Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Miðvikudaginn 20. desember 1995, kl. 16:48:39 (2228)

1995-12-20 16:48:39# 120. lþ. 73.3 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., Frsm. minni hluta SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur


[16:48]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og fyrir það að vera viðstaddur umræðuna og svara. Það er til fyrirmyndar og væri öðrum til eftirbreytni.

Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að mér finnst eðlilegt úr því að svo háttar til að búið er að ákveða að endurskoða lögin um bæði búfjárrækt og jarðrækt ef ég tók rétt eftir að beina þessu máli inn í þá endurskoðun og það er nákvæmlega það sem við höfum verið að biðja um t.d. í sambandi við almannatryggingar. Þar stendur einmitt nákvæmlega eins á og hæstv. ráðherra talar dögum oftar um að það standi yfir heildarendurskoðun á lögunum með nákvæmlega sömu rökum og hæstv. landbrh. flytur og ætti þar af leiðandi að beina varanlegu breytingunum á almannatryggingalögunum inn í þá endurskoðun. Ég er hjartanlega sammála hæstv. ráðherra í þessu. Það eru eðlileg og skynsamleg vinnubrögð.

Enn eru óútskýrðir hlutir í þeim frv., t.d. að framlag til Framkvæmdasjóðs fatlaðra er skert með ,,þrátt-fyrir``-ákvæði eða tekjum hans stýrt með ,,þrátt-fyrir``-ákvæði í viðkomandi grein frv. en Framkvæmdasjóður aldraðra með varanlegu þannig að það ýmislegt enn dularfullt í þessu. Auðvitað má ræða það og það kemur öðrum kannski meira við að útskýra hvað þar er á ferðinni.

Að síðustu um skipulagslögin. Það er ugglaust rétt sem hæstv. ráðherra segir að breytingin þar hafi ekki fjárhagsáhrif á næsta ári en af einhverjum ástæðum mótmæla sveitarfélögin engu að síður breytingunni. Ef hún hefur ekki fjárhagsáhrif má spyrja til hvers er verið að gera hana í þessum bandormi og í tengslum við fjárlög. Þá sé ég ekki annað en menn séu aftur komnir í mótsögn við sjálfa sig í þeim efnum og þá væri eðlilegra að slík breyting væri gerð í þessu frv. óháð fjárlagaafgreiðslunni.