Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Laugardaginn 16. desember 1995, kl. 18:29:54 (2081)

1995-12-16 18:29:54# 120. lþ. 68.1 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur


[18:29]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er því miður afar erfitt fyrir mig að skilja svona við málið. Ég sé mig knúinn til að hafa aðeins um þetta fleiri orð. Ég gerði að vísu grein fyrir meginviðhorfum mínum til málsins við 1. umr. og ætlaði ekkert að endurtaka það hér, enda ekki vanur að vera að endurtaka mjög mikið eins og kunnugt er. Ég ætla þó, vegna þess hvernig orðaskipti féllu hér milli mín og hæstv. iðnrh., að gera aðeins frekari gangskör að þessu með byggðaþátt málsins og endurtaka þá líka í leiðinni að ég met þennan samning nokkuð öðruvisi en til að mynda hæstv. ráðherra og sá ónefndi þingmaður Reykn. sem hann vitnaði í, hæstv. ráðherra.

[18:30]

Ég tel ekki mikið kraftaverk að halda þessa útsölu á rafmagningu, satt best að segja. Ég viðurkenndi hins vegar fúslega að sennilega er staða Landsvirkjunar slík að það er mun betra fyrir hana að fá þó þetta verð heldur en ekki neitt. Ég dreg ekki í efa að dæmið snúi þannig að því fyrirtæki sem slíku að það sé betra fyrir Landsvirkjun að koma þessu rafmagni sem er ónotað í eitthvert verð og út af fyrir sig ljóst að það sem þarf að gera til viðbótar vegna þessa máls er ekki mikið. Þetta er því allt saman afstætt eins og fleira og eftir því frá hvaða sjónarmiði menn nálgast málið. En samningur, sem á einhverjum gefnum forsendum er líklegur til að gefa á ákveðnu árabili allmiklu lægra raforkuverð en við þyrftum að fá vegna nýrra virkjana, er ekki góður samningur að mínu mati. M.a. fordæmisins vegna. Hann er það ekki. Þannig lít ég á málið. Og þetta langa afsláttartímabil er auðvitað heilmikill herkostnaður sem menn þar með eru að taka á sig og viðurkenna í reynd að við sitjum uppi með þær aðstæður að við erum knúin til þess. Og það mætti margt um það segja hvernig þau mál hafa þróast hjá okkur, virkjun Blöndu á sínum tíma allt of snemma, anað út í þá vitleysu og síðan hefur ekki verið markaður fyrir orkuna. Það sem einu sinni var talið að ætti að styrkja stöðu okkar að hafa orkuna á lager, þá gætu menn bara labbað inn í búðina og keypt hana, hefur því miður reynst okkur myllusteinn um háls og veikt samningsstöðu okkar. Því miður reyndist það hin argasta vitleysa.

Hvað byggðaþáttinn varðar eru aðstæður þær sem ég var lítillega að gera grein fyrir í andsvari áðan. Við stöndum frammi fyrir því að það er mikil byggðaröskun í gangi. Talsvert á annað þúsund manns flytja af landsbyggðinni á þessu ári og reyndar flýja úr landinu 1.554 á fyrstu 11 mánuðum ársins , ef marka má Morgunblaðið í dag. Þannig er staðan í málinu. Og það er alveg ljóst að ef, og ég legg áherslu á ef, hér fer í gang mikið uppbyggingar- og þensluskeið á þessu eina stóra atvinnusvæði við sunnanverðan Faxaflóa, mun það verka sem segull og auka enn á þá öfugþróun sem þarna er í gangi. Þetta er stóralvarlegt mál, ekki bara fyrir landsbyggðina og þau svæði sem eru líkleg til að verða undir, þetta er líka alvarlegt fyrir svæðið hér, fyrir okkur öll. Þetta er óhagstæð, þjóðhagsleg þróun frá heildarhagsmunum séð. Þetta er alveg jafnvont fyrir menn hér, óhagstætt og dýrt í raun og veru, eins og það er fyrir þolendur þessa í útjöðrum byggðum landsins.

Ég tek fram að ég tel að stækkun álversins í Straumsvík ein út af fyrir sig mundi ekki skipta sköpum í þessum efnum ef ekki annað kæmi til. Einfaldlega vegna þess að það er ekki það stór framkvæmd að hún mundi breyta mjög miklu. Hún gæti samt haft allnokkur áhrif á andrúmsloftið og hinn sálræna þátt málsins sem skiptir miklu. Líklegt er að auk þess verði skrifað undir framkvæmdir um jarðgöng undir Hvalfjörð öðru hvoru megin við hátíðarnar. Í þriðja lagi eru líkur á að hafist verði handa um að undirbúa viðbótarofn í járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga og í fjórða lagi gætu einhverjir Kólumbíumenn eða hvað það nú er komið og sett upp eitt stykki álver á Grundartanga. Eitthvað var víst líka talað um sinkbræðslu, hún er líka hér á suðvesturhorninu. (Gripið fram í: Magnesíum.) Magnesíum, já, það er enn fínna. Síðan liggur fyrir að það er búið að ganga frá og semja um risastórt álver á Keilisnesi sem gæti vaknað upp aftur að sögn manna. Þá liggur þetta þannig að þessar fjórar, fimm stórframkvæmdir í seríu eru allar bundnar við þetta svæði. Þá kárnar gamanið að mínu mati.

