. Öll þessi mál telur fjárln. að séu nauðsynleg en hins vegar hefur nefndin eigi að síður kinokað sér við því að forgangsraða námi innan Háskóla Íslands og telur að háskólinn eigi að hafa það sjálfstæði í störfum að hann eigi og forustumenn hans að forgangsraða sínum málum sjálfir. Eigi að síður vildi ég nefna þetta þannig að það kæmi fram að fjárln. lítur jákvætt á nauðsyn þessara mála.

Ég vil leiðrétta einn misskilning sem kom fram í gær hjá hv. 17. þm. Reykv., Ögmundi Jónassyni. Hann ræddi um vinnumálalið félmrn. og komst einhvern veginn þannig að orði að þarna væri um hefndarráðstöfun ríkisstjórnarinnar að ræða fyrir andóf verkalýðshreyfingarinnar. Ég vil bara að það komi fram að ríkisstjórnin kom ekkert nálægt þessu máli. Hún hefur sjálfsagt nóg á samviskunni þó að hún hafi ekki þetta líka og nóg ágreiningsmál á sinni könnu. Þessi tillaga kom frá fjárln. um tilfærslu á þessum lið.

Varðandi forvarnasjóðinn sem hv. 5. þm. Suðurl. minntist á þá er það rétt að sjóðurinn er nýkominn á laggirnar. Honum hefur verið skipuð stjórn. Sú stjórn er ekki komin mjög áleiðis í sínum störfum þannig að fjárln. ákvað að úthluta með svipuðum hætti og á síðasta ári. Eigi að síður teljum við að stjórnin hafi svigrúm til að móta starfið. En varðandi tæknilega uppsetningu á þessum málum í fjárlagafrv. tek ég undir það að það þyrfti að finna greinilegri uppsetningu á þessum lið heldur en er í frv. og við munum skoða þau mál þannig að tilvist þessa sjóðs sjáist í frv. og þeir fjármunir sem hann hefur.

Ég vil að lokum geta þess að Þjóðhagsstofnun kom til okkar í morgun og lýsti þjóðhagshorfum. Það kom fram í minni ræðu í gær að heldur betra útlit væri fram undan hvað hagvöxt snerti. Það kom fram hjá Þjóðhagsstofnun í morgun að hagvöxtur er áætlaður á næsta ári um 3,2%. Það leiðir til endurmats á atvinnuleysisprósentum í þjóðhagsspá þannig að því er spáð að atvinnuleysi fari úr 5% niður í 4,4%. Þetta er afar mikilvægt og afar gleðileg tíðindi. En jafnframt kom það fram að við þessar aðstæður er afar nauðsynlegt að hafa aðhald í útgjöldum ríkisins og beita því tæki til að þessi jákvæða niðurstaða leiði ekki til þenslu og verðbólgu. Þessi tíðindi leiða því ekki til þess að fjárln. geti farið að gerast örlát við 3. umr. málsins. Ég vil að það komi fram að aðstæður hafa ekki breyst hvað það snertir.

Að lokum vil ég þakka fyrir umræðuna því að hún hefur verið mjög góð og málefnaleg eins og ég sagði áðan.