Nú er það þannig að Þjóðhagsstofnun er strax farin að vara við hættunni á ákveðinni þenslu. Einkaneysla hefur aukist mikið og ef þessar framkvæmdir fara í gang, þá þekkjum við okkar heimafólk, Íslendingar, það er allmikil hætta á því að andrúmsloftið verði slíkt að það fari viss þensla í gang. Jafnvægið er einhvern veginn afar fínstillt í þessum efnum hjá okkur Íslendingum. Það er ýmist í ökkla eða eyra. Hér hefur auðvitað verið atvinnuleysi og er á þessu svæði eins og annars staðar. Það er vont og það viljum við ekki. Þess vegna er gott að fá framkvæmdir og störf. En við viljum heldur ekki að það verði svo mikið á skömmum tíma að allt fari á hvolf og í vitleysu. Og um það vil ég einmitt ræða í þessu sambandi. Tækifærið til þess er hér og nú. Menn geta sagt eins og hæstv. ráðherra að af því að það sé ekki verið að fjalla um þetta eða hitt nákvæmlega í þessu frv., þá sé það annað mál. Þetta er ekki þannig. Þetta er tækifærið sem við hér á þinginu höfum. Og þingið sem pólitískur vettvangur skoðanaskipta býður upp á að ræða alla þætti þessa máls sem því tengjast. Eins og hæstv. forseti veit og getur sýnt mönnum fram á eru þingsköpin nákvæmlega þannig að það er ætlast til þess að menn ræði þá hluti sem efnislega hanga saman við dagskrármál.

Ég skýt því að í leiðinni að auðvitað var sú formúlering hæstv. ráðherra að þinginu kæmi orkusölusamningurinn ekki við af því að hann væri ekki hér til atkvæðagreiðslu sem slíkur bara rugl og bull. Þetta er að sjálfsögðu ekki þannig. Svo er sagt að engu sé leynt. Nema samningnum. Afstaða manna til málsins mótast m.a. af af þáttum sem liggja annars staðar. En þingið hefur vald til að segja já eða nei við málinu sem slíku og þá fer það ekkert lengra. Það er nú þannig. Þótt það sé út af fyrir sig verkefni Landsvirkjunar að gera samning við fyrirtæki sem ætlar að kaupa af þeim orkuna, þá veit ég ekki betur en að þjóðin eigi þetta fyrirtæki að hálfu og öllu leyti auðvitað, því íbúar ákveðinna sveitarfélaga eiga það svo á móti ríkinu. Þarna er verið að virkja orku sem við erum væntanlega sammála um að sé sameign þjóðarinnar. Þó ekki væri nema af þeim sökum er engin goðgá að ræða málin hér.

Herra forseti. Ég tel sem sagt þennan frágang málsins í sambandi við byggðamálin algerlega óásættanlegan ef niðurstaðan verður sú að á næstu mánuðum eða missirum raðist upp stórframkvæmdir allar á einu og sama landshorninu. Ég hef ekki trú á og reyndar veit ég að hæstv. ráðherra er ekki í neinni alvöru að segja að það sé líklegt að stóriðjuframkvæmdir hefjist einhvers staðar annars staðar á landinu á næstu árum.

Það er líka að því að hyggja að það er þá væntanlega bundið við einhvern einn stað en kæmi landsbyggðinni og öðrum kjördæmum eða öðrum svæðum ekki til góða sem slíkum. Ég hef ekki heyrt t.d. um að það standi til að reisa álver á Vestfjörðum. Ætli það verði ekki frekar seint sem vandi manna á Vestfjörðum verður leystur með álverum? Og hvað þá? Þá ber að skoða aðra þætti þess máls, ef menn vilja ekki missa Vestfirðina í eyði. Þar nefni ég til að mynda samgönguframkvæmdirnar sem koma öllum til góða út um allt land. En að það skuli akkúrat standa þannig á að hæstv. ríkisstjórn er að skera niður framkvæmdir í samgöngumálum um 1.300 millj. sömu dagana og hér er verið að ræða um þetta mál, er ansi nöturlegt. Jafnvel halda sumir að það sé að sérstakri kröfu Framsfl. að samgrh. er píndur til að skera svona niður í vegamálum. Ljótt er ef satt er.

Ætla menn heim í sín kjördæmi með þetta nesti? Ætlar t.d. vinur minn, hæstv. landbrh. og umhvrh., norður með þetta um jólin í farteski sínu? Að annars vegar hilli undir hverja stórframkvæmdina á fætur annarri hér en á hinn bóginn sé verið að beinskera niður alla helstu framkvæmdaþætti sem gætu komið atvinnuástandi á öðrum svæðum í landinu til góða.

Að lokum endurtek ég, herra forseti, að ég sætti mig ekki við þennan frágang á málinu ef það fer svo ógæfulega að sú tillaga sem hefur verið flutt fyrir hönd Alþb. af hv. þm. Svavari Gestssyni verður felld. Ef það er ekki einu sinni skilningur fyrir því hjá hæstv. ríkisstjórn og liði hennar hér á þinginu að sýna þó lit í því að gera samkomulag um að afgreiða einhverja slíka tillögu í tengslum við málið, vandast efnið. Ég mun þá óska eftir því að hæstv. forsrh. komi til umræðu um þessi mál við 3. umr. Og reyndar hvet ég hæstv. iðnrh. til þess að velta þessu máli fyrir sér og skoða það áður en kemur til atkvæðagreiðslu að lokinni þessari umræðu. Það mun ekki standa á okkur, ef vilji er fyrir hendi að skoða þessi mál, að kalla tillöguna til baka þannig að ekki þurfi að koma til þess að hún verði felld, ef menn vilja gefa sér eitthvert tóm til að velta þessum málum fyrir sér á milli umræðna